Hvað er betra núna en fyrir ári síðan?

Liverpool átti mjög vont tímabil í fyrra m.v. standardinn sem félagið hefur sett undanfarin ár. 5.sæti og 67 stig duga reyndar í Meistaradeildarsæti á þessu tímabili en 23 stig af 27 mögulegum í síðustu níu umferðunum fegra stöðuna í deildinni umtalsvert. Raunar voru það þessi fjögur stig sem okkur vantaði á endanum uppá Meistaradeildarsæti. Kosturinn við það þegar nýtt tímabil byrjar  eftir svona vetur er að það er hellings svigrúm til bætinga. Aðalumræðuefnið núna er auðvitað skortur á nýjum leikmönnum en það er ekki eins og það sé ekki margt jákvæðara núna en fyrir ári síðan.

Stigasöfnun gegn neðri helmingi deildarinnar

Það sem helst felldi Liverpool á síðasta tímabili var fullkomlega afleit stigasöfnun gegn liðunum sem enduði í 11. – 20. sæti deildarinnar, liðin á blaðsíðu 2 á textavarpinu. Þarna hafði Liverpool árin á undan verið allt að því óaðfinnanlegt og síðasta ár því rosaleg vonbrigði.

Það eru 60 stig í boði í þessum 20 leikjum og Liverpool náði bara 36 stigum eða 1,8 stig (60%) að meðaltali í leik. Árangurinn var í raun eins í þessum 18 leikjum sem Liverpool spilaði gegn liðunum í efri hluta deildarinnar eða 1,7 stig að meðaltali í leik.

Man City vann titilinn í þessum leikjum, töpuðu stigum í aðeins tveimur leikjum gegn liðunum í 11.-20. sæti, báðir enduðu með jafntefli. Man City var raunar litlu betra en Liverpool í leikjunum gegn efri helmingi deildarinnar.

Hjá Arsenal var jafnvægið nokkuð gott en töpuð stig í þessum leikjum á endanum gerðu útslagið. Það má reyndar líka alveg hafa í huga að þeir tóku 5 stig af Liverpool á síðasta tímabili sem hefðu aldrei átt að vera svo mörg m.v. gang þeirra leikja.

Til að setja betur í samhengi hversu lélegur árangur Liverpool var gegn lélegustu liðunum er að horfa til þess að Chelsea var með fleiri stig gegn þessum liðum í 18 leikjum (þeir telja sjálfir sem eitt af liðunum í neðri hlutanum). Á móti er reyndar rosalegt að horfa til þess að Chelsea fékk 10 stig gegn liðunum í efri hluta deildarinnar af 60 mögulegum. Þar af tvö gegn Liverpool!

Gegn nýliðunum á síðasta tímabili náði Liverpool í aðeins 10 stig af 18 og þar af töpuðust tvö strax í fyrsta leik gegn Fulham og hefðu mjög hæglega getað verið þrjú töpuð þar. Vonandi er Liverpool núna betur undirbúið fyrir veturinn að ná meira en 10 stigum gegn Sheffield United, Luton og Burnley.

Eins var árangurinn gegn liðunum sem féllu lélegur, 13 stig af 18 mögulegum, fullt hús þar og Liverpool væri í Meistaradeildinni í vetur. Þar svíður aðallega tapið á heimavelli gegn Leeds, liði sem Liverpool vann 1-6 í útileiknum. 4-4 jafntefli gegn Southampton í lokaleikjum þarf kannski ekki að taka of hátíðlega enda ekkert undir í þeim leik.

Hvernig bætir Liverpool sig gegn rútuliðunum?

Hérna gildir það að hafa sóknarleikinn í lagi það er fjölmargt sem bendir til þess að Liverpool sé vel í stakk búið til að spila miklu betri og beinskeyttari sóknarleik gegn þessum liðum í vetur. Eins vinnur miklu lengri uppbótartími vonandi með okkar mönnum enda pakka þessi lið flest gjörsamlega í vörn og komast upp með allar mögulegar útgáfur af leiktöfum sem til eru í bókinni.

