Leitin að stöðugleika

Forráðamenn Liverpool hafa sofið nokkuð illa á verðinum er kemur að því að endurnýja liðið undanfarin ár og þurfa því að gera full mikið núna á skömmum tíma. Liverpool liðið hefur verið fáránlega óstöðugt allt tímabilið 2022-23 og ætti sumarið núna að fara að mestu í að tækla það vandamál. Gæði leikmannahópsins er ekkert stóra vandamálið, hópur Liverpool 2022-23 stenst hvaða liði sem er ágætlega snúning á pappír. En að geta treyst þeim til að drífa inn á völlinn í hverri viku er allt að því vonlaust.

Frá sumarglugganum 2019 hafa stóru leikmannakaupin verið Elliott, Thiago, Jota, Konate, Diaz, Nunez, Arthur (á láni) og Gakpo núna í janúarglugganum. Allir (nema Gakpo) hafa þeir lent í þrálátum meiðslum eða langtímameiðslum. Nunez spilaði 50% af deildarleikjum Liverpool í vetur, Gakpo 43% (var auðvitað ekki leikmaður Liverpool fyrri helming mótsins) Thiago 37%, Konate 45% Arthur 0% Diaz 29% og Elliott 47%

Ekki einn helvítis leikmaður sem Liverpool hefur keypt undanfarin fjögur tímabil náði að spila meira en 50% af leikjum liðsins á síðsta tímabili. Það er fullkomlega galið og ljóst að einhverju þarf að breyta í innkaupastefnu félagsins.

Undanfarið hefur fókusinn mjög mikið verið á miðjunni en förum núna í gegnum allt liðið undanfarin fjögur tímabil og sjáum hvernig stöðugleikinn hefur verið í hverri stöðu fyrir sig.

Markmaður

Áður en Liverpool keypti Alisson var þetta búið að vera vandræðastaða í tæplega áratug. Hann hefur blessunarlega spilað 88% af leikjum liðsins undanfarin fjögur tímabil og tímabilið sem hann var hvað mest frá vegna meiðsla kom ekki að sök þar sem Liverpool rústaði deildinni. Hans meiðsli kostuðu hinsvegar Meistaradeildina það tímabil. Guð hjálpi okkur ef Alisson væri jafn óstöðugur og samherjar hans aðeins ofar á vellinum.

Hægri bakvörður

Liverpool er búið að spila rússneska rúllettu með hægri bakvarðarstöðuna frá því Trent eignaði sér hana. Hann er að spila 88% af leikjum Liverpool undanfarin fjögur ár. Þrátt fyrir (oft fáránlega) gagnrýni á hann er ágætt að hafa í huga að Liverpool er í enn verri málum ef hann er frá en ef Alisson meiðist. Það er ekkert gáfulegt back-up til í staðin og samhliða nýjum útfærslum á leikkerfi væri óvitlaust að leiðrétta það í sumar.

Ramsey verður aldrei alvöru valkostur fyrir Trent, hvað þá ef að hann er að fara þróast svipað og Kimmich hjá Bayern og færast meira inn á miðjuna. Með brottför Milner er ennþá sterkari þörf á að taka ekki heimsklulega áhættu hér, eitthvað sem félagið hefur gert undanfarin ár í öðrum stöðum og fengið hressilega í bakið.

Vinstri bakvörður

Staðan er svipuð í vinstri bakverði en þar var a.m.k. keypt leikmann sem getur leyst Robertson af ef í harðbakkann slær. Robbo hefur verið að spila 20-25% minna en hann var að gera eftir að Tsimikas var keyptur. Þetta n.b. snýst ekki bara um að gefa Robbo og Trent hvíld heldur þurfa þeir eins og aðrir aðhald og heilbrigða samkeppni um stöðu.

Miðverðir

Hér byrja vandamálin og þau eru engu minna aðkallandi en á miðjunni. Van Djik verður 32 ára núna í sumar og þarf að fara sparlega með leikjaálagið á honum. Ef að Liverpool ætlar enn eitt árið að treysta á Gomez og Matip eru allar líkur á því að hann verði að spila deildarbikar, bikar eða Evrópudeildarleiki næsta tímabil sem annars væri ætlaður þeim en gengur ekki upp þar sem þeir eru meiddir. Liverpool þarf líka að fara kaupa arftaka VVD, helst áður en hann yfirgefur sviðið sjálfur.

