Royale Union Saint Gilloise – lokaleikurinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar

Þá er komið að lokaleiknum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Mótherjinn er sá sami og í fyrsta leik, Union Saint Gilloise, sem koma úr úthverfi Brussel, höfuðborgar Belgíu. Belgískt Breiðholtsbúgí af bestu gerð. Leikurinn verður spilaður kl. 17:45, fimmtudaginn 14.desember. Það er ágætt að nefna að félagið leikur heimaleiki sína á heimavelli erkifjendanna og nágrannanna í Anderlecht, Lotto Park, þar sem heimavöllurinn þeirra, með fullri virðingu við Keflvíkinga, er meira í ætt við Keflavíkurvöll heldur en völl sem ætlaður er til að taka á móti stórliðum Evrópu.

 

Þar sem ekki hefur verið fjallað um andstæðingana áður hér á síðunni er gott að fara aðeins yfir sögu félagsins, sem trónir nú á toppi belgísku deildarinnar.

Eins og mörg af félögum álfunnar var USG stofnað rétt fyrir síðustu aldamót, eða árið 1897. Félagið ber nafn hverfisins sem það var stofnað í en síðan flutti félagið yfir í næsta hverfi sem nefnist Vorst, enn utar í Brussel en bæði þessi hverfi eru nágrannar Anderlecht hverfisins þaðan sem samnefnt félag kemur.

Félagið átti gullöld sína á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þeir unnu flesta sína titla þá, alls 11 talsins. Á þeim tíma var félagið það stærsta í Belgíu. Hins vegar hrundi félagið á sjöunda áratug aldarinnar og skemmst er frá því að segja að í tæp 50 ár voru þeir að svamla í neðri deildum belgíska boltans. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að félagið ákvað að gerast ekki atvinnumannafélag þegar slíkar reglur voru teknar upp. Deildarskiptingin og keppnisfyrirkomulagið í Belgíu er síðan kapítuli og flækjustig út af fyrir sig sem ekki borgar sig að flækjast í.

Eins og víðast hvar annars staðar í nútímafótbolta þá er uppgangur félagsins ekki tilkominn af frábæru unglingastarfi eða stórkostlegri stjórnun heldur kaupum fjársterkra aðila á félaginu. Sá aðili heitir Tony Bloom og er enskur auðjöfur sem auðgaðist að mestu á veðmálum og póker. Hann keypti hlut í félaginu árið 2018 og er minnihlutaeigandi en hann á einnig meirihluta í Brighton. Þar hafa auðvitað gerst ansi eftirtektarverðir hlutir á síðustu árum og líklega verður þetta verkefni hans í Belgíu leyst á svipaðan máta.

Tony Bloom keypti sinn hlut í félaginu árið 2018 og árið 2021 komst það loks í efstu deild, eftir þetta 50 ára bras. Árangurinn síðan þá hefur verið virkilega góður. Á fyrsta tímabilinu sínu í efstu deild urðu þeir í öðru sæti, á eftir Club Brugge, á því næsta urðu þeir í þriðja sæti eftir mikla dramatík í úrslitakeppninni þar sem Antwerpen urðu meistarar. Þetta tímabilið komust þeir líka í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar. Þeir hófu leik í Meistaradeildinni en duttu út úr henni í play-off leik við Rangers þar sem þeir unnu 2-0 á heimavelli en töpuðu 3-0 í Glasgow. Þeir lentu í riðli með SC Braga, Union Berlin og Malmö og unnu riðilinn nokkuð sannfærandi. Samkvæmt wikipedia drógust þeir síðan aftur gegn Union Berlin, fóru í gegnum þá en luku keppni með tapi gegn Bayer Leverkusen liði Xabi Alonso.

Eins og staðan er núna á liðinu þá er liðið efst í belgísku deildinni með 6 stiga forystu á nágranna sína og erkifjendur í Anderlecht. Þeir hafa fengið 41 stig í 17 leikjum, búnir að vinna fjóra af síðustu fimm og virðast vera nokkurn veginn óstöðvandi þetta tímabilið.

Helstu leikmenn liðsins eru alsírski markaskorarinn Mohamed Amoura, sem er sennilega Mo Salah Belganna, spilar á kantinum og hefur skorað 11 mörk í deildinni. Cameron Puertas er stoðsendingakóngurinn og á 10 stoðsendingar. Christian Burgess er síðan 32 ára gamall Englendingur sem er spjaldakóngurinn þeirra, hávaxinn varnarmaður sem er harður í horn að taka, enda hefur hann spilað megnið af sínum ferli í neðri deildum enska boltans. Svo má auðvitað ekki gleyma litla bróður okkar eigin Alexis, Argentínumanninum Kevin MacAllister.

En nóg um Union Saint Galloise og að okkar mönnum.

Það er virkilega ótrúlegt að hugsa til þess að okkar menn hafi náð toppsæti ensku deildarinnar á laugardaginn. Eftir 76 arfaslakar mínútur gegn Crystal Palace, þar sem hvorki gekk né rak, náðum við að merja sigur og koma okkur á toppinn. Arsenal tapaði síðan fyrir Aston Villa þannig að eftir 16 leiki í deildinni erum við með 37 stig. Síðustu leikir hafa ekki verið neitt sérstakir en stigin hafa mallað inn og það skilar okkur þangað sem við erum núna.

