Tímabilið 2023-2024 hjá kvennaliðinu

Þó það sé enn rúmur mánuður í að tímabilið hefjist hjá kvennaliði Liverpool, þá er samt óvitlaust að renna aðeins yfir stöðuna á liðinu; hvað er helst að frétta, hvaða leikmenn hafa bæst við, hverjir eru horfnir á braut o.s.frv. Ástæðan fyrir því er sú að Liverpool fer til Frakklands nú um helgina og tekur þátt í míní-móti þar sem liðið spilar við PSG og svo annaðhvort við Atletico Madrid eða AC Milan. Leikurinn gegn PSG er á mánudagskvöld, og kop.is verður svolítið undirlagt af leiknum gegn Newcastle á laugardag og sunnudag (og kannski munu umræður um leikmannakaup eitthvað koma við sögu…), svo það er tilvalið að nýta lognið á undan storminum í þetta.

Eins og lesendur e.t.v muna þá urðu okkar konur í 7. sæti í deildinni, í raun ekkert svo langt á eftir grönnum sínum í Everton og Aston Villa, en svo var svolítið bil í 4 efstu: Chelsea, Arsenal og Manchester liðin tvö. Svo markmiðið hjá Matt Beard (sem enn er óskeggjaður) hlýtur að vera að minnka bilið í þessi efstu lið og helst að komast upp fyrir þessar bláklæddu, ásamt því auðvitað að hleypa liðunum fyrir neðan ekki upp fyrir.

Brottfarir

Allnokkrir leikmenn hurfu á braut í sumar eftir að samningar þeirra runnu út:

  • Ashley Hodson lauk 14 ára veru hjá félaginu, nánast fæddist í Liverpool búningi, en er núna farin til Sheffield United eins og reyndar fleiri fyrrverandi Liverpool leikmenn hafa gert í gegnum tíðina.
  • Leighanne Robe lék meira en 100 leiki fyrir félagið, og skoraði aðeins í einum þeirra en gerði sér lítið fyrir og setti þrennu í þeim leik. Líklega eini leikmaðurinn í fótboltasögunni sem getur státað af því. Hún var ekki komin með nýtt félag þegar við gáðum síðast.
  • Rhiannon Roberts er svo annar fótgönguliðsmaður sem hverfur á braut eftir að hafa spilað í 5 ár, og kippti sér ekki upp við að spila ýmist á miðju, í bakverði, í miðverði, á kanti, já það má segja að hún hafi verið James Milner kvennaliðsins. Hún fór til Real Betis.
  • Carla Humphrey var leikmaður sem náði aldrei almennilega að eigna sér stöðu í liðinu, og kom því ekki svo mjög á óvart að hún yrði ekki áfram. Hún er komin til Charlton.
  • Megan Campbell varð fræg fyrir innköstin, og liðið beitti því vopni óspart. Það kom því e.t.v. aðeins á óvart að hún skyldi ekki spila lengur, en vissulega orðin þrítug og aldurinn henni klárlega í óhag. Hún á enn eftir að finna sér nýtt lið.
  • Natasha Dowie kom á láni um áramótin, en lánssamningurinn var ekki framlengdur og því lýkur þar með hennar tímabili númer 2 hjá félaginu, en hún náði að verða markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með þessu seinna tímabili. Hún hefur aðeins verið að máta “pundit” stólinn á síðustu vikum og hefur staðið sig ágætlega þar.
  • Að lokum hurfu 3 markverðir á braut: Rylee Foster sem spilaði ekkert eftir lífshættulegt bílslys fyrir tæpum tveim árum, en virðist sem betur fer vera að ná fyrri heilsu núna. Eartha Cumings sem kom frá Charlton og þótti mikið efni en náði ekki að stimpla sig inn í liðið og er farin til Rosengard í Svíþjóð. Að lokum er Charlotte Clarke líka farin, hún kom þegar Rylee meiddist en var aldrei í neinu alvöru hlutverki hjá félaginu.