Liverpool skoraði ekki mark í sjö af þessum tuttugu leikjum gegn liðunum í neðri hluta deildarinnar á síðasta tímabili sem er galið lélegt. Liverpool skoraði eitt mark í þremur leikjum til viðbótar. M.ö.o. í helmingi leikjanna gegn liðunum i neðri hluta deildarinnar skoraði Liverpool aðeins þrjú fokkings mörk.

Liverpool fann fjölina ágætlega undir lok síðasta tímabils og skoraði t.a.m. 27 mörk í síðustu 10 leikjunum á tímabilinu.

Hópurinn er mun betri á blaði sóknarlega

 • Diogo Jota missti alveg af fyrri helmingi síðasta tímabils og var búinn að spila tæplega 200 mínútur í deildinni eftir 20 umferðir. Hann náði heilu ári án þess að skora mark sem er ótrúlegt m.v. hvernig hann hefur verið eftir að hann skoraði loksins. Hann var augljóslega lengi að ná sér af meiðslunum eftir áramót. Núna er hann búinn að vera heill frá því um áramót og náði öllu undirbúningstímabilinu þannig að vonandi er Liverpool bókstaflega að fá auka leikmann í Jota m.v. stöðuna fyrir ári síðan.
 • Darwin Nunez (einu alvöru leikmannakaup síðasta sumars) var búinn að spila 35% af mögulegum mínútum eftir 11 umferðir. Hann fékk heimskulegt rautt í öðrum leik sem hjálpaði alls ekki og náði hann sér aldrei almennilega á strik. Hroðaleg holning á Liverpool liðinu hjálpaði honum alls ekki en eins var fullkomið hrun í færanýtingu hans m.v. árið á undan hjá Benfica. Hann var með 33,3% færanýtingu þar sem er sturlað en um 10% hjá Liverpool í fyrra. Ef hann nær einhverjum milliveg á þessu í vetur er Liverpool í fínum málum með Nunez.  Eins fer Liverpool í inn í tímabilið með það góða breidd í frammlínunni að Nunez er líklega 4. eða 5. valkostur Klopp.
 • Luis Diaz gæti einn og sér gefið okkur ástæðu til að vera bjartsýnni á sóknarleik Liverpool núna, auðvitað gefið að hann verði heppnari með meiðsli í vetur. Diaz var langbesti leikmaður Liverpool fyrstu 10 umferðir síðasta tímabils en kom svo ekkert við sögu í 21 leik eftir það og var varamaður í þremur eftir það. Hann missti því nánast alveg af 24 af 38 leikjum síðasta tímabils. Hefði Liverpool náð þessum fjórum stigum sem vantaði með Diaz í fullu fjöri mest allt tímabilið? Líklega er aðeins vanmetið hversu mikið Liverpool saknaði hans í fyrra og eins má alveg gera ráð fyrir að hann geti enn bætt sig umtalsvert rétt eins og Nunez, Diaz var líka að skila frábærum tölum hjá Porto áður en hann kom til Liverpool.
 • Cody Gakpo var ekki leikmaður Liverpool fyrr en undir lok janúar og hefur aldrei fengið neinn æfingatíma að ráði til að læra á aðferðafræði Klopp líkt og jafnan er gert á dýptina á undirbúningstímabilinu. Hann hefur verið mjög góður hjá Liverpool en ætti á sama tíma alls ekkert að vera kominn upp í sitt þak sem leikmaður. Áður en hann fór til Liverpool var hann að koma að marki hjá PSV á 54 mínútna fresti. 9 mörk og 12 stoðsendingar í 14 leikjum!
 • Ben Doak ætti svo mjög fljótlega að fara koma meira inn í umræðuna sem valkostur og verður líklega töluvert á bekknum í vetur. Spáið í því að hlaupa á eftir Salah eða Diaz í 85 mínútur og fá þennan svo síðustu fimm og svona 10 mínútna uppbótartíma!
 • Salah átti tölfræðilega eitt sitt versta tímabil í fyrra, kannski eðlilega m.v. hvað sóknarleikurinn var steingeldur. Hér er klárlega töluvert svigrúm til bætinga.
  • Salah skoraði 19 mörk en spilaði mun fleiri mínútur en oft áður. Hann var að skora mark á 174 mínútna fresti sem er töluvert frá hans besta. Tvö af þessum mörkum voru úr vítum en hann klúðraði líka tveimur mikilvægum vítum.
  • Á móti er Salah að skapa helling fyrir samherja sína og kannski réttara að dæma hann út frá beinni aðkomu að mörkum, mörk + stoðsendingar. Hann var að koma að marki á 106 mínútna fresti á síðasta tímabili sem er sjötta besta árið hans undanfarin átta tímabil.
  • Samkeppni í liðinu verður mögulega til þess að Salah spilar ekki eins mikið í vetur, inn í þessa tölfræði vantar líka alveg Meistaradeildina þar sem Salah hefur einnig spilað nánast alla leiki og kom að 10 mörkum síðasta vetur.

