Jordan Henderson að kveðja

Jordan Henderson sendi þetta frá sér í dag. Hvað er það sem þú hugsar fyrst um þegar þú hugsar um feril Jordan Henderson hjá Liverpool?

Stiklum aðeins á stóru í þessum texta og kannski síðar gerum við honum en þá betur skilið og þeim goðsögnum sem eru að kveðja okkur nei Naby ég er ekki að tala um þig(Hendo, Firmino og líklega Fab)

Hann var sem sagt að senda stuðningsmönnum Liverpool kveðju eftir 12 ára samveru. Hann var keyptur til Liverpool 9.júní 2011 á 16m punda af King Kenny sem hafði trölla trú á stráknum en stuðningsmenn Liverpool voru ekki allt of sannfærðir. Þetta var stór upphæð fyrir leikmann sem þeim fannst ekki það merkilegur en sagan segir manni að kóngurinn hefur oftar en ekki rétt fyrir sér um leikmenn og það átti heldur betur eftir að standast með Henderson.

Því 492 deildarleikjum síðar hefur hann stimplað sig inn sem Liverpool goðsögn og verður alltaf fyrirliðinn sem lyfti númer 6 og batt enda á 30 ára bið eftir þeim enska.

Ferilinn hjá Henderson hjá Liverpool fór frekar rólega af stað en Kenny notaði hann til að byrja með á hægri kantinum og var hann ekki að finna sig alveg þar. Hann hljóp úr sér lungun en hann var ekki mikil sóknarógn en Henderson var samt oftar en ekki í liðinu hjá Liverpool.
Daglish var aðeins eitt tímabil með Hendo og tók Brendan Rodgers við liðinu og vildi Brendan fljótlega skipta honum Hendo fyrri Clint Dempsey hjá Fulham og verður að segjast að stuðningsmenn Liverpool voru margir hverjir spenntir fyrir því. Hendo var ekki tilbúinn að fara og vildi fá að sanna sig og viti menn það tókst honum heldur betur. Hann var ekki mikið að stimpla sig inn í liðið hjá Rodgers til að byrja með en menn fóru samt að sjá meira og meira að það bjó einhver kraftur í þessum strák sem öll lið hafa not fyrir.

Tímabilið 2013/14 stimplaði hann sig heldur betur inn og þótt að hann byrjaði á hægri kantinum í 4-2-3-1 kerfi Brendan þá var hann fljótlega settur með Gerrard á miðsvæðið þar sem hlaupa getan hans í pressuni kom að góðum notum. Liðið spilaði frábærlega en rétt missti af titlinum og vilja margir kenna því um að Henderson fékk rautt spjald í leik gegn Man City og missti því að heimaleik gegn Chelsea sem tapaðist og liðið fékk að bíta í það súra. Á þessum tíma var Hendo búinn sannfæra flesta stuðningsmenn Liverpool að hann væri kominn til að vera.

2014/15 hélt Hendo áfram að spila lykilhlutverk hjá liðinu en þetta var síðasta tímabil Steven Gerrard hjá Liverpool sem þýddi að Liverpool þurfti nýjan fyrirliða.

Hendo tók við fyrirliðabandinu af Gerrard fyrir 2015/16 tímabilið og hélt því alveg til dagsins í dag. Mörgum fannst Hendo alveg vera þessi fyrirliða týpa en margir voru ekki alveg sannfærðir að hann væri nógu góður til að vera í flokki með köppum eins og Souness,Hansen, Rush, Barnes, Gerrard og Hyypia til að bera bandið en sá átti eftir að troða sokk upp í marga.

Jurgen Klopp tók við liðinu af Brendan eftir erfiða byrjun árið 2015 og voru ekki allir vissir um að Hendo myndi vera fyrirliði Liverpool mikið lengur því að það var orðrómur um að Klopp væri að far að taka reynslubolta úr Dortmund fljótlega til sín sem myndu vera líklegri að taka við bandinu. Klopp leyst vel á Hendo og fannst hann strax leiðtogi innan vallar sem utan og ákvað að halda honum áfram sem fyrirliða enda ef maður pælir í því, þá var Hendo fullkominn Klopp leikmaður sem setti liðið í fyrsta sæti og var heldur betur tilbúinn að hlaupa úr sér lungun í hápressu kerfi Klopp.

