Tímabilið hefst!

Það er komið að fyrsta leik tímabilsins 2023-2024. Og í þetta sinn mun leikurinn fara fram í líklega mesta dramakasti sem sögur fara af í kringum upphafsleik tímabils.

Dramakastið er sumsé í kringum tvo leikmenn, en þó aðallega einn: Moises Caicedo, leikmann Brighton. Romeo Lavia, leikmaður Southampton, er svo í aukahlutverki í þessari óperu, ásamt fleirum.

Dramayfirferð

Þetta er það sem við vitum:

  • Caicedo hefur lýst yfir áhuga á því að fara til Chelsea, en hefur áður lýst yfir áhuga á því að fara til Arsenal, Real, United og örugglega fleiri, svo tökum öllu þessu með fyrirvara. Útilokum ekki að hér spili vilji umboðsmanna Caicedo líka inn í, og þá kannski fyrst og fremst peningaglýjan í augum þeirra.
  • Chelsea eru búnir að vera að bjóða í Caicedo, byrjuðu líklega í kringum 60 milljónir punda. Brighton hefur hingað til hafnað þeirra boðum í leikmanninn, en á fimmtudagskvöldið bárust svo fréttir af því að Liverpool hefði boðið 111 milljónir punda og Klopp staðfesti á föstudaginn að samningar við Brighton hefðu náðst.
  • Chelsea eru í ákveðinni FFP klemmu, og geta ekki keypt endalaust leikmenn (hver hefði haldið?) né borgað það sem þeim sýnist fyrir nýja leikmenn, nema með því að selja aðra leikmenn á móti. Þannig voru þeir nánast búnir að ganga frá kaupum á Tyler Adams frá Leeds, en bökkuðu út úr því á síðustu stundu þrátt fyrir að hafa klárað læknisskoðun.
  • Caicedo hefur sjálfur ekki samþykkt samninginn við Liverpool. Afskaplega misvísandi skilaboð hafa borist varðandi þetta atriði síðustu tvo sólarhringa eða þar um bil, þar á meðal frá Fabrizio Romano á Twitter (nei sorrý, X-ið 977) sem hefur fullyrt að leikmaðurinn vilji bara fara til Chelsea. Það er á engan hátt ljóst að þetta sé yfirhöfuð satt, þetta gæti allt eins komið frá umbunum sem eru alræmdir í fótboltaheiminum sem tómir vandræðapésar.
  • Á sama tíma hafa bæði félög verið að bjóða í Romeo Lavia hjá Southampton, sagan segir að það sé búið að samþykkja boð Chelsea upp á 52 milljónir, en alveg óljóst hvort þeir geti yfirhöfuð keypt leikmanninn ef þeir kaupa Caicedo líka. Vert að taka fram að FFP reglurnar eru afskaplega ruglingslegar, og alls ekki ljóst hvað Chelsea getur gert – né það sem e.t.v. skiptir meira máli – hvað þeir geta EKKI gert. Lavia sjálfur ku vera löngu búinn að ákveða að hann vilji koma til Liverpool, en rétt eins og í tilfelli Caicedo er allsendis óljóst hvort það skipti öllu máli á endanum. Sögur segja þó að Chelsea hafi ekkert talað við Lavia sjálfan.
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að Chelsea geti ekki jafnað eða bætt tilboð Liverpool, NEMA með því að bjóða leikmenn á móti. Þar er jafnvel möguleiki að Colwill verði látinn fara aftur til Brighton, verandi þó nýbúinn að skrifa undir 6 ára samning við Chelsea. Brighton voru mjög til í að halda í Colwill sem var á láni hjá þeim á síðasta tímabili.

Úr þessu virðist svosem nokkuð ljóst að enginn þessara leikmanna mun taka þátt í leiknum á morgun, svo kannski skiptir þetta ekki máli í leiknum sjálfum. En þetta skiptir allt talsverðu máli þegar kemur að andrúmsloftinu í kringum leikinn.

Andstæðingarnir

Chelsea mætir auðvitað með dramatískt breytt lið frá síðasta tímabili. Það að ætla að nefna alla þá sem hafa annaðhvort bæst við eða farið er nú nánast eins og ætla að þylja upp símaskrána (hvað þá ef við myndum telja með janúargluggann) en reynum nú samt. Þeir hafa keypt Nkunku frá RB Leipzig, Diasi frá Monaco, Jackson frá Villareal, Ugochukwu frá Rennes, Sánchez frá Brighton, og Ångelo frá Santos í Brasilíu. Svo hafa þeir fengið helling af leikmönnum til baka úr láni, þar á meðal téðan Colwill frá Brighton, nú og svo Lukaku en hann hefur víst verið að æfa einn og sést væntanlega ekki í Chelsea búning aftur. Þá hafa þeir selt talsvert af leikmönnum: Havertz til Arsenal, Mount til United, Kovacic til City, Koulibaly og Mendy til Arabíu, Pulisic og Loftus-Cheek til Milan o.m.fl. Nokkrir leikmenn kláruðu samningana sína í vor: Kanté, Aubameyang, Azpilicueta svo nokkrir séu nefndir. Að lokum má nefna að þeir voru með Joao Félix á láni en það varð ekki meira úr því og hann er kominn til baka til Atlético Madrid.

