Staðan á leikmannamarkaðnum

Undanfarin ár hefur Liverpool bara alls ekkert verið snjallari á leikmannamarkaðnum en helstu andstæðingar í deildinni, mikið nískari en ekkert snjallari. Raunar má vel færi rök fyrir því að níska undanfarin ár sé að kosta félagið núna.

Fyrir utan Klopp og hans teymi hefur verið lítill sem enginn stöðugleiki í stærstu stöðunum bak við tjöldin og kannski erum við að sjá afleiðingar þess núna í sumar og síðasta sumar. Stjórnartíð Michael Edwards var alls ekkert fullkomin hjá Liverpool en maður gat alltaf treyst að þeir sem réðu ríkjum bak við tjöldin vissu hvað þeir væru að gera og það væri langtímaplan sem verið var að vinna eftir. Út á við virtust menn ganga í takti og árangurinn var í samræmi við það.

Vildarpunktastaða stuðningsmanna Liverpool varðandi leikmannakaup kláraðist endanlega á lokadegi síðasta sumarglugga þegar Arthur kom meiddur á lánssamningi sem varnarsinnaði miðjumaðurinn sem hafði verið orðaður við Liverpool allt árið fram að því. Panic viðvanings viðskipti sem gátu á endanum ekki farið neitt verr. Frá áramótum var búið að tala um Tchouaméni sem endaði með Arthur á láni. Liverpool liðið hafði þá um vorið endað í öðru sæti í deild og Meistaradeild og unnið báða bikarkeppnirnar. Hlutabréfin gátu ekki verið neitt mikið hærri komandi inn í leikmannagluggann.

Núna er slíkt kjaftæði ekki í boði enda búið að selja Fabinho og alla helstu mögulegu varamenn hans. Það er rosalega vont að ekki sé búið að klára byrjunarliðs varnartengilið þegar vika er í fyrsta leik en sjáum til hvað kemur upp út hattinum í ágúst, þetta er alls ekki sannfærandi enn sem komið er allavega. Það er eins gott að félagið samþykkti ekki tilboð í Fabinho án þess að vera nokkurnvegin búið að ganga frá arftaka hans. Liverpool var alfarið í bílstjórasætinu í þeim viðskiptum og þurfti alls ekkert að selja Fabinho og ætlaði sér líklega ekkert að gera það. Það að tilboði í hann sé tekið á núll einni gefur til kynna að félagið sé klárt með mótleik.

Það að Liverpool sé ekki lengur neitt snjallara á leikmannamarkaðnum en önnur topplið er miklu stærra vandamál núna en það var enda komin of mörg lið sem eru að eyða mun hærri fjárhæðum í leikmannakaup en okkar menn. Hin toppliðin mega betur við mistökum á leikmannamarkaðnum. Hjá Liverpool skiptir það í alvöru máli að lánsmaðurinn Arthur geti ekki spilað meira en 13 mínútur. Man City gat á sama tíma keypt Kalvin Phillips á €50m og haft hann á bekknum allt tímabilið.

Hóparnir og leikmannakaup sumarsins hjá hinum liðunum.

Skoðum hópana eins og staðan er í dag (5.ágúst) hjá hinum liðunum, hvað er búið að kaupa og hvað þau eru líkleg til að gera á næstu vikum og hvernig koma þau til leiks.


Arsenal

Undanfarin ár hefur Liverpool þrisvar sinnum spilað til úrslita í Meistaradeildinni og háð blóðuga titilbaráttu við Man City. Í kjölfarið á öllum þessum tímabilum var maður að gera sér vonir um nákvæmlega eins leikmannaglugga og Arsenal er að eiga i sumar. Þarna er verið að sýna metnað og vilja til að halda liðinu á þeim stalli sem tók þá tæplega áratug að komast á aftur. Undanfarin tvö tímabil er búið að kaupa leikmenn fyrir tæplega €320m þannig að eyðslan í sumar er ekki einu sinni það mikið út úr kú fyrir stuðningsmenn Arsenal.

Rice er fullkomlega leikmaðurinn sem við erum að kalla hvað mest eftir núna og styrkir Arsenal verulega með uppöldum leikmanni sem kemur inn í stað Partey sem líklega fer frá Arsenal núna í ágúst. Hann hefur bæði verið orðaður við Juventus og fangelsi sem dæmi, svipaðir búningar svosem.

Timber er annar leikmaður sem passar líklega frábærlega í það leikkerfi sem Klopp er að vinna með hjá Liverpool núna. Góður leikmaður sem getur farið upp nokkur level en á sama tíma líklega lítil pressa á Arteta að setja hann beint í liðið.

Kai Havertz ætti einnig að styrkja þetta lið töluvert, það er ekki rétt að afskrifa hann eftir tímann hjá Chelsea því að þetta er strákur sem kom til Englands með öllu stærri profile en Szoboszlai gerir núna og gæti fundið stjóra hjá Arsenal sem nær miklu meiru út úr honum.