Miðjan partur af sóknarleiknum? 

Það er hægt að ná árangri á ýmsa vegu og t.a.m. hefur Liverpool sýnt það alla stjóratíð Klopp að það er ekki lögmál að miðjan sé lykilpartur af sóknarleiknum. Hópurinn núna bendir engu að síður sterklega til að planið í vetur sé að snarbreyta því.

Mesta sem miðjumaður hefur skorað undir stjórn Klopp er átta mörk  (Lallana 16/17 og Fabinho 21/22). Þetta er kjánalega galið rétt eins og tölfræðin yfir spilaðar mínútur miðjumanna Liverpool undir stjórn Klopp. 

Szoboszlai, Jones og Elliott eru allir miklu meira sóknarþenkjandi miðjumenn heldur en varnatengiliðir og hafa allir sýnt að þeir geta bæði skorað og lagt um mörk. Meðalaldur þeirra er 21,7 ár og bindur maður miklar vonir við að þeir verði miklu oftar til taks en sóknartengiliðir eins og Keita, Ox, Lallana (og Jones) hafa verið undanfarin ár. Það að losna við Keita og Ox fyrir vonandi hraustari leikmenn er eitt og sér töluvert breyting til batnaðar.

Mac Allister sem líklega verður aftar en þessir þrír skoraði 10 mörk á síðsta tímabili sem er jafn mikið og Jordan Henderson hefur skorað í deildinni frá tímabilinu 2016/17, eða semsagt frá því Klopp tók við Liverpool. Höldum samt alveg í hestana varðandi AMA, sex af þessum mörkum komu af vítapunktinum. Arsenal er kannski betra dæmi til að miða við, Ödegaard setti 15 mörk í fyrra og Xhaka 7 mörk. Væri gaman að sjá svona framlag frá miðsvæðinu hjá Liverpool og líklegra með núverandi leikmenn.

Kaup á Lavia (7,9,13) og valkostir eins og Thiago og Bajcetic benda svo til að Liverpool ætlar að stilla upp meira sóknarþenkjandi aftasta miðjumanni en við þekkjum. Þetta er nota bene alls ekkert endilega jákvæð þróun…

Iðnaðarmiðjan svokallaða með Henderson, Wijnaldum, Fabinho og Milner var partur af besta Liverpool liði sögunnar og engin ástæða til að tala þá niður, leikplanið snerist klárlega ekki um sóknarframlag frá þeim, en það er líka alveg spennandi að sjá nýja hugmyndafræði og smá sóknarleik frá miðsvæðinu.

Útivallarformið

Liverpool tapaði stigum í 13 leikjum af 19 á útivelli og náði aðeins í 23 stig. 40% árangur sem er bara skelfilegt. Þar af eru aðeins 13 stig (af 30) í útileikjunum gegn liðunum í 11. – 20.sæti

Þetta er litlu skárra en Chelsea síðasta vetur og eins er áhugavert að sjá United með litlu betri árangur á útivelli. Þeir voru hinsvegar mjög solid á Old Trafford. Eins Man City, þeir kláruðu nánast alla sína heimaleiki.

