Mjög spennandi breytingar á miðsvæðinu

Það hefur legið fyrir ansi lengi að Liverpool verður að kaupa miðjumenn í sumar, satt að segja var þörfin engu minni síðasta sumar. Spilaðar mínútur í deildarleikjum er góð leið til að skoða þörfina á nýju blóði á miðsvæðinu. Bæði hjá þeim miðjumönnum sem Klopp hefur helst haft út að moða hjá Liverpool og eins hjá miðjumönnum Liverpool í vetur í samanburði við liðin sem eru að enda fyrir ofan Liverpool í ár.

Miðjumenn Liverpool 2022/23 í samanburði við hin liðin: 

Tölur yfir spilaðar mínútur hjá lykilmönnum toppliðanna tala sínu máli ágætlega og sýna ágætlega afhverju Liverpool hefur verið svona rosalega óstöðugt á miðsvæðinu í vetur. Samtalan af þessum mínútufjölda er svipaður hjá liðunum en þetta dreifist á níu leikmenn hjá Liverpool í vetur á meðan það eru 4-5 hjá hinum liðunum sem spila megnið af leikjum sinna liða.

Fabinho (78,7%) er sá miðjumaður Liverpool sem spilar langmest, Henderson er næstur (61%) og aðrir ná ekki yfir 50% sem er satt að segja sjokkerandi.

Man City sem er að keppa á öllum vígsstöðvum nær að deila þessu milli 4-6 miðjumanna sem er nokkurnvegin fullkomið jafnvægi. Foden kemst varla í liðið, Phillips byrjaði sinn fyrsta leik í síðustu umferð og þarna eru ekki taldir með Stones og Grealish sem báðir leysa oft inn á miðju.

Arsenal spilaði megnið af tímabilinu með sína þrjá aðal miðjumenn og nýr leikmaður eins og Vieria kemst ekki í liðið, ekki frekar en Emile Smith Rowe sem er löngu búinn að ná sér af sínum meiðslum. Newcastle hefur komist upp með að spila bara fjórum miðjumönnum í þessum þremur stöðum.

Christian Eriksen sem lést fyrir ekki svo löngu síðan er að spila meira fyrir United í vetur heldur en Thiago, Elliott, Jones, Keita, Ox, Arthur o.s.frv.

Þarna er nota bene ekkert verið að aldursgeina þessa leikmenn en <10% af spiluðum mínútum miðjumanna Liverpool í vetur var hjá leikmönnum á svokölluðum peak aldri (22-28 ára). Arthur, Keita og Ox eru þeir leikmenn sem falla undir þann flokk og það eitt að losna við þá fyrir 2-4 leikmenn sem geta spilað >65% af tímabili er hrein og klár bylting á miðjunni hjá Liverpool.

Þó ekki væri nema fyrir 65% spilaðar mínútur hjá Thiago í vetur og segjum 50% frá Arthur heilum heilsu efa ég að Liverpool væri að horfa á eftir Meistaradeildarsæti núna.

Mac Allister og Mount

Miðum við að kaupin á Mac Allister og Mount gangi eftir sem er heitast í slúðrinu núna og sjáum hvað bara það myndi breyta myndinni hjá Liverpool. Báðir eru þeir á þessum “peak” aldri og líklega getum við farið að gera meira ráð fyrir Curtis Jones í þeim hópi.

Mac Allister er að spila 83% af leikjum Brighton í vetur og megnið af þessum 17% sem uppá vantar tengist fjarveru vegna HM og róteringu De Zerbi. Ef hann er á leiðinni til Liverpool má mjög fastlega gera ráð fyrir að hann fari beint í liðið. >80% af spiluðum mínútum frá honum væri ca jafn mikið og allar mínúturnar í deildarleikjum sem fóru í Elliott, Bajcetic, Keita og Ox í vetur. Bara ef hann kæmi inn og tæki að sér þetta hlutverk sem Henderson er að leysa núna er stórbæting á liðinu.

Einn miðjumaður sem ekki er gerður úr gleri getur verið svona rosalega mikilvægur í liði sem er svona hrottalega óstöðugt.

Mason Mount er búinn að spila um 50% af leikjum Chelsea í vetur, hann hefur verið meiddur eftir áramót og fallið aftar í goggunarröðina eftir að Bohly keypti 87 leikmenn í janúar. Hann hefur hinsvegar verið að spila megnið af tímabilinu undanfarin ár (70% – 85%) og myndi sem dæmi einn og sér léttilega fylla “skarð” Keita og Ox.