Lán

Svo höfum við séð nokkra lánsdíla fyrir næsta tímabil:

  • Faye Kirby þótti heilla þegar hún fékk tækifæri í marki, en með nýjustu kaupum (sjá neðar) hefur þótt ljóst að hennar tækifæri yrðu fá í vetur, svo hún er komin til Aberdeen a.m.k. fram að jólum, en æfir með Liverpool þar fyrir utan.
  • Hannah Silcock er búin að vera hjá félaginu frá unga aldri og þykir afar efnileg, en er ennþá 18 ára og þarf meiri spilatíma. Hún fer til Blackburn í vetur, en mun – rétt eins og Kirby – æfa með Liverpool þar fyrir utan.
  • Katie Stengel er ekki að fara neitt – nema að henni leiddist þófið í sumar og nennti ekki að bíða fram í október eftir því að fá að spila alvöru fótbolta aftur, svo hún fór á láni til Gotham FC í New York og verður þar fram í byrjun september.
  • Lucy Parry – yngsti leikmaður í sögu kvennaliðs Liverpool – kom svo til baka frá Hibernian eftir að hafa spilað þar allt síðasta tímabil á láni, það á eftir að koma í ljós hvort hún mun slást um sæti í liðinu eða hvort hún fari aftur á lán.

Svo var skrifað undir nýja samninga við eftirfarandi leikmenn: Jasmine Matthews, Yana Daniels, Missy Bo, Ceri Holland og Niamh Fahey. Ekkert nýtt þarna svosem.

Nýjir leikmenn

Og þá að nýjustu leikmönnunum. Þær eru eftirfarandi:

  • Teagan Micah er nýr markvörður liðsins, hún kemur frá Ástralíu og var m.a. varamarkvörður landsliðsins á HM í sumar, en kom ekki við sögu í leikjum liðsins. Það á eftir að koma í ljós hvort hún sé hugsuð sem markvörður nr. 1, eða hvort Rachael Laws sé það ennþá. Kæmi a.m.k. ekki á óvart þó hún sé hugsuð sem markvörður nr. 1 til framtíðar.
  • Mia Enderby er ung og efnileg (2005 módel), spilar í framlínunni, og kemur frá Sheffield. Hún var valinn ungi leikmaður ársins hjá Sheffield á síðustu leiktíð og því talsverður fengur í henni. Hún gæti vel fengið slatta af tækifærum á meðan framlínan er í þynnri kantinum (sjá neðar varðandi meiðslalistann). Hún tók skyrtunúmerið 13.
  • Grace Fisk er enn einn leikmaðurinn sem Matt Beard hefur unnið með áður, hjá West Ham nánar tiltekið. Hún er 25 ára, spilar í öftustu línu, og fær númerið 4.
  • Maria Höbinger er 22ja ára miðjumaður sem kemur frá Sviss, nánar tiltekið frá FC Zurich. Hún fær skyrtunúmerið 14.
  • Jenna Clark er 22ja ára varnarmaður og kemur frá Glasgow, og fær skyrtunúmerið 17. Það er ekki vitað til þess að hún sé skyld Bobby Clark.
  • Natasha Flint er 27 ára sóknarmaður sem kemur frá Leicester, en var reyndar á láni hjá Celtic á síðari hluta síðasta tímabils. Hún fær skyrtunúmerið 26.

Ef eitthvað er að marka Matt Beard þá má allt eins eiga von á eins og einum leikmanni til viðbótar. Smá ábending til Matt: það vantar ennþá íslenskan leikmann…. #justsayin

Meiðsli

Það var vitað að Melissa Lawley myndi ekki geta byrjað tímabilið þar sem hún fór í uppskurð á fæti í vor. Hún ku reyndar vera á undan áætlun í meðferðinni, og það lítur út fyrir að hún gæti farið að æfa í október. Leanne Kiernan þurfti auðvitað að ná sér í eitthvað hnjask á meðan hún var hjá landsliðinu, svo hún er eitthvað frá en vonandi ekkert svipað fjarverunni á síðasta tímabili. Þar fyrir utan eru Jasmine Matthews og Shanice van de Sanden að glíma við eitthvað smávægilegt hnjask og munu ekki koma við sögu í Frakklandi eftir helgina.

