Stelpurnar fá City í heimsókn í Continental bikarnum

Það er nóg um að vera hjá liðunum okkar núna í miðri viku: U23 liðið spilaði í gær þar sem Musialowski skoraði glæsilegt mark og Kaide Gordon byrjaði sinn fyrsta leik í 21 mánuð, strákarnir flugu til Frakklands í dag og mæta Toulouse seinnipartinn á morgun (upphitun fyrir það dettur í hús síðar í kvöld), en núna kl. 19 að okkar tíma mæta City á Prenton Park þar sem okkar konur mæta þeim í Continental Cup – sem er jú svona um það bil á við deildarbikarinn. Nema að þessi byrjar sem riðlakeppni, ekki spilað heima og heiman heldur leikur hver lið bara einu sinni við hin liðin í sínum riðli, og ef leikir enda með jafntefli þá er farið beint í vító þar sem sigurliðið getur krækt sér í eitt auka stig fyrir að vinna vítakeppnina en hitt liðið heldur samt áfram stiginu fyrir jafnteflið.

Sem áður þá er þetta keppni þar sem við fáum að sjá minni spámenn byrja, og sú er raunin í kvöld:

Laws

Parry – Bonner – Fisk – Daniels

Holland – Matthews – Taylor

van de Sanden – Enderby – Flint

Bekkur: Spencer, Clark, Höbinger, Hinds, Nagano, Kiernan, Roman Haug

Þetta hefði alltaf verið leikur fyrir Teagan Micah að byrja, en sjálfsagt hefur hún orðið fyrir einhverju hnjaski því við sjáum Spencer á bekk, ég ímynda mér að hún komi úr U21 liðinu og sé markvörður, en það kemur sjálfsagt betur í ljós. Það vantar bæði Sofie Lundgaard, Missy Bo Kearns og Melissu Lawley í hópinn, nú og svo þær Emmu Koivisto og Niamh Fahey sem er enn að ná sér af meiðslum en er sem betur fer alveg að verða leikfær aftur. Stóru fréttirnar eru svo að sjálfsögðu að við sjáum Leanne Kiernan aftur á bekk, það er vitað að hún er í mesta lagi tilbúin í 15-20 mínútur í kvöld og fer ekki að byrja leiki næstu 1-2 vikurnar, en mikið er nú samt gleðilegt að sjá hana aftur á leikskýrslu!

Ceri Holland er snúin aftur eftir meiðsli í landsleikjahléinu sem reyndust sem betur fer léttvæg, og hún ber fyrirliðabandið í kvöld. Nú og svo er Gemma Bonner að stimpla sig aftur á spjöld sögunnar því með þessum leik er hún orðin ein efst á lista yfir leikjahæstu leikmenn Liverpool Women.

Verandi heimaleikur, þá mun klúbburinn sýna frá honum á öllum helstu miðlum, þar á meðal YouTube.

KOMA SVO!!!

8 Comments

  1. Daníel! Ég hugsa til þín, segi ekkert, en fyrsti stafurinn er MUUUUUU…. 🙂

    1
  2. Þessi leikur fór annars 3-4 fyrir City. Chloe Kelly er óþolandi góð og skoraði tvö seinni mörkin fyrir City, en Bonner, Flint og Enderby skoruðu fyrir okkar konur. Enderby sýndi alveg af hverju hún þykir spennandi kostur, vissulega ennþá pínku hrá, en ef rétt er haldið á spöðunum verður hún ansi góð. Þá sáum við Leanne Kiernan fá sínar fyrstu mínútur síðan gegn Villa í vor, og þá voru það fyrstu mínúturnar hennar síðan í september í fyrra. Sem betur fer leit hún mjög vel út þó hún næði ekki að skora á þessum 20 mínútum sem hún fékk.´

    Annars eru það Spurs konur á sunnudaginn, rétt áður en strákarnir spila við Brentford.

    2
    • Það er nú bara hægara sagt en gert að finna fréttir af kvennaleikjunum á netinu.

      1
      • Já og sérstaklega úr þessari keppni. Gengur aðeins betur með úrvalsdeildina.

        2
    • Mjög svo. Ég er að vona að Matt Beard og félagar noti það sem lærðist í þessum leik, og nýti sér það svo til að vinna City í deildinni. Nákvæmlega eins og gerðist eftir Leicester leikinn, hann tapaðist í Continental bikarnum en vannst í deildinni.

      Aðal lærdómurinn er held ég að það þarf að stoppa Chloe Kelly.

      1

Gullkastið – Vintage Liverpool

Toulouse á fimmtudagskvöldi