Konate hefur alveg gæðin en núna erum við búin með tvö tímabil þar sem hann hefur spilað 29% og 45% af leikjum Liverpool. Hann er bara nákvæmlega sama tóbakið og Gomez og Matip hafa verið allan sinn feril hjá Liverpool. Vantar ekki gæðin en ekki hægt að treysta né byggja lið í kringum svona miklar fjarvistir. Hann var ekkert skárri hjá Leipzig, tímabilið 2020-21 spilaði hann 695 mínútur og tímabilið 2019-20 spilaði hann 568 mínútur í deildinni. Þetta eru ígildi 6-8 leikja.

Gomez náði næstum því smá stöðugleika tímabilið 2019-20 við hlið Van Dijk og spilaði um 60% af tímabilinu og hafði Matip og Lovren til að covera rest. Tímabilið 2021-22 náði Matip sínu besta ári og spilaði 82% af leikjum Liverpool. Van Dijk spilaði bæði tímabilin auðvitað nánast alla leikina. Þetta voru 99 stiga tímabil og 92 stiga tímabil hjá liðinu.

Hin tvö árin, úff.

2020-21 er í raun bara brandari hvað stöðugleika í vörninni varðar. Það komu sex mismunandi miðverðir við sögu allt tímabilið og þeir náðu samt bara að spila 67% af leikjum liðsins. Nat Phillips og Ozan Kabak spiluðu mest af miðvörðum Liverpool og Rhys Williams spilaði meira en Van Dijk og Gomez!

33% af leikjum tímabilsins voru leystar af öðrum leikmönnum en þessum sex miðvörðum! (t.d. Fabinho – Henderson – Wijnaldum)

Það að tapa bara niður 30 stigum milli ára og ná 69 stigum var í raun afrek í ljósi aðstæða. Þetta voru mjög mikið til heimatilbúin vandræði samt enda ekkert keypt fyrir Lovren og treyst á bæði Gomez og Matip. Þeirra tölfræði árin á undan þessum sem við erum að skoða hérna er ennþá verri en þetta og Lovren var alltaf meiddur líka.

Höfum hugfast að venjulegt lið á ekkert að þurfa meira en þrjá góða miðverði, sá fjórði er jafnan varaskeifa sem kemur ekki mikið við sögu, þannig er það aldrei hjá Liverpool enda alltaf verið að treysta á sömu mennina.

2022-23 var sami heimatilbúni vandinn nema núna var það kannski meira miðjan sem gaf sig heldur en allur miðvarðahópurinn. Van Dijk á skilið alvöru partner við hliðina á sér sem hægt er að treysta á og mynda stöðugleika í kringum. Hann var nánast aldrei með sama manni við hliðina á sér tvo leiki í röð og auðvitað hefur þetta áhrif á leik liðsins. Hvað þá ef miðjan getur ekki hreyft sig og varið vörnina líkt og við eigum að venjast.

Hér er bara alveg rosalega stórt svigrúm til bætinga og því fyrr sem við losnum við óstöðugleika líkt og hefur alla tíð einkennt Matip og Gomez því betra. Það lagaðist svo ekki neitt með kaupunum á Konate.

Miðjumenn

Miðjan er augljósa vandamálið og það lagast ekkert að horfa á þetta fjögur ár aftur í tímann og sjá munin hvað stöðugleika varðar eftir að Wijnaldum fór frá félaginu. Hér er rosalegt svigrúm til bætinga og það strax bara með einum sæmilega góðum miðjumanni sem helst heill, hvað þá með alvöru heimsklassa sem nær að halda sér heilum.

