Bournemouth 1 – 2 Liverpool

Þetta var blautt og kalt kvöld á suðurströndinni, en Liverpool fór þaðan (í rútu en ekki með flugvél eins og áður var planað) með farmiða í 8 liða úrslitin eftir að hafa unnið hrollkaldan 1-2 útisigur á spræku liði Bournemouth.

Mörkin

0-1 Gakpo (31. mín)
1-1 Kluivert (64. mín)
1-2 Nunez (70. mín)

Helstu atriði úr leiknum

Furðu sprækt lið í fyrri hálfleik, slaknaði aðeins á klónni í seinni hálfleik, en liðið gerði það sem þurfti undir lokin. Kelleher hefði mögulega getað gert betur í markinu, en aðstæður vissulega með erfiðasta móti. Nunez mjög líkur sjálfum sér í sigurmarkinu: klúðrar móttökunni á boltanum en smyr honum svo undir slána með bogaskoti u.þ.b. frá vítateigahorninu. Quansah sýndi enn og aftur að hann á fullt erindi í þetta Liverpool lið, og allt tal um að okkur vanti miðvörð er svo gott sem þagnað.

Hvað réði úrslitum?

Liverpool liðið er einfaldlega með meiri gæði, jafnvel þó svo það sé stillt upp í semí-B-lið. Oft er talað um að slæmar aðstæður hjálpi lakara liðinu, því einstaklingsgæði skíni ekki jafn auðveldlega í gegn nema við topp aðstæður, ef það er eitthvað til í því þá réði það a.m.k. ekki úrslitum í þessum leik.

Hvað þýða úrslitin?

Liðið er komið í 8 liða úrslit og spilar gegn West Ham á Anfield þann 20. desember nk. Hjálpar svosem ekki mikið upp á leikjaálagið enda mun þessi leikur koma á milli tveggja heimaleikja: gegn United þann 17. des og gegn Arsenal þann 23. des. Bæði lið sem féllu úr leik og koma ekki meira við sögu í deildarbikarnum. Nú svo mætast Chelsea og Newcastle, Everton og Fulham, og svo að lokum Port Vale og Middlesbrough. Það er því ljóst að allar aðstæður eru til þess að vinna þessa keppni, en auðvitað þarf að klára einhverja 3 leiki (eða fjóra ef undanúrslitaleikirnir verða heima og heiman).

Hvað mátti betur fara?

Nú aðstæður voru klárlega óheppilegar, ég ætla rétt að vona að sturturnar í búningsklefunum hafi verið sæmilega heitar eftir leik. Ekki beint öfundsvert hlutskipti hjá leikmönnum. Annars voru engin leikmenn að eiga einhvern off dag, ekkert sem getur ekki skrifast á aðstæður.

Framundan

Liðið kom sjálfsagt talsvert seinna heim heldur en planið var í ljósi þess að það var ekki hægt að fljúga heim, svo þeir þurftu að taka rútu. Mun það hafa áhrif á endurheimt og undirbúning fyrir næsta leik? Vonandi ekki, en menn fá fram á sunnudag að jafna sig. Þá þarf að fara í annað ferðalag til Luton og spila þar gegn sprækum heimamönnum sem munu án efa gera allt sem þeir geta til að hirða öll þau stig sem í boði eru. Þeir eru í 18. sæti, stigi á eftir téðu Bournemouth liði og vilja örugglega ekki missa þá neitt mikið lengra fram úr sér (ekki svosem að líkurnar á því séu miklar, þar sem þeir þurfa að heimsækja City á laugardaginn). Þetta verður næst síðasti leikur umferðarinnar (Spurs og Chelsea spila á mánudagskvöld), svo okkar menn vita nokkurnveginn hvar þeir standa þegar leikurinn hefst. Ekki það að staðan í deildinni mun í raun engu breyta: krafan er 3 stig og engar refjar! Eða í mesta lagi bara ein refj.

20 Comments

  1. Gaman að sjá Liverpool 2.0 klára þennan leik, fullt af leikmönnum sem fengu flottar mínútur í ísköldum leik. Nunez áfram handfull fyrir andstæðingana, ungi CB að standa sig bara gaman YNWA

    5
  2. Erfiðar aðstæður, margir að fá mínútur, sigur, bið ekki um meira

    3
  3. Var ekki í eina tíð talað um kalt rigningarkvöld í Stoke? Mikið er ég feginn að þetta kláraðist í venjulegum leiktíma og drengirnir komist í heita sturtu í tæka tíð.

    Annars var þetta nú óttalegur buslubolti. Því er stundum haldið fram að lakara liðið græði meira á aðstæðum sem þessum, þar sem betra liðið nær ekki að fullnýta sína hæfileika. Slíkt skiptir auðvitað engu máli núna. Góður sigur og væri gaman að fá þessa dollu nú þegar svo langt er komið.

    Frábært mark hjá Nunez í leik sem var engin ósköp fyrir augað, en sigurinn í höfn.

    YNWA

    4
  4. Seiglusigur sem varð óþarflega tæpur en hafðist þó.
    Arsenal og manutd duttu út sem er alltaf gleðilegt.

