Luton 1-1 Liverpool

Mörkin
1-0 Chong 80.mín
1-1 Luis Diaz 95.mín

Hvað réði úrslitum?
Í grófum dráttum myndi ég einna helst segja það vera slök færanýting Liverpool í þessum leik og baráttuhugarfar Luton sem réðu úrslitum í þessum leik. Liverpool fékk sín tækifæri til að gera út um þennan leik og Luton beið og barðist fyrir sínu tækifæri og nýttu það vel.

Hvað þýða úrslitin?
Liverpool tapaði þarna tveimur mjög mikilvægum stigum í toppbaráttunni í leik gegn nýliðum og virðist ætla að ganga erfiðlega að hrista af sér þann ósið að tapa stigum í þeim leikjum. Síðan leiktíðina 2021/2022 þá hefur Liverpool aðeins unnið þrjá sigra gegn nýliðum á útivelli, fimm sinnum gert jafntefli og tapað tveimur viðureignum á síðustu leiktíð. Það er afleitur árangur sem þarf svo sannarlega að bæta!

Bestu leikmenn Liverpool?
Það er heilt yfir ekki úr miklu að velja því miður þar sem þeir voru ekki margir að spila eins og þeir eiga að gera þarna. Darwin Nunez byrjaði leikinn af krafti og var mjög ógnandi og átti fimm mjög góð skot á fyrsta hálftímanum en hefði svo sannarlega átt að skora þegar hann komst í gegn eftir sendingu frá Trent en skot hans endaði í slánni. Hann hins vegar dalaði töluvert í seinni hálfleik og klikkaði á enn betra færi þá. Salah var bitlaus og gekk illa að komast í færi og Jota var ekki í takti við leikinn en átti þó eitt fínt færi í fyrri hálfleik. Þá var þetta líklega versti leikur Szoboszlai, Mac Allister og jafnvel að mér fannst Gravenberch síðan þeir komu og þá sérstaklega þeirra Szoboszlai og Mac Allister, Gravenberch átti þó amk nokkrar jákvæðar rispur í seinni hálfleik. Tveir bestu leikmenn Liverpool í leiknum voru eflaust þeir Harvey Elliott og Luis Diaz sem sáu í sameiningu um að jafna leikinn eftir að þeir komu inn af bekknum, þetta var klárlega leikur þar sem Liverpool saknaði Luis Diaz og það var tilfinningaþrungin stund þegar Diaz skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Harvey Elliott og sýndi skilaboðin á bolnum sínum. Vonandi leysist það allt sem allra fyrst. Varðandi Elliott þá er ég eiginlega farinn að vonast eftir því að hann fari að byrja einhverja leiki aftur því það er alltaf eitthvað að gerast í kringum hann og hann er einn mest skapandi leikmaður liðsins, hann hefur verið mjög öflugur í vetur.

Hvað hefði mátt betur fara?
Í raun var spilamennska liðsins ekki nægilega góð. Boltinn gekk hægt á milli og sóknir urðu oft smá fyrirsjáanlegar, ekki bætti úr skák að menn voru að flækjufótast á boltanum og sendingar fóru alltof oft fyrir aftan þann sem þær áttu að fara á. Aðal vandamálið í mínum huga var samt fyrst og fremst færanýtingin, það eru margir góðir sóknarmenn í þessu liði og þeir verða að klára þessi færi sín í svona leikjum. Salah, Nunez og Jota fengu til að mynda allir fín tækifæri til að gera út um leikinn en nýttu þau færi ekki svo það var rót vandamálsins í þessum leik. Luton, sem gerðu sitt vel, eiga bara ekki að vera inn í leiknum og með tækifæri á að komast yfir á 80.mínútu þegar Liverpool er að fá þessi færi.

Næsta verkefni
Á fimmtudaginn er útileikur gegn Toulouse í fjórðu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar og gæti Liverpool farið ansi langt með að tryggja sig áfram með hagstæðum úrslitum þar. Eftir það gæti verið strembinn deildarleikur gegn Brentford á Anfield og svo dettum við inn í enn eitt landsleikjahlé (!!!) og eftir það er útileikur gegn Man City.

39 Comments

 1. Diaz bjargaði Liverpool frá algjörri niðurlægingu. Hann fær 10 frá mér fyrir þessa innkomu hinir meiga fara í smá naflaskoðun eftir þennan leik.

  YNWA

  18
  • Fengum allavega svar við einni spurningu. Geta Liverpool orðið englandsmeistarar? Nei.