Þeir þurfa auðvitað að glíma með meira leikjaálag í vetur og sleppa ekkert endilega eins fáránlega vel við meiðsli en það er erfitt að sjá hvernig Arsenal gat gert eitthvað meira. Raunar eru þeir líklega ekki hættir og hafa t.a.m. verið orðaðir við nýjan markmann, eitthvað sem gæti styrkt liðið umtalsvert.

Varnarlínan er nokkuð góð hjá Arsenal og þeir gætu bætt varnarleikinn mjög með bæði tilkomu Rice til að verja varnarlínuna og eins nýjum markmanni.

Miðjan er ógnarsterk bæði varnarlega og sóknarlega með lykilmenn á besta aldri og það sama má segja um sóknarlínuna. Saka og Martinelli eru ekki komnir upp í sitt þak.

Arsenal er búið að versla það helsta sem þeir ætluðu sér í sumar og einbeita sér líklega meira að leikmannasölum í ágúst. Partey auðvitað en einnig eiga þeir ennþá leikmenn eins og Marquinhos, Nicolas Pépé, Nuno Tavares, Cédric Soares, Lokonga og Folarin Balogun. Þar gæti leynst lúmsk fjárhæð. Mest allt farþegar sem Arsenal losaði sig við og keypti nýja í staðin þrátt fyrir að hafa ekki náð að selja þá. Liverpool á sama tíma hélt bara áfram með Ox, Keita og bætti frekar við álíka hetjum. Meiri metnaður og miklu meira ruthless = Arsenal í Meistaradeild og Liverpool ekki.

Nettó eyðsla Arsenal í þessum glugga er núna €206m sem er svipað og nettó eyðsla Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp var frá 2016-2023!

Man Utd

Undir stjórn Ten Hag virðist í fyrsta skipti í einhvern tíma vera nokkuð solid plan í gangi hjá United á leikmannamarkaðnum. Ten Hag hefur sannarlega fengið fjármuni til að stinga á helstu kýlum í leikmannahópi United. Hann kom þeim í Meistaradeildina strax og það sem af er þessu sumri hafa þeir verið að styrkja sig í þeim stöðum sem mest hafa verið til vandræða.

Onana í stað De Gea gæti verið álíka mikilvæg breyting og það var fyrir þá að fá Casimero á miðjuna eða að fá Martinez í stað Maguire.

Mason Mount er eins öflugur miðjumaður sem líklega hentar stjóranum vel, þeir þurfa sterkari breidd í vetur og Mount veitir þeim það klárlega. Højlund kaupin sýna svo að félagið er tilbúið að taka sénsa og bakka stjórann á leikmannamarkaðnum ef þeir finna leikmann sem þeir telja henta. Kaupverðið á honum er auðvitað galið m.v. hvað hann kostaði fyrir 18 mánuðum en þannig er markaðurinn í dag. Højlund i það allra minnsta styrkir framlínuna líklega í samanburði við Weghorst og er augljóslega leikmaður sem vonast er til að springi út hjá United.

United er ennþá orðað við varnartengilið og er jafnan orðað við alla þá leikmenn sem Liverpool eru orðaðir við í þeirri stöðu. Eins eiga þeir líklega eftir að losa nokkra leikmenn, Maguire gæti farið, McTominey og Fred ásamt Donny van den Beek eru líklegir.

United á svo nokkuð öflugan hóp af ungum sóknarmönnum sem allir eiga líklega töluvert inni, Jaden Sancho er auðvitað miklu betri en við höfum séð frá honum hingað til hjá United, Anthony er búinn með erfitt fyrsta tímabil og svo er Garnacho jafnvel líklegur til að verða betri en þeir báðir. Auk þess er Greenwood spurningunni enn ósvarað hjá United.

Ten Hag hefur núna fengið að eyða €400m á leikmannamarkaðnum sem stjóri United og þar af €355m nettó. Hann hefur verið stjóri liðsins í 14 mánuði. Klopp er á sama tíma búinn að eyða €260m og þar af €127m nettó. Klopp getur ekki unnið kraftaverk á hverju sumri, hvað þá með allt í hers höndum bak við tjöldin. Samkeppnin á leikmannamarkaðnum er ekki einu sinni hörðust við Man City lengur.

Chelsea 

Guð minn góður, Chelsea. Þrátt fyrir þennan uber leikmannaglugga sem síðasta tímabil var er Chelsea bara komið €50m í plús það sem af er þessu sumri og er orðað mjög sterklega við €100m Caceido. Þeir keyptu bara í þessari viku tvo leikmenn fyrir samtals um €65m

Hópurinn hjá Chelsea er miklu betri en síðasta tímabil gaf til kynna og undir stjórn Pochettino eru þeir ekkert ólíklegri en Liverpool til að koma til baka með miklum látum. Hjálpar Pochettino líka að geta einbeitt sér að deildinni þetta tímabil.

