LASK 1-3 Liverpool

Mörkin

1-0 Florian Flecker 14. mín
1-1 Darwin Nunez 56.mín, víti
1-2 Luis Diaz 63. mín
1-3 Mohamed Salah 88.mín

Leikurinn

LASK-liðar skutu okkur skelk í bringu í kvöld og komust yfir snemma leiks með geggjuðu marki Florian Flecker. Þrátt fyrir að skotið hafi verið gott var samt hægt að gagnrýna það að við gáfum þeim ódýra hornspyrnu og svo voru menn alltof lengi að bregðast við þegar þeir gáfu á manninn út á D-boganum úr horninu en tek ekkert af Flecker fyrir að ná boltanum vel undir stjórn og ná geggjuðu skoti á markið. Liverpool gekk svo illa að skapa góð færi en það besta í fyrri hálfleiknum féll til Darwin Nunez sem átti skalla af stuttu færi. Hann náði fínum krafti í skallan en því miður fór hann beint á markmann LASK.

Það tók 56 mínútur að brjóta ísinn þegar brotið var á Luis Díaz inn í teig og vítaspyrna dæmd. Með engan Salah á vellinum né Mac Allister féll það í skaut Darwin Nunez að taka spyrnuna sem hann nýtti. Það var svo sjö mínútum síðar sem við tókum forrustuna í leiknum. Eftir gott samspil Harvey Elliott og Ryan Gravenberch átti sá síðarnefni fyrirgjöf beint í lappir Luis Diaz sem kom Liverpool í 2-1. Það var svo að sjálfsögðu Mo Salah sem kláraði leikinn þegar hann klobbaði markmaninn til að skora þriðja mark Liverpool og hans 42. evrópumark fyrir klúbbinn.

Hvað þýða úrslitin

Liverpool er með þrjú stig í riðlinum eftir að hafa mætt liðinu úr öðrum styrkleikaflokki á útivelli. Í hinum leiknum í okkar riðli gerðu Union St. Gilloise og Toulouse 1-1 jafntefli. Mikilvægt er að ná fyrsta sæti í þessum riðli þar sem liðinn sem vinna sína riðla í Evrópudeildinni sitja hjá í fyrstu útsláttarumferðinni.

Bestu menn Liverpool

Skrýtinn leikur, varla hægt að  segja að einhver hafi verið góður í fyrri hálfleik en flestir góðir í seinni. Darwin Nunez leit vel út og nýtti vítið sitt vel. Luis Díaz skoraði gott mark og fiskaði vítaspyrnuna og Ryan Gravenberch leit ágætlega út í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Hvað hefði betur mátt fara

Við hreinlega verðum að hætta að gefa fyrsta mark leiksins. Í fjórum af þeim sex leikjum sem við höfum spilað í ár höfum við lennt undir og það mun bíta okkur á endanum ef við förum ekki að bæta það. Einnig komust Stefan Bajcetic og Wataru Endo aldrei í neinn takt við leikinn og þurfa að nýta sín tækifæri betur ef við ætlum langt í þessari keppni sem og bikarkeppnunum.

Næsta verkefni

Næst er það West Ham í hádeginu á sunnudaginn, en sóknarmaður þeirra Michail Antonio var að tjá sig í podcasti sínu um daginn þar sem hann sagði að West Ham myndu enda fyrir ofan Liverpool í deildinni í ár þannig það væri ágætt að þagga aðeins niður í honum um helgina.

20 Comments

 1. Hér á Ystu Nöf dansar söfnuðurinn hringdans af gleði yfir fræknum sigri.

  Glæsilega gert!

  16
  • Kokkurinn við kabyssuna stóð, fallera, kolamola oní hana tróð, fallera!!

   5
 2. Góður sigur og góð þrjú stig. Margir fengu að spreyta sig og fengu alvöru fótbolta í fæturna. Var nú ekki að horfa á leikinn við bestu skilyrði en sá ekki betur en að völlurinn væri vel loðinn og þungur. En gott að klára svona leiki og lið sem eru sýnd veiði en ekki gefinn.
  YNWA

  3
 3. Hef aldrei verið aðdáandi Elliotts en verð að viðurkenna að hann var alveg lúsiðinn í seinni hálfleik. Þrusufínn.

  …er aðeins að narta í lopasokkinn minn…

  9
  • Mér skilst að það sé alveg leyfilegt að setja smá sósu á sokkinn… jafnvel ögn af brúnuðum kartöflum.

   13
  • Næst þegar Liverpool aðdáandi verður valinn til að koma að uppskrift vikunnar/mánaðarins einhversstaðar þá er þetta leyndarmálsuppskriftin sem slær allt út.

   Uppskrift: Bragðgóður sokkur Liverpool aðdáandans.

   Leikur látinn hefjast.
   – kryddtilbrigði eftir eigin smekk er að tuða eitthvað (heima fyrir eða jafnvel á einhverjum miðlum) yfir uppstillingu Klopps.
   Liverpool lenda 1 marki undir.
   – hella algjörum ómöguleika yfir leikinn, á kop.is, á facebook, og þriðja samfélagsmiðli að eigin vali (ástæður líka algjörlega að eigin vali),
   – sjóða sokkinn fram að jöfnunarmarki,
   – hella smá algjörum ómöguleika yfir leikinn, á kop.is, á facebook, og þriðja samfélagsmiðli að eigin vali,
   – sjóða sinn sokk í 13 sek. til viðbótar við hvert mark eftir það,
   – stilla eldavélarhelluna í hvert skipti á næsta lægri styrk/hita.
   Þegar svo Liverpool vinnur leikinn 3-1 eða 1-3 (eftir aðstæðum).
   – viðurkenna (óbeint) á kop.is að viðkomandi hafi duld fyrir soðnum sokkum.
   – njóta matarins í einrúmi.
   Bragðast auðvitað alltaf 100% í ljósi úrslitanna.