Leikmenn á HM

Liverpool átti sem betur fer nokkra fulltrúa á HM í sumar. Fyrirliðinn Niamh Fahey spilaði með Írlandi, þær grænklæddu féllu út í riðlakeppninni og hún kom því frekar snemma heim. Fuka Nagano spilaði með Japan og gekk vel, en hún og stöllur hennar féllu úr keppni gegn Svíþjóð í 8 liða úrslitum. Nagano kom svo til æfinga í dag (föstudag). Að lokum var nýji markvörðurinn okkar, Teagan Micah, á bekk hjá Ástralíu, og fór nánast alla leið, þ.e. stöllur hennar spiluðu um 3ja sætið og máttu lúta í lægra haldi þar. Það kom ekki til þess að hún þyrfti að skella sér á milli stanganna. Að lokum var Shanice van de Sanden í startholunum að mæta á svæðið ef einhver hefði meiðst hjá hollenska landsliðinu, en til þess kom ekki.

Nýtt (gamalt) æfingasvæði: Melwood!

Það bárust fréttir af því í sumar að klúbburinn hefði keypt Melwood til baka. Það var eitthvað byggingarfélag sem keypti svæðið upphaflega þegar klúbburinn flutti sig yfir til Kirkby, og planið var víst að byggja íbúðir þarna, en sem betur fer hafði ekkert gerst í því og nú er stefnan sú að kvennaliðið verði þarna með sína æfingaaðstöðu. Ekki nóg með það, heldur fái unglingaliðin í kvennaflokki inni þarna sömuleiðis. Í sumar eru stelpurnar hins vegar búnar að æfa í Kirkby, svo það er greinilega hægt líka…? En það er klárlega gaman að Melwood sé aftur orðið hluti af sögu félagsins.

Derby 15. október á Anfield

Rétt eins og á síðasta ári þá verður heimaleikurinn gegn Everton spilaður á Anfield. Fyrir ári síðan mættu um 27.000 manns, undirritaður þar á meðal, og það var hin besta skemmtun þó svo úrslitin hefðu að sjálfsögðu ekki verið þau sem við vildum. Þannig eiga stelpurnar okkar enn eftir að skora mark á Anfield, en nú eru komnir 3 leikir sem hafa verið spilaðir þar og eigum við ekki að segja að skjálftinn verði farinn úr stelpunum okkar núna í október? Annars mæli ég 100% með því að skreppa út og mæta á völlinn, það er talsvert auðveldara að fá miða á góðum stað á Anfield heldur en á karlaleikina, en gallinn er vissulega sá að þessi leikur fer fram í miðju landsleikjahléi hjá strákunum og því ekki hlaupið að því að ætla að sjá fleiri leiki í sömu ferð, sem er auðvitað talsverður mínus.

Mótið í Frakklandi – líklegt byrjunarlið?

Eins og kom fram hér að ofan munu stelpurnar okkar kíkja út fyrir landsteinana (þ.e. ensku landsteinana), fara til Frakklands um helgina og spila við PSG á mánudaginn. AC Milan og Atletico Madrid mætast svo í hinum leiknum, og sigurliðin úr þessum tveim leikjum mætast svo annars vegar á meðan tapliðin mætast hins vegar, þeir leikir fara væntanlega fram næsta fimmtudag.

Okkar konur munu fara út með allar sem eru mættar til æfinga, það kemur fram hér að ofan hverjar eru meiddar og fara því ekki út, ásamt því að Teagan Micah er enn í pásu eftir HM og þá er Katie Stengel enn á láni í Bandaríkjunum og kemur ekki fyrr en eftir rúma viku. Það er búið að gefa út að tveir akademíuleikmenn fái að fara með, hvort sem þær munu svo spila eitthvað eður ei. Þannig er t.d. ljóst að Rachael Laws er í raun eini markvörðurinn sem er á mála hjá félaginu og er mætt til æfinga, og því kemur akademíumarkvörðuinn Cadi Doran með, ásamt stöllu sinni og útileikmanninum Charlie Chadwick.