Varamarkmaður Brighton kom í þessari viku fyrir €25m sem er svo galið kaupverð að það kæmi ekki á óvart að þetta væri einhver flétta á móti kaupunum á Caceido? Er Kepa svo ekki alltaf betri í marki en Sanchez? Hvað kom fyrir þennan Mendy sem var svo frábær?

Fofana meiddist út þetta tímabil og í staðin fyrir hann sömdu þeir við Colwill sem kemur til baka úr láni og kaupa Diasi, miðvörð Monaco. Enn einn leikmaðurinn sem passar kannski nokkuð vel við starfslýsinguna sem Liverpool er að leita eftir? Ekki bara vilja þeir ekki selja okkur Colwill heldur kaupa þeir einn til viðbótar við hann, strák sem er dýrari en Konate var svona til að setja þetta í samhengi.

Aftast á miðjuna er bara búið að kaupa Ugochukwu á €27m, byrjunarliðsmann frá Rennes í Frakklandi. Þannig að eðlilega eru þeir líka að klára kaup á Caceido á €100m. Höfum í huga að þessi Ugochukwu er ekkert óvipaður profile og Lavia sem orðaður er við Liverpool og á að leysa okkar helsta vanda.

Miðjan gæti því verið €100m Fernandez, €100m Caceido og einhver af Ugochukwu, Gallagher eða Chukwuemeka.

FFP áhyggjur Chelsea eru ekki meiri en svo að þeir kaupa 18 ára pjakk á €15m. Auk þess er svo búið að kaupa tvo sóknarmenn fyrir tæplega €100m. Þeim er ætlað að leysa stóra vandamál síðasta tímabils.

Frá 2019 er Chelsea búið að kaupa leikmenn fyrir €1.068.100.000. Þar af eru um €730m bara núna í sumar og á síðsta tímabili. Það er þetta sem er alveg galið að ætla eigendum Liverpool að keppa við. Rekstur Liverpool á hinsvegar ekki að vera United og Arsenal neitt að baki.

Hópurinn er því eðlilega mjög sterkur hjá Chelsea og kannski verður ekki eins erfitt fyrir Pochettino að tjasla saman liði núna eftir heilt undirbúningstímabil, samt finnst manni á sama tíma að þetta lið ætti að vera sterkara á pappír m.v. þessar fjárhæðir.

Man City 

Liðið sem var fyrir með Dias, Stones, Laporte, Ake og Akanji sem valkosti í miðverði bætti við sig Gvardiol í sumar fyrir €90m. Enn einn leikmaðurinn sem myndi styrkja Liverpool, mun meira en hann styrkir City sem dæmi. Kovacic fyrir Gundogan eru svo sniðug skipti auk þess sem þeir bæta líklega Olise við áður en glugganum lokar. Sá er reyndar sterklega orðaður við Chelsea líka, nema hvað.

City einfaldlega þarf ekki að gera stórar breytingar í sumar en enda gluggann líklega í kringum €200m af nýjum leikmönnum. Fyrir 2-3 árum var þetta samkeppnin og var það nógu fjandi erfitt, þannig er það bara alls ekkert lengur.

Eina sem stoppar City í vetur er ef það vantar eitthvað upp á hungrið hjá þeim eftir síðasta tímabil. Já eða Liverpool-esq meiðslavandræði.

Newcastle

Nokkuð róleg byrjun á glugganum hjá Newcastle en samt hafa þeir gert svipað mikið og Liverpool. Tonali er alvöru viðbót við miðjuna hjá þeim og Harvey Barnes fyrir Saint-Maxim gefur kannski meiri stöðugleika. Allar líkur á að þeir séu alls ekki hættir og ef FFP verður vesen ætti ekki að vera vandamál að nota eitthvað af þessum liðum sem þeir eiga i Saudi Arabíu til að kaupa fleiri leikmenn.

Þrátt fyrir fjárútlát undanfarin ár er sorlegt að þessi hópur sé í Meistaradeildinni á kostnað Liverpool. Þeir þurfa að gera meira á leikmannamarkaðnum í ágúst, þetta eru þungir 6-12 leikir sem bætast við hjá þeim í vetur.

Aston Villa

Undir stjórn Unai Emery er alveg tilefni til að fara taka Aston Villa alvarlega og það sorglega er að þeir hafa ekki verið það langt á eftir Liverpool á leikmannamarkaðnum undanfarin ár.  Nettó eyðsla Villa er sem dæmi mun hærri undanfarin ár.

Pau Torres er kominn í vörnina auk þess sem þeir endurheimta stóru leikmannakaup síðasta tímabils, Diego Carlos. Þar gæti Emery verið kominn með alvöru miðvarðapar auk Mings auðvitað.

Tielemans kemur á miðjuna á frjálsri sölu og hentar líklega mjög vel í leikstíl Emery. McGinn og Ramsey geta séð um hlaupin. Buendia hefur svo verið frábær hjá þeim.

Villa keypti Diaby á €55m sem bætist við mjög spræka sóknarlínu sem Ollie Watkins leiðir líklega áfram. Ekkert lið svo ég viti reynt að fá hann frá Villa.