   18
 2. 1 – 1 eru nú bara ágætis úrslit miðað við þær aðstæður sem voru uppi eftir 90 mín

  Ég hef svo sem eingar áhyggjur, maður vissi svo sem að við myndum fá nokkra svona leiki í vetur, það þar að hafa í huga að við skiptum út allri miðjunni í liðinu í sumar og það mun taka fleiri enn nokkra mánuði að slípa saman þennan mannskap. Ég hef mun minni áhyggjur af liðinu núna enn í lok síðasta tímabils þegar nánast öll miðjan í liðinu var komin fram yfir síðasta söludag.

  áfram gakk, næsti leikur.

  15
  • Það breytir því ekki að Liverpool er ekki að fara að keppa við City um titilinn þetta tímabilið. Þetta var Luton sem var sekúndum frá því að vinna Liverpool. Margt ágætt hjá Liverpool en fáar afsakanir til að grípa í. Allir heilir og vel hvíldir. Ekki Meistaradeild. Svekkjandi bara.

   11
   • Vissulega eru úrslitin svekkjandi, enn við eru í nýju uppbyggingarferli.

    Ég tel nú ágætar líkur á að Liverpool nái meistaradeildar sæti eftir þetta tímabil, enn meistarar verða þeir trúlega ekki og það var svo sem hægt að ætlast til þess eftir allar þessar breytingar á liðinu í sumar. Man City verður meistari í vor, það er enginn að fara að ógna þeim. Tottenham á eftir að mistíga sig og ég geri fastlega ráð fyrir því að Liverpool endi ofar á töflunni enn þeir.

    5
 3. Brjálaður yfir þessari frammistöðu, það hreinlega sýður á mér!
  Ef þetta er það sem menn ætla að bjóða upp á í vetur þá er þetta lið í vandræðum!
  Skammarlegt!
  Hræðilega lélegt!
  Og ekki fara ? þetta gamla góða að liðið hafi átt ? basli með að skapa!!
  Darwin, Darwin, Darwin! Hvað í!!!?

  7
 4. Darvin Nunez hefur væntanlega sofið mun betur en Luis Diaz að undanförnu, en nú gæti dæmið snúist við.

  11
 5. Dýr töpuð stig…
  Ánægður með að Diaz tróð yfir þennan gæja þarna lág hann 3 á vellinum eftir ekki neitt?
  Okkur tókst að þurka út tap.
  Þetta Diaz mál vofir yfir öllum hjá félaginu og hefur áhrif klárlega þurfum ekki að halda annað.
  Vonandi fer það að leysast sem fyrst farsælega!.

  Það er ekkert búið þetta mótt
  Þetta virðist verða fleiri en 2 lið sem berjast eins og síðustu ár.
  Og þá kosta þessi stig ekki jafn mikið þótt þau kosti helling!

  3
 6. Það kom að svona úrslitum sem venjulega myndi vera í lagi en ekki í þessu rugli sem sjitty bjóða uppá.

  2
 7. Töluverð veikleikamerki í leik liðsins.

  Virkilega slappt jafntefli og svona töpuð stig sem tapa titlum í þessari satans Arabíu-deild.

  Þegar líður á tímabilið þá myndi ég jafnvel vilja sjá lykilmenn hvílda í sumum deildarleikjum og leggja alla áherslu á bikarkeppnir og Evrópudeild, þar eru titlar þar sem liðið á séns.

  Svo bíður maður ennþá eftir því að fá alvöru killer markaskorara í þetta lið. Nema Nunez geti orðið sá leikmaður en þá á hann ekki að æfa neitt nema slútt, allan daginn, alla daga. Það er bara ekki boðlegt að klúðra svona á þessu leveli.

  Áfram Liverpool.

  5
 8. Ég held að það sé engin ástæða til að vera brjálaður. Það koma svona leikir. Okkar menn voru hreinlega bara lélegir í dag. Þeir voru það ekki á móti Spurs. Sá leikur er líklega sá besti sem Liverpool hefur leikið á þessari tíð. Þeir voru stórkostlegir en töpuðu samt. Á maður að velta sér upp úr því? Þá var ekkert sanngjarnt við úrslitin en sanngjarnt var að sjá liðið gera sitt besta og eiga glæsilega frammistöðu þrem mönnum færri.