Eðlilegt lið er að lágmarki með tvo miðjumenn sem spila 80-90% af öllum leikjum liðsins og helst þrjá slíka og svo 1-3 aukaleikara sem brúa rest. Þetta hefur nánast alla tíð Klopp verið hreint og beint kjaftæði hjá Liverpool og gjörsamlega ótrúlegt að ekki hafi verið gert neitt af viti til að bregðast við þessum óstöðugleika á miðjunni síðan Fabinho kom sumarið 2018! Thiago er eini miðjumaðurinn sem hefur verið keyptur síðan þá og hann kom eftir að hafa náð sínum hátindi sem leikmaður og með meiðsla record á við Ox-Chamberlain.

Wijnaldum er eini miðjumaður Liverpool í stjóratíð Klopp sem hefur spilað meira en 80% af heilu tímabili. Það er sannarlega sturluð staðreynd.

Það að vera bara núna fyrst að losna við farþega eins og Keita og Ox er fáránlegt. Milner var einnig of lengi fyrsti valkostur af bekknum hjá okkur og ansi margir leikir sem innkoma hans gerði lítið. Setjum hann samt enganvegin í flokk með þeim tveimur heldur er ég frekar að meina að arftaki Ox og Keita átti að vera löngu kominn til Liverpool og þá byrja leikina eða koma fyrstur inn af bekknum frekar en Milner gamli.

Curtis Jones eins flottur og hann var síðustu leikina er svo alveg búinn að vera með þeim Keita og Ox í flokki undanfarin ár, hann spilaði t.d. meira covid tímabilið 2020-21 (19 ára) en hann gerði í vetur. Þar áður var þetta Adam Lallana sem tók heila eilífð að losna við.

Arthur Melo er svo sér kapítuli útaf fyrir sig, menn geta alveg gert lítið úr þeim samningi og talað um að hann hafi “aldrei verið hugsaður sem stór partur af plönum Klopp” o.þ.h. Hann var samt fenginn inn þegar augljóst að liðið væri enn einu sinni að fara inn í fáránlegt meiðslatímabil og þurfti nauðsynlega á alvöru styrkingu að halda, eitthvað sem öllum var búið að vera ljóst allt sumarið reyndar. Hann var KLÁRLEGA hugsaður í stærra hlutverk en 13 mínútur í versta Meistaradeildarleik tímabilsins og það var rándýrt að fá svona hrikalega misheppnaðan díl á þessum tímapunkti. Kostaði mjög líklega Meistaradeildarsæti að fá ekki alvöru miðjumann á þessum tímapunkti.

Miðjumenn á miðjunni

Það er ekki bara spilaðar mínútur sem hafa stuðlað að þessum mikla óstöðugleika í samanburði við iðnaðarmiðjuna Fabinho – Henderson – Wijnaldum (og Milner). Liverpool virðist voðalega oft vera spila leikmönnum úr stöðu, sérstaklega á miðjunni.

Harvey Elliott spilaði 47% af tímabilinu og megnið af því á miðjunni þrátt fyrir að vera alls ekki miðjumaður á elítu leveli. Mögulega verður hann það og eins getur vel verið að hann sé svo mikið efni að Klopp vill hafa hann á vellinum jafnvel þó það sé úr stöðu, en það hjálpaði Liverpool lítið í vetur.

Henderson endaði þetta tímabil í hlutverki sem hefði kannski hentað honum vel árið 2013 en alls ekki jafnvel árið 2023. Jones er að sýna merki þess að hann geti leyst hlutverk á miðjunni en það hefur sannarlega tekið þrjú tímabil að komast á þann stað. Ox hefur verið hjá Liverpool síðan 2017 og það er ennþá ekki ljóst hver hans besta staða er. Carvalho sem átti frábært tímabil hjá Fulham fékk ekkert að spila það hlutverk hjá Liverpool í vetur og fékk svo ekki einu sinni séns þegar miðjan gat bókstaflega ekkert í upphafi þessa árs, hvar er hann hugsaður í liði Liverpool?

Nýtt blóð

Alexis Mac Allister er mjög flott byrjun á þessum leikmannaglugga og mun að öllu eðlilegu einn og sér fylla “skarð” Keita, Ox, Arthur, Milner, Bajcetic og Carvalho sem dæmi. Samtals spiluðu þessir sex leikmenn 70% af deildarleikjum Liverpool. Vonandi er Liverpool að kaupa inn leikmenn sem ætlað er að spila a.m.k. svo mikið einn og sér.

