Liverpool 2 – 0 Union Saint-Gilloise (Skýrsla uppfærð)

Mörkin

Gravenberch 44

Jota 92

Hvað réði úrslitum

Stemning í svona leikjum getur oft verið skrýtin. Annað liðið er uppfullt af mönnum sem eru að leika stærsta leik liðsins, hitt liðið veit að þeir eiga tæknilega bara að mæta og eiga skítsæmilegan leik til þess að vinna. Á sama tíma veit stóra liðið að ef þeir tapa er það risa hneyksli.

Liverpool mættu helstemndir til leik og voru einfaldlega miklu betri fyrsta hálftíman. Þeir voru stærri, sterkari, fljótari og í betri takti. Spurning hvort Union menn hafi verið aðeins yfirstressaðir og að tilefnið hafi farið í þá. Okkar menn náðu þó ekki að nýta sér þessa yfirburði og skora.

Þegar leið á hálfleikinn uxu Union menn og okkar menn misstu aðeins taktinn. Okkar menn drápu þó mest allt sem gestirnir reyndu í fæðingu og þrátt fyrir að Union næðu aðeins að bæta sig áttu þeir ekki eitt skot á mark í fyrri hálfleik.

Markið sem Liverpool skoraði kom á frábærum tíma og markið sjálft minnti á árin þegar Liverpool var líklegra til að skora úr hornum andstæðinga en sínum eigin. Union áttu sitt fyrsta horn, brot var dæmt á þá. Alisson var vel vakandi og gaf boltann hratt á Trent sem brunaði fram völlinn. Í andartak virist sóknin ætla að fjara út, Nunez gaf boltann aftur á Trent sem negldi bara á markið. Markmaður Union, sem þangað til var maður leiksins klikkaði all svakalega á vörslunni og boltinn skoppaði út í markteig þar sem Gravenberch var fyrstu til og skoraði.

Í hálfleikk gerði Klopp svo þrjár skiptingar og á sextugustu mínútu kom sú fjórða. Eðlilega riðlaði þetta takti liðsins all svakalega og Belgunum óx ásmeygin. Þegar tíu mínútur voru eftir henti Klopp Szobozlai inná til að hressa upp á liðið, sem gerði gæfu munin. Gegn betri andstæðing hefði Liverpool líklega ekki komist upp með þetta en að lokum gildir sigurinn.

Í uppbótartíma innsiglaði Jota svo sigurinn. Aftur kom markið í skyndisókn eftir fast leikatriði Union. Það var ótrúlegt klafs með boltann rétt eftir miðlínu en að lokum náði Jota boltanum (eða boltinn skoppaði til hans, þú velur) og hann kláraði færið listivel.

Hvað þýða úrslitin

Liverpoo trjónir á toppi riðilsins með tvo sigra og geta svo gott sem gulltryggt sig áfram í næstu umferð.

Bestu leikmenn Liverpool

Gravenberch var algjörlega frábær og virðist staðráðin í að gera Klopp erfitt fyrir að velja byrjunarliðið. Einnig kom Trent flottur inn, Quansah heillar mann sökum ungs aldur, Salah var hættulegur að vanda og Konate skilaði meira en sínu.

Hvað hefði betur mátt fara?

Það er kannski eðlilegt að takturinn hafi aðeins dottið úr liðinu þegar leið á en betur má ef duga skal. Einnig hefði maður klárlega viljað sjá betri færanýtingu í byrjun leiks, eins og spilamennskan var átti þessi leikur að vera búin í hálfleik.

Næsta verkefni

Brighton á útivelli á sunnudaginn, tvö liði sem voru harkalega særð um síðustu helgi. Ætti að vera algjör veisla!

14 Comments

 1. Iðnaðarsigur ! Mikilvægt að halda hreinu og Jota er seigur kallinn.

  8
 2. Sigur er sigur, er hægt að sjá einhverstaðar aðkomu Jota að mörkum miðað við spilaðar mín vs Salah t.d ??
  Mér finnst hann alltaf vera að skora eða í færum þegar hann spilar. Kannski á það bara við um þá alla.

  2
   • Sælir félagar

    Jota var drullulélegur í leiknum og skilaði nánast engu fyrir liðið úti á vellinum. Hinsvegar gerði hann það sem hann gerir svo vel að liggja í sníkunni og pota inn marki á mikilvægum augnablikum. Það breytir því ekki að mér finnst hann ekki “góður” leikmaður en han er samt afar mikilvægur þáttur í liðinu. Mér fannst skrítið hvað leikur liðsins riðlaðist mikið eftir skiptingarnar og hann var bókstaflega í hættu þar til Jota skoraði þetta mikilvæga mark.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
   • Jota ekki góður leikmaður? Hann er væntanlega þarna upp á náð og miskunn Klopp.

    En þrátt fyrir markið þá var hann ekkert sérstakur í þessum leik.