Ekki bara var Liverpool lélegt á útivelli, þarna inn á milli eru leikir eins og 3-0 skellur gegn Wolves, 3-0 niðurlæging gegn Brighton, 3-1 gegn Brentford og svo tap gegn Bournemouth sem Liverpool vann 9-0 á Anfield. Tap gegn Nottingham Forest svíður líka hressilega, það komið í kjölfarið á tapi heima gegn Leeds!

Vonandi dugar sóknarkraftur Liverpool til að stórbæta árangurinn í þessum leikjum.

Markatalan almennt

Þrátt fyrir að ekki sé búið að kaupa arftaka Fabinho og Henderson á að vera hægt að gera kröfu á félagið að bæta markatöluna í vetur frá báðum endum.

2022/23 var afleitt ár varnarlega, verra en tímabilið þegar allir miðverðir Liverpool lentu í langtímameiðslum fyrir áramót!

 

 

 • 22/23 – 47 mörk fengin á sig
 • 21/22 – 26 mörk
 • 20/21 – 42 mörk (árið sem vörnin var ekki með)
 • 19/20 – 33 mörk
 • 18/19 – 22 mörk
 • 17/18 – 38 mörk
 • 16/17 – 42 mörk

47 mörk á síðsta tímabilið er í raun bara galið dæmi, mögulega erum við að fara inn í tímabil varnarlega sem svipar eitthvað til 2013/14 eða 2016/17 en krafan á samt að vera á að skafa 10-15 mörk af þessu bulli frá síðasta tímabili. Það gæti vel skilað sér í 10-15 stigum nota bene.

Fyrsta ár Klopp þegar Liverpool fór í úrslit í öllum bikarkeppnum og var með afleita vörn og verri markmenn var fimm mörkum betra varnarlega en síðasta tímabil. Phillips og Williams vörnin með Kabak og skuggann af Ben Davies til vara fékk líka “bara” á sig 42 mörk. Það ætti að gefa einhverja mynd af því hvað síðasta tímabil var ömurlegt varnarlega,

Liverpool á aldrei að fá á sig 1,2 mörk að meðaltali í leik og það er satt að segja mikið áhyggjuefni að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á það í sumar að gera eitthvað í þessari tölfræði.

 

Liðið á einnig mjög mikið inni sóknarlega.

Síðasta tímabil var nefnilega svo rosalega kaflaskipt. Eftir 28 umferðir í byrjun apríl var Liverpool búið að skora 48 mörk eða 1,7 mörk að meðaltali í leik. Partur af þeirri tölu eru 9-0 og 7-0 leikir.

Þannig að í hinum 26 leikjunum var Liverpool bara búið að skora 32 mörk eða 1,2 mörk að meðaltali í leik! Þarna er ROSALEGT svigrúm til bætinga.

Liverpool endaði síðustu 10 leikina með því að skora 27 mörk eða 2,7 mörk að meðaltali í leik sem er miklu nær því sem við þekkjum frá Liverpool. 75 mörk síðasta vetur gefa því eiginlega ekki alveg rétta mynd af síðasta tímabili. Það væri kannski allt í lagi ef við dreifum 22 mörkum í þremur leikjum betur á hina leikina. Liverpool er samt núna með 90-100 marka sóknarlínu myndi maður halda.

 

 • 22/23 – 75 mörk
 • 21/22 – 94 mörk
 • 20/21 – 68 mörk
 • 19/20 – 85 mörk
 • 18/19 – 89 mörk
 • 17/18 – 84 mörk
 • 16/17 – 78 mörk

Eðlilegra undirbúningstímabil og ekkert HM

Liverpool skeit í buxurnar á leikmannamarkaðnum síðsta sumar og það kostnaði hressilega. Síðasta sumar vantaði einmitt hvað mest ferskt blóð á æfingasvæðið því að líklega er aðeins vanmetið hversu mikið tímabilið á undan tók úr Liverpool liðinu, bæði andlega og líkamlega. Liverpool fór í úrslit í öllum keppnum og tapaði útslitaleik Meistaradeildarinnar og helvítis deildinni aftur á einu stigi. Gamla bandið var einfaldlega orðið bensínlaust, sérstaklega á miðsvæðinu eins og sást. Þar vantaði mest nýtt blóð og var öllum ljóst. Eins fóru bæði Mané og Salah alla leið í Afríkukeppninni til að toppa leikjaálagið. Bobby Firmino var svo ekkert Bobby Firmino síðustu tvö tímbilin sín hjá Liverpool.