  Para Papa. Eru það ekki þrjú stig? Ég gerði komment hér þar sem allar fréttasíður sögðu að föður Diaz hefði verið bjargað. Í andrá var þeim vefsíðum lokað. Ég trúi því samt að þetta mál sé að klárast. Óliklegt til dæmis að Luiz hefði fagnað með þessum hætti ef ekki væru jákvæð tákn á lofti.

  Vanmetum ekki heldur að álagið af þessum glæpaósköpum hefur örugglega lagst á allt liðið. Ég spái 9 stigum úr næstu þrem leikjum. Spyrjum að leikslokum.

  8
 9. Húbris!

  Það sást strax að menn eins og Trent og van Dijk héldu að þetta væri unnið fyrirfram. Klopp á líka sinn þátt með því að hafa Joe Gomez vinstra megin. Aldrei nein fyrirgjöf frá honum. Og ekki heldur hægra megin, fyrr en Elliott kom inná. Allir að reyna að troðast á miðjunni. Darwin er eins og Darwin er, ýmist heitur eða kaldur og ekkert þar á milli. Var hann tvo metra frá markinu þegar hann skóflaði hátt yfir?

  Þarna runnu milljónamæringarnir glæsilega á rassgatið. Gott á þá.

  Maður leiksins er bara einn: LIBERTAD PARA PAPA!

  13
 10. Sælir félagar

  Frammistaða Liverpool í leiknum gegn Luton var í alla staði ömurleg. Lið sem kemur með svona hugarfari inn í leik gegn einu neðsta liði deildarinnar á ekkert skilið nema dútl um miðja deild. Stór hluti leikmanna liðsins kom inn í leikinn úthvíldur og í góðu ásigkomulagi. Þess gætti þó ekki í leiknum. Það sem liðið sýndi í þessum leik var hægur og lufsulegur göngubolti sem var spilaður af fullu virðingarleysi fyrir andstæðingnum. Svona hugarfar og spilamennska sæmir ekki liði sem vill gera sig gildandi í ensku deildinni.

  Ég veit nottla ekki hvers vegan Klopp “motiverar” liðið ekki betur en þetta og af hverju liðið kom inná eftir leikhlé nákvæmlega ein og það kom inn í leikinn í upphafi. Hægfara göngubolti og fullkomlega hugmyndasnauður eins og leikmenn héldu að ekkert þyrfti fyrir sigri að hafa. Miðjan var ömurleg í fyrri hálfleik og batnaði ekki fyrr en Szobo og Ryan var skipt útaf sem var alltof seint. Darwin þarf að læra að ef boltinn fer inn í markið þá er komið mark. Það þarf ekki alltaf að vera af öllum kröftum heldur þarf boltinn bara að fara yfir marklínuna.

  Það er augljóst að ef Liverpool liðið spilar fleiri svona leiki verður liðið í besta falli í Evrópudeildinni áfram. Lið sem mætir með svona hugarfari og virðingarleysi inn á leikvöllinn gerir ekki merkilega hluti svona heilt yfir. Svona spilamennska er virðingarleysi við andstæðinginn sem á alla virðingu skilið og ekki síst við þá stuðningsmenn sem fylgja liðinu nánast landið á enda til að styðja það. Skömm sé leikmönnum og Klopp fyrir þessa frammistöðu.

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
  • Þú er samt smá fyndinn Sigkarl, þú talar um að liðið hafi sýnt virðingarleysi við andstæðinginn og verið búið að vinna hann fyrirfram. Hinsvegar ef ég skoða þín orð í upphituninni, þá virðist það hafa verið eins með þig.

   “Ég veit ekkert um þetta Luton lið, hef ekki séð mínútu með þeim hingað til. Ég vona hins vegar það besta og spái 0 – 5 svona til að vera ekki of neikvæður”

   just saying….

   7
 11. Haltu þig í fimmta sætinu, þar sem þitt lið mun enda. Gleðilegt fyrir þig að geta notið í smá stund og gaman að syngja, þótt þú sért rangur maður á röngum stað, eins og þar segir. Það lýsir minnimáttarkennd að troðast inn á áhugendasíðu annars liðs. Spurs er fínt lið, skemmtilega spilandi, en því miður fyrir þína hönd hef ég ekki trú á því að þetta ævintýri endist.

  2
 12. æ, þetta var ferlegt.