Að lokum má velta fyrir sér hvernig megi reikna með að byrjunarliðið muni líta út í vetur þegar allar eru heilar, og hversu miklar líkur séu á að nýju leikmennirnir nái að stimpla sig inn í byrjunarliðið.

Miðjan sem var orðin geirnegld í vor: Missy Bo, Ceri Holland og Fuka Nagano – það er ólíklegt að það verði mikið hreyft við henni. Ceri líklega okkar besti leikmaður, Nagano er algjört skrímsli í sexunni, og Missy Bo er jú ekki bara heimakona heldur líka gríðarlegt efni. Líklegast er að þær miðjukonur sem voru fyrir (Sophie Lundgaard og Miri Taylor) ásamt Mariu Höbinger verði í róteringu við þessar 3 fyrstu.

Bakvarðarstöðurnar voru í höndum Emmu Koivisto og Taylor Hinds, og erfitt að sjá þær missa þau sæti. Ekki ólíklegt að ef Lucy Parry verður í hópnum og fer ekki út á lán að hún verði að rótera við þær stöllur. Ef við gefum okkur að liðið haldi sig við 3-4-3 (eða 3-4-1-2), þá má reikna með að Niamh Fahey og Gemma Bonner verði akkerið í bakvarðarstöðunum, en ekki ólíklegt að Grace Fisk verði sú þriðja með þeim tveim. Það verði svo Jasmine Matthews og Jenna Clark sem róteri.

Framvarðarsveitin er svo meira á huldu. Þegar allar eru heilar má alveg reikna með að tvær af þeim Stengel, Kiernan og Lawley verði í fremstu stöðunum, og þar fyrir aftan í goggunarröðinni verði svo Yana Daniels, van de Sanden, ásamt svo nýju leikmönnunum Flint og Endeby. En meiðslin hjá Kiernan og Lawley ásamt því hvað vdSanden er oft á sjúkrabekknum þýða að tækifærin fyrir þessar nýju gætu orðið talsverð. Eins er ekkert útilokað að í einhverjum leikjum verði farið í 4-3-3, og þá dettur einn miðvörður út og þar með fjölgar í framlínunni. Munum líka að það gæti vel komið inn einn nýr leikmaður og þá er lang líklegast að það verði einhver í framlínuna, veitir ekki af miðað við öll þessi meiðsli.

Markvarðarstaðan á svo alveg eftir að koma í ljós, Rachael Laws hefur jú átt þessa stöðu á undanförnum árum, en sjáum til hvað Teagan Micah gerir þegar hún mætir til æfinga.

Við verðum með þráð þegar PSG leikurinn hefst, og svo annan þegar seinni leikurinn í Frakklandi fer fram. Það verða síðan einhverjir fleiri undirbúningsleikir og við komum sjálfsagt með einhverjar fréttir af leikmannamarkaðnum ef einhverjar verða í september, en annars er það svo bara fyrsti leikurinn gegn Arsenal á útivelli þann 1. október. Heldur betur eldskírn, en gleymum ekki að byrjunarleikurinn gegn Chelsea var það líka á síðasta ári, og okkar konur gerðu sér lítið fyrir og unnu þann leik. Vonum bara að þær taki upp þráðinn á þessari leiktíð!

4 Comments

  1. Takk fyrir þessa vönduðu yfirferð, Daníel. Beard mun safna skeggi og stelpurnar komast í top four. Er það ekki ágætis spá fyrir veturinn?

    2
    • Það væri óskandi!

      Jú og svo væri næs að ná topp 4.

      3
  2. Og nú er í gangi hávært slúður um að annar japanskur landsliðsmaður sé á leiðinni, miðjumaðurinn Miyazawa. Einnig er möguleiki að klúbburinn sé að bjóða í norska framherjann og landsliðsmanninn Sophie Roman Haug.

Gullkastið – Lokmetrar leikmannagluggans

Heimsókn til ríkasta liðs í heimi – Upphitun fyrir Newcastle