Upphitun – Tottenham á útivelli gegn Liverpool 2.0

Liverpool fær síðdegisleikinn á laugardeginum núna um helgina þegar ferskir leikmenn Tottenham bíða í London.

Ange Postecoglou hefur komið með mjög ferska vinda inn í Úrvalsdeildina og ljóst að hrokafullar Bretlandseyjar áttu fyrir löngu síðan að vera búnar að leita til þessa 58 ára gamla fagmanns. Postecoglou er nefnilega alls ekkert nýtt nafn í Eyjaálfu eða Asíu, hann hefur náð árangri í bæði Ástralíu og J-League í Japan auk þess sem hann þjálfari landslið Ástrala. Leikaðferð Postecoglou sem er að smellpassa svona við Tottenham liðið er heldur ekkert sem hann er að byrja að þróa með sér núna. Hans lið hafa alla tíð staðið fyrir léttleikandi sóknarfótbolta og hugrekki með boltann.

Fyrir utan frábæra byrjun liðsins innan vallar er Postecoglou strax kominn á flesta topp 3 lista yfir menn sem gaman væri að fá að spjalla við yfir einum Egils Gull. Hann er nánast of mikil holdgervingur steríópýpunnar af Ástrala. Leiðinlega mikill toppmaður sem Spurs er með í sinni brú.

Tímabilið byrjuðu þeir á 2-2 jafntefli úti gegn Brentford, tóku svo í kjölfarið þrjá góða sigra í röð á Man Utd, Bournemouth og Burnley. Sheffield United virtist ætla að stela stigunum í London þar til Spurs náði loksins að brjóta niður múrinn í mjög löngum uppbótartíma. Paul Heckingbottom grenjaði úr sér augun á blaðamannafundi í kjölfarið og sýndi þar hressilega muninn á Jóni og Séra Jóni á Englandi, hefði Klopp sagt orð fyrir orð það sama og Paul Heckingbottom eftir þennan leik hefði hann að öllum líkindum fengið lengra bann en Eric Cantona. Ekki láta röfl manna eins og Heckingbottom villa um fyrir hversu mikil snilld það er að loksins er aðeins byrjað að taka á leiktöfum.

Baráttan um Norður-London endaði svo með 2-2 jafntefli á Emirates í hörkuleik. Spurs mun meira með boltann og stóðu nöllurunum algjörlega jafnfætis.

Liðið hjá Spurs gegn Arsenal er nokkurnvegin liðið sem byrjað hefur þetta tímabil

Markmaðurinn er einhver gaur sem þjálfarinn rambaði á hjá Empoli á Ítalíu og hefur byrjað mótið frábærlega. Varnarlínan er mjög góð og með mun meiri hraða en í fyrra með Romero og Van den Ven í miðvarðastöðunum. Porro var á láni hjá þeim í fyrra og keyptur í sumar en Udogie er pjakkur sem þeir keyptu líka frá Ítalíu, samnýttu eflaust flugið hans og Vicario.

Bissouma gekk svo loksins til liðs við Spurs í sumar, hann var vissulega þarna líkamlega á síðasta tímabili en í vetur er Brighton Bissouma mættur, gaurinn sem var Caicedo hjá Brighton þar til Spurs keypti hann og Moses tók við. Hinn ungi Sarr fékk líka sénsinn og hafa þeir sett leikmenn eins og Hojbjerg, Dier og Skipp fyrir aftan sig.

Kulusewski kom formlega í sumar auk Maddison og Johnson frá Nott Forest. Sá síðastnefndi kom í kjölfar sölunnar á Harry Kane sem fór ekki fyrr en undir lok leikmannagluggans.

Son leiðir svo línuna og hefur verið í sínu fyrra formi í byrjun tímabilsins. Tottenham saknar Harry Kane enn sem komið er ekki neitt og virka eins og frelsaðir án hans. Mögulega eru þeir það upp að vissu marki enda snýst leikur liðsins enganvegin um einhvern einn núna.

Þeir eiga svo Gerpið til vara sóknarlega, ef að Maddison er of tæpur til að byrja er hætt við því að Gerpið byrji þennan leik.

Postecoglou fær í vetur svona tímabil svipað og Brendan Rodgers 2013/14 þar sem liðið er ekki í neinni Evrópukeppni og þeir luku m.a.s. leik strax í fyrstu umferð í deildarbikarnum. Þeir voru því bara að undirbúa þennan leik í vikunni á meðan Liverpool fékk Leicester í heimsókn.