Curtis Jones spilaði nánast ekkert fyrr en núna í lok tímabilsins og ef allt er eðlilegt ætti hann að byggja ofan á þetta form og koma tvíelfdur til leiks næsta vetur. Hann virðist hafa þroskast töluvert sem miðjumaður, skilur kröfur Klopp betur og virðist passa miklu betur í leikstíl liðsins eftir breytingar á leikkerfi. Hann er líklega hvað líkastur Ox í núverandi hópi, miðjumaður sem veit hvar markið er (þá auðvitað miðað við hvernig Ox var fyrir meiðslin sem bundu enda á ferils hans á efsta leveli).

Liverpool á fyrir utan þessa þrjá líklega einn besta miðjumann deildarinnar og það á besta aldri, hann bara spilar sem bakvörður. Það gæti snúið öllu á hvolf og gjörbreyt útliti miðjunnar hjá Liverpool ef áfram verður unnið með hann inni á miðsvæðinu

Tveir nýjir miðjumenn og sterkari innkoma Curtis Jones ættu að takmarka alveg þröfina á Harvey Elliott á miðjunni. Eins hugsa ég að Bajcetic verði meira hugsaður í bikarleikjum og Evrópudeildinni heldur en deildarleikjum. Mínútum Henderson gæti eins fækkað hressilega svipað og þróun Milner var.

Ef við værum að tala um þrjá nýja miðjumenn er allt eins líklega að einhver af þessum fari strax í sumar. Thiago væri þar lang líklegastur en eins er ekkert útilokað með Elliott, Bajcetic (lán) eða jafnvel Henderson.

Það er ekki eðlilegt að þurfa níu miðjumenn yfir heilt tímabil og fyrir löngu orðið ljóst að taka þarf til í þessum endalausa meiðslalista.

Miðjan hjá Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp

Jurgen Klopp er ekkert fórnarlamb þegar kemur að úrvali miðjumanna Liverpool þó vissulega hafi hann ekki alltaf fengið þá leikmenn sem hann óskaði sér. Hann lagði hart að klúbbnum að gefa Henderson nýjan langtímasamning sem gildir langt fram á fertugsaldurinn. Hann vildi halda Wijnaldum áfram og núna Milner líka. Keita, Ox og Lallana voru allir þrjú tímabil of lengi leikmenn Liverpool.

Það er engu að síður magnað að skoða lista yfir þá miðjumenn sem Liverpool hefur verið með og spilaðar mínútur hvert tímabil (deildarleikir). Af núverandi hópi er enginn miðjumaður fyrir utan Fabinho sem hefur ekki misst úr nánast heilt tímabil vegna meiðsla a.m.k einu sinni.

Milner hefur vissulega aldrei meiðst illa en hann hefur heldur aldrei verið byrjunarliðsmaður á miðjunni, tímabilið 2017/18 þegar hann spilaði 92% af tímabilinu var hann vinstri bakvörður.

Henderson hefur tvisvar spilað minna en 50% og aðeins einu sinni meira en 65% af heilu tímabili. Keita og Ox (leikmenn á peak aldri) spiluðu 21% og 24% af leikjum Liverpool yfir tíma sinn hjá félaginu. Hvorugur náði nokkurntíma tímabili þar sem hann spilaði mikið meira en 40% leikjanna.

Emre Can sem fór sumarið sem Ox kom (ári áður en Keita kom) hefði alltaf verið miklu betri kostur en þeir báðir til samans undanfarin 5-6 ár. Hver hefði trúað því? Ekki að hans ferill hafi verið dans á rósum eftir Liverpool en hann er núna lykilmaður á miðju með Jude Bellingham og líklega að verða þýskur meistari (hjá öðru liði en Bayern) núna um helgina. Það er mun öflugra en allt sem Ox og Keita hafa verið að gera.

Gini Wijnaldum er svo augljóst viðmið yfir það sem Liverpool vantar á miðjuna. Wijnaldum var að spila meira að meðaltali (82%) yfir fimm tímabil en nokkur miðjumanna Liverpool afrekaði undir stjórn Klopp. Wijnaldum er eini miðjumaður Liverpool sem hefur spilað meira en 80% af leikjum liðsins yfir eitt tímabil (hvað þá að meðaltali) undir stjórn Jurgen Klopp!