Það má eiginlega segja að rest is history því að Hendo hefur verið frábær fyrirliði og leiðtogi liðsins frá því að hann fékk bandið. Hans leikur var betri og betri og var hann lykilmaður í meistaraliði Liverpool bæði í Evrópu og heima. Henderson þrátt fyrir að vera frábær leikmaður upp á sitt besta þá varð hann aldrei eins góður leikmaður og Gerrard en það hafa mjög fáir á þessu jarðríki orðið en ég er á því að hann hafi ekki verið síðri fyrirliði eða leiðtogi fyrir liðið. Hendo var leikmaður sem auðvelt var að hrífast með. Alltaf á fullu, alltaf að öskra menn áfram og einfaldlega stór góður fótbolta leikmaður sem réði yfir góðum leikskilning og góðri sendingarkunnátu.

Það sást samt vel á síðasta tímabili að hlutverk hans í liðinu hefur farið aðeins minnkandi enda það er aðeins farið að hægjast á kappanum svo að kannski er þetta bara frábær tímapunktur að kveðja liðið okkar.

Við á Kop.is viljum þakka Hendo fyrir allt sem hann hefur gert fyrir liðið innan vallar sem utan og óskum honum velfarnaðar.

YNWA – Verður rauður til dauða dags.

33 Comments

 1. Henderson hefur líklegaa sína hlið. Mögulega var Klopp búinn að segja Henderson að hann yrði í minna hlutverki út samingstímann.

  Mögulega var H. búinn að átta sig á því að líkaminn hafði ekki lengur það sem þarf til að spila í PL. Við sáum öll að það var farið að draga hressilega af honum á sl. tímabili. Auk þess er Henderson með krónísk hælvandamál.

  Engu að síður eru það vonbrigði að Henderson skuli hlaupa frá fyrirliðastöðunni um leið og veifað er framan í hann peningum. Þetta setur óneitanlega skugga á feril hans hjá Liverpool.

  Alla sínu æsku var hann jú Sunderland aðdáandi.

  9
 2. Mætti rifja upp að kaupin á Henderson voru með fyrstu tilraunum í “Moneyball” í enska boltanum. Hann ásamt Stewart Downing áttu að dæla gæðasendingum inn á stóra framherjann Andy Carroll, sem myndi raða inn mörkum. Auðvitað var þetta tómt rugl en magnað að menn hafi haldið að fótbolti væri svona einfaldur.

  7
 3. Frábær leikmaður og fyrirliði, þín verður saknað

  8
 4. Henderson er mikilvægasti leikmaður Liverpool frá 2014. Það sást vel – eins og kemur fram í pistlinum – þegar hann fékk rauða spjaldið og var dæmdur í tveggja leikja bann. Liðið, með Suárez, Coutinho, Gerrard, Sturrigde, Sterling… geggjaður hópur …. hrundi gjörsamlega án hans. Leikirnir gegn Chelsea og CP voru grátlegir. Áður hafði liðið verið svo sem kunnugt er með algjöra yfirburði.

  Skitan árið á eftir má svo að einhverju leyti tengja akkilesar-hæl Hendo. Hann náði sér aldrei á strik það tímabilið og ekki liðið heldur.

  Gæðin eftir að Klopp tók við voru að miklu leyti Henderson að þakka. Gríðarleg stigasöfnun og ekkert nema óheppni að landa ekki titlum fyrstu tímabilin. Sigur 2019 í CL var löngu verðskuldaður en sigurleikurinn heima gegn Barcelona (sem var í raun úrslitaleikur) sýndi vel baráttuandann í okkar manni. Hefðum aldrei klárað þann leik ef ekki hefði verið fyrir Henderson í ham.

  Það sást líka vel næsta tímabil sem var stórfenglegt. Svo þegar hann meiddist í febrúarlok 2020 þegar liðið hafði unnið næstum sögulega marga leiki. Þá töpuðu þeir 3-0 á móti Watford og svo gegn Atletico – þar sem okkar maður lék hluta leiks og á hálfum krafti. Þetta sá pundit-gengið og gaf honum titilinn leikmaður ársins það tímabilið. En ekki hvað?

  Hörmungin með vörnina tímabilið á eftir þar sem Henderson var settur í miðvarðarstöðu varð síðan til þess að við misstum af titilinum. Algjör hneysa að hafa ekki lagt út fyrir tveimur topp miðvörðum þegar ljóst var hvert í stefndi. Þá hefði Henderson verið á miðjunni áfram með Gini og liðið getað haldið sjó.

