Upphitun: Manchester United á Anfield

Það verður endurbættur Anfield sem við sjáum á morgun þegar erkifjendurnir í Manchester United mæta í heimsókn þar sem loksins verður opnað í sætin í viðbótinni sem átti að vera klár í upphafi móts og verða því um 57.000 manns á vellinum á morgun, en það er mesti fjöldi sem hefur mætt á Anfield síðan 1977.

Liðin koma inn í þennan leik á mjög misjöfnum stað. Okkar menn hafa verið á góðu flugi, þó síðustu sigrar hafa ekki verið sannfærandi, og eru á toppi töflunar fyrir umferðina. United eru hinsvegar í miklu brasi féllu úr leik í Meistaradeildinni í vikunni og talið að staða Erik Ten Haager mjög völt og það er að verða hefð hjá þeim að reka stjóra sína stuttu eftir tap gegn Liverpool.

Leikur liðanna á þessum velli í fyrra mun aldrei gleymast en leikar enduðu 7-0 okkar mönnum í hag og í kjölfarið voru einhverjir skemmtilegustu dagar sögunar til að vafra internetið. Gengi United gegn toppliðunum hefur ekkert skánað síðan en í síðustu þrettán leikjum sem þeir hafa spilað gegn liðum í efstu átta sætunum á útivelli eru þeir með þrjú jafntefli og tíu töp.

Það hjálpar svo ekki United mönnum að stór skörð eru hoggin í þeirra lið en fyrirliði liðsins Bruno Fernandes nældi sér í fimmta gula spjaldið sitt um síðustu helgi og verður í leikbanni og eru Harry Maguire, Tyrell Malacia, Casemiro, Lisandro Martinez, Mason Mount, Christian Eriksen og Amad Diallo allir frá vegna meiðsla auk þess er óvissa með Luke Shaw sem fór meiddur af velli gegn Bayern og Martial sem hefur verið í veikindum.

Okkar menn

Okkar menn töpuðu gjörsamlega þýðingalausum leik gegn Union St. Gilloise í vikunni en les lítið í frammistöður í þeim leik. Mikið af ungum strákum og þeir sem reynslumeiri voru spiluðu á hálfum hraða til að forðast meiðsli. Eina jákvæða sem hægt er að draga úr þeim leik var geggjuð afgreiðsla Quansah sem er að verða betri með hverjum leiknum.

Liverpool eru ekki lausir við meiðsli þó staðan sé kannski ekki jafn slæm og hjá United en það er búið að staðfesta að Matip er frá út tímabilið og meiðsli Mac Allister ekki jafn lítil og í fyrstu var búist við og hann nær ekki leiknum á morgun. Auk þeirra eru Bajcetic, Jota, Thiago og Robertson á meiðslalistanum.

Án Robertson og Matip er varnarlínan ansi sjálfgefin, nema að Klopp komi öllum á óvart og spili Gomez í hægri bakverði og setji Trent upp á miðju í fjarveru Mac Allister en ég geri ekki ráð fyrir því að hann vilji draga úr sóknarþunganum gegn United liði sem mun að öllum líkindum reyna að sitja djúpt.

Finnst líklegt að sóknin verði á þennan hátt einnig þar sem Gakpo byrjaði í vikunni og Jota er frá og þá eru þessir þrír eftir og vonandi fáum við þann Salah sem elskar að spila gegn United en hann er með 12 mörk í 12 leikjum í öllum keppnum gegn United.

Miðjan er hinsvegar spurningamerkið. Miðað við leikinn í vikunni eru allar líkur á að Gravenberch byrji þennan leik en finnst hann hafa virkað best þegar hann hefur svæði til að hlaupa í og held að það verði ekki veruleikinn á morgun og þó Jones virki enn frekar ryðgaður þá hefur mér þótt meira koma út úr Diaz þegar hann var að spila þá stöðu og myndi vilja sjá hann á morgun þó Gravenberch sé líklegri.

Hinn valkosturinn sem við höfum meira séð í miðjum leik frekar en frá upphafi væri að fara í nokkurkonar 4-4-2 með Darwin og Salah fremsta og Diaz úti vinstra meginn og þá Elliott eða Szobozslai hægra meginn og tveggja manna miðju.

Spá

United liðið er að mæta brotið en eins og áður sagði gæti það orðið til þess að við sjáum þá sitja dýpra en venjulega gegn okkur en ég á erfitt með að sjá annað en Liverpool sigur á morgun og spái 3-0 sigri þar sem Salah setur tvö og Darwin setur sitt fyrsta deildarmark síðan gegn Forest í tíundu umferð.