Þessi upptalning er í raun bara að nefna helstu nöfnin, restina má sjá hér. Já ég sagði að þetta væri eins og að lesa símaskrána.

Liðið sem þeir stilltu upp í síðasta leik þann 4. apríl sl. var svona:

Kepa

Fofana – Koulibaly – Cucurella

James – Kanté – Fernández – Kovacic – Chilwell

Félix – Havertz

Það verður semsagt ný varnarlína og ný framlína sem mæta okkur á morgun, svona í ljósi þess að Fofana er frá út tímabilið og Cucurella er ekki í náðinni. Miðjan verður líka talsvert breytt, og reyndar má reikna með allt annarri uppstillingu frá Pochettino í hans fyrsta keppnisleik með Chelsea. Fofana er reyndar ekki sá eini sem er meiddur, þannig er ljóst að Nkunku verður ekki með fyrstu mánuðina hið minnsta, Broja með slitið krossband, Badiashile er tæpur o.fl.

Jæja, nóg um þá bláklæddu. Þeir mæta með 11 menn, og verða erfiðir sem fyrr. Gerum ekki ráð fyrir neinu öðru.

Okkar menn

Liverpool mætir inn í tímabilið með ótrúlega heilan hóp þrátt fyrir allt – ef frá er talið þetta litla gat á miðjunni eftir að Fabinho var seldur, og sem verður hugsanlega fyllt með Caicedo en látum það koma í ljós með tímanum. Annars eru allir heilir, þar á meðal Thiago og Bajcetic sem mættu til æfinga í byrjun vikunnar og verða því nánast örugglega ekki í byrjunarliði á morgun en gætu byrjað á bekk. Það að Fabinho og Henderson skyldu fara – líklega frekar óvænt, en þó þannig að klúbburinn var örugglega löngu byrjaður að fasa þá báða út – þýðir að við sjáum nánast nýja miðju á morgun:

Hér gerum við sumsé ráð fyrir því að framlínan verði Salah – Gakpo – Díaz. Jújú, Nunez er búinn að vera öflugur á undirbúningstímabilinu, en Klopp er örugglega að horfa á vinnsluna hjá Gakpo í varnarvinnunni. Plús það að Darwin inn á 60. mínútu er örugglega ekkert þægileg sýn fyrir varnarmenn andstæðinganna. Svo er það spurningin með vinstri kant, líklegast er að Díaz byrji en Jota er vissulega búinn að vera mjög beittur síðustu vikur og mánuði og gæti alveg verið þarna líka.

Miðjan er líklega nánast sjálfvalin, en auðvitað er líka séns að Klopp fari í 4-2-3-1 og færi Gakpo í holuna með annaðhvort Jota eða Nunez frammi. Það er þó ólíklegt gegn Chelsea.

Nú og svo er það spurning hvernig Trent spilar, munum við sjá 3-2-2-3 þegar liðið er í sókn? Vörnin virkaði ekkert sérstaklega örugg í því kerfi í sumar, en þetta gekk vissulega vel með því kerfi í vor.

Síðustu leikir gegn Chelsea, þ.e. leikirnir á síðustu tveim tímabilum, hafa allir endað með jafntefli, flestir 0-0. Ótrúlegt að okkar mönnum skyldi ekki takast að hirða fleiri stig af þeim á síðasta tímabili, svona í ljósi þess hvernig þeim gekk. Þá er Salah búinn að skora í guðmávitahvaðmörgum opnunarleikum síðustu tímabila, og það væri gaman ef hann héldi því áfram.

Spáum 0-2 sigri með mörkum frá Salah og svo setur Szoboszlai eitt úr aukaspyrnu.

KOMA SVO!!!!

22 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel og takk fyrir að afgreiða þennan leiða þráð um Caicedo lúðann og allt í kringum það. Mín afstaða í því er að ég vil ekki sjá aula sem vilja frekar Chelsea drulluna en Liverpool enda ljóst að hann er frekar að hugsa um hið ljúfa líf í London en fótbolta. Líklega er hann með algert fífl og skemmdar verkamann sem umboðsmann eða þá að hann er fullkomið afstyrmi sjálfur. Sama er mér hvort er en hitt er ljóst að það er ekki eftirsókn í svona hlandmenni enda segir Serbi að hann sé alfarið búinn að gleyma honum, vill enda ekki leikmenn sem vilja ekki vera hjá liðinu.

    En að máli dagsins og morgundagsins. Þetta Liverpool lið á að geta unnið hvaða lið sem er ef vörnin heldur. Vonum hið besta með þessa svakalegu sóknarlínu og ansi öfluga miðju. Ég vona að okkar menn skili 3 stigum í hús í hunderfiðum leik, segjum 1 – 2

    Það er nú þannig

    YNWA

    9
  2. Menn hljóta að hafa það frá fyrstu hendi hvernig persóna Caicedo er, þ.e. frá Mac Allister. Efast um að Klopp og félagar hafi verið að eltast við einhvern rugludall, en ef svo reynist verðum við að bíta í það súra epli.
    0-1 leikur.