HM hafði einnig töluverð áhrif á undirbúning síðasta tímabils þó líklega hafi það mót verið hálfgerð guðsgjöf í nóvember m.v. formið hjá Liverpool. Gengi liðsins batnaði samt lítið sem ekkert eftir að HM lauk en maður myndi ætla að Klopp og flestir þjálfarar í deildinni séu því fengir að þessi vitleysa sé ekki yfirvofandi aftur í vetur.

Liverpool spilaði 63 leiki af 63 leikjum mögulegum 2021-22 og breytti hópnum nánast ekki neitt um sumarið. Núna í vetur spilaði Liverpool “aðeins” 52 leiki og framundan er leikaprógramm í Evrópu þar sem fram að áramótum er hægt að dreifa álaginu töluvert mikið meira en mögulegt er að gera í Meistaradeildinni.

Fimm lið frá Englandi í Meistaradeildina

 

 

Eins vont og síðasta tímabil var þá hefði það samt dugað til að ná í Meistaradeildina núna í vetur þegar England fær fimm sæti.

Auðvitað er samkeppnin rosaleg áfram en Liverpool á sannarlega að vera vel samkeppnishæft, sérstaklega ef Meistaradeildin er takmarkið, titillinn virkar full langt frá í bili eftir kjaftshöggið sem síðasta tímabil var og aðgerðarleysi í sumar.

Arsenal er klárlega að gera það sem þeir geta til að stimpla sig inn sem Meistaradeildarlið og ættu að ná því með leikmannakaupum sumarsins. Jafnvel klárir í titlbaráttu aftur, það er samt öllu erfiðara samhliða Meistaradeildinni. Þeir voru ekki sterkari í Evrópudeildinni en svo að Sporting sendi þá heim í 16-liða úrslitum.

United og Newcastle ætla sér klárlega líka að festa sig í sessi en síðasta tímabil fannst mér þau bæði meira ósannfærandi en niðurstaða í deildinni gaf til kynna og raunar alveg sorglegt að Liverpool hafi verið svo slappt að enda fyrir neðan þessi lið. Vantaði á endanum bara fjögur stig þátt fyrir allt sem kannski segir eitthvað.

Chelsea hugsa ég að sjái fyrir sér flug-come-back og blandi sér strax aftur í Meistaradeildarbaráttuna. Þeir eru með alvöru stjóra núna og kaupa bara allt það sem þeim langar á leikmannamarkaðnum. Þeir eru alls ekkert í sumar að reyna rétta af eyðslu síðasta tímabils, bæta frekar í ef eitthvað er.

Önnur leið í Meistaradeildina er svo auðvitað að vinna Evrópudeildina. Liverpool hefur nú farið fjórum sinnum í úrslit í Evrópukeppni undir stjórn Klopp og er satt að segja með allt of gott lið til að vera í þessari helvítis keppni.

Þannig að, þetta er ekkert bara bölmóður hjá okkar mönnum, næsta tímabil er jú að sjálfsögðu okkar.

16 Comments

 1. Frábært tímabil framundan!

  Góður pistill og vonandi hættir þessi bölmóður ef við kaupum Lavia til að sitja á bekknum.

  “Playing football is very simple, but playing simple football is the hardest thing there is.” (Cruyff)

  4
 2. Frábær pistill og raunhæfar væntingar. Við getum jú hvorki vænst stöðuleika né titla með svona laskaða vörn. En það stefnir í fjör í leikjum liðsins í vetur!

