Upphitun fyrir leikinn gegn Brentford

Býflugurnar frá Brentford koma í heimsókn á Anfield á morgun og er nú tækifæri á að fara inn í (enn eitt) landsleikjahléið með sigur í vasanum og bros á vör. Þessi andstæðingurinn hefur reynst okkur mikið vandamál og leikmenn hljóta að vita að það þýði ekkert nema að mæta 100% til leiks.

Andstæðingurinn Brentford:

Mitt á milli miðborgar Lundúna og Heathrow flugvallar er smáhverifið Brentford. Hverfið er eitt óteljandi hverfa í Lundúnum sem eitt sinn voru sjálfstæð bæjarfélög, en óseðjandi vöxtur höfuðborgarinnar gleypti það snemma á síðustu öld. Brentford er rétt tæpur Hafnarfjörður á stærð, í fínni kantinum miðað við verkamannahverfi í Vestur-Lundúnum og heimili liðs sem fyrir fimmtán árum var í fjórðu efstu deild enska fótboltapýramídans: Brentford FC. Síðan þeir féllur úr efstu deild rétt eftir heimstyrjöldina hefur liðið eytt meiri tíma í League 1 og 2 en Championship deildinni en nú virðast býflugurnar vera að hreiðra um sig í Úrvalsldeildinni og ekkert sem bendir til að þeir falli á næstunni. Magnað afrek hjá liði sem er með þriðja stærsta völl deildarinnar og keppir um stuðningsmenn í Vestur-Lundúnum við  Fulham, Queens Park Rangers og jafnvel Chelsea.

Smár en knár heimavöllur Brentford

Þegar kemur að því að útskýra uppgang liðsins síðasta áratug er erfitt að horfa framhjá eigandum Matthew Benham. Hann er að hluta til af gamla skólanum í eignarhaldi enskra liða. Hann ólst upp í Brentford og er stuðningsmaður liðsins. Á annan hátt er hann með þeim framsýnni í rekstri fótboltaliða. Hann er eðlisfræðingur að mennt (frá Oxford háskóla) og byggði upp auð sinn í veðmálaheiminum, fyrst og fremst með því að byggja stór og flókin reiknilíkön. Hann hefur lagt áherslur á líkindareikning og vísindaleg vinnubrögð í rekstri Brentford, líkt og hann gerði hjá Mydtjallang í Danmörku sem hann átti til skamms tíma. Það er líklega ekki tilviljun að þessi „moneyball“ vinnubrögð svipa mikið til aðferðafræði Brighton, Tony Bloom eigandi Brighton er fyrrum yfirmaður Matthew og hefur andað mjög köldu milli þeirra síðan leiðir þeirra skildu.

Maðurinn sem keypti Danskt fótboltafélag til að æfa sig í að reka fótboltafélag

Líkt og Brighton hafa Brentford sérhæft sig í að finna leikmenn sem eru vanmetnir af markaðnum, þróað þá og svo selt á fúlgur fjár. Ef horft er til síðustu tíu ára er nettó eyðsla þeirra í leikmenn tæplega þrjátíu milljónir evra, aðeins Luton hafa eytt minna á sama tíma. Að kaupa gáfulega er auðvitað hægara sagt en gert, sérstaklega nú til dags þar sem sífellt fleiri lið reyna að leika sama leik.

Eitt það mikilvægasta við að geta verslað á þennan hátt er að vera með vel skilgreindan leikstíl. Brentford undir stjórn Thomas Frank eru svo sannarlega með það. Í fyrsta lagi eru þeir stórir og skæðir í föstum leikatriðum. Þeir elska að liggja til baka, en þegar þeir ná boltanum eru þeir örsnöggir af stað og stórhættulegir. Þar að auki eru þeir gífurlega líkamnlega sterkir og mörg stórilið hafa lent í vandræðum í baráttunni við þá á miðjunni. Þeir eru full færir um að pressa lið á miðjunni og hika ekki við það ef þeir skynja veikleika hjá andstæðingunum.

Brentford sitja nú í níunda sæti deildarinnar eftir þrjá sigurleiki í röð. Með sigri gegn Liverpool gætu þeir lyft sér upp í Evrópusæti. Við vonum auðvitað að það gerist ekki. Enda eru þeir ekki bara að fara að keppa við Liverpool, heldur rútufylli af Kop.is lesendum sem ætla að öskra sig hása á leiknum:

Okkar menn.