Undanfarin fimm ár er Aston Villa búið að eyða €55m meira nettó í leikmannakaup heldur en Liverpool, ASTON FOKKINGS VILLA.

Tottenham

Einhvernvegin er Spurs búið að kaupa leikmenn í sumar fyrir hærri fjárhæðir en Liverpool, City og Newcastle. Samt finnst manni hópurinn ekki hafa styrkst svo ýkja mikið hjá þeim. Tveir af þessum auðvitað lánsmenn frá síðasta tímabili.

James Maddison er það helsta og er klárlega öflug viðbót en stóra spurningamerkið er hver framtíð Kane verður og hvernig nýjum stjóra muni reiða af. Mjög áhugaverð þjálfararáðning sem gæti orðið frábær eða endað í september. Líklega þarf Spurs alveg nýja rödd inn og nýjar hugmyndir.

Leikmannakup undanfarin ár – samanburður

Ef við miðum við tölur af Transfermarket (€) er samanburðurinn á leikmannakaupum Liverpool vs hinna liðanna svona: Þetta er með leikmannaviðskiptum sumarsins það sem af er sumri.

Nettó eyðsla frá 2019, einu mesta blómaskeiði Liverpool í úrvalsdeildinni er €36,3m að meðaltali deilt niður á undanfarin fimm tímabil. Mun minna en Aston Villa.

Man City hefur selt leikmenn á þessum tíma fyrir €380m en er samt með miklu hærri nettó eyðslu.

Liverpool á svo varla að vera samkeppnishæft innanvallar við United, Arsenal og Chelsea m.v. eyðslu þessara liða undanfarin ár í samanburði við Liverpool.

Newcastle er svo augljóslega að fara bætast við þennan hóp á næstunni af miklum þunga.

Kaupverð

Fyrir þá sem skilja ekki hvaða áhrif leikmannasölur hafa (nettó eyðsla) og vilja aðeins miða við kaupverð er samanburðurinn svona frá 2019.

City er búið að eyða tæplega €200m meira í leikmannakaup

United er búið að kaupa leikmenn fyrir €270m meira en Liverpool sem er aðeins minna en Arsenal sem er nálægt €290m. Newcastle er að brúa þetta bil á tveimur sumrum og Aston Villa hefur aðeins eytt €50m minna undanfarin ár.

Chelsea er svo auðvitað bara í öðru sólkerfi.


Hvað næst?

Þetta prútt á kaupverði Romeo Lavia er vandræðalegt ef það er það eina af viti sem Liverpool er með á prjónunum núna. Það væri alls ekkert galin krafa að ætlast til €250-300m leikmannaglugga núna í sumar. Það sem af er sumri er búið að kaupa tvo leikmenn sem báðir voru með klásúlu um kaupverð í sínum samningi. Það sem félagið sparar í launakostnaði Fabinho, Henderson, Milner, Arthur, Keita, Bobby og Ox fer langt með kaupverð þeirra.

Það var vitað fyrir sumarið að það þyrfti lágmark €150m í enduruppbyggingu miðjunnar hjá Liverpool og það var áður en bæði Henderson og Fabinho voru seldir. Lavia var á dagskrá löngu áður en salan á þeim kom til.

Svo er annað sem fer aðeins undir radarinn, fyrir utan VVD (2018) og Konate (2021) er Liverpool búið að eyða £8m í eftirfarandi miðverði undanfarin sjö ár: Steven Caulker, Joel Matip, Ragnar Klavan, Sepp van den Berg, Ben Fucking Davies og Ozan Kabak. Þarna var Liverpool alls ekkert snjallara á markaðnum því inni í þessum tíma eru a.m.k. tvö tímabil þar sem vörnin var meira og minna á meiðslalistanum. Samt er enn verið að treysta á 3/4 af þeim hópi og þessi eini er Konate, leikmaður sem aldrei hefur spilað mikið meira en 50% af heilu tímabili.

Það er ekkert í leikmannakaupum Liverpool undanfarin misseri sem sannfærir mann um að okkar teymi sé á einhverju elítu leveli lengur eða eitthvað masterplan í gangi. Eftir síðasta sumar er vægast sagt bjartsýni að gera sér vonir um þrjá nýja leikmenn næstu vikur og fjárútlán upp á þessar 150-200m sem vantar í þennan hóp.

Prove me wrong, please.

36 Comments

 1. Einar slakaðu á. Hér á Ystu Nöf rennur bæjarlækurinn ljúfi, og mun renna um ókomin ár.Grasið er ekkert grænna öndverðumegin. Við munum fá tvo leikmenn innan tíðar. Þú ert alltaf velkomin í kapelluna hér á Ystu Nöf og draga.

  7
 2. Einar Matthías, því miður held ég að það sem þú ert að segja sé bara raunveruleikinn í hnotskurn.
  Ef ekki hefði verið fyrir það að við fengu Jurgen Klopp sem þjálfara, Alisson Becker og Virgil van Dijk fyrir peninginn af sölunni á Philippe Coutinho þá hefðum við aldrei fengið þessi 4 – 5 góðu ár og þar með talið þessa tvo stóru titla, enski titillinn og meistaradeildar titillinn!