   Önnur tilbrigði við venjulega sokka eru að nota ullarsokka (sérprjónaða af konunni eða mömmu), sjónvarpsokka, háleista (prjónaðir af langömmu), nylonsokka (af konunni), eða önnur tilbrigði sem tækifærin gefa.

   Klikkar auðvitað aldrei, Liverpool er vant að vinna sig út úr vandræðunum.

   16
   • HAHAHAH! Ég hélt ég myndi míga í mig þegar ég las þetta, ég hló svo mikið!

    Þetta innlegg fær sex stjörnur, dass af kanil og gamlan banana!

    4
 4. Mig langar svo að elska Endo, en hann var ekki elskulegur að sjá. Graverbech er fáránlega fimur fyrir svona hávaxinn mann — en hann er ekki búinn að spila sig saman við aðra leikmenn. Lofar góðu.

  Bajcetic var fínn og held ég bara tekinn út af af því hann hefur ekki spilað leik frá því hann byrjaði að raka sig.

  Tsimikas er Tsimikas er ekki Robbo…

  Nunez er eðlisfræðileg áskorun frekar en markaskorun. Ef hann væri jafngóður að slútta og hann er að koma sér í færi þá væri Norðmaðurinn fyrrum besti markaskorari Englands.

  Salah er svarið við spurningunni af hverju fótbolti er besta íþróttin.

  Szobo er svar ungu kynslóðarinnar við Gerrard og minir á einhverja Marvel hetju sem getur verið á tveimur stöðum á sama tíma.

  Upp upp mín sál og rauðverjar.

  32
 5. Frábært. Leist ekkert á þessa byrjun … frekar en fyrri leikina.

  Fylgdist reyndar bara með stöðunni.

  Hvar ætli sé hægt að horfa á háljósin úr leiknum?

  2
 6. Þegar það gerist loksins einhvern daginn að Liverpool verður undan að skora í leik, þá held ég hreinlega að ég muni fara að hafa áhyggjur og eiga erfitt með að höndla málið… Hvað ef hinir jafna??

  6
 7. Gaman að sjá Gravenberch í sínum fyrsta byrjunarliðsleik. Hann virkar vel á mig, annars fínar mínútur sem okkar ungu menn fengu Bajcetic, Elliot og Doak. Salah er bara eins og gimsteinn, þvílík gæði í þessum leikmanni.
  Fínasta frammistaða og leikmenn hvíldir fyrir baráttuna á móti West Ham.

  5
 8. Okkar menn mættu í seinni hálfleik eins og stundum áður.
  Þetta varð á endanum leikur kattarins að músinni eins og maður hafði vonað.

  Szoboszlai er svo bara unaður að horfa á, ber “8” með mikilli prýði.

  YNWA

  11
 9. Virkilega sáttur með þetta bara, skiljanlega erfitt fyrir leikmenn sem lítið sem ekkert spilað saman að láta fljóta vel á móti baráttuliði sem ætlaði ekki að tapa á sínum heimavelli.
  Klopp gerði vel að nýta hópinn vel og vonandiner þetta það sem koma skal í þessari riðlakeppni, við munum alltaf enda í 1 sæti í riðlinum og því gott að láta minni spámenn spila þetta.

  4
 10. Sælir félagar

  Takk fyrir sigurinn Liverpool og ég hefi svo sem ekki mikið meira að segja um þennan leik sem ekki hefur komið fram í ágætri leikskýrslu Hannesar og athugasemdum félaga minna hér fyrir ofan.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 11. Bara eitt varðandi frammistöðu Bajcetic: rétt að hafa í huga að hann var að byrja sinn fyrsta leik síðan í byrjun mars og þá í stöðu sem mér vitandi hann hefur aldrei spilað áður (en hefur spilað í miðverði og svo á miðjunni á síðustu misserum). Maður þarf því ekki að vera neitt gapandi yfir því að hann hafi e.t.v. ekki verið með allt upp á tíu. Ég verð svo að játa að ég tók ekki eftir því að hann hafi átt eitthvað áberandi slæman leik, staðan var klárlega þannig að þessir 11 hafa aldrei spilað saman keppnisleik áður, og auðvitað þarf að leyfa slíkum hóp að slípast saman. Bara ekkert skrítið við að kemistrían hafi ekki verið í hámarki.

  Ef hann verður einn af þessum leikmönnum sem getur spilað alls staðar á vellinum, þá vitum við að Klopp elskar að hafa svoleiðis menn innan sinna raða, og að tækifærin sem hann gæti fengið (og mínúturnar) gætu orðið talsvert fleiri fyrir vikið.

  9
 12. Mikið er gott að okkar menn koma ekki laskaðir úr þessari viðureign..

  Rata sjálfur út

  6

Byrjunarliðið gegn LASK

Liverpool – West Ham