  Svo er það lenska að tala um ,,sóknarlega” og ,,varnarlega” í allri umfjöllun um fótboltann. Þetta orðfæri virðist hafa fest sig í sessi. Það mætti samt alveg krydda umfjöllun með fjölbreyttara málfari: Góðir/lélegir í vörn/sókn, sækja vel/illa, verjast vel/illa, sóknin/vörni er góð/léleg/verri/betri osfrv.

  1
 3. Miðað við hópinn í dag er Liverpool að stefna á að skora fleiri mörk en andstæðingurinn í vetur (staðfest). Það boðar aldrei gott. Vörnin er mjög opin og öll lið munu spila upp á veikleika liðsins sem eru kanturinn hans Trent, eins og þetta lítur út í dag mun Liverpool fá á sig mark/mörk í flestum deildarleikjum vetrarins.

  Ekki má gleyma mikilvægi þess að hafa sterka miðju varnarlega þegar fækka á mörkum sem LFC fær á sig. Muna menn þegar liðið var með bestu Klopp miðju allra tíma ? hversu oft komu Wijnaldum, Henderson og Fabinho honum Trent til bjargar með því að hlaupa uppi kantmenn sem voru lausir eftir hlaup upp kantinn hans. Helvíti oft enda fékk liðið á þessum tíma mun færri mörk á sig en í dag þrátt fyrir mikla hápressu.

  Síðasta vor tala Klopp um að það yrðu stór leikmannakaup í sumar, hvað er að frétta þar?. Einnig var Liverpool að leitast eftir því að kaupa einn leikmann í viðbót á miðjuna þegar Fabinho og Henderson voru ennþá leikmenn Liverpool, til að auka breiddina á miðjunni sem jú (breiddin) hafði orðið Liverpool að falli á síðasta tímabili. Nú er staðan þannig að Fabinho og Hendo eru farnir og 4 dögum fyrir fyrsta leik vantar LFC þrjá leikmenn á miðjuna miðað við fyrri áætlanir til að hafa góða breidd. Maður skilur ekki upp né niður í þessum leikmannamálum.

  Las viðtal við Fabinho (áður en hann var seldur) þegar Liverpool var búið að kaupa Sobo og Mac Allister, í því viðtali sagðist Fabinho mjög ánægður með kaupin og til að ná árangri í Klopp bolta þyrfti Liverpool að hafa 5-6 sterka leikmenn á miðjunni, vegna álags og ákefðar. Já 5-6 leikmenn á miðjunni til að hafa breiddina sem þarf til að vinna titla og keppa við þá bestu í meistaradeildinni.

  Er nema von að maður spyrji sig hvað er LFC að pæla, er markmiðið að missa önnur lið lengra frá sér og vera bara í keppni um Evrópusæti. Það bendir allt til þess miðað við stöðuna á hópnum í dag.

  11
 4. Skemmtilegar pælingar og fínar hugleiðingar.

  Ef við miðum við liðið sem átti möguleika að vinna alla titla sem voru í boði 21/22 hefur liðið frá þeim tíma veikst stórkostlega að mínu mati. Það byrjaði á því að við seldum Mané sumarið 2022 sem var á þeim tíma einn besti sóknarmaður í heimi og keyptum ekki heimsklassa miðjumann. Það var svo sem ekkert stórkostlegt ákall eftir nýjum miðjumanni um sumarið 2022 en eftir á að hyggja hefði slíkt verið nauðsynlegt.

  Því miður hafa kaupin á Nunez verið vonbrigði og ég er ekki viss um að hann sé hluti ef okkar besta liði í dag. Í raun tel ég að liðið sem Klopp stillti upp í síðasta æfingaleik sé okkar sterkasta byrjunarlið en það er hrópandi hvað liðið hefur veikst gríðarlega á miðjunni. Kaupin á Gagpo voru reyndar frábær og kannski stærsta ástæðan fyrir því hvað okkur gekk vel í síðustu 9 umferðunum í fyrra.