    9
  3. Rosalegur jafnteflis fílingur þegar þessi lið mætast uppá síðkastið en við erum með mikla ógn frammi ætla bara segja við rúllum þeim upp eins og pulsurnar sem þeir eru 1-3 fyrir okkur.
    Fokk Chelsea og þeirra hyski.

    YNWA

    5
  4. Chelsea að gera enn einn 8 ára samninginn! Við Moises Caicedo…

    1) Ekkert að marka Brighton
    2) Ekkert að marka FFP
    3) HFF!

    5
    • jæja það var gott að fá það á hreint. Sturlað verð fyrir leikmann sem hefur spjarað sig eitt tímabil. Þeir bláu læra aldrei.

      Nú er að vona að við fáum einhvern öflugan til liðsins – og helst fleiri en einn því enn vantar uppbót fyrir vörnina. Það hlýtur að vera eitthvað bitastæðara en þessi eini sem, eins og ég segi, á eitt gott síson að baki.

      Red Bull liðin hljóta að luma á einhverjum öflugum!

      Hausinn upp og áfram gakk.

      5
      • Kaupa einn DM og einn varnarmann. Klopp hlýtur að gera eitthvað í þessu. Trúi ekki öðru.

        3
    • Hvar kemur það fram? Það er enginn díll í gangi.

      1
      • Hér er vitnað í grein í Telegraph þar sem stendur: The Telegraph reported: “The west London club are sorting out the final terms of the deal after agreeing to better Liverpool’s £111 million offer that was accepted this week.”

        Þetta er endalaust sama fréttin sem segir: Það er ekkert í gangi. Chelsea er ekki búið að leggja fram boð.

        2
      • Og ég sem hélt að This is Anfield væri legit Liverpool síða.

        1
      • Ekkert að marka This is Anfield og enn síður Liverpool Echo og í raun lítið að marka fréttamiðlana yfir höfuð. Best er að fylgja fáum en góðum á Twitter sem hafa gott track record af því að bjóða upp á staðreyndir eða líklegan sannleik.

        3
  5. Ég get bara ekki sætt mig við þennan helvítis endurtekna vandræðagang við leikmannakaup og tek því hraustlega undir með Henderson14 hér að ofan.

    5
    • Hvaða vandræðagang ertu að tala um? Komnir inn tveir flottir kallar í sumar og sá þriðji á leiðinni. Frábær endurnýjuð framlína. Sem sagt drullugott lið. Skil ekki þessa hysteríu. Bara barnalegt.

      15
  6. Já Kristján, skoðum bara og teljum alla þá miðjumenn sem eru farnir. Þar vantar enn eitthvað upp á og líka í vörnina takk.

    9
    • Sammála þér Stefán, amk einn miðjumann vantar og einn í vörnina myndi ekki saka ef einhver væri á lausu á VvD kaliberi.

      8
  7. Og hver er staðan núna?? Man ekki eftir jafnmiklu rugli! Henry að fljúga til London.. Er Chelsea búið að bjóða?

    2
  8. Takk fyrir þessa upphitun. Núna verður maður að hætta að svekkja sig á FSG og byrja að njóta fótboltans. Við erum með eitt skemmtilegasta liðið þó svo það vanti upp á vörnina. Peningar eru til staðar og vilji til að kaupa.

    Nú er bara að mæta trylltir til leiks og vinna þennan fyrsta leik sem er í raun fáránlega mikilvægur. Hvorugt liðið vill tapa þessum leik það er nokkuð ljóst.

    Það væri viss sigur að halda hreinu í ljósi umræðu sumarsins. Ég reikna ekki með því samt. Held bæði lið setji mark. 1-1. En þar sem þetta er fyrsti leikur tímabilsins og allt það þá ætla að henda inn sigurmarki í lokin, Mohamed Salah, kóngurinn sjálfur skorar og setur tóninn fyrir tímabilið.

    Koma svo!!! Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    4
  9. Eins og kop-þjóð veit þá er byrjunarliðið gott og breidd hér og þar en annarsstaðar alls ekki. Finnst þetta chelsea lið eitt mests málaliða lið sem sést hefur og Poch þarf tíma. Verð hissa ef lfc skorar ekki 3-4 mörk en þá er bara að vona að bláir skori ekki meira en tvö. Segi 4-1. Sjáðu birgir hvað ég er bjartsýnn.

    4
  10. Mitt lið í dag í 3 – 4 – 1 – 2 leikkerfinu:

    Alisson; Gomez, Konate, Virgil; TAA, Mac Allister, Jones, Robertson; Gakpo; Salah og Nunez

  11. 4-1-5 er nýja kerfið.

    ————-Alison—————–
    Trent – Konate – VvD – Robbo
    ————-Mac Allister———–
    Salah – Szobo -Jones -Jota
    ————–Gakpo——————

    Spá: 6 – 6 jafntefli.

    1

Uppfært: Tilboð samþykkt í Caicedo!

Liðið í fyrsta deildarleik tímabilsins