Þessi tölfræði Wijnaldum sem og hvað lykilmenn hinna toppliðanna eru að spila mikið sýnir okkur ágætlega hveru mikið rugl þetta hefur verið hjá Liverpool nánast alla tíð Klopp sem stjóri liðsins. Þarna er rosalega augljóst svigrúm til bætinga áður en við förum að tala um gæði þessara leikmanna sem vonandi koma inn núna í sumar.

Man City, Arsenal og Newcastle voru öll með sýna bestu þrjá miðjumenn inná vellinum 70-90% í vetur. Það skapar svigrúm fyrir 1-2 miðjumenn í róteringu sem spila svona 50-60% af leikjunum sem er auðvitað nauðsynlegt í nútíma leikjaálagi.

Gæði þeirra sem vonandi koma inn

Af þeim þremur miðjumönnum Liverpool sem spiluðu mest í vetur vona ég að Fabinho verði sá eini sem spili álíka mikið á miðjunni næsta vetur. Ef að Henderson er að spila meira en 60% af leikjum liðsins á miðjunni hafa innkaup sumarsins ekki gengið nógu vel. Harvey Elliott spilar vonandi ekkert á miðjunni næsta vetur, hann spilaði tæplega helming leikja liðsins í vetur þrátt fyrir að vera nokkuð augljóslega ekki miðjumaður að upplagi.

Eins áhugaverð og innkoma Curtis Jones hefur verið núna undanfarnar vikur er ágætt að hafa í huga að hann er að spila svipað mikið í vetur og hann gerði á síðasta tímabili og minna en hann gerði tvítugur tímabilið 20/21. Það er ekki tilviljun að menn voru farnir að afskrifa hann í vetur. Væntingarnar til hans síðasta sumar voru ekkert ósvipaðar þeim sem maður er með núna. Vonandi er hann ekki næsti Ox eða Keita á sjúkralista félagsins því hann er hvergi nálægt sínu þaki sem leikmaður ef hann nær að festa sig almennilega í sessi.

Thiago spilaði minna í vetur en hann gerði í fyrra sem eru rosaleg vonbrigði og einmitt það sem Liverpool mátti enganvegin við í vetur. Hann er því miður bara í flokki með Keita og Ox yfir leikmenn sem eru of mikilvægir og dýrir til að geta ekki notað meira en helming tímabilsins. Það góða við innkomu nýrra miðjumanna er að Thiago færist þá vonandi meira í hlutverk Keita sem 4-6 kostur á miðjuna en ekki sá lykilmaður sem hann hefur verið undanfarin ár. Thiago er betri í fótbolta en Gini Wijnaldum en sá hollenski var miklu dýrmætari Liverpool.

Bajcetic er svo nokkuð áhugaverður, er hann svona rosalega góður að hann gerir tilkall til að spila enn meira næsta vetur eða var neyðin í vetur svona mikil? Það er ekki langt síðan neyðin var svipuð og það ar kallað til Tyler Morton. Það er þó ljóst eftir þetta tímabil að Bajcetic er efni í alvöru klassa miðjumann, hvort það verði hjá Liverpool þarf hinsvegar að koma í ljóst. Ég er ekki tilbúinn að leggja næsta vetur undir til að láta á það reyna.

Alexis Mac Allister tikkar í öll boxin og eru mest spennandi kaup á miðjumanni í tíð Klopp síðan Fabinho var keyptur árið 2018. Hann er með tæplega 10 árum ferskari lappir en Henderson og mun öflugri sóknarlega.

Mason Mount er minna spennandi kostur en Mac Allister eftir þetta tímabil en tikkar líka í flest boxin auk þess að vera enskur landsliðsmaður. Hann 24 ára og kannski ekki ósvipuð pæling og kaupin á Ox voru á sínum tíma. Það má líka hafa í huga að þegar Liverpool kaupir 24 ára leikmann er ekki bara verið að horfa til þess hvað hann hefur gert heldur hvernig hann getur þróast og vaxið hjá Liverpool. Ef við notum Ox sem dæmi áfram er Mount miklu meira spennandi kostur en Ox var sumarið 2017. Þær efasemdir sem maður heyrir um hann eru ekki ósvipaðar því sem heyrst hafa um flest öll leikmannakaup Liverpool í tíð Klopp.

Eins megum við alveg hafa það í huga í sumar að þó við viljum öll alvöru statement leikmannakaup þá þarf það ekkert alltaf að vera dýrasta prímadonnan í boði. Hver hefði t.d. trúað því sumarið 2016 hver munurinn yrði á þessum leikmannakaupum Liverpool og Man Utd?