  Eins og staðan er í dag er þessi sumargluggi sá versti sem ég man eftir. Mun verri en í fyrra. Það lá fyrir að við þyrftum 3 nýja miðjumenn og það er ennþá staðan. Mac Allister og Sloboslai eru góð kaup en ég er ekki viss um að þeir fylli skörðin sem Henderson og Fabinho skyldu eftir sig. Sérstaklega Fabinho. Ég efast reyndar um að Sloboslai sé tilbúinn í slaginn og tel að hann þurfi nokkra mánuði þangað til hann fer að sýna sitt besta.

  Salan á Fabinho er svo líklega sú versta sem ég man eftir frá því að Klopp tók við. Hreint út sagt skelfilegt að selja einn besta djúpa miðjumann í heimi á skitnar 40 milljónir punda. 29 ára gamlan, án þess að vera búinn að tryggja sér leikmann í staðinn. Ég bara hreinlega næ þessu ekki. Eltingaleikurinn við Lavia er svo einhverskonar brandari. Hann er ekki einn af bestu miðjumönnum í heiminum og í raun ekkert sem segir að hann verði það. Jú 19 ára og lofar góðu eftir einhver ár en það að Man City var ekki reiðubúið að veðja á hann ætti nú að segja eitthvað. Og hann kostar líka skildinginn.

  Ég sé í augnablikinu engan sem gæti fyllt skarðið hans Fabinho og slíkur leikmaður er ekki á lausu sýnist mér. Kannski Caicedo en það er bara eitthvað bilað að selja Fabinho á 40 milljónir punda og kaupa Caicedo á 90 milljónir punda í staðinn.

  Og svo hefði ég haldið að liðið þyrfti að styrkja varnarlínuna. Mér finnst það blasa við að ef við verðum fyrir skakkaföllum í miðvarðastöðunni, eins og getur jú gerst, þá erum við einfaldlega í hræðilegum málum. Enginn Fabinho til að verja vörnina og Matip farinn að gefa eftir. Ég vil taka það fram að ég tel Gomez ekki valkost í miðvarðarstöðuna. Það verður svo hrikalegt dropp í gæðum þegar hann spilar í miðverðinum, því miður. Og svo þarf líka að kaupa hægri bakvörð. Sérstaklega ef Klopp ætlar að færa Trent inn á miðjuna.

  Ég skal samt alveg viðurkenna að mér lýst alls ekkert illa á Trent og Gagpo á miðjunni og tel það reyndar vel koma til greina. En þá verðum við að kaupa öflugan hægri bakvörðu og sóknarmann og slíkt virðist ekki vera í spilunum.

  Í fyrra var það ekki fyrr en í síðustu 9 umferðunum sem liðið sýndi sitt rétta andlit og það glitti í það besta sem Liverpool hefur sýnt undanfarin ár. Fabinho og Henderson voru hluti af því liði. Ef liðið verður heppið með meiðsli í vetur gæti tímabilið orðið fínt en eins og staðan er í dag höfum við ekki lengur mannskap til að keppa við Man City um titilinn og líklega ekki Arsenal heldur. Svo eru Chelsea búnir að fá alvöru stjóra og man united hafa styrkt hópinn sinn þó ég telji okkur ennþá vera með betri 11 fyrstu en þeir. Sem sagt versti gluggi sem ég man eftir hingað til frá því að Klopp tók við og fátt sem bendir til þess að hann eigi eftir að batna mikið.

  Vonum samt hið besta.

  Áfram Liverpool!

  9
  • “Það var svo sem ekkert stórkostlegt ákall eftir nýjum miðjumanni um sumarið 2022”

   What? Heldur betur og Klopp hélt mikla eldræðu um sumarið til að verja hópinn gegn þessari gagnrýni. Það var mjög augljós hola í hópnum 2022

   5
   • Ég man ekki eftir þeirri umræðu, sérstaklega ekki hér á Kop, en það getur vel verið að mig misminni eða umræðan farið fram hjá mér.

    Persónulega fannst mér miðjan okkar ógnarsterk eftir ótrúlegt 2021/22 tímabilið með Fabinho, Henderson, Thiago, Keita, Milner og Ox á miðjunni og Jones og Elliot þar fyrir utan. Mér fannst umræðan þá snúast um að gera tilboð í Bellingham og var spenntur fyrir Tchouameni. Bæði reyndist óraunhæft og gekk ekki eftir. Ég man ekki eftir að fleiri leikmenn hafi verið orðaðir við Liverpool þá um sumarið svo einhverju nemi eða að það hafi verið sterkt ákall um að einhverjir aðrir væru keyptir til liðsins.