Það er líka hægt að horfa á þetta öðruvísi og vonast til að hann fylli upp í þær mínútur (84%) sem Thiago og Elliott spiluðu á miðjunni í vetur.

Eðlilegasta þróunin er samt að Mac Allister komi inn í nákvæmlega það hlutverk sem Jordan Henderson hefur verið að skila. Fyrirliðinn verði fyrir vikið meira James Milner (fyrir 2-3 árum). Leikmaður sem spilar slatta ennþá en ekki fyrsti valkostur neinsstaðar.

Sóknarlínan

Liverpool lenti í því nákvæmlega sama við söluna á Sadio Mané og gerðist þegar Wijnaldum fór. Þeir yfirgefa Liverpool alveg á réttum tíma fyrir báða aðila en félagið hefur enganvegin staðið sig (ennþá) í að fylla þeirra skörð, sérstaklega vantar þessi +80% spilaðra mínútna sem bæði Mané og Wijnaldum skiluðu jafnan.

Bobby Firmino var auðvitað ekki minna mikilvægt tannhjól þegar sóknarlínan var á sínum hátindi en hann hefur misst mjög mikið úr líkt og aðrir undanfarin tvö tímabil vegna meiðsla (og samkeppni).  Salah – Mané – Firmino spiluðu allir rúmlega 80% af leikjum Liverpool titil tímabilið 2020 og þeir eiga algjörlega heiðurinn af því að draga Liverpool liðið í Meistaradeildina 2021 þrátt fyrir að hafa bókstaflega enga vörn fyrir aftan sig.

Sóknarlína Liverpool er í dag sannarlega alveg nógu góð á pappír og það á alls ekki að þurfa meira en fimm svona góða leikmenn í frammlínuna hjá eðlilegu liði. Origo, Minamino og Ox hafa sem dæmi verið hestu varaskeifur undanfarin tímabil. Núna eru Liverpool með fimm mjög góða leikmenn og fyrir aftan þá eru svo mjög efnilegir leikmenn sem geta vel gripið sín tækifæri í minna mikilvægum leikjum.

Liverpool má engu að síður ekki við öðru svona tímabili frá Diaz og Jota. Eins þarf Nunez að ná miklu betri fótfestu á næsta tímabili. Allt eitthvað sem er vel mögulegt og enginn þeirra er þekktur fyrir hræðilegt meiðsla record (ennþá). Cody Gakpo er svo á ágætri leið með að þróa nýja tegund af Firmino hlutverkinu og takist honum það er hann að fara spila flesta leiki.

Þetta tímabil var rosaleg vonbrigði hvað sóknarlínuna varðar, meiðsli höfðu ömurlega stór áhrif, holning á liðinu í heild enn verri og hvað svo sem gerist næsta vetur náðu þeir Diaz, Jota og Nunez samanlagt ekki að fylla skarð Sadio Mané. Miklu frekar Mané sem spilar alltaf +80% af tímabilinu en þetta sem við fengum frá þessum þremur í vetur.

Einn sóknarmaður af þremur spilar 96% af tímabilinu en í hinum stöðunum spila fimm leikmenn og enginn þeirra meira en 50% af tímabilinu. Svipuð saga og í bæði vörn og á miðju.

Tökum Cody Gakpo aðeins út fyrir sviga samt, hann lofar góðu í samanburði við Firmino sem spilaði bara 29% og 35% af síðustu tveimur tímabilum.


Breytingar í sumar

Stöðugleiki er það sem Liverpool ætti að leggja ofuráherslu á og helst ráðfæra sig við einhverja aðra þegar kemur að innkaupum en þá sem hafa séð um þetta undanfarin fjögur tímabil. Það er ekkert eðlilegt hjá liði sem kaupir svona lítið og má ekki við neinum skakkaföllum að hitta alltaf á leikmann sem missir úr helminginn af tímabilinu vegna meiðsla rétt eftir að hann kom. Konate, Diaz, Jota, Arthur, Thiago og Nunez eiga allir að vera á fullkomnum aldri svo ekki er það vandamálið.