Liverpool

Það er rosalega margt í upphafi tímabilsins sem bendir til þess að Liverpool 2.0 sé formlega mætt til leiks. Þetta lið hefur alveg burði til að keppa um hvað sem er í vetur en við höfum líka alveg séð leiki sem sannarlega gátu farið á annan veg. Það er rosalega vondur ávani að fá alltaf á sig fyrsta markið í leikjum og mun alltaf bíta af og til. Af síðustu rúmlega 60 leikjum hefur Liverpool lent undir í 30 skipti sem er galið dæmi og það er síður en svo að lagast á þessu tímabili.

Nýtt blóð

Szoboszlai er 22 ára gamall og eins og hann er að spila þá stefnir hann bara í að skipa sér í flokk með Gerrard og De Bruyne, hann getur orðið það góður. Það eru nokkrir góðir miðjumenn sem spila svipaða stöðu í sínum liðum í dag (fyrir utan KDB), menn eins og Ödegaard, Foden, Fernandez, Silva, Maddison, Paqueta, Mount o.s.frv. og ég myndi ekki vilja neinn þeirra frekar en Szoboszlai. Hann er einn og sér að taka leik liðsins upp á mun hærra level og að skila orku og vinnusemi á miðjunni sem maður var að öskra eftir allt síðasta og þar síðasta tímabil. Henderson gat hlaupið svona fyrir 5-8 árum og var frábær fyrir Liverpool þá. Þessi getur það líka en það er ekki einu sinni hans helsta vopn, sóknarlega er Szoboszlai í öðru sólkerfi og við erum að sjá það raungerast strax.

Líklega er samt sanngjarnara að bera kaupin á honum saman við Keita og Ox sem báðir voru keyptir á góðum aldri til að skila einmitt þessu hlutverki. Szobozlai er nú þegar búinn að spila meira en þeir gerðu samanlagt á síðasta tímabili, það eru sex leikir búnir af mótinu.

Tvisvar höfum við séð leiki þróast þannig að Szoboszlai hefur komið aftar og spilað svona sexu/áttu hlutverk á miðjunni í tveggja manna miðju. Getur það augljóslega líka. Maður sá ekki alveg fyrir sér Szoboszlai – Jones miðju í byrjun tímabils og hvað þá að hún væri að svínvirka.

Curtis Jones á auðvitað líka skilið töluvert hrós og fengi það líklega hefði hann komið í sumar fyrir 40-50m. Hann er líka bara 22 ára og hefur vaxið gríðarlega undanfarin 2-3 ár sem fullvaxta miðjumaður í stað unglingsins sem var hálf heimilslaus stöðulega í leikkerfi Liverpool. Jones er að þróast í alvöru góðan leikmann sem Klopp leggur mjög mikið traust á.

Báðir eru þeir nota bene 22 ára og rétt að byrja að vinna saman, það er ekkert sem segir annað en að þeir verði enn betri sleppi þeir við meiðsli (7,9,13).

Mac Allister hefur svo verið Wijnaldum það sem af er tímabili, unnið skítverkin meira og spilað mest aftast af þremur miðjumönnum Liverpool. Markið hjá Nunez gegn West Ham sýndi hvað Mac Allister gefur sóknarlega. Hann er 24 ára með orku og vinnusemi í takti við það.

Gravenberch (21 árs) er svo að sýna strax að hann ætlar sér að vera í þessum hópi og þarf líklega ekkert hálft tímabil til að aðlagast frekar en Szoboszlai og Mac Allister. Það er líklega ekki langt í að hann verði í byrjunarliðinu í deildarleik.

Nú þegar hafa Mac Allister, Szoboszlai, Gravenberch og Endo komið að sex mörkum í vetur eða jafn mörgum mörkum og Fabinho, Henderson, Keita, Milner og Ox afrekuðu allt síðasta tímabil.

Það er búið að stökkbreyta miðjunni.

