Upphitun: Útileikur gegn Brighton

Þrátt fyrir að allt umtalið þessa dagana sé um viðburði síðustu helgi heldur deildin áfram og á morgun eigum við leik gegn hressum suðurstrandarmönnum í Brighton. Hér fyrir neðan er færsla sem fjallar frekar um leiki sem hafa verið endurspilaðir og farið yfir hvort það ætti að gera í þessu tilfelli og því ætla ég ekki mikið að fjalla um það í þessari upphitun.

Hinsvegar verður áhugavert að sjá leikinn á morgun hvernig okkar menn taka mótlætinu og geri ég ráð fyrir að við sjáum dýrvitlaust lið Liverpool mæta til leiks.

Andstæðingarnir í Brighton byrjað tímabilið ágætlega þar til um síðustu helgi þegar þeir steinlágu fyrir Aston Villa 6-1 og mættu svo Marceille í Evrópudeildinni og voru komnir 2-0 eftir tuttugu mínútur en náðu svo að bjarga því í 2-2 jafntefli undir lokinn. Þeir eru með gott lið en klárlega særðir.

Það áhugaverðasta við tímabil Brighton verður að sjá hvernig þeir ráða við að spila tvisvar í viku. Liðið er hörkugott en vegna nokkurra meiðsla og leikjaálags stillti De Zerbi hinum unga og efnilega Jack Hinshelwood upp á miðjunni með Billy Gilmour í leiknum gegn Villa og það var ljóst að hann er ekki alveg tilbúinn því miðja Villa-manna lék sér að þeim. Vinstri bakvörður þeirra Estupinan meiddist illa í Evrópuleiknum þeirra og ljóst að hann verður ekki með um helgina og einnig ólíklegt að við mættum okkar fyrrum mönnum í Milner og Lallana sem eru tæpir.

Okkar menn

Við áttum fínan en ekki frábæran leik gegn Belgunum í Union St Gilloise þar sem Liverpool vann 2-0 sigur á heimavelli. Allir virðast hafa komið heilir frá verkefninu sem var mikilvægt þar sem það er strax farið að reyna á breyddina. Þeir Jota og Jones verða náttúrulega í banni eftir rauðu spjöld sín síðustu helgi og Gakpo meiddist í Tottenham leiknum, ekki eins alvarlega og fyrst var talið en verður ekki með á morgun, og að lokum kom bakslag í endurhæfingu Thiago og Bajcetic.

Þetta er liðið sem ég býst við að sjá á morgun. Framlínan er sjálfvalinn með Jota og Gakpo fjarverandi, á miðjunni er spurning hver tekur pláss Curtis Jones? Wataru Endo fór útaf í hálfleik í vikunni sem gæti verið vísbending um að hann byrji djúpur og Mac Allister fái að spila sitt hlutverk framar á vellinum en að mínu mati hefur Gravenberch verið ótrúlega heillandi þær mínútur sem hann hefur fengið og ég vonast til að sjá hann á morgun. Að lokum geri ég ráð fyrir Matip í hafsent bæði vegna þess að þeir virðast ætla fara sparlega með Konate í endurkomunni og Klopp hefur yfirleitt gefið mönnum séns á að bæta fyrir mistök sín og þó það væri ósanngjarnt að setja Matip í þann flokk eftir Tottenham leikinn þar sem í 95 mínútur spilaði hann frábærlega að þá hefur þetta líklega verið mjög erfitt fyrir Matip og ég býst við að Klopp gefi honum strax annan leik til að bæta upp fyrir þetta.

Spá

Ég spái því að við sjáum Liverpool liðið mæta dýrvitlaust og komast snemma yfir og gjörsamlega yfirspila Brighton í þessum leik. Ætla að spá 4-0 sigri þar sem Mo Salah setur þrennu og Szobozslai tekur aðra þrumu og við verðum öll í sjöunda himni um miðjan dag á morgun.

4 Comments

 1. Það er klárlega líka spurning með hægri bak, Trent spilaði í klukkutíma á fimmtudag í sínum fyrsta leik eftir meiðsli, og ég yrði ekkert hissa ef við sæjum Gomez þarna en fengjum Trent inná á 60. mínútu.

  7
  • Gómezinn hefur að mínu mati spilað eins og herforingi í þessari stöðu.

   11
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Hannes og það er ekki miklu við hana að bæta. B&HA hafa löngum verið okkur erfiðir og því ég yrði hrifinn af niðurstöðunni sem þú spáir þá held ég að það verði ekki svona létt. Þetta verður hunderfitt og það eina sem ég fer fram á er sigur. Mín spá 1 – 2 þar sem þessi leikur verður í járnum meira og minna.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2

Að spila eða spila ekki – aftur… það er spurningin

Byrjunarliðið gegn Brighton: Trent byrjar