Merseyside derby á Anfield: komast stelpurnar í 1. sætið?

Það er komið að fyrsta leik Liverpool Women á Anfield á þessari leiktíð! Í fyrra var bara einn slíkur, og ekkert búið að gefa út um að þeir verði fleiri á þessari leiktíð, en ef vel gengur í ár… skulum allavega ekki útiloka neitt.

Það er ýmislegt undir í dag:

 • Leicester og United gerðu jafntefli fyrr í dag, og það þýðir að sigur kemur Liverpool Women á toppinn. Ekkert eitthvað “jöfn að stigum en með betra markahlutfall” kjaftæði, bara efst með flest stig. Það gerðist líklega síðast fyrir 9 árum síðan eða svo.
 • … en til að vinna leikinn þá þarf að skora mörk. Og það er eitthvað sem stelpurnar okkar eiga enn eftir að gera á Anfield. 0-3 tap á síðasta ári, 0-1 tap gegn Everton 2019. Heiðurinn sem fylgir því að vera sá leikmaður sem skoraði fyrsta mark Liverpool Women á Anfield er því líka í húfi.
 • Nú svo er þetta Merseyside derby. Það er alltaf heiðurinn í húfi, og væri nú ekki leiðinlegt að slá tóninn fyrir leik strákanna um næstu helgi.

Staðan á liðinu er svipuð og fyrir síðasta deildarleik: þar kom Melissa Lawley til baka eftir langa fjarveru, og átti stoðsendinguna í seinna markinu gegn Villa. Hún fékk svo aftur nokkrar mínútur gegn Leicester í Continental bikarnum í vikunni. Þá sást Sophie Roman Haug á æfingu í vikunni, og skartaði forláta grímu.

Liðið sem byrjar leikinn lítur svona út:

Laws

Fisk – Bonner – Clark

Koivisto – Holland – Nagano – Hinds

Höbinger

Kearns – Roman Haug

Bekkur: Micah, Matthews, Parry, Taylor, Lundgaard, Lawley, Daniels, Flint, Enderby

Jújú, það er debut fyrir Sophie Roman Haug, það er metið sem svo að hún sé tilbúin í slaginn, en við skulum gera ráð fyrir grímunni. Hún verður þá auðþekkjanleg á velli…

Leikurinn verður sýndur á aðalrásinni hjá Sky Sports, ásamt því að vera sýndur á Viaplay fyrir okkur Frónbúa (og einhverja aðra víst líka).

Spái því að Missy Bo setji fyrsta markið úr aukaspyrnu, og að Ceri Holland bæti við öðru.

KOMA SVO!!!!!!

3 Comments

 1. Enn halda stelpurnar okkar áfram að frjósa á Anfield, og ná ekki að skora. 0-1 voru bara alls ekki úrslitin sem við vorum að vonast eftir.

  Stemmingin á Anfield held ég að spili þarna inn í, völlurinn er allt of rólegur og nánast þögull. Það þarf að gera ráðstafanir til að fólk geti sungið og hvatt þær almennilega áfram.

  3
 2. Ég veit ekki hvort er verra: að byrja leikinn á móti Everton klukkan hálftólf – eða vera með fúkin idíótinn David Coote á VARsjánni. Þann sama og sneri blinda varauganu að Pickford þegar hann eyðilagði hnéð á van Dijk.

  Það skal ég vera viss um að einhversstaðar sitja PGMOL topparnir og hlæja sig máttlausa á meðan þeir skipuleggja leiktíðina fyrir Liverpool… „jú, blessaður vertu, dúndra á þá hádegisleik! Geta aldrei orðið of margir. Og settu einhvern fávita í dómarateymið líka…”

  5

Deildarbikarinn að byrja hjá stelpunum: Leicester heimsóttar

Gullkastið – Merseyside Derby um helgina