Stelpurnar mæta Chelsea

Núna kl. 13:30 leika Liverpool og Chelsea á Stamford Bridge þegar kvennalið þessara liða mætast í fyrsta leik 7. umferðar. Það þarf svosem ekki að koma neitt stórkostlega á óvart að Chelsea skuli vera á toppnum með 16 stig, enda hafa þær unnið deildina undanfarin ár. Okkar konur eru hins vegar í 5. sæti með 11 stig, og það hefði nú ekki þurft mikla heppni til að þær stæðu jafnfætis Chelsea. En svona er staðan í augnablikinu, og þýðir ekkert að velta sér upp úr “ef og hefði”.

Það er ekki hægt að reikna með neinu öðru en virkilega erfiðum leik hjá okkar konum. Það eru þó klárlega einhverjir möguleikar fyrir hendi. Munum að stelpurnar okkar unnu Arsenal á þeirra heimavelli í fyrsta leiknum í haust, þrátt fyrir metaðsókn í sögu deildarinnar en vel yfir 50 þúsund manns sáu þann leik. Svo skulum við ekki heldur gleyma að okkar konur unnu Chelsea í opnunarleik síðasta tímabils, en að vísu fór sá leikur fram á Prenton Park. Og svo er eitt til viðbótar sem gæti hjálpað á eftir, en það er sú staðreynd að Chelsea spiluðu gegn Barcelona á Spáni á miðvikudaginn í Meistaradeildinni, og mögulega eru einhverjar lappir ögn lúnar. Þess má geta að það var hún Niamh okkar Charles, scouser í húð og hár, sem skoraði eitt og lagði upp annað í þeim leik, og það væri óskandi að hún kæmi aftur heim á næstunni. En hún spilar í bláu um þessar mundir og er því bara eins og hver annar andstæðingur.

Jafnframt er vert að minnast á að Emma Hayes sem hefur þjálfað Chelsea undanfarin ár er búin að gefa það út að hún hættir eftir þetta tímabil, og tekur þá við bandaríska landsliðinu. Sjálfsagt vilja lærimeyjar hennar kveðja hana með titli í vor, svo já við skulum bara gera okkur klár fyrir virkilega erfiðan leik.

Okkar konur koma inn í þennan leik eftir jafntefli gegn Spurs á útivelli í síðasta leik, hafa því unnið þrjá leiki (Arsenal, Villa, Leicester), gert tvö jafntefli (West Ham, Spurs) og svo er einhver einn leikur til viðbótar sem við erum löngu búin að gleyma. Meiðslalistinn hefur alveg verið lengri, en Jasmine Matthews verður frá fram að áramótum hið minnsta. Mia Enderby þurfti að fara af velli í síðasta leik vegna meiðsla, en þau meiðsli halda henni a.m.k. ekki utan hóps. Niamh Fahey er hins vegar byrjuð að æfa aftur eftir að hafa verið frá í svolítinn tíma, en er ekki tilbúin á bekk ennþá.

Liðið sem byrjar lítur svona út:

Laws

Clark – Bonner – Fisk

Koivisto – Nagano – Hinds

Höbinger – Holland

van de Sanden – Roman Haug

Bekkur: Micah, Parry, Lundgaard, Missy Bo, Taylor, Lawley, Enderby, Flint

Það hvernig uppstillingin er nákvæmlega á aðeins eftir að ráðast, manni hefur a.m.k. þótt þær Ceri Holland og Marie Höbinger vera báðar það sóknarsinnaðar að það er hæpið að teikna þær upp við hliðina á Fuka Nagano. Nú og svo hefur Matt Beard líka eitthvað verið að leika sér með að spila Taylor Hinds “inverted”, þ.e. að hún leiti inn á miðjuna þegar við erum með boltann.

Vantar aðeins upp á að geta skipt eitthvað inná í varnarlínunni, en ýmsir möguleikar á miðju og í sókn ef það þarf að gera breytingar.

Leikurinn verður sýndur á BBC, enda eini leikurinn í deildinni í dag. Það er víst von á 15 þúsund áhorfendum á Brúnna í dag, vonandi verða sem flestir á okkar bandi.

KOMA SVO!!!!

2 Comments

  1. Það lítur út fyrir að leikurinn sé líka sýndur á Viaplay.

  2. 5-1 sigur heimamanna. Þær eru bara allt of sterkar. Áfram gakk.

    1

Bláu fílarnir í herberginu (Umræðuþráður)

Liverpool 2.0