Þetta var Bellingham sumarsins 2016 nema bara mun nær sínum peak aldri, heitasti bitinn frá Dortmund og einn efnilegasti miðvörðurinn í bransanum sem United bætti við sig.

Liverpool fékk free transfer frá skítlélegu Schalke liði, miðjumann frá liði sem féll og vængframherja frá Southampton.

Allt strákar 24-25 ára sem áttu eftir að toppa sem leikmenn og stökkbreyta leik sínum hjá Liverpool.

30 Comments

 1. Frábær pistil sem segir í raun hvað miðjan er galin hjá okkur! Bestu kaupin á leikmönnum er availability þar hefur engin komist nálægt Gini varðandi leiki eða spilaðar mínútur á öllum þessum árum hjá klöpp á miðjunni.

  Það sem gerir þessa samantekt með mínútur áhugaverðar að sókninn hefur i vetur ekkert verið skárri með mínútur að gera. Salah heldur áfram þetta unreal run að spila nánast alla leiki og Cody spilar fleiri mínútur en Jóta Diaz Firminho. Þegar við spilum nánast alls konar útfærslur af miðjumönnum ásamt sókn er þá skrýtið að árangurinn er ekki betri en raun ber vitni í vetur?

  Það er hægt að gagnrýna Klöpp fyrir lélega endurnýjun á miðjunni undanfarin ár enn þegar maður horfir í % af spiluðu mínútum þá er sú gagnrýni heldur betur rétt á sér.

  Það sem ég vil helst fá í sumar eru 2-3 leikmenn sem gefa okkur vel yfir 2500-3000 míns i öllum leikjum til gamans má geta Salah er eini leikmaðurinn með yfir 4000 míns á leiktíðinni.

  Enn og aftur frábær pistil hversu alvarleg staðan okkur er og hvað er margt sem þarf laga og komin tími til byggja nýja hryggjarsúlu í okkar lið. Þessi pistill er með því betra sem ég hef lesið með vandamál Liverpool í vetur.. Takk Einar.

  14
 2. Góð samantekt Einar, og í samræmi við það sem ég er búinn að segja lengi.

  Það gengur einfaldlega ekki að mikilvægir póstar í liðinu okkar, séu ekki leikfærir nema lítinn hluta af tímabilinu.

  Þetta á bara því miður við um alltof marga leikmenn. Annaðhvort eru þeir ekki tiltækir vegna meiðsla, eða þá að þeim er bara ekki spilað.

  Dýrasti leikmaður í sögu Liverpool, spilaði um 1850 mín í vetur, eða öðru hvoru meginn við helming, þegar 1 leikur er eftir. (Ekki allt vegna meiðsla)
  Fyrirliðinn okkar nær 60% af leikjunum, og er að spila hálfmeiddur alltaf.
  Playmaker-inn okkar, (Thiago) er vel sunnan við 40% af mínútunum leiktækur.
  Ég get alveg minnst á Jota líka, eða Ox, Keita ogsvfr, en þetta kemur allt fram í upphafspóstinum.

  Mitt point er, að við erum allt of mikið að kaupa leikmenn, sem spila of lítið, og skila þar með of litlu framlagi.

  Þetta á bæði við um þá sem eru alltaf meiddir (sérstaklega þá) og líka þá sem eru bara ekki notaðir. Carvalho, Minamino, Shaqiri (áður) ogfl.

  Við erum bara að kaupa allt of mikið að leikmönnum sem nýtast illa!!! Það er eðlilegt að einhver kaup gangi ekki upp, en þetta er bara svo allt of, allt of mikið.

  Að þessu sögðu, þá finnst mér okkur vanta miklu sterkari miðju en ég tel að Curtis Jones eða Harvey Elliot geti boðið uppá. Þetta eru fínir fótboltamenn, sem svo sannarlega hafa verið betri en enginn, þegar miðjan hefur verið þunnskipuð. En mér finnast þeir báðir of óstöðugir og ætla ekkert að tapa mér þó Curtis hafi náð nokkrum góðum leikjum í röð. Ég sæi hann til dæmis ekki komast í liðið hjá öðru liði sem yrði meistari.
  Fyrir mér er það takmarkið, að vera með betri leikmenn en liðið í öðru sæti.

  Er ég þá að kalla eftir því að Curtis Jones og Elliot verði seldir ? Ekkert endilega. Það er nóg af öðrum leikmönnum sem þarf að selja fyrst, og það
  Þarf að kaupa leikmenn í staðinn fyrir þá menn. Það lighur því ekkert á. En mér kæmi það á óvart ef þeir þróuðust í að verða ómissandi byrjunnarliðsmenn í Liverpool liði sem væri á toppnum.