    5
  5. Við fáum Everton næst, skrifað í skýin og svo Newcastle í úrslitum.

    2
  6. Hurðu, erum við komin með geggjaðan miðvörð – upp úr nánast engu? reif hár mitt og skegg í sumar yfir skammsýninni að kaupa ekki einn rándýran í vörnina. Hefði ég getað hlíft lubbanum?

    Ótrúlega gaman að ná þessu flugi. Erum í dauðafæri á að vinna einn snemmfenginn bikar.

    Hver er annars staðan í bikarsöfnuninni? Erum við með þá flesta?

    10
  7. Þvílíkt og annað eins drulluveður! Vel gert hjá piltunum að vinna, rokið og rigningin hefðu getað skorað fimm mörk fyrir Bournemouth. Quansah stóð sig vel, hann verður fastamaður í vörninni innan tíðar spái ég, en Gravenberch var í mjög fúlu skapi þegar hann kom inná og spilamennskan eftir því. Og svo er það Nunez! Það sem stuðningsmennirnir elska hann. Frábært að sjá og heyra mígandi blautan aðkomu flokkinn stappa og öskra: Nunez! Nunez! Nunez!

    Í lokin eru sér-fréttir fyrir Daníel… Það voru mörg tóm rauð sæti á ákveðnum velli rétt hjá Liverpool borg. Ég mun ekki þreytast á þeirri Þórðargleði í bráð! 🙂

    6
  8. Flottur sigur í ömurlegu veðri. Gott að shitty,utd og arsenal séu dottin út. Fáum heimaleik næst gegn west ham. Eigum ALLTAF að vinna heimaleikina. Þessi markmaður sem við eigum þarna er sko engin smá leikmaður.
    Hann er með betri markvörðum deildarinnar. Næst Luton á sunnud. Vill endilega 3 stig þar 🙂

    3
  9. Sælir félagar

    Þessi sigur var kærkominn seiglusigur í ömurlegu veðri þar sem mjög erfitt var að spila fótbolta. Það er venjulega svo að betri liðin þjást meira við svona aðstæður því hæfileikar og geta leikmanna eiginlega þurrkast út og úr verður ömurleg barátta um að lifa af leikinn sem sigurvegari. Ég kenndi í brjósti um leikmenn beggja liða en þó meira um Liverpool leikmennina sem eru miklu betri í fótbolta en aðstæður þurrkuðu þann mun nánast út. En þetta hafðist og takk fyrir það.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  10. Ekki flottasti fótbolti sem ég hef séð en sigur. Ungi varnarmaðurinn og Joe Comes menn leiksins að mínu mati.

    3
  11. Ég skil ekki hvað menn sáu svona gott hjá Quansah. Það var alltaf hætta á ferðum fyrir Liverpool ef hann fékk boltann og oftast vissi hann ekki hvað hann átti að gera við hann, dundandi við að stíga á boltann eins og hann væri á æfingasvæðinu að leika sér.
    Ég var næstum farinn að grenja og biðja til guðs um að Klopp setti Virgil inná í stað Quansah, en þetta slapp fyrir horn.

    2
    • Ég held að menn leggi kannski mismunandi skilning í hvað miðvörður á að gera í dag. Þeir hafa flóknari skyldur en að skalla boltann útaf eða ýta honum í horn. Quansah er ótrúlega efnilegur nútíma miðvörður sem skilur mikilvægi þess að bíða eftir opnu sendingunni inná miðssvæði eða til bakvarðarins. Eins þá er hann ótrúlega lunkinn með boltann og tók Solanke og setti hann á grasið eins og tvisvar.

      Þar fyrir utan er hann fljótur, áræðinn, sterkur og les leikinn vel.

      En hann er ekki góður fyrir hjartað alltaf — get verið sammála því!

      14
    • Sammála. En hann er nógu ungur til að hafa svigrúm til að læra. Gegn betra liði fengi hann ekki klappa boltanum svona mikið. Solanke er líka tæpur á að vera úrvaldsdeildar-sóknarmaður.

      1
  12. Æðislegt að klára þetta og fara áfram. Elska þetta lið okkar!

    3
  13. Ég spyr mig hvort ég hafi verið að horfa á sama leik og Kristján:.

    “Jarell was my Man of the Match. Strong in the tackles. We gave him the ball a lot. He had a lot to do. Super game.” Sagði Klopp. Ég sjálfur sá ekkert athugavert við spilamennsku hans. Fanst hann spila vel.

    13
    • Gaurinn sem tók viðtalið við Jurgen var einnig sammála um að Quansha var maður leiksins.

      7
  14. Frábært að vinna þennan útileik við mjög krefjandi aðstæður.

    Innkoman hjá Nunez……………. vá!

    YNWA

    4
  15. Það eru komin ansi mörg ár (25) síðan við höfum verið með eins vandræðalaust Liverpool lið og einmitt núna. Klopp treystir öllum sínum mönnum, skýrasta dæmið er Quansha,,, engin vandræði þar. Hvaða aðrir stjórar geta þetta? Er ég einn um þetta?
    Hölum áfram svona. YNWA.

    5

Liðið gegn Bournemouth

Luton – Liverpool Upphitun