Upphafsleikur tímabilsins hjá stelpunum – Arsenal heimsóttar á Emirates

Ég er enn brjálaður. Eruð þið brjáluð? Ég væri ekki hissa.

En lífið heldur áfram og stelpurnar okkar byrja loksins leiktíðina með því að heimsækja stöllur sínar í Arsenal. Leikurinn fer fram á Emirates, og síðast þegar við gáðum höfðu selst 50.000 miðar. Svo það verður byrjað með látum.

Ef við byrjum samt á að skoða hvað hefur gerst hjá stelpunum okkar frá því á undirbúningstímabilinu þá er þetta það helsta:

  • Þrátt fyrir að orðrómurinn hefði verið sá að markahæsti leikmaður HM – Miykasawa – væri á leiðinni til Liverpool, þá fór það svo að hún valdi að fara til United. Sem er jú algjör sturlun, sama hvaða leikmaður á í hlut. En í staðinn fengum við Sophie Roman Haug sem skoraði m.a. þrennu fyrir Noreg í einum leiknum á HM.
  • Á móti misstum við endanlega Katie Stengel, sem ákvað að hún saknaði bandarísku deildarinnar of mikið og heldur áfram að spila með Gotham FC. Hennar verður sárt saknað, en við þökkum henni framlag sitt til árangurs liðsins síðustu misserin.
  • …en svo tókst téðri Roman Haug að nefbrjóta sig í landsleik gegn Portúgal í síðustu viku. Helvítis landsleikjahlé… þetta þýðir að liðið er annsi þunnskipað uppi á topp þar sem Leanne Kiernan, Shanice van de Sanden og Melissa Lawley eru allar á leiðinni til baka eftir meiðsli. Svosem ekki langt í þær, en alls ekki klárar í dag og líklega ekki næstu 2-3 leiki heldur.
  • Stelpurnar fluttu sig endanlega yfir á Melwood, og því fögnum við að sjálfsögðu, enda á þessi sögufrægi staður að vera undir merkjum Liverpool. Jafnframt er frábært að kvennaliðið eigi loks sína eigin æfingaaðstöðu!
  • Að lokum skrifaði Matt Beard undir framlengingu á samningnum og verður líklega a.m.k. 2 ár til viðbótar við núverandi tímabil. Fögnum því sömuleiðis

Andstæðingarnir í dag verða annars engin lömb að leika sér við. Þær voru án Vivianne Miedema nánast allt síðasta tímabil, og reyndar voru þær allnokkrar sem slitu krossbönd. Einhverjar eru komnar til baka, og svo kom Alessia Russo frá United og hún á eftir að styrkja hópinn.

Meiðslin í framlínunni gera það að verkum að við höldum bjartsýninni í hófi fyrir leikinn, en munum einnig að liðið vann jú Chelsea í opnunarleik síðasta tímabils, og eins vann liðið City undir lokin. Svo það er allt hægt.

Liðið sem Matt Beard stillir upp lítur svona út:

Laws

Fisk – Bonner – Clark

Koivisto – Holland – Nagano – Hinds

Höbinger – Taylor

Kearns

Bekkur: Micah, Parry, Lundgard, Flint, Enderby

Við allavega höldum að þetta sé útfærslan, einhvers konar 3-4-3 útgáfa. Hörkuleikur á erfiðum útivelli, minnum á að hægt er að sjá leikina hjá kvennaliðinu á FA Player appinu.

Koma svo……..

2 Comments

  1. Brjálaður, trúi vatla enn að þetta hafi gerst!
    Ekki batnaði skapið eftir að ástæðan fyrir að VAR klikkaði í markinu var birt, vont varð verra.
    Vonum það besta í dag, áfram Liverpool.

    1
  2. Auðvitað hefndu stelpurnar fyrir þennan viðbjóð í gær! Það var lagið!

    2

Tottenham – Liverpool

Liverpool konur sigra á Emirates