Kvöldið í Frakklandi á fimmtudaginn var ekki alveg það sem við vildum og fúllt að sjá Liverpool tvisvar tapa punktum gegn liðum sem þeir eiga með réttu að fara létt með. Vonandi kennir þetta leikmönnum að það er ekki hægt að skokka í gegnum neinn leik.

Van Dijk ferðaðist ekki með liðinu til Frakklands vegna flensu skíts, geri ráð fyrir að hann og Konate byrji í hjarta varnarinnar með Trent til hliðar. Tsimikas hefur sannarlega ekki gripið tækifærið sem meiðsli Robertson hafa gefið honum en held samt enn þá að hann sé besti kosturinn í vörnina. Nema Klopp sé að gera Gomez tilbúin fyrir City. Satt best að segja myndi ég ekki hata þriggja hafsenta kerfi í þessum og leiknum gegn City. En ég held að varnarlínan verði fjögurra manna.

Held að á miðjunni séu Szobozlai og Gravenberch sjálfvaldir. Þar sem MacAllister er í banni held ég að Endo verði djúpur þó það væri ekki sjokk ef Jones væri þar í staðinn. Fremst eru Nunez og Salah fyrstir og ég held að Jota fari á vinstri vængin. Luiz Diaz kemur svo inná snemma í seinni hálfleik ásamt Gakpo.

Spá

Gleymdu hugmyndinni að Liverpool tapi leik fyrir fram Kop.is gengið. Þetta verður hefnd fyrir síðustu tvo leiki og okkar menn skora 4. Því miður munu Brentford líka skora og leikurinn endar 4-2.

 

Til ykkar sem eruð úti: Munið að skilja raddirnar eftir í stúkunni og skemmtið ykkur vel!

8 Comments

 1. Jones er óleikfær, svo miðjan velur sig sjálf. Nema það verði farið í 4231 með Gakpo í holunni og þá Sly og Grav í tvöfaldri sexu, en það finnst mér samt hæpið.

  • Gleymdi auðvitað Elliott, svo þá er val á milli hans og Endo EF Grav er leikfær sem hann er vonandi.

 2. Bara að ,, gamli góði Salah ,, muni mæta til leiks á ný og að dauðafærin hjá Nunez fari ekki forgörðum. Ég hef alltaf minnstar áhyggjur af leik Alisson, þeim frábæra markverði.

  6
 3. Þvílíkt var þetta verðskuldaður sigur hjá Úlfunum núna áðan. Ég kom inn í leikinn eftir hálftíma og þeir voru miklu betri. Ljúf byrjun á fótboltahelginni.

  Nú verða okkar menn að nýta tækifærið á morgun. Mjög tricky leikur á móti liði sem hentar okkur ekkert sérstaklega en við verðum á Anfield svo vonin lifir.

  5
 4. Mikið ofboðslega eru margir slakir leikmenn í Luton og liðið afleitt geng MU. Hvernig bara tókst okkur ekki að vinna þá?

  • hafa þeir ekki alltaf tapað svona naumlega? Það munaði nú um heimavöllinn.

   1
 5. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Ingimar hún er flott. Ég hefi áhyggjur af þessum leik miðið við frammistöðu liðsins í síðustu tveimur leikjum. Þetta fer illa ef leikmenn Liverpool mæta ekki til leiks eins og gerst hefur í síðustu tveimur leikjum. Ég fer fram á að Klopp sjái til þess að leikmenn geri sér grein fyrir að þeir vinna ekki leiki ef þeir leggja sig ekki fram. Áhyggjur mínar af hreinum skorti á varnartengilið eru líka vaxandi. Mac ræður ekki við þá stöðu, er bæði seinn á fótum og hefur engan hraða og miðið við dómana sem Endo fékk fyrir síðasta leik þá er hann engin lausn.

  Það að Klopp ætli að bíða eftir að Stefan Bajcetic verði sá miðjumaður sem hann (vonandi) verður mun staða varnartengiliðs verða vandræðastaða. Eins er Tsimikas búinn að sýna að hann er ekki leikmaður í þeim klassa sem þarf að vera sem “bakkupp” fyrir Robbo. Liðið er mjög vel mannað í sókn og vörnin væri það líka ef það væri alvöru varnartengiliður til að verja hana. Ég hefi áður minnst á hvort Gomes gæti virkað sem slíkur. Hann hefur hraða og líkamsstyrk og er alveg þolanlegur sendingamaður. En hvað veit ég sosum? Ég spái 2 – 1 í hunderfiðum leik sem verður að vinnast.

  Það er nú þannig

  YNWA

  3

Toulouse 3 – 2 Liverpool

Kvennaliðið heimsækir Spurs