  Jota hefði mátt gera betur í upplögðu og Nunez amk tvisvar. Gakpo, veit ég ekki hvað var að gera í dauðafæri sínu. Hefðum auðveldlega getað verið komin í 4-0 ef menn hefðu reimað rétt á sig skó og skrúfað á sig haus. Sumsé: okkar menn opnuðu oft vörnina en nýttu bara ekki færin. Og Salah hefur sannarlega átt betri leik.

  Að því sögðu þá skil ég ekki af hverju Diaz mætti ekki fyrr inn á völlinn og hvað Macallister var að gera þarna út leikinn. Hann var slæmur. Hefði viljað sjá Jones inn á en hann er flinkur að opna varnir.

  Held því miður að þetta hafi verið klassískt dæmi um hrokafulla afstöðu. Menn héldu að mörkin kæmu af sjálfum sér og að þetta Luton lið væri dauðadæmt. Svo mæta þeir á þennan ,,battavöll” og eiga í basli með spræka andstæðina og markvörð sem á leik lífs síns.

  5
 13. Hreynt út sagt ömurleg frammistaða, andleysið algjört og sigurviljinn enginn.

  Ég hef það sterklega á tilfinningunni að umskiptin á miðjunni í sumar hafi verið hæpuð upp úr öllu valdi og það er óþolandi þreytandi að sjá menn tjá sig um það að nánast öll miðjan hafi verið komin fram yfir síðasta söludag. Það var hún svo sannarlega ekki.

  Við erum einfaldlega í harðri keppni við lið sem misstíga sig ekki í svona leikjum og þetta mun reynast okkur dýrt í vor. Rándýrt.

  Maður veltir því líka fyrir sér hvort það séu nógu sterkir karakterar komnir í liðið því mönnum virtist skítsama þó þessi leikur hafi ekki unnist.

  5
 14. Afar döpur frammistaða hjá öllu liðinu en lágpunkturinn hlýtur að vera klúður ársins sem Darwin á skuldlaust. Það þarf að fara að krukka eitthvað í hausinn á þessum dreng því svona klúður hlýtur að skrifast á einbeitingarleysi. Alltof mistækur fyrir framan markið. Á sama tíma er ótrúlegt að Luiz Diaz skuli vera tilbúinn að spila þrátt fyrir það sem hann er að ganga í gegnum. Sterkur karakter þar á ferð. Þessi lenska að tapa stigum gegn nýliðum, sbr. Forest í fyrra er ansi dýrkeypt. En sýnir líka hversu erfið þessi deild er.

  5
 15. Tvö töpuð stig og mikil pirringur eftir svona leik.
  Mér leið eins og við værum of vissir að þetta myndi bara hafast á endanum. Það var ekkert stress eða áræðni, það myndi eitthvað gerast. Það sem gerðist var að heimamenn komust yfir og þá fórum við á fullt og náðum að jafna í blálokinn.

  Mér fannst þessi framistaða hrokkafull og við okkar verstu óvinir sjálfir.

  EN

  Þrátt fyrir tvö töpuð stig þá er nóg eftir af tímabilinu til að bæta þetta upp. Jafnir Arsenal og 3 stigum fyrir aftan Man City. Þetta þýðir samt að það má ekki taka annan svona leik á tímabilinu.
  Það var svo frábært að sjá Diaz skora.

  Maður leiksins.
  LUIS DIAZ – Þegar þú ákveður að spila fótboltaleik fyrir Liverpool og sjálfan þig í fjölskyldu harmleik og skilar marki þá ert þú einfaldlega kóngurinn.

  Annars fannst mér margir eiga dapran dag. MacAllister og Sly á miðjunni voru lélegir, Trent fannst mér hálf sofandi, Salah lítið að gera, Nunez að klúðra færum og Jota varla með.

  Þrátt fyrir þetta þá vorum við með yfir 3 mörk í X-G á meðan að heimamenn voru með 0,8 sem þýðir að ef allt er eðlilegt þá værum við að landa þægilegum sigri en málið er að það er ekki allt eðlilegt(annars væri ekki verið að ræna fólki árið 2023) og svona getur fótboltinn stundum verið.

  YNWA – Áfram með smjörið og vonandi fáum við góðar fréttir af Fjölskyldu Diaz í vikunni. Svo má ekki útiloka að svona atburðir taka allan fócus af fótboltaleikjum hjá félaginu.