Það að losna við Keita, Ox, Arthur, Firmino og Milner er strax jákvætt. Þetta eru allt strákar sem voru að spila 35% eða minna af síðasta tímabili sem er nákvæmlega það sama og þeir voru að gera tímabilið þar á undan en taka pláss í leikmannahópnum sem mögulega væri betur varið í miklu ferskari lappir. Strax í sumar mætti bæta einhverjum af Matip, Gomez eða Thiago við þennan hóp en þá auðvitað með því skilyrði að keypt verði leikmaður í staðin.

Markmenn – Ennþá solid og engin þörf á breytingum

Bakverðir – Hægt að færa rök fyrir nýrri samkeppni bæði í vinstri og hægri bakverði en hvorugt mest aðkallandi á innkaupalista sumarsins.

Miðverðir – Jafnvel meiri þörf á heimsklassa kaupum hér en á miðjunni, lykill að meiri stöðugleika.

Miðjumenn – Þörf á lágmark einum í viðbót við AMA og helst tveimur. Byrjunarliðs hægri bakvörður væri t.a.m. mjög áhugavert mál (Pavard) enda þá ljóst að Trent færi líklega í miðjumannahópinn. Trent er mjög líklega nú þegar besti miðjumaður Liverpool ef út í það er farið.

Sóknarmenn – Að öllu eðlilegu ætti ekki að vera þörf á leikmannakaupum hér, ef að þessir fimm sem nú þegar eru á launaskrá eru ekki nógu góðir þarf að bregðast við því. Það má t.d. ekki gleyma að Klopp er með MJÖG góða ferilskrá er kemur að því að gera góðan sóknarmann að heimsklassa sóknarmanni. Einhver af Nunez, Diaz, Gakpo eða Jota gæti alveg átt innstæðu fyrir slíku skrefi ennþá.

 

16 Comments

 1. TAA hlýtur að fá meiri tækifæri á miðjunni næsta tímabil. Engin tilviljun að liðið fór á flug þegar hann fór í þetta frjálsa miðju/bakv. hlutverk. Myndi ætla að áherslan ætti að vera á hægri bakvörð sem gæti leyst stöðu miðvarðar líka, þess vegna hljóma þessar Pavard pælingar sennilega. Sé ekki alveg þörf á tveimur nýjum miðjumönnum til viðbótar við Mac Allister, þeir átta sem eru nú á leikmannalista liðsins, auk Trent og Gakpo, sem getur líka leyst miðjuhlutverk, verða að berjast um mínútur í liðinu. Jones eins og hann var að spila undir lok tímabils er eins og nýr leikmaður í mínum huga, verður spennandi að sjá hvort hann nær að fylgja því eftir. Myndi halda að fleiri varnarsinnaðir leikmenn myndu frekar bætast við, þurfum alvöru leikmann við hlið VvD sem gæti svo tekið við forrystuhlutverkinu í varnarlínunni þegar fer að hægjast á Virgil.

  2
  • Fer að hægjast á Virgil? Meinaru þegar hann byrjaði að dala fyrir tveimur árum síðan?

   3
   • Fyrir tveimur árum? Meinaru þegar hann var að koma til baka eftir meiðslin sem kláruðu tímabilið á undan fyrir honum?

 2. Við erum með marga unga og efnilega miðjumenn en núna vantar okkur heimsklassa miðjumann þvi það er ekki hægt að bíða í 2-3 ár og vona að þeir efnilegu verði frábærir. Liverpool má ekki við því að dragast aftur úr og mikilvægt að halda þeim standardi sem hefur verið undanfarin ár (tímabilið sem var að ljúka er undanskilið). Öfluga og þroskaða miðjumenn takk og ekki seinna en fyrir upphaf undirbúningstímabilsins.

  2
 3. Þessi fáránlega innkaupastefna og ótrúlegt klúður með bætingu og uppfærslu á leikmannahópnum hefur sett liðið í þá stöðu sem það er í og tryggir það að við vinnum aldrei þessa stóru þrennu.
  Hef fyrir löngu sætt mig við að við erum skör fyrir neðan stóru strákana og ekki hægt að gera kröfu á að við séum að keppa við þá.