24 Comments

  1. Mikið vona ég að þú sért sannspár í upphitun Hannes. Öll umfjöllun fyrir leikinn er á þann hátt að Liverpool á að vinna aftur 7-0 !
    Klopp bendir réttilega á að það er bara gott fyrir utd. Ég vona að við völtum yfir þá á morgun, hvaða lið sem mætir til leiks þá eru þetta yfirleitt 50-50 leikir, kannski svona 70-30 á morgun, en þeir munu sitja tilbaka og beita skyndisóknum eins og önnur lítil lið sem mæta á Anfield.
    Félagi minn er á Anfield í sinni fyrstu ferð til Mekka og vona að hann fái flugeldasýningu ! 5-0

    14
  2. Ég held að þessi leikur við erkifjendur okkar sé skelfilegt bananahýði. Anstæðingarnir geta pakkað í vörn með góðri samvisku og mætt okkur í skotgröfunum, beðið átekta og refsað Liverpool fyrir mistök sem munu án nokkurs vafa gerast í leiknum.
    Þó Liverpool sé á toppnum hafa þeir spilað mjög illa undanfarið, reddað sér í blálokinn á einstaklingsgæðum. Slík spilamennska, slíkt hugarfar dugar ekki til eilífðarnóns. Liðið okkar verður að stíga upp og fara að spila þann bolta sem það er þekkt fyrir og undanfarnir leikir eru í raun sannkallað augnakomfekt fyrir leikgreinendur andstæðingana okkar sem geta séð veikleikamerki nánast allstaðar á vellinum. Fyrr eða síðar kemur þetta okkur um koll ef liðið fer ekki að líkjast sjálfu sér.

    Þetta er ekki flókið. Ef Fullham var líklegt til að vinna okkur, þá getur Man Und gert það líka. Ég vona því að leikmenn sýni þessum anstæðingi fullkomna virðingu og mæti með fullkomna einbeitingu og ómennst drápseðli í þennan leik. Gefi ekki þumlung eftir og sýni og sanni það fyrir þeim enn og aftur að við erum kannski betri en Man Und í kökubakstri og instagramljósmyndatökum en við erum klárlega betri en þeir í fótbolta.

    Ég held samt að við vinnum þennan leik 2-0 en þetta verður ekki jafn auðvelt og margir vilja halda. En vonandi kemur Klopp og lærisveinar hans mér á óvart og sigra þennan leik 9-0.

    10
  3. Það er enginn vafi í mínum huga að gestir okkar muni mæta til leiks með mentalítet særðrar skepnu sem er króuð af úti í horni! Okkar menn þurfa að mæta til leiks með 100% einbeitingu, skýrt leikplan og þolinmæði. 7-0 ævintýrið byrjaði rólega satt að segja. Minnir að fyrsta markið hafi ekki komið fyrr en undir lok fyrri hálfleiks en svo brustu allar gáttir, sællar minningar.

    Geri engar væntingar um að endurtaka leikinn. Miklu betra að fá trygg þrjú stig í hús og halda mannskapnum heilum fyrir næstu rimmu.

    10
  4. Í miðjum jólahreingerningunum þá bíðum við hér á Ystu Nöf afskaplega spennt en þó líka kvíðin eftir leiknum á morgun. Meira að segja að hundurinn Skuggi skynjar að það er eitthvað. Við munum öll koma saman í hlöðunni á Ystu Nöf og horfa á leikinn. Jón frá Efri Vör hefur boðað komu sína sem og Gunni í Neðri Vör. Gunna spákona sem við köllum nú tákonu eftir spítalaleguna þegar hún fékk mein í tána segir að talan 4 (fjórir) komi til hennar. Ég veit ekkert hvað það þýðir en spái bara 4 eitthvað þá. Í hálfleik þá verður boðið upp á smörrebröð og drykki. YNWA.

    23
  5. Ég þoli hvað síst að tapa fyrir man utd og Real Madrid af öllum liðum sem Liverpool hefur spilað við, því bið ég bara um sigur hvernig sem hann verður en ef ýlla fer þá áskil ég mér rétt til þess að nýta alla þá veikindadaga sem ég á eftir í vinnunni því annars munu þessir sauðir sem halda með man utd gera mér lífið óbærilegt næstu dagana.
    Ps, ég er reyndar búinn að vinna fyrir því að þeir reyni að svara fyrir sig.

    12
  6. Vinnum þetta 3-1! Vil bara góð þrjú stig til að halda okkur áfram heima á toppnum.

    8
  7. Ég spái 2 – 0 fyrir Liverpool!