  Við værum ekki á betri stað í dag enn við vorum haustið 2015 þegar Brendan Rodgers var með liðið ef þessir tveir hlutir sem ég nefndi hér að ofan hefðu ekki gerst.

  14
 3. Moneyball byggir á því að endurnýja stöðugt liðið og vera alltaf með ódýrara lið en andstæðingarnir — finna vanmetna leikmenn og selja þá um leið og þeir eru meira virði seldir og nýjar keyptir fyrir þá.

  LFC undir Klopp (og fótbolti almennt) eru ekki endilega góðir kandídatar fyrir moneyball sem byggir á hugmyndum úr hafnarbolta sem er auðvitað allt annað sport — sérstaklega í því að leikmenn þurfa ekki að slípast saman (það er taktík og strategía, en leikatriðin eru frekar stöðluð og ekki eins dýnamísk og í fótbolta).

  Ég held að núna þegar LFC hefur verið að ná árangri þá hafi þessi hugmyndafræði aðeins verið sett til hliðar og ekki síst þá virðist mannskapurinn sem stóð að baki henni hafa hætt og ekki komið inn nýtt fólk (eins og Einar fer yfir). En það er alveg á hreinu að vandamálin í innkaupum eru ekki bara níska heldur líka hreinlega skortur á framsýn og plani. Ef það er einn veikur punktur á Klopp er það að hann er alltof tryggur leikmönnum og vill bara vinna með mannskapinn sem hann hefur — hann virðist ekki vera stjóri sem er alltaf að leita að nýjum mönnum til að leysa vandamál.

  Ég er mjög glaður að við losuðum okkur við fullt af leikmönnum sem voru bara fyrir ungum leikmönnum og ekki nógu góðir eða komnir yfir það besta. Eini leikmaðurinn sem ég sakna er Fab. En auðvitað vantar mannskap. Sannreynda menn í amk 2 stöður. En það er enginn haugur af þeim á lausu. Held að LFC séu að bíða eftir hreyfingum annars staðar sem gætu losað um menn. Vona að það sé plan umfram það að vona. En liðið sem við erum með er alveg nógu gott til að komast í topp 4 — andstæðingarnir eru ekki eins svakalegur og sumir eru að láta með. MU t.d. voru að kaupa danskan Diego Jota fyrir ca $85 milljónir. Klikkun. Svipað í gangi annars staðar. Það er ekkert vit að bera saman upphæðir í innkaupum. Það sem skiptir máli er að innkaupin bæti liðið.

  12
 4. Held að forráðamenn LFC þurfi að átta sig á stöðunni í dag. Liverpool er einn stærsti klúbbur í heimi og LFC vörumerkið stráir gulli yfir leikmenn liðssins – gulli sem Saudi Arabia kaupir á uppsprengdu verði. Hvernig væri nú að fara djúpt á leikmannamarkaðinn og kaupa strax 7-8 spennandi leikmenn, bæði þekkt nöfn og upprennandi snillinga? LFC getur aldrei tapað á þessu og við fengjum magnað tímabil.

  8
 5. Lá í loftinu með Guardiol til shitty en þegar eg sá (staðfest) á .net þá þyrmdi yfir mig reiði og vonbrigði. Maður er bara barnalegur að halda að lfc komi með eitthvað óvænt. Það er svo mikið metnaðarleysi í gangi og ótruleg níska að ég er korter í að nenna þessu ekki. Til hvers að styðja klúbb sem sýnir ekki metnað? Eins og Einar segir er Ars að gera allt það sem lfc ætti að vera að gera á síðustu tveim árum. Lfc með Rice og Odegaard núna t.d. ætti ekki að vera eitthvað far out. Haaland nei, Bellingham nei, Rice nei, Odegaard nei, Guardiol nei, Touchameni nei, og maður gæti haldið áfram. Hef verið bjartsýnni og kannski fullmikil bölsýni en þoli ekki endalaust að vera að missa af leikmönnum sem myndu styrkja liðið og án vafa bæta í titlasafn klúbbsins. Að hafa ekki eytt 50-100m síðasta tímabil kostaði klúbbinn ca.50m að missa af CL og auðvitað að trekkja að leikmenn fyrir þetta season. Þetta er orðið svo galið kjaftæði. FSG fokking out!

  11
 6. Hef sagt það áður en við erum bara Jorgen Klopp frá því að vera Tottenham.

  24
 7. Ég hef iðurlega tekið upp hanskann fyrir kaupastefnu FSG enda tókst þeim að koma okkur á toppinn með hjálp Jurgens Klopps. i þessum glugga, skil ég hvorki upp né niður í því sem er í gangi. Milner, Champerlain, Keita, Firmino, Henderson, Fabinho og Arthur og Carvalho er sendur á lán. Átta leikmenn eru sem sagt farnir og tveir komnir í staðinn.