  1
 4. Einar ertu ekki aðeins að bulla með Gakpo ? Hann var ekkert meiddur spilaði meira enn jóta diaz firminho í deildinni í vetur.
  Annars frábær pistil hjá þér 🙂

  1
  • Frá sumarglugganum 2019 hafa stóru leikmannakaupin verið Elliott, Thiago, Jota, Konate, Diaz, Nunez, Arthur (á láni) og Gakpo núna í janúarglugganum. Allir (nema Gakpo) hafa þeir lent í þrálátum meiðslum eða langtímameiðslum. Nunez spilaði 50% af deildarleikjum Liverpool í vetur, Gakpo 43% (var auðvitað ekki leikmaður Liverpool fyrri helming mótsins)

   2
   • Er ég að misskilja þig? Fannst eins og þú segir Gakpo bara heill 18% leikja ?

   • Ah ok, búinn að laga og þetta var auðvitað ekki 18% heldur um 43% (eins kom rétt á myndinni í færslu). Hann semsagt spilaði 43% af síðasta tímabili þrátt fyrir að koma bara í janúar.

    Hvaða áhrif hefði það t.d. á stöðugleika liðsins ef þetta eru um 85% af öllu næsta tímabili?

    2
 5. “Þessi fáránlega innkaupastefna og ótrúlegt klúður með bætingu og uppfærslu á leikmannahópnum hefur sett liðið í þá stöðu sem það er í og tryggir það að við vinnum aldrei þessa stóru þrennu”

  Á næst síðasta leiktímabili vorum við einum úrslitaleik og einu stigi frá því að vinna fernuna, einmitt út af þessari “fáranlegu” innkaupastefnu. Meira að segja gullfiskar hafa ekki svona slæmt minni.

  “Hef fyrir löngu sætt mig við að við erum skör fyrir neðan stóru strákana og ekki hægt að gera kröfu á að við séum að keppa við þá.”

  Hægan, hægan og rólegur í bullinu.

  -Undir stjórn Klopp höfum við komist fjórum sinnum til úrslita í evrópukeppni, Unnið meistaradeildina, Englandsmeistaratitlinn, heimsmeistaratitilinn, sem og alla titla sem eru í boði bæði í Evrópu og Englandi fyrir klúbbinn okkar að undanskildum “minni” evrópumeistaratitlinnn (Eða hvað þessi keppni kallast sem við keppum í ár) . Við höfum tvívegis verið með lið sem hefur náð í kringum 100 stigin og erum í raun eina iðið sem hefur veitt Man City verðuga mótspyrnu. T.d hefði stigafjöldinn á þar síðasta tímabili dugað til Englandsmeistaratitils í ár.

  Það lýsir engu nema minnimáttarkennd að halda því fram að við séum ekki partur af “stóru” strákunum. VIð áttum arfaslakt tímabil, já hreint út sagt ömurlegt en enduðum samt í fimmta sæti.

  Mér þykir leiðinlegt að tilkynna ykkur það en Frúin í Hamborg á ekki Liverpool, hvað þá oliugarkar frá Sádí Arabíu. og þessvegna langar mér að kynna ykkur fyrir leik sem hefur gagnast mörgum vel að plumma sig í. En sá leikur kallast BLÁKALDUR raunveruleikinn.

  21
   • Brynjar er reyndar með góða punkta. Tek samt ekkert af Brynjari í þessum rökræðum, en ég hallast nú samt öllu meir á sveifina hjá Brynjari.

    10
 6. Held að sumardagurinn séu búin, klopp verslar alltaf strax í opnun glugga, tapið á að komast ekki í meistaradeildinni og 100m sóun i andy carrol 2 (nunez) í fyrra sett klúbbinn í skuld

  Numez er 100% flopp, svona dýr leikmaður er eins og haaland skorar gömlu af mörkum.

  1

Mac Allister (Staðfest) – Liverpool byrjað að styrkja liðið

Alisson Becker leikmaður ársins