    Jota virðist hafa spilað 304 mínútur og skorað 4 mörk þetta tímabil. Mark á 76 mín fresti.

    Nær þó ekki Haaland sem er með mark á 56 mín fresti

    3
 3. Nokkrir punktar úr leiknum í gær.

  1. Jota er bara frábær leikmaður og underrated líka frá stuðningsmönnum Liverpool.
  2. Gravenberch virkar meira eins og hann sé búinn að spila nokkur ár undir Klopp ekki nokkra leiki.
  Frábær byrjun hjá kappanum.
  3.Nunez getur bara skorað stórkostleg mörk. Þýðir ekki að leggja upp dauðafæri fyrir hann : D dýrka hann samt !
  4. Það fór Trent mjög vel að vera fyrirliði í leiknum og mér fannst hann frábær varnarlega í þessum leik þegar hann sópaði upp sérstaklega.

  5. Það verður erfiður leikur um helgina og vonandi geta okkar menn komið sterkir til baka í deildini eftir fíaskóið sl helgi. Góðar stundir

  YNWA !

  11
 4. Mikið af þessum leikmönnum hafa lítið spilað saman og eðlilegt að takturinn sé svona en þeir skila sínu og gera það sem ætlast er til af þeim, það kom mér á óvart að Doak hafi ekki spilað þennan leik en vonandi var hann bara tæpur.
  Quansah heldur áfram að heilla mig, virkar mjög spennandi og hann heldur áfram að læra í hverjum leik og hefur gott af því að spila með þessum reynsluboltum í vörninni.
  Vonbrigðin ef það má kalla er sennilegast vinstri bakvörðurinn Tsimikas, mér finnst að það megi alveg uppfæra þessa stöðu fljótlega en það er ekki líklegt þar sem hann var að fá nýjan samning.
  Ég væri alveg til í að sjá leikmann eins og Salah sleppa þessari riðlakeppni

  7
 5. Við hér á Ystu Nöf horfðum frá hlaðinu á Ystu Nöf eftir Gunnu spákonu í 20 þúsund króna leigubíl + 18 sem ég rétti bílstjóranum.. Hún er að fara á leik Liverpool. Hún hefur spáð síðustu sex leikjum réttum hjá Liverpool. Hún hvíslaði að mér úrslitum í næsta leik.

  4
 6. Stór vika að baki hjá okkar mönnum. Fínn skyldusigur í Evrópudeildinni. Hitt er vart þess virði að tala um meir, eins ljótt og það var í garð okkar liðs.

  Mín skoðun er reyndar sú að það eigi EKKI að endurtaka Tottenham-leikinn. Slíkt myndi enda með ósköpum og ekki verða LFC til góðs. Held að allir viti nú að það mun aldrei gerast hvort eð er.

  Flestir muna þegar allir vildu stöðva deildina í Covid og slaufa hana af þegar við áttum 1 – nkvl. 1 stig eftir – og einhverjir 10 leikir eða ég man ekki hvað margir óspilaðir. Allir vissu að við vorum löngu búin að vinna deildina en í mörgum hlakkaði ef þetta kynni að verða niðurstaðan.

  Hate frá öðrum stuðningsmönnum er mest á Liverpool af einhverjum sökum. Allt frá Shankly höfum við líklega verið stöðugasta liðið, með besta stuðningshópinn. Klopp er okkar Fergie, þó ég vilji nú alls ekki líkja þeim saman. Fergie þurfti aldrei að keppa við lið sem er kostað af ríkasta þjóðríki heims, sem veigrar sér ekki við að myrða áhrifafólk sem talar gegn þeim og blæðir peningum.

  Í raun er með ólíkindum að við höfum yfirleitt getað staðið í City síðustu ár. Það er ástríðu félagsins að þakka. Jürgen Norbert Klopp hefur keyrt hana áfram og tendrað fágætan neista í leikmönnum sem hafa skilað sínu. Hann hefur endurnýjað liðið tvisvar, nú síðast í haust. Hann virðist töframaður hvað varðar sýn á leikinn og með minna fé á hendi en helstu keppinautar.

  Ég ber í raun mun meiri virðingu fyrir MU en MCity, þótt ég vilji aldrei að MU vinni neitt. Í því felst kannski virðingin, vegna sögunnar.

  Ferguson gerði ýmislegt gott. Klopp er hundrað sinnum skemmtilegri. Og hann lætur ekki deigan síga þótt hann viti að hann rís gegn ofurefli fjármálaafla sem hafa enga sögu, ekkert nema eyðimörk búna til úr hundrað dollara seðlum.

  Kannski verða það örlög okkar líka.

  Þangað til skulum við njóta þess að eiga þennan mannskap, þetta lið, og þennan stórkostlega stjóra.

  Og trúa áfram.

  YNWA

  1

Liðið gegn Union SG

Að spila eða spila ekki – aftur… það er spurningin