  Margir af þessum leikmönnum eru fjarri því að vera eitthvað slor, þarna er besti varnartengiliður í heimi og fyrirliðinn okkar, Henderson og svo Milner var líka mjög mikilvægur og Firmino var klárlega einn af stóru lyklunum sem opnuðu hurðina að Evrópu og Englandsmeistaratitlinum á sínum tíma. Champerlain var einn besti leikmaður liðsins áður hann meiddist .

  Við þurfum allavega einn varnartengilið og einn miðvörð/bakvörð ef þessi gluggi á að teljast ásættanlegur. Það eru allt of margir að fara. Ég trúi því ekki fyrir mitt litla líf að þeir láti menn eins og Henderson og Fabinho fara nema þeir eru með artakana tilbúna, hverjir sem þeir nú verða og það sé aðeins tímaspursmál hvenær þeir kíkja á æfingasvæði Liverpool í læknisskoðun.

  Ég vona innilega að ég verði bjartsýnni í lok gluggans en ég er akurat núna í augnablikinu.

  2
  • Brynjar ég er eins og þú og búinn að verja eigendurnar með kjafti og klóm fyrir það sem þeir eru búnir að gera fyrir klúbbinn, þeir eru langt frá því að vera fullkomnir en við vitum þó hvað við höfum en ekki hvað við fáum ef það verða eigandaskipti á klúbbnum, það þarf ekki alltaf að boða betri tíð að skipta um eigendur eins og dæmin sanna.
   Enska deildin þarf bara að fara að standa í lappirnar gagnvart þessum félögum sem brjóta fjármálareglurnar endalaust svo félögin fari að standa betur jafnfætis.
   En eins og alltaf þá verður næsta ár tímabili árið okkar með tveim eða þrem nýjum leikmönnum sem styrkja liðið okkar, glasið mitt er enþá hálf fullt af bjartsýni eins og á hverju hausti undanfarin 50 ár eða svo.
   YNWA

   2
 8. Sælir félagar

  Ég vil vona að bjartsýni Brynjars Jó. sé á rökum reist en því miður er ekkert sem bendir til þess. Klopp talar eins og hann talaði áður en við fengum snillinginn Artur Korter. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til að FSG ætli að leggja meiri peninga en orðið er í leikmannakaup. Allt tal þar um er því miður ekki á neinum rökum reist. Loforð Klopp í lok síðustu leiktíðar um stórkaup og gríðarlega styrkingu eru að verða hlægileg í besta falli og verulega hryggileg í versta falli. FSG out fer að verða stef þessa glugga ef ekki verður einhver breyting á – því miður.

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
 9. Bjartsýni ?

  Ég sagði “Ég vona innilega að ég verði bjartsýnni í lok gluggans en ég er akurat núna í augnablikinu.”

  Ég veit ekki hvernig þú lest bjartsýni úr þessu sem ég skrifaði. Það þarf mikinn afreksmann til þess.

  Ég var einmitt að gagnrína það að það sé ekki búið að kaupa nógu mikið og selja of mikið.

  Ólíkt þér þá er ég ekki með spádómskúlu og sé hvernig endalok þessa glugga verða og kýs því ekki að tjá mig um það hvort hann verði flopp eða vel heppnaður.

  Klopp kallaði eftir þolinmæði og hann telur að fleirri komi inn. Ég er til í að gefa því tækifæri og sjá til. Byggja frekar allt á raunsæi frekar en einhverju svartsýnisropi sem ég verð nú að viðurkenna að mér finnst einhver innistæða fyrir. Þar að segja ef það koma ekki menn í lok gluggans til að dekkja t.d fyrir varnartengilið og miðvörð/bakvörð.

  • Sæll Brynjar

   Þetta er svona ákveðin bjartsýni þó hún sé ekki mikil og það kannski klaufalega orðað hjá mér. 🙂

   Tilvitnun:
   “Ég trúi því ekki fyrir mitt litla líf að þeir láti menn eins og Henderson og Fabinho fara nema þeir eru með artakana tilbúna, hverjir sem þeir nú verða og það sé aðeins tímaspursmál hvenær þeir kíkja á æfingasvæði Liverpool í læknisskoðun.
   Ég vona innilega að ég verði bjartsýnni í lok gluggans en ég er akurat núna í augnablikinu”.

   Það er nú þannig

   YNWA

   1
 10. Ég er ansi hræddur um að Salah fari fyrir 180 milljón pund í sandkassan.

  3
  • Þá gæti Endurnýjun 2.0 undir Klopp hafist. Peningar fyrir nýjum alvöru mönnum. Svona eins og Coutinho á sínum tíma. Salah er búinn að ná toppnum í sinni getu.

