Deildarbikarinn: Bournemouth á suðurströndinni

Það er komið að næsta leik hjá okkar mönnum, og nú ferðast menn til suðurstrandarinnar til að keppa við Bournemouth í deildarbikarnum.

Síðustu leikir

Það er óhætt að segja að Liverpool komi inn í þennan leik í frekar góðri stemmingu. Bæði vann liðið síðasta leik í þessari keppni (eðlilega, tap hefði þýtt að liðið væri úr leik), og jújú Leicester sem voru andstæðingarnir í þeim leik eru vissulega ekki að spila í efstu deild, en það er fáheyrt að lið hafi unnið jafnmarga leiki eins og þeir hafa gert í upphafi leiktíðar. Reyndar hafa þeir bara tapað einum leik í deild og svo í síðustu umferð í deildarbikarnum. Þannig að við megum bara vera helvíti ánægð með þann sigur.

Eins er bara stemmingin fyrir hinum rauðklæddu allt önnur og betri heldur en á síðasta ári. Það er eins og það sé eitthvað í pottunum hjá Klopp sem eigi eftir að smakkast aldeilis frábærlega. Kannski ekki fulleldað alveg strax, en vel á veg komið.

Jújú, það var einhver smá heppnisstimpill yfir úrslitunum gegn Everton – þá aðallega að Konate skyldi ekki hafa fengið að fjúka útaf – en undirritaður vill fullyrða 100% að jafnvel þó svo það hefði gerst, þá hefði leikurinn unnist. Það hefur einfaldlega ekkert endilega hentað Liverpool betur að vera einum fleiri, og liðið var klárlega betra í þessum leik.

Nóg um það. Snúum okkur að leiknum sem er fyrirliggjandi.

Andstæðingarnir

Eins og lög gera ráð fyrir fengu Liverpool andstæðinga úr Úrvalsdeildinni þegar dregið var upp úr hattinum síðast. En ef við ætlum að fá einhverja PL andstæðinga í keppninni, þá er nú líklega með alskásta móti að fá Bournemouth. Við mættum þeim jú í deildinni fyrir rúmum tveim mánuðum síðan, þetta var á þeim tíma þegar Liverpool gaf andstæðingunum alltaf einn leikmann í forgjöf en vann samt 3-1. Það sem þeir hafa svo afrekað síðan þá eru tveir sigrar í deildarbikarnum: gegn Swansea og Stoke, og svo einn sigur í deild, en sá kom gegn Burnley í síðasta leik. Jú svo komu tvö jafntefli gegn Brentford og Chelsea. Svo ekki er nú uppskeran neitt svakalega feit, og liðið er í 17. sæti í deildinni í þessum skrifuðu orðum. Eru þeir það lélegir að Luton, Burnley eða Sheffield nái að komast upp fyrir þá? Tæpast. En sjáum til.

Verandi nýkomin úr leik þar sem Taiwo Awoniyi, Neco Williams og Divock Origi heimsóttu fornar slóðir, þá sjáum við annað gamalkunnugt andlit í næsta leik, en Dominik Solanke leiðir framlínuna þeirra um þessar mundir. Uppskeran hefur nú ekki verið neitt svakaleg það sem af er tímabili, en það væri nú alveg dæmigert ef hann færi að pota inn marki gegn okkar mönnum. Nú svo skulum við ekki gleyma því að Bournemouth hafa alveg átt það til að gera okkar mönnum skráveifu, og það situr enn í okkur þegar þeir unnu 4-3 gegn Liverpool rúmu ári eftir að Klopp tók við. Svona leikir eiga það til að sitja allt of lengi á sálinni á manni, og eins skulum við líka ekki gleyma því að eftir að hafa valtað yfir þá 9-0 á síðasta ári, þá reyndist auðvitað nauðsynlegt að tapa gegn þeim á útivelli í deildinni. Þetta var n.b. næsti leikur eftir 7-0 leikinn gegn United. Svona ef einhver þurfti að rifja hann upp.

En sumsé, allt bendir til þess að liðið okkar sé mun stöðugra á þessu tímabili heldur en því síðasta. Við skulum því búa okkur undir önnur og betri úrslit í þetta skiptið.

Okkar menn

Það er fátt nýtt að frétta af okkar mönnum þegar við skoðum hverjir eru leikfærir. Við vitum að Robbo, Thiago og Bajcetic eru allir frá og koma ekki við sögu. Af þeim er Bajcetic líklega lengst kominn, en ekki tilbúinn í slaginn alveg strax. Nú svo er Ben Doak aftur farinn að djöflast á æfingasvæðinu, en spurning hvort þessi leikur komi e.t.v. örlítið of snemma fyrir hann? Skulum allavega ekki gera ráð fyrir að sjá hann í byrjunarliði, í mesta lagi á bekk ímynda ég mér. Svo er Conor Bradley víst aftur farinn að æfa – reyndar bara mjög létt – og verður því tæpast með í þessum leik. Chambers og Scanlon mega því eiga von á að fá tækifæri rétt eins og gegn Toulouse í síðustu viku.