  En því verður ekki á móti mælt að þetta er ekki sami leikmaðurinn og fyrrum. Hann ber þess merki að hafa gefið sig allan í þessa leiki og á síðasta tímabili var af honum dregið. Mér fannst það harla rausnarlegt að gera við hann nýjan samning en nú erum við laus undan þeim launapakka.

  Þá er bara að vona að við fáum einhvern geggjaðan miðjumann í staðinn. Það er eins gott því eins og hér er rakið þá hefur þessi leikmaður skipt sköpum fyrir liðið okkar ástsæla.

  23
 5. Var alltaf stuðningsmaður Henderson, og verð það áfram. þvílíkur fyrirliði. Mjög góður tími til að kveðja. Algjör hetja. YNWA.

  14
 6. Liverpool legend!
  Takk fyrir frábært og metanlegt framlag.
  Fær vonandi að kveðja aftur almennilega fyrir framan fullan völl.
  YNWA.

  5
 7. Um miðjan áttunda áratuginn dáðist ég af leikmanni númer 7. Hann var í rauðum búningi og spilaði sömu stöðu og ég á vellinum. Þetta var Kevin Keegan og Liverpool. Frá þeim tíma hafa þessir verið meðal annarra fyrirliðar: Emlyn Hughes, Souness, Hansen, Rush, Fowler, Barnes, Gerrard og Henderson. Þetta eru allt Liverpool goðsgnir.

  7
 8. Nú þegar tími Jordans Henderson er liðinn, eða Hendó eins og við kölluðum hann hér á Ystu Nöf, kemur margt upp í hugann.

  Snemma leitaði hugur Hendó frá flatneskunni í Sunderland til þess að leika knattspyrnu. Hann kom til Liverpool FC 2011 og var tekinn opnum örmum hvar hann lék knattspyrnu við hvurn sinn fingur. Hann ferðaðist víða með Liverpool eða svo að segja um öll heimsins höf.
  Á þessum fjölbreyta knattspyrnuferli sínum kynntist Hendó mörgum mönnum af ýmsum þjóðernum, þ.á.m. Indjánum og Kínverjum. Hann lærði tungumál þeirra að minna eða meira leyti, einkum ensku og norðurlandamálin.

  Orð þessi eru skrifuð til að bera Hendó kveðju og þakkir frá fólkinu hér frá Ystu Nöf og ekki síður frá tengdamóður minni þótt nú nálgist 20. árið frá fráfalli hennar.

  YNWA

  16
 9. Svona leikmenn er mikilvægir í þeim tilgangi að draga vagninn, berjast til síðasta blóðdropa og vera hvergi bangnir í hvaða raun sem er. Sá eiginleiki gerði hann að einum fræknasta leikmanni Liverpool, frekar en tæknilegum hæfileikum þó þeir voru annars ágætir hjá þessum góða dreng. Eg óska honum alls hins besta.

  5
 10. Ég verð bara að játa það að ég á erfitt með að horfa á eftir Henderson til Sádí. Maðurinn sem hefur látið í sér heyra í mannréttindabaráttu er ofurseldur seðlinum. Finnst það sárt.

  22
  • Það ber að þakka Henderson fyrir allt sem hann hefur gert fyrir Liverpool sem stórkostlegur fyrirliði og einnig fyrir sinn þátt í mannréttindabaráttunni. Þar var hann áberandi og þó ég skilji gagnrýnina sem hann fær þá finnst mér hún óverðskulduð. Hann var í fararbroddi þeirrar baráttu og en nú eiga aðrir að taka við. Hvar eru þeir?

   3
   • já mjög óverðskuldað og eiginlega óskiljanlegt að leikmaður sem barist hefur fyrir mannréttindum fái gagnrýni fyrir að velja sér vinnuveitendur sem traðka á þeim mannréttindum sem hann hefur barist fyrir.

    9
   • Mér finnst hann búinn að taka öll ummæli og umræðu sem hann hefur tekið þátt í og sturta þeim niður í klósettið með þessum vistaskiptum

    13
   • skítt með Liverpool og mannréttindi þegar sá ríki á þess kost að verða enn ríkari.

    9
 11. Ég hafði miklar efasemdir á sínum tíma með Henderson á hans fyrstu dögum og mánuðum í rauða búningnum en hann átti svo sannarlega eftir að slá mig kaldan með þær efasemdir. Kannski ekki sá besti tæknilega séð eins og minn uppáhalds leikmaður hér í den…… Greame Souness, en báðir bættu það svo sannarlega upp með baráttuanda og engu kjaftæði á miðjunni þegar svo bar undir, jaxlar báðir tveir og menn að mínu skapi. Vonandi að þeir sem núna stýra miðjunni og þeir sem mögulega væntanlegir muni taka þá tvo til fyrirmyndar þegar þar að kemur.