   3
 11. Úff, Einar, flott samantekt og eins og talað úr mínum munni. Maður vonar alltaf, en svona er raunveruleikinn bara, það liggur við að mig langi að einhver ríkur arabi eða arabaþjóð kaupi Liverpool, er það virkilega raunverueikinn í dag ? Eitthvað sem ég aldrei vildi, en …………

  4
  • Höddi B, það er í rauninni það eina sem gæti komið Liverpool á sama stað og Man City er á í getu til að vinna titla og halda sér með stöðuleika í fremstu röð.

   Ég hef sagt það áður að það er engin munur á glæpamönnum sem koma frá BNA, Rússlandi eða Saudi Arabiu, það eru alltof margir sem eru heilaþvegnir af bullinu sem miðlarnir okkar eru að matreiða ofan í okkur um þeirra fantasíu svörtu og hvítu veröld.

   4
 12. Hárrétt.
  Skelfileg innkaupastefna hefur komið liðinu í þessa stöðu.
  Ömurlegt.

  3
 13. Frábær pistill sem sýnir hversu langt á eftir við erum hvað leikmanna kaup varðar. Gaurinn hjá scum er búin að eyða meir á ári en meistari Klopp. Þetta verður að laga annars eins og einn skrifaði við erum Klopp frá Tottenham eða verr.

  Vonandi eru menn að vinna hörðum höndum á bak við tjöldin að ná í réttu leikmenn og vonandi er það ekki að verða of seint.

  FSG stendur og fellur í þessum glugga um hörð mótmæli eða stuðning.

  3
 14. Kæru félagar. 2023/24 tímabilið nálgast óðfluga. Aðeins ein vika er í að Liverpool heimsæki Chelsea á Stamford Bridge. Lítið hefur gerst á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool í sumar. Hópurinn hefur fyrst og fremst verið hreinsaður. Enn sem komið er hafa aðeins tveir leikmenn bæst við á meðan Fabinho, Jordan Henderson, James Milner, Roberto Firmino, Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain eru farnir, auk Fabio Carvalho – sem hefur verið lánaður til Leipzig. Jürgen Klopp er sem stendur með 22 leikmannahóp – minnsta hópinn í allri úrvalsdeildinni samkvæmt tölum frá Transfermarkt sem Thisisanfield.com hefur lagt fram. Manchester United er félagið með stærsta hópinn 36 leikmenn. Þess má geta að í Transfermarkt eru ekki leikmenn eins og Ben Doak og Conor Bradley taldir með, tveir leikmenn sem gætu mjög vel komið við sögu á komandi tímabili. Doak hefur heillað mikið á undirbúningstímabilinu og Bradley, sem er meiddur núna, er að koma til baka eftir frábært lánstímabil hjá Bolton. West Ham, sem hefur ekki keypt einn einasta leikmann í sumar, er með 23 leikmenn í hópnum á meðan ríkjandi meistarar Manchester City eru með 26. Klopp hefur verið skýr í sínum málflutningi í viðtölum að það sé þörf á að bæta leikmönnum við núverandi hóp, sérstaklega á miðjuna. Stjórinn vill líka fá varnarmann áður en glugginn lokar 1. september. Málið er að það er svo merkilega litið að gerast þessa dagana þegar svo stutt er í mót. Þögnin er ærandi. Liverpool verður úr leik fyrir jól með svo þunnskipaðan hóp miðað við meiðslasögu síðustu ára í Klopp fótbolta.

  10
 15. Jæja, nú er Salah að fara frá okkur. Þungt er pundið. Mig dreymdi tengdamömmu og hún sagði að Mbappe væri á leið yfir Liverpool. Vonandi fer hann ekki lengra,

  2
  • Ég sé nú ekki neinar áreiðanlegar heimildir um að Salah sé að fara, við skulum vona að það sé nú ekki að fara að gerast afan á allt annað!

   1
   • Ég skvetti stundum í bæjarlækinn, einkum á morgnana. En hvar er Jhon Arne Riise? Mikið Ó-veður mun skella á Norge á morgun.

    4
 16. Held það væri best að selja Salah núna. Meðan áhugi er. Lækka launakostnað og fá allavega eitthvað fyrir hann. Það væri mjög gott fyrir bókhaldið.

  Áfram FSG

  5
  • Hafliðason, heldur þú með því að selja Salah að lækka launakostnaðinn muni hjálpa Liverpool að laða að alvöru og góða leikmenn til okkar og keppa um stóru titlana, það er mjög einkennileg hugmyndafræði?

   Það eina sem ég myndi vilja sjá ef Salah myndi fara frá Liverpool er eitt stykki Mbappe!

   Það virðis sem FSG sé rétti eigandinn fyrir suma hér, þá finnst mér að menn ættu að snúa sér að einhverjum minni klúbbum enn Liverpool Fc þar sem litla sem engar kröfur eru gerðar til að vinna titla, þar tikar FSG í öll box?

   5
   • Haha. Þessu var hent fram í kaldhæðni. Uppgjöfin er algjör þessa stundina. Ég hef verið óánægður með þessa eigendur frá upphafi. Ef ekki væri fyrir þá hundaheppni þeirra að næla í Klopp og ótrúlegan áhuga Barcelona á Couthino þá væri saga þessara ára svo allt allt önnur.