Annars má fastlega gera ráð fyrir að það verði róterað, en mögulega er Klopp alveg að horfa á að við erum í næstu umferð deildarbikarsins, og ekki gott að gera ráð fyrir að Bournemouth muni stilla upp einhverjum eintómum kjúklingum. Þetta er mögulega þeirra besta tækifæri til að gera eitthvað markvert á leiktíðinni. Kannski eru þeir ekki að fara að vinna einhverjar dollur, en í þeirra sporum myndi ég alveg láta á það reyna að komast eins langt og hægt er í svona keppnum. Ekki eins og Evrópukeppnirnar séu að þvælast fyrir þeim…

Semsagt, gerum ráð fyrir liðinu eitthvað svona:

Kelleher

Gomez – Matip – Quansah – Chambers

Jones – Endo – Gravenberch

Elliott – Gakpo – Jota

Nú kannski lemur Salah í borðið og heimtar að fá að byrja. Ég yrði satt að segja ekkert hissa. Og kannski segir Szoboszlai “hingað og ekki lengra”, enda vill hann örugglega ná að henda í eins og eina sleggju eins og hann setti gegn Leicester. Svo veit maður ekki með stöðuna á Luis Díaz. Samkvæmt bestu heimildum er pabbi hans enn ófundinn, mögulega finnst okkar manni best að dreifa huganum með því að spila. Mjög skiljanlegt að hann hafi verið frá um helgina enda voru fréttirnar þá bara nýkomnar, en kannski er hugarástandið annað í dag. Sjáum til, hann fær a.m.k. allan okkar stuðning hvort sem hann spilar eða ekki. Tökum okkur nú saman og sendum jákvæða strauma til pabba hans.

Það eru nokkur andlit þarna sem má næstum bóka að sjáist í byrjunarliði: Endo var flottur í miðri viku og spilaði lítið um helgina. Jones var enn í banni á sunnudaginn og þarf að halda sér í formi, en ætti svo að vera til reiðu gegn Luton á sunnudaginn. Kelleher tekur markmannsstöðuna nema hann meiðist á æfingu eða eitthvað slíkt, vonum að hann sleppi því bara alveg. Nú svo má eiga von á að Elliott byrji, ég stilli honum upp í stöðunni hans Salah og set Grav á miðjuna, en kannski fer Harvey bara á miðjuna, sérstaklega ef Salah vill byrja.

Það væri alveg ofsalega gaman að ná að komast í næstu umferð, og maður hefur fulla trú að bæði sé liðið fært um að gera það, og eins að það sé ákveðið hungur í leikmönnum. Eigum við ekki bara að spá því að þetta vinnist í vítakeppni? Kominn tími á að Kelleher fái aftur að sýna gamla takta þar.

KOMA SVO!!!

6 Comments

  1. Ljómandi góð upphitun DB

    Vonandi er Doak orðin leikfær og fær þessar mínútur frá upphafi leiks. Eins Bobby Clark, er hann ennþá meiddur? Hugsa að hann hafi klárlega átt að fá mínútur í svona leikjum.

    Liverpool er klárlega að fara spila mjög mikið breyttu liði en ég efast um að Bournemouth sé með stóran fókus á þessa keppni enda í nógu miklu basli í deildinni.

    2
  2. Svo er það auðvitað þannig að þetta eru 16 liða úrslit, Middlesbrough og Port Vale eru nú þegar komin í 8 liða úrslit, og ef við ættum að veðja á hvaða lið önnur gætu endað þar þá værum við kannski að tala um Arsenal, Liverpool, Chelsea, Everton, Fulham og Newcastle.

    Þetta er því algjörlega vinnanleg keppni, svo kannski má taka hana alvarlega í takti við það.

    3
  3. Svo er bara að sjá hvort veðrið á eftir að gera okkur skráveifu. Er ekki fellibylurinn Ciara á leiðinni?

    1
  4. Með fullri virðingu fyrir Bournemouth þá ætti Klopp að senda eins mikið B-lið í þennan leik eins og hægt er því B liðið okkar er bara ansi gott og það er þá hægt að vera með gott backup á bekknum til að bregðast við ef illa er að fara. Flott lið hjá Daníel í upphituninni og vonandi verður það nálægt því sem Klopp stillir upp.
    Við þurfum að nýta hópinn vel til að hafa ferskar lappir í deildarleikina sem skipta öllu máli.
    Nunez, Salah, Trent, Van Dijk, Konate, Mac Alister og Szoboslai mega bara tylla sér á bekkinn í kvöld og njóta kvöldins þar.

    1

Gullkastið – Skyldusigur í öðrum gír

Liðið gegn Bournemouth