  Takk Henderson fyrir þitt framlag – ég erfi það ekki við þig að fara sunnar á bóginn þar sem fleiri krónur í budduna, þú átt það alveg skilið!

  YNWA

  5
 12. Mögulega þráðrán en samt ekki..
  Hafið þið horft á FIFA þættina á Netflix? Þetta er skuggamegt dæmi og gott og hollt að rifja þetta upp.

  Hugsaði til Henderson og hvað þð er sorglegt að okkar maður hafi endað á því að elta olíupeninginn

  Mæli amk með þessum þáttum á meðan það er ekkert að frétta frá okkur

 13. Tengt Hendó … og miðjunni.

  Liverpool vantaði amk. 2 nýja og heila menn til viðbótar á miðjuna á síðustu leiktíð. Síðan hafa þrír farið í sumar: Milner, Hendó, Fabinho. Sem þýðir að miðjan er einn mann í mínus miðað við síðasta tímabil. Einum færri þó það sé búið að kaupa tvo!

  Ef Lavia kemur, þá er staðan bara nákvæmlega sú sama og hún var í fyrra. Enginn miðjumaður bæst við. Ekki í höfðatölu, þó að nýju mennirnir Mac Allister og Sóbóslæ séu auðvitað yngri og hraustari heldur en Hendó og Milner. Og Lavia er kornungur.

  Það er dálítil svartsýni í mér í dag. Verða innkaupin jafn slöpp og í fyrrasumar? Og það er ekki bara miðjan því vörnin er á niðurleið líka. Djöfull held ég að Klopp sé leiður á þessum teskeiðainnkaupum endalaust.

  5
 14. Henderson farinn i hundana fyrir allan peninginn og megi hann hvíla þar í friði með skömmina fyrir mér. Mér fannst hann alltaf svolítið væminn í viðtölum en bætti það upp á vellinum þegar hann var heill sem var því miður allt of sjaldan síðustu tvö árin . En það virðist sem það sé mikið að ske og von
  á nýjum mönnum og slúðrið í dag um Anders Christjansen væri goð viðbót í vörnina sem þarf líka að styrkja.

  4
 15. Sorglegt að sjá á eftir gæðaleikmanni, reynslubolta og fyrst og fremst frábærum fyrirliða.

  Atvinnumaður fram í fingurgóma, baráttujaxl og leiðtogi innan vallar sem utan.

  Ég mun alltaf vera þakklátur fyrir og hugsa hlýtt til Jordan Henderson – sem vann allt sem hægt er að vinna með Liverpool. Legend.

  Nú þarf klúbburinn að sýna metnað og láta til sín taka á markaðnum sem og aðrir leikmenn sem nú fá tækifæri til að stíga upp og láta ljós sitt skína á leiðtogasviðinu.

  10
 16. Leikmenn koma og fara hjá fótboltafélögum en aðdáendurnir finnast alltaf. Margir rauðir stuðningsmenn Liverpool sitja nú eftir með sárt ennið og eru lítt hrifnir ákvarðana töku fyrirliða liðsins okkar. Jordan Henderson er nú fyrir mörgum hluti úr fortíðinni.

  Það sem Henderson gerði fyrir Liverpool tekur enginn frá honum. Titlarnir sem hann vann og bikararnir sem hann lyfti gera hann að ódauðlegum hluta af sögu okkar. En hann hlýtur að hafa vitað eins vel og allir stuðningsmennirnir að þessi ákvörðun að fara til Saudi Arabíu á slóð peningana væri umdeild. Honum fannst það augljóslega þess virði að sverta arfleifð sína fyrir peningana sem sem bíða við enda regnbogans. Hann skipti út siðferðilegum áttavita fyrir launaseðil – og öll fyrri orð hans urðu marklaus og innantóm í eyrum stuðningsmanna.