    Eg vonast þó til þeir fjárfesti í Lavia og svo reikna ég með janúarkaupum. Svona til að friða meirihluta stuðningsmanna.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!!

    7
   • # Ari (16.1)

    Afhverju er það eitthvað einkennileg hugmyndafræði ?

    Samkvæmt því sem þú heldur endalaust fram á þessu spjallborði, þá hefur eini stóri titill Liverpool síðustu skrilljón árin, komið vegna þess að LFC seldi sína stærstu stjörnu á metfé!!

    Það er hreint ekki þessum eigendum að þakka að LFC vann allt sem hægt var að vinna, heldur sölunni á Coutinho. – Afhverju er það þá eitthvað galin hugmyndafræði að gera bara það sama aftur , Selja dýrasta mann liðsins og ætla sér að vinna dolluna aftur ?

    Èg tek það fram að ég vil alls ekkert selja Salah, en ég skil bara ekki afhverju þú ert ekki hlynntur því. Þú veist það betur en allir í heiminum að þessi aðferð svínvirkar!! 🙂

    Insjallah,
    Carl Berg

    2
   • Carl Berg, þessi hugmyndafræði að selja stærstu stjörnu liðsins í hvert sinn og við ætlum að vinna stóran titil er virkar eins og að vinna í lottóinu um hverja helgi!

    Það lítur út fyrir það að það hafi farið í taugarnar á þér þessi greining mín hvernig Liverpool náði þessum 4 – 5 góðu árum á toppnum ég get nú lítið hjálpað þér við það.

    Ég hef lítinn áhuga á því að eyða púðri í það um hverja helgi í vetur að hrauna yfir einstaka leikmenn vegna slæms árangur, þetta sér maður nú ansi oft hér og er sennilega vinsælla enn að snúa sér að aðal vandamálinu eins og ónefndur þjálfari sagði hér um árið „þú býrð ekki til hjúklingasalat úr kjúklingaskít“
    leikmannahópurinn er ekkert betri enn hann er og uppsker eftir því, það er nú bara þannig!

    Ég held að það sé mun öruggara að vinna undir fjársterkum eiganda af sömu stærð og Liverpool Fc enn einhverjum undirmálsmönnum sem eru mörgum númerum of litlir til að eiga klúbbinn. Mér hefur nú aldrei sýnst að FSG hafi einhvern áhuga né vit á þessu, það er nú hægt að telja það á fingrunum hvað þeir hafa mætt á marga leiki.

    FSG out og það strax!

    4
 17. 3 tilboði í Lavia hafnað í dag samkvæmt fréttum.
  Ef að Lavia er sá sem að Klopp vill fá þá á einfaldlega að borga þessar 50 millur eða snúa sér annað.
  Það er líka dýrt að tapa stigum í deildinni við það að vera undirmannaðir og ekki með varnarsinnaðan miðjumann á launaskrá.
  Hækka hvert tilboð um pylsu og kók er ekki að fara að sannfæra southampton

  3
 18. Rándýrt … en svo eru önnur lið að kaupa landsliðsmenn á mun lægra verði.

  Etithvað er farið að hökta í tannhjólaverkinu hjá okkar fólki. Það er af sem áður var þegar Fabinho, Robinsson ofl. duttu inn alls óvænt! Nú fylgjast allir með og þetta Lavia dæmi er orðið vandræðalegt. Tek það fram að ég hef ekki fylgst með honum en … dm í fallliði getur ekki verið einhver óskaleikmaður fyrir lið sem stefnir hátt.

  5
 19. Ég væri til í að sjá Liverpool fara á eftir 2 reynsluboltum sem kunna þetta kerfi sem Klopp vill spila.
  Cancelo og Laporte hjá City.
  Eru hvorugir í plönum hjá Guardiola og ættu að fást á þollalegu verði.

  2
  • Þeir gætu líka samið við Benjamin Mendy, var topp varnarmaður meðan hann var að spila fyrir City?

   1
   • Ertu að bera “nauðgarann” Mendy við Laporte 29 ára landsliðsmann Spánar og Cancelo 29 ára landsliðamann Portugals ?

   • Bíddu er hann nauðgari?

    Ég á nú ekki að þurfa að minna þig á það að Benjamin Mendi var landsliðsmaður Frakklands á þeim tíma sem sem hann var sakaður um þessa nauðgun og þar með ekki á lægri standard sem fótboltamaður heldur enn hinir tveir?

    Ég veit ekki betur enn að hann hafi verið sýknaður af öllum ákærum og þar með laus allra mála eins og Gylfi Sigurðsson, eða ert þú einn af þessu meðvirka mannorðsmorðingja liði?

    Ekki misskilja mig ég hef óbeit barnaníðingum og þess háttar ofbeldisliði!

Varnarverkir – 10 dagar í mót

Síðasti æfingaleikur fyrir fréttir