  9
 16. Hef verið að hálffylla glös síðan að leik lauk. Ekki sammála að liðið hafi verið lélegt. Við yfirspiluðum lið Luton og það er erfitt að spila gegn rútum. Auðvitað var lélegt að vinna ekki og auðvitað áttu Nunez, MacA og Szlobo lélegan dag. En ég er eiginlega mest pirraður út í Klopp fyrir að gera ekki skiptingar fyrr og breyta skipulaginu. MacA átti að fara útaf um leið og hann var á gulu. Hann var ekki góður fyrir og mjög hikandi eftir.

  Við vorum á siglingu þegar við gáfum markið og þyngd sóknarinnar var að aukast — svo það er það.

  En eftir 10 leiki eigum við alveg haug séns í deildina. Öll lið hafa verið að tapa stigum — en getum auðvitað ekki verið svona rólegir of oft — súrt, en ekki heimsendir.

  7
 17. Jesus kristur hvað hann Darwin getur verið lélegur stundum. Salah lagði à hann gjörsamlega dauðafæri og hann hendir boltanum lengst yfir . Wtf ?

  4
 18. Elliot hefur verið góður undanfarið, fínar sendingar inn í teig. Skotin hans utanfrá stefna þó yfirleitt á markið (hugsa til Hendo) þó oftast verði einhver til að blokkera þau. Þetta kemur.

  Hvernig er það þið sem til þekkið, hefði Diaz þurft að fara alveg úr bolnum til að fá spjald, eða var honum í ljósi aðstæðna gefin séns?

  2
 19. Ég tek undir með þeim sem sagði hér að ofan að einu æfingar Darwins eigi að vera inni í markteig. Hann kann allt annað. Hann þarf ekki að læra að hlaupa. Það er eiginlega bilað að hjá honum skilji á milli að vera einn besti leikmaður heims og að skora ekki úr dauðafærum. Ég var góður í íþróttum þegar ég var unglingur, gat ekkert hlaupið, en ég hitti alltaf á markið. Hitt er 90% og það sem skilur á milli atvinnumanns og áhugamanns. Það virðist blasa svo súper við að það þarf að taka þennan dreng á séræfingar. Ekki skora með legghlífinum beint fyrir framan markið. Bara yfirvegað innanfótar. Svo skorar hann mörk sem enginn á að geta skorað einhvers staðar lengst í rassgati. Mig langar að senda þau skilaboð til Darwins að fótboltinn er einfaldari en þetta. Þegar hann fattar það og finnur Ian Rush-inn í sér þá á hann séns á að verða bestur. En hann verður líka að taka þá ákvörðun. Klopp mun hjálpa honum. En enginn gerir það þó nema hann sjálfur.

  8
 20. Svekkjandi úrslit því við fengun færin en nýtingin var afleit og því fór sem fór. Tvennt veldur mér áhyggjum og vonandi verður annað lagað í janúarglugganum. Það er að McAllister, eins frábær fótboltamaður og hann er, á ekki að spila sem aftasti miðjumaður. Hann er of tæpur á stundum og hefur ekki hraða til að hlaupa menn uppi eins og berlega kom fram í markinu. Hitt er að Sala er búinn að tapa hraðanum og er í erfiðleikum með að komast fram hjá bakvörðunum. Sem betur fer er flest annað í lagi hja honum ennþá.

  5
 21. Jæja maður loksins búin að ná sér niður eftir þennan leik. Ef sláar skot Nunez hefði farið inn eða eitt af færum hans værum við að tala allt öðruvísi um leikinn.
  Það voru fleiri sem voru með skituna í dag og sá allra lélegasti var Trent, hann var alveg hræðilegur og setti alla vörn okkar manna undir óþarfa pressu. MAC Allister er engin leikmaður sem á að spila nr 6 hreint hræðilegt að horfa á manninn bókstaflega ekki gefa liðinu neitt. Á góðum degi hefðum við tekið stigin 3 en þetta var bara ekki okkar dagur stálum stigi og áfram gakk,girða í brók og gera betur næst YNWA

  4
 22. Á meðan að við erum ekki með hreinræktaða sexu þá verða svona leikir alltaf möguleiki. Mac Allister er ekki neinn greiði gerður með að spila þarna. En ég ætla bara að taka PollýÖnnu á þetta, þvílíkur munur á miðjunni frá því í fyrra og ef alvöru sexa mætir í janúar þá gerum við vonandi alvöru atlögu að einhverjum bikurum. Verðum aldrei deildarmeistarar, en hver bjóst við því fyrir tímabilið?
  Ættum að ná topp4 nokkuð þægilega. City, Arsenal og Spurs væntanlega með okkur.
  Byggjum svo á þessu á næsta tímabili og gerum alvöru atlögu að City.