  Hvað fótboltan varðar þá held ég að það sé fullkominn tími fyrir Jordan Henderson að fara frá Liverpool en það er bara helvíti leiðinlegt að þetta skuli vera eins og það er. Ímyndað ykkur að kveðja fullan Anfield í vor í staðinn? umkringdur bikurum sem hann vann. Takk fyrir tólf ára eilíft strit. Kveðjustund sem væri meira svona “sjáumst bráðum aftur “ . Síðan haldið áfram að spila fótbolta einhvers staðar annarsstaðar en í Saudi Arabíu þar sem hann gæti haldið áfram að standa uppi fyrir allt fólkinu sem hann sagðist vera fulltrúi fyrir á undanförnum árum. En í staðinn verður þetta arfleifð hans hjá Liverpool:

  JORDAN HENDERSON KOM TIL LIVERPOOL OG VANN ALLT SEM HÆGT ER AÐ VINNA EN AÐ ENDANUM MISSTI HANN ÞAÐ MIKILVÆGASTA AF ÖLLU – REISN SÍNA OG AÐDÁUN STUÐNINGSMANNA SINNA.

  9
  • Hvaða helvítis kjaftæði er þetta í þér er Hendó nokkuð öðruvísi en ég og örugglega þú líka við eltum aurinn út og suður til þess að skaffa okkur og okkar betra og tryggar líf.
   Hendó á skilið alla okkar virðingu fyrir það sem hann hefur gert fyrir klúbbinn hvað sem okkur kann að þykja um stjórnarfarið hjá hans nýju vinnuveitandum.

   19
  • Alltaf leiðinlegt að fá svona ómálefnalegar athugasemdir þar sem ég var einungis að lýsa staðreyndum. Ég var ekki að lýsa minni persónulegri skoðun á Henderson hendur upplifun mjög margra Liverpool aðdáenda sem hafa elskað og dáð hann vegna baráttu hans fyrir réttindum hinseigin fólks og einnig kynjamisrétti. Flólk sem virkilega trúði því að hann væri sannur baráttumaður fyrir þeirra réttindum. Þessi ákvörðun hans hefur fallið mjög í grýttan farveg hjá mörgum aðdáendum hans og hans status innan Liverpool samfélagsins verður aldrei samur. Þið þurfið ekki annað en að lesa samfélagsmiðla. Sem betur fer hugsa ekki allir eins og þú.

   5
   • Af hverju á Henderson að vera eitthvað verri en , ronaldo, Firminho, Mane, Neves,Benzema og fullt af fleiri stjörnum ? Klopp fór fögrum orðum um hann, sem persónu og leikmanns.
    Það að segja að Hendó sé verri en allir hinir er bara bull ! Hann verður ALLTAF GOÐSÖGN hjá Liverpool.

    5
   • Höddi B, vegna þess að Hendo hefur verið að tala á móti mannréttindabrotum í S-Arabíu og m.a. verið með fyrirliðaband í regnbogalitunum. Ég hef ekki tekið mikið eftir því að mennirnir sem þú nefnir hafi verið eitthvað sérstaklega í því. Fólk skilur að mikið vill meira og að hann vilji kannski fá meira á bankabókina, það skilur að hann vilji fara til að vera í stærra hlutverki en “Milner-hlutverkinu” en upplifir að Hendo gefi skít í þessa minnihlutahópa með því að semja við lið í S-Arabíu.

    2
   • Mjög sérstakt komment. Þannig að af því að hann hefur stutt þessa minnihlutahópa hingað til þá er hann verri maður en hinir sem ekki hafa gert það. Hver segir að hann geti ekki gert það áfram þó hann sé að vinna næstu 2-3 árin á þessum mjög svo skrítna stað. Það er örugglega ekkert slæmt að hafa mann eins og hann á þessum stað sem styður þessa minnihlutahópa, hann er stöðugt í sviðsljósinu og verður fyrirmynd ungs fólks á þessum stað. Kannski getur hann haft einhver áhrif til hins betra.

    Eins og Tryggvi segir þá mundu allir komnir á og yfir hans fótboltaaldur taka þennan samning, brjálæðisleg laun fyrir stuttan tíma. Hinsvegar er auðveldasta verk í heimi að gagnrína aðra og þykjast vera betri sjálfur.
    Ég er sjálfur mikill Henderson maður, minn uppáhalds Liverpool maður síðan hann kom til klúbbsins.
    Fyndið samt, að alltaf er talað um Gerrard sem hina miklu Liverpool goðsögn, hann var samt sem áður aðeins korteri frá því að semja við einn aðal-óvin Liverpool á sínum tíma fyrir titla og betri laun. En það að Henderson sem á aðeins 2-3 ár eftir af sínum ferli semji við lið í Arabíu sem þrefaldar launin hans og tryggir hans framtíð, það gerir hann að verri manni af því að hann er talsmaður hinsegin fólks…….. Skilettekki.

    6

Æfingaleikur við Greuter Furth endar 4-4

Æfingaleikur gegn Leicester