Í Evrópudeildinni er Liverpool líka komið áfram, þannig að – hvað er hægt að biðja um meira? Jú, kannski aðeins minna stress og meira öryggi í leikjum, kannski að sleppa því að vera að vinna leikina alltaf á 90+ mínútu? Eða er það kannski það sem við elskum mest? Svari hver fyrir sig.

Þetta þýðir einfaldlega það að síðasti leikurinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þetta árið skiptir einfaldlega engu máli. Hann kemur á frábærum tíma, inni í miðju leikjaálagi sem Andskotinn sjálfur hannaði þannig að allir sem eru nálægt byrjunarliðinu ættu að fá frí í þessum leik, jafnvel fá frí frá því að vera á bekknum. Meiðslalistinn er nú þegar orðinn nokkuð langur og á eflaust eftir að lengjast enn meira eftir því sem líður að lokum ársins. Að því sögðu þá eru nokkrir leikmenn sem þurfa á spilatíma að halda. Darwin Nunez hefur svo sannarlega ekki verið á skotskónum undanfarið og þarf að fá slatta af færum og helst að skora 2-3 mörk. Cody Gakpo hefur ekki spilað mikið undanfarið, aðallega komið inn á sem varamaður og mögulega fær hann alveg frí ef hann er hugsaður í byrjunarliðið gegn Man Utd í stað Darwin Nunez. Eins með líklega Elliot, því við vitum ekki hversu lengi MacAllister verður frá, hvort hann verði tilbúinn gegn Man Utd og hvort Harvey Elliot fái þá hvíld í þessum leik og byrji þá á sunnudaginn.

Mín ágiskun er því þessi:

Kelleher

Bradley – Quansah – Gomez – Chambers

Endo

Elliot – Jones

Doak – Gakpo – Nunez

Ég ætla svo sem ekki að spá neitt í bekkinn, þar verða vonandi McConnell, Scanlon, Gordon, Pitaluga og önnur frekar ókunnug nöfn, ég kann svo sem ekki deili á mörgum öðrum.

Ég vil ekki sjá neinn af burðarásum liðsins neins staðar í kringum þennan leik. Þeir eiga bara að fá sér kampavín í heita pottinum á meðan á leik stendur, vera í nuddi og bómull. Að því sögðu þá er alveg jafn líklegt að einhverjir (lesist Salah) spili þennan leik.

Spáin er öruggur 3-0 sigur, þetta á ekki að verða neitt vesen.

18 Comments

  1. Sammála með byrjunarliðið og ef að Salah er í byrjunarliðinu þá er nokkuð ljóst að Klopp hefur ekkert með það að segja hvort að Salah spili eða ekki því það er klárt að Salah vill spila alla leiki en stundum þá þarf skynsemi og hún segir að Salah eigi að vera eftir í Liverpool og horfa á leikinn í sjónvarpinu.
    Hvort að við vinnum þennan leik eða ekki skiptir mig engu máli, bara að það verði engin meiðsli og sem flestir unglingar sem komi fram fyrir hönd Liverpool í þessum leik.

    5
    • Hvorki Salah né nokkur annar byrjunarliðsmaður á að spila þennan leik, láta ungu strákana um þennan leik.

      2
      • Sammála alltof margir byrjunarliðs menn þarna í byrjunarlliðinu ættu aldrei að koma nálægt þessum leik eigum mikilvægari leiki um helgina og dagana eftir það.
        fínt að hvíla lykilmenn þegar menn hafa lúxusin að geta það ?

        4
  2. Var einhver að horfa á Meistaradeildina í kvöld? Það verða kartöflur í mörgum skóm í fyrramálið…

    8
  3. Takk fyrir góða upphitun Ívar, sammála með líklegt byrjunarlið.

    1
  4. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun Ívar. Ég er sammála Ívari og mörgum fleirum um að það á ekki einn einasti byrjunarliðs maður að spila þennan leik. Leikurinn skiptir nákvæmlega engu máli og því á að leyfa varamönnum og kjúklingum að leika hann. Hvílum alla byrjunarliðsmenn sem verða svo krafðir um að koma bókstaflega trylltir í næst deildarleik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Svona með tilliti til þess hvaða leikmenn ferðuðust, hvaða ungu leikmenn eru líklegastir í byrjunarliðið ?
    Kaide Gordon er þarna en hann er líklegast ekki í formi eftir löng meiðsli.
    Ben Doak hlýtur að byrja þennan leik.
    Quansha er alltaf að fara að spila leikinn.
    Restina þekki ég ekki nægilega vel.

    Liverpool travelling squad: Gomez, Endo, Konate, Diaz, Szoboszlai, Nunez, Jones, Gakpo, Elliott, Tsimikas, Gravenberch, Chambers, Pitaluga, Scanlon, Gordon, Doak, McConnell, Kelleher, Koumas, Quansah, Hill, Bradley, Mrozek

    1
  6. Ég held ég sé ekkert mjög langt frá þessu miðað við hópinn sem ferðaðist. Það eru alltaf einhver spurningarmerki einmitt með tilliti til næstu leikja. Ég er eiginlega frekar svekktur að sjá Konate þarna.

    3
    • Sammála ég hefði viljað sjá færri úr aðaliðinu þarna.
      Klopp horfir á þetta öðruvísi stundum finnst manni hann þurfa horfa aðeins grimmari á programmið framundan ..hvað notuðu City marga úr aðaliðinu í gær ? 1-2 ?

      3

Gullkastið – Libpool, Libpool top of the league

Stelpurnar heimsækja Everton í Continental bikarnum