    Það er MJÖG mikilvægt að vinna þennan leik og ná sex stiga forskoti á Man City, enn ég vona líka að Janúar mánuðurinn verði betri enn þeir hafa oft verið undan farin ár þar sem Liverpool hefur verið að spila mjög illa og tapað mörgum stigum. Árin sem Liverpool var stigi frá því að lenda ofar enn Man City töpuðust yfirleitt í Janúar.

    Ég tel að Liverpool þurfi að fara eftir öflugum bakverði og sexu í þessum Janúarglugga.
    Jarrel Quansah er mjög efnilegur og lofar mjög góðu, enn hinir tveir (Gomes og Konate) eru enn með sína meiðsla sögu er eru einfaldlega ekki hægt að treysta á þá heilt tímabil.

    5
  8. Tek undir með það sem kemur fram hér ofar – þessi leikur er bananhýði sem auðvelt er að hrasa á miðað við spilamennskuna í síðustu leikjum. Í 7 – 0 leiknum voru tveir jaxlar og baráttuhundar þar sem Henderson og Robertson sem og reynsluboltinn Fabhino í sexunni í okkar liði sem ég sakna í dag í svona “derby slag”. Jones og Endo á miðjunni í dag? Ó mæ god…………..

    2
  9. Afskaplega væri fótbolti leiðinlegur, ef hann væri ekkert annað en endurtekið efni frá fyrri leikjum. þessi leikur verður ekki endurtekning frá síðasta leik, en við vinnum þennan leik, það er næsta víst. Ég tel einfaldlega LFC vera miklu betra lið en manu, þó það hafi stundum ekki skipt neinu máli í leikjum milli þessara liða. En leikurinn byrjar 0-0, og endar 3-0!

    YNWA

    2
  10. Sælir félagar

    Þessi leikur er bananahýði af verstu sort. Mér hefur fundist í síðustu leikjum “motivering” liðsins slök. Leikmenn mæta inn á völlin eins og þeir haldi að þeir þurfi ekki að leggja sig fram til að vinna leikinn. Það verður þó enn verra í þessu tilviki eftir minninguna um 7 – 0 leikinn. Gakpo er dæmi um það þar sem hann lýsir því yfir að hann vonist eftir öðrum 7/0 leik. Ef Klopp tekst ekki að gíra liðið upp í efsta gír getur farið illa og ég hefi áhyggjur af hugarfari leikmanna. Spái 2 – 1 í hunderfiðum leik þar sem MU leikmenn munu verða grófir og grjótharðir í öllum návígum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
    • Held að þetta kallist þreyta en ekki skortur á góðu hugsrfari. Værum ekki í efsta sæti og að vinna leiki í lok leikja ef menn væru að gera þetta með vinstri

      3
      • Það ætti þá að vera þreyta í utd mönnum líka, þeir spiluðu úrslitaleik gegn Bayern í vikunni meðan við hvíldum okkar bestu menn. Það á að vera okkur í hag.
        Þessi leikur verður bara að vinnast og halda áfram með 100% heimavallar úrslit.

        5
  11. Akkúrat enda verður þreyta í þeim eins og eiginega öllum liðum. City eru þar lika. Þetta er rosaleg törn og sérstaklega hjá liðum sem er skipað landsliðsmönnum. Þetta er amk ekki áhugaleysi og vanmat

    4
  12. Bara að enginn meiðist í dag. Það er það eina sem ég bið um. Stemmningin er svo súr hjá MU að maður veit ekki hverju þeir taka uppá. Ef Antony missir hausinn, þá er voðinn vís.

  13. Ég er aðeins hræddur við Endo á miðjunni. Hann getur verið með klaufaleg brot á miðjunni.

    2
  14. Undarleg umræða sem er í gangi og skiljanlega er Klopp að reyna slökkva á henni.
    Það skiptir engu máli hvar þessi lið eru stödd í þessari deild eða neitt.
    Liverpool van utd oft þegar þetta var öfuggt þegar sörinn réði ríkjum á OT.
    Ef liverpool liðið mætir ekki 100% inná í dag
    Þá gætu úrslitin ekki orðið okkur í hag.

    3
  15. Með allri virðingu fyrir kvennaboltanum þá finnst mér það stórfurðulegt að vera ekki með umræðu um þennan leik efsta á síðunni.

    8
  16. Sóbó er greinilega veikur í maganum eða eitthvað. Skella Elliott inná!

    1
  17. Seven ten hag segist spila til sigurs. Þetta er nú meira drasl liðið. Eigum að vinna þetta samansafn af miðlungsleikmönnum. KOMA SVO ! !

    3

Union St. Gilloise 2 – 1 Liverpool

Liðið gegn United (part 1)