  5
 23. Anda inn og anda út, ég er ekki sáttur að menn séu að drulla yfir okkar leikmenn, þeir eru mannlegir og það kemur alltaf að svona vandræðum, en vandræðin hafa verið lítil hingað til. Við mætum sterkir í næsta leik. Shit með það.

  6
 24. Á ekki að þurfa fara í ef og hefði gegn slöku Luton liði. Liverpool á bara að vinna svona leiki sama hvaða dagur það er.
  Skil ekki þessa stefnu Klopp að spila mönnum úr stöðu í svona leik. Við erum með vinstri bakvörð á bekknum sem skilar allan daginn betra verki sóknarlega en Joe Gomez. Endo var að sögn Klopp keyptur í baráttu um sæti í byrjunarliðinu en samt sem áður fær Allister að byrja alla leiki þrátt fyrir sloppy sendingar og frammistöður. Hann er ekki nægilega lúnkinn í að stoppa sóknir andstæðinga.
  Skiptingarnar hefðu að mínu mati mátt koma talsvert fyrr jafnvel í hálfleik.
  Elliot á skilið að fá sénsinn í byrjunarliði, hann er að koma skemmtilega á óvart.

  5
 25. Ef þið skoðið markið sem við fengum á okkur þá er einfaldlega glæpsamnlegt að Elliot skuli a.m.k. ekki brjóta á Luton manninum sem fékk boltann eftir klafsið inn í leik. Ef hann hefði unnið vinnuna sína hefði Luton aldrei fengið þetta hraðupphlaup. Hreint út sagt ömurlegur varnarlega og því miður er Elliot langt frá því að vera nógu góður fyrir Liverpool þó sendingin á Diaz hafi verið góð.

  Svo er ég sammála þeim sem skilja ekki af hverju verið er að spila mönnum úr stöðu. Jú Klopp neyðist til þess með Mac Allister en að byrja Gomez í staðinn fyrir Tsimikas er óskiljanlegt og líklega það sem gerði það að verkum að það var nákvæmlega engin ógn frá þessum kanti í leiknum.

  Annars var ég að vona að maður myndi kannski jafna sig svona daginn eftir leik en svo er ekki og því miður þá er Evrópukeppnin allt of létt fyrir Liverpool til að það komi til með að hressa mann við.

  En sjáum til. Næstu tveir leikir eru einfaldlega þannig að ef við sigrum ekki Brentford og töpum fyrir ManCity þá gæti þetta tímabil nánast verið úti eins dapurlegt og það nú er en ef þeir vinnast þá gæti verið von.

  2
 26. Ég held að við getum nú alveg róað okkur aðeins hérna, það er ekki eins og himinn og jörð hafi farist.
  vissulega hefðum við átt að vinna Luton og menn tala um að leikmenn hafi vanmetið þá… ok gott og vel en skoðið spárnar hjá stuðningsmönnum fyrir leikinn, menn að tala um walk in the part og nefna allt að 5-0 fyrir Liverpool, málið er bara að deildin er sterk og hvaða lið sem er getur tapað fyrir hverjum sem er.
  Við erum 3 stigum á eftir city og fyrir ofan Arsenal.
  slökum aðeins á.
  Liðið er ennþá að slípast saman og við munum verða betri eftir því sem líður á tímabilið.

  4
 27. Á meðan Darwin getur ekki skorað úr svona færum eins hann fékk í gær,þá erum við ekki í titilbaráttu,svo einfalt er það og hann hefur farið illa með álíka færi áður.

  Gomez átti ekkert með að spila þarna í vinstri bak og MacCallister á hverja slaka sendinguna á fætur annarri í þessum leik og hann er ekki sexa eins og áður hefur verið nefnt. Annað er það þó að liðið var að opna rútuna hjá þeim en ef færin eru ekki nýtt,þá er möguleiki á að mark komi inn hjá andstæðingnum eins og gerðist.

  Og hvernig er með það að stundum er dæmt víti á glímuhandtök inni í teig og stundum ekki…..það er bara engin lína í þeim fræðum hjá þessum blessuðu mönnum.

  Salah var bara statisti í þessum leik og virkaði þreyttur en Díaz átti momentið og bjargaði stigi fyrir þá.

  2
 28. Tottenham-blaðran er byrjuð að rifna í sundur og verður sprungin í janúar.

  2

Liðið gegn Luton

Gullkastið – Vintage Liverpool