Sóknarlínan aftur komin í samband við liðið

Fyrir vikið er Liverpool allt annað lið. Sóknarlínan er aftur farin að fúnkera og ógna eins og leikmannahópurinn gefur fullkomlega tilefni til. Það komu ansi margir leikir í fyrra þar sem Salah var alls ekki einn besti sóknarmaður í heimi, Nunez virtist ekki passa í liðið og Jota bara gat ekki skorað. Undarlegt hvað þetta snarbreytist um leið og holning liðsins í heild var lagfræð og smá hlaupageta kom á miðsvæðið sem gaf tækifæri til að koma liðinu ofar á völlinn og tengja miklu betur saman vörn – miðju og sókn.

Salah er bara að fá betri þjónustu núna en hann fékk í fyrra, það er stóri munurinn. Auðvitað hjálpar að hafa fimm svona góða alla leikfæra og geta róterað þeim. Hvað þá með menn eins og Doak og Elliott líka að gera tilkall og taka mínútur.

Darwin Nunez virðist hinsvegar hafa aðlagast töluvert betur og auðvitað í takti við miklu gáfulegri þjónustu frá miðjunni er hann orðin algjört skrímsli frammi. Hann er engu minni ógn en Salah og ættu þeir að skapa töluvert pláss og tíma fyrir hvorn annan. Fyrr í sumar var erfitt að meta hvor væri framar Nunez eða Gakpo, eins og staðan er núna virkar þetta engin spurning. Þá eigum við eftir Diaz og Jota vænginn sem tekur helling til sín líka. Diaz getur t.a.m. ennþá vel orðið markaskorari a la Sadio Mané, hann var að skora helling í Portúgal þegar Liverpool keypti hann.

Liverpool hefur enda verið allt annað og mun meira sannfærandi dýr gegn and-fótbolta liðum sem ætla sér að pakka í vörn og halda. West Ham leikurinn var á köflum í seinni hálfleik eins og að horfa á handboltasókn og öfugt við í fyrra var Liverpool alveg að finna glufur og búa til lausnir til að spila sig í gegnum varnarmúr Moyes. Ef að lið eru svo með sértæk leiðindi getum við sigað Szoboszlai á þau með svona hamar eins og við sáum gegn Leicester.

Það er verið að slípa hópinn saman og innleiða nýja miðju og það hefur kostað mistök og mörk hjá andstæðingunum. Líka tvö rauð sem er mjög óvanalegt hjá Liverpool. Til að vinna upp á móti þessu hefur Liverpool liðið verið í miklu betra standi líkamlega í byrjun þessa tímabils en allt síðasta tímabil. Þegar líður á leikinn og andstæðingurinn fer að þreytast hefur Liverpool átt meira en nóg inni í flestum leikjanna það sem af er tímabili. Staðan er líka 6-7 í fyrri hálfleik og 15-0 í seinni! Þetta er heldur betur breyting frá því í fyrra þegar skiptingar Klopp virtust oft veika liðið. 

Vörnin er góð tölfræðilega

Stærsti hausverkurinn er þá vörnin og leikurinn gegn Tottenham kannski fyrsta stóra testið sem Liverpool 2.0 fær varnarlega. Það er samt ágætt að hafa í huga að Liverpool byrjar mótið með 16 af 18 stigum þrátt fyrir að hafa byrjað aðeins tvo af sex leikjum með aðal miðverði liðsins inná saman og eins hefur Trent verið frá síðustu tvo leiki.

xGA per 90 með 11 leikmenn inná er aðeins 0.89 það sem af er þessu tímabili sem er alls ekki slæmt. Eins myndi maður ætla að varnarleikur Liverpool eigi eftir að slípast töluvert eftir því sem líður á mótið.

Þannig að stuðningsmenn Tottenham mega heldur betur vera sáttir við byrjun tímabilsins og þróun liðsins, þeir eru samt ekki nærri því jafn spennandi og liðið sem Klopp er að sjóða saman hjá Liverpool.

Byrjunarliðið 

Trent byrjaði að æfa í þessari viku og Konate spilaði deildarbikarleikinn, þeir ættu því báðir að vera orðnir klárir og liðið þannig nokkuð straight forward:

Gomez og/eða Matip koma auðvitað inn ef Trent og/eða Konate eru ekki leikfærir.

Einhver af Gravenberch, Endo eða Bajcetic gætu vel byrjað á miðjunni fyrir Jones eða Mac Allister en ég tippa á að Klopp haldi sig við miðjuna sem virðist vera byrjunarliðið núna í upphafi móts. Áhugavert reyndar að Klopp prufaði Jones í hybrid bakverðinum í miðri viku og Bajcetic um daginn, mögulega kæmi annarhvor þeirra inn frekar en Gomez ef TAA nær þessum leik ekki?