    Ég man ekki betur en að sú umræða hafi byrjað seint um haustið að einhverju ráði eftir að nánast öll miðjan okkar lagðist í meiðsli en eins og ég segi það getur vel verið að mig misminni.

    3
  • Gefum Nunez meiri séns allavega hann skoraði 15 mörk á sínu fyrsta tímabili kom í nýja deild og kunni ekki stakt orð í ensku.

   Mané skoraði hvað 13 mörk á sínu fyrsta tímabili? : )

   15
   • Ég er sammála því að gefa Nunez meiri séns en samanburðurinn við Mané er erfiður þar sem þeir eru svo ólíkir. Mané var mjög duglegur “aggresivur” og vann mikið fyrir liðið en mér sýnist Nunes vera meiri svona týpa sem hangir í snýkjunni eins og sagt var í skólanum í gamla daga. Þ.e. vera rétt staðsettir ( Rush, Haaland). Svoleiðis menn eru gulls ígildi ef þeir raða inn mörkum annars hverfur þolinmæðin fljótt eins og t.d. með Carrol. Þetta byggir á að þeir séu mataðir rétt sem aftur byggir á liðsheild.

    1
  • Ef þetta gengur eftir er FSG heldur betur búið að skíta í deigið. Og ég stend við mína spá: það verða engir fleiri menn í sumar en einn ódýr keyptur í janúar…

   1
 5. Hvað er samt með chelsea og að kaupa alla leikmenn.
  En það væri óþolandi að missa af þessum leikmanni útaf því að þeir tíma ekki að borga 50mp

 6. Þetta er ótrúlegt ! En getur einhver útskýrt þessa FFP reglu aftur fyrir mér.
  Liverpool er búið að biðja um þetta, djöfull er ég brjálaður, það hlýtur að vera annað plan 🙁

  • Það er bara ósk okkar að það sér einhvert plan, það er ekkert plan hjá FSG og hefur aldrei verið, svo einfallt er það!

   Ef þessir anskotans eiganda aumingjar væru í takt við raunveruleikann hefðu þeir keypt það sem Jurgen Klopp vantaði í liðið í vor.

   Liverpool er ekki samkeppnishæft við hin liðin sem eiga peninga til að kaupa allan heiminn
   með FSG verðum við alltaf tveim til þrem skrefum á eftir hinum liðunum.

   Vonandi er að styttast í því að FSG selji klúbbinn til eiganda sem getur fært þjálfaranum þann pening til leikmannakaupa sem þarf til að ná þeim árangri sem stórlið eins og Liverpool Fc á skilið.

   2
 7. Það er ótrúlegt að detta í hug að selja Fabinho án þess að vera klárir með leikmann til að fylla í skrarðið og lítið virðist vera að gera í þeim málum.

  3
 8. Núna er talað um að Al Ahli sé að bjóða 12 millur í Thiago
  Ég hefði alltaf frekar viljað losa Thiago út frekar en Fabinho eða Hendo en það væri galið að taka tilboði í hann í sumar. Sérstaklega þar sem Liverpool virðist ekki getað keypt eða samið um eitt eða neitt.

  1
 9. það er verið að tala um að Liverpool ætli þá að yfirbjóða Chelsea í Moises Caicedo en hann vilji frekar fara til Chelsea sem ætla sér að fá Moises Caicedo, Romeo Lavia og Tyler Adams
  Fer þetta ekki að verða fullþreytt með þetta chelsea lið sem halda kaupstefnunni sinni áfram sem er að kaupa sem allra mest af leikmönnum.

  Liverpool have made contact with Brighton over a potential deal for Moises Caicedo. No offer yet. (
  @JamesPearceLFC
  )

Síðasti æfingaleikur fyrir fréttir

Spá Kopverja er mætt!