Frammlínan er sjálfvalin að mínu mati, sérstaklega þar sem hinir þrír byrjuðu gegn Leicester.

Spá

Þeir stuðningsmenn Tottenham sem ég hef hlustað á í vikunni hafa sannfært mig um að Tottenham er ekkert að fara breyta um leikaðferð gegn Liverpool og það finnst mér mjög spennandi tilhugsun. Auðvitað getur Spurs vel refsað og hafa leikmenn til þess en það er líka mjög spennandi tilhugsun að sjá Liverpool 2.0 fá mótherja með hugrekki sóknarlega og gefa þannig færi á sér hinu megin á vellinum. Klopp hefur jafnan vegnað vel í slíkum leikjum.

Spáði 2-1 og 1-2 í Gullkastinu eins og fábjáni.

Þessi fer auðvitað 1-3 fyrir Liverpool eins og allir aðrir leikir.

SSteinn skuldar mér bjór annað kvöld ef þessi spá gengur eftir, ákveð það einhliða hér með.

Nunez setur 2 og Diaz eitt.

Bingó í sal.

8 Comments

 1. Bajcetic lenti víst í einhverju kálfahnjaski og er því ekki leikfær. En annars er skýrsluhöfundur með þetta, í raun bara spurning hvort Trent sé orðinn leikfær (og þá tilbúinn til að byrja), og mögulega hvort Curtis sé enn of brothættur til að byrja tvo leiki með þriggja daga millibili – jafnvel þó svo fyrri leikurinn hafi verið í hægri bak.

  4
 2. Glæsileg upphitun, styð 1-3 spána og kominn tími á mark frá Diaz.

  5
 3. Takk fyrir frábæra upphitun liðið okkar lofar mjög góðu leikurinn við Tottenham er prófsteinn á framhaldið getum verið í sæti 1-5 eftir helgina…árangur city síðustu ára hefur byggst á því að endurnýja liðið mjög hratt ekki vera hræddir við að losa leikmenn sem maður hélt að væru ómissandi…vonandi fer hann 1-3 og SSteinn þarf að blæða með ÁNÆGJU…

  7
 4. Mig dreymdi Harry Redknap í nótt. Hann var úti að keyra í Range Rovernum en stoppaði stuttlega til að spjalla. Spurði reyndar fyrst hvort ég væri með brúnt umslag merkt sér, en þegar hann skildi að ég er ekki umboðsmaður, þá slakaði hann á. Karlinn var bara spenntur fyrir leiknum á morgun og ætlar að horfa. Hann hefur trú á að Klopp sé að endurbyggja liðið, þó að hann sagði að hann sjálfur hefði nú örugglega getað gert það mun betur og á skemmri tíma. Þegar stutt var liðið á spjallið þá hringdi síminn og hann sagðist þurfa að hitta mann til að ræða um hund. Setti upp sólgleraugun og brunaði í burtu.

  5
  • Þú þarft að heimsækja Eyvind á Ystu Nöf og komast að sannleikanum

   6
 5. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Einar og þar er allt bæði satt og rétt. Ég veit að þetta verður mjög erfitt og ég er ekki alveg laus við áhyggjur en þetta ætti að hafast þó Tottenham sé á heimavelli með allt sitt stuðningsmannalið í toppgír. Vonandi tekst okkar mönnum að slökkva á þeim snemma og hnoða heim sigri. Spái 1 – 2 í hunderfiðum leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 6. Þetta er tottenham…. Liverpool mun vinna þennan leik nokkuð létt 1-5

  3
 7. Það er ekkert nýtt á þessu heimili – en hér nötrar allt og skelfur af svartsýnisólgu í aðdraganda leiksins. Sennilega er þetta langtímaminni taugakerfisins sem man þá daga og þau ár þar sem aldrei var á vísan að róa. Þær minnisstöðvar tóku heldur betur við sér í fyrra í þeim rússíbana öllum þar sem stórsigrum fylgdu niðurlægjandi töp.

  Er uggandi yfir Son, Kuluschevsky, Maddison og auðvitað þessum Aussie sem er skrifa nýjan kafla í skýin.

  ,,Morgndagurinn kemur aldrei.”

  4

Liverpool 3 – 1 Leicester

Liðið er komið