  En ég vil klárlega að LFC láti frá sér þá leikmenn sem eru að skapa þetta vandamál. Bæði Thiago og Jota, þó mér finnist þeir báðir æðislegir í fótbolta. – og fleiri til.

  Liverpool getur ekki reitt sig á hryggjarstykki sem er fjarverandi trekk í trekk, þegar á þarf að halda.

  Konate hefur spilað innan við 1500 mínútur í vetur og rúmlega 1000 í fyrra. Matip spilaði innan við 1100 mínútur í vetur.
  38 leikir eru yfir 3.400 mín.
  Hvernig haldið þið að þetta fari með Van Dijk til dæmis? Enda hefur Liverpool verið þekkt fyrir það að fá á sig mörk, snemma í leikjum í vetur, og vörnin hefur verið slök heilt yfir.

  Þessi meiðsli setjast svo í kollinn á mönnum, og allar þessar hræringar smita út frá sér í allt liðið, og mér fannst við bara sjá það í vetur.

  Ég veit að upphafspósturinn fjallar um miðjumennina, en þetta er bara forgangsmál að laga. Fá inn menn sem spila meira, og losa sig við hina.

  Annars fínn pistill og ég er sammála þessu, nema að nýjasti samningur Hendó gildir langt fram á fertugsaldurinn hjá honum, en ekki þrítugsaldurinn 🙂

  Insjallah
  Carl Berg

  8
  • Þessi lesning snýr að miðjunni eins og þú bendir á en það er svo sannarlega hægt að heimfæra þetta á fleiri stöður. Liverpool er enn með 3/4 af varnarlínunni sem var frá meira og minna allt tímabilið 2020/21 og þessi eini sem búið er að bæta við spilaði 1/3 af síðasta tímabili og nær ekki helmingnum af þessu tímabili. Þyrftum að skipta út Gomez – Matip og Phillips fyrir tvo yngri og hraustari miðverði sem geta keppt við VVD og Konate. Ekki raunhæft í sumar en þetta hefði mátt gera núna undanfarna 2-3 leikmannaglugga.

   Diaz meiðslin eru freak dæmi og óheppni sem eltir Liverpool töluvert, en Jota er mjög hratt að fara í svipaðan flokk og þessir meiðslapésar allir. Thiago klárlega líka. Liverpool þarf að vera miklu meira brutal í að losa svona leikmenn af launaskrá, sama hvað þeir eru flottir í klefanum og frábærir þá sjaldan að þeir haldast heilir.

   7
   • Alveg sammála þér Einar.

    Það er alls ekkert forgangsmál að losna við Diaz, enda ekki svo langt síðan hann kom, og það getur vel verið að hann meiðist bara aldrei aftur. Við missum ekki þolinmæðina gagnvart mönnum alveg svona snemma.
    En þeir eru orðnir ansi margir þarna sem hafa verið að meiðast aftur og aftur, og eru bara því miður búnir með, eða langt komnir með “kvótann”.

    Ég hef í þessu sambandi talsverðar áhyggjur af Konate, og tel að það vanti miðvörð sem er tiltækur amk jafn mikið og VVD. Konate getur þá bakkað hann upp, eða bolað honum út ef hann fer að komast á það stig að geta spilað meira.

    Insjallah
    Carl Berg

    5
 3. Góð grein en ég verð samt að segja að þetta er óþarfa að grínast með að Eriksen hafi látist fyrir nokkru síðan

  8
  • Mér fannst grínið ekki beinast að CE heldur að okkar mönnum. Held að CE myndi finnast brandari Einars fyndinn.

   5
 4. Það væri mjög spennandi EF það yrðu gerðar stórar breytingar á miðsvæðinu?

  Alexis Mac Allister væri mjög spennandi ásamt Jude Bellingham, þá værum ég að tala um stórar breytingar.

  Mason Mount nei takk.

  4
 5. Skil ekki hvað menn eru bjartsýnir á stórkaup hjá okkur. Erum ekki í CL og hvað hafa FSG sýnt okkur undanfarin ár.
  Þetta verða svona Euroshopper innkaup hjá okkur.

  Miðað við leik Brighton gegn Man City er miðjan þeirra nokkrum ljósárum á undan okkur. Þeir eru greinilega þefvísir á góða leikmenn.

  8
  • shb, hjá mér snýst þetta ekki um bjartsýni, heldur um það sem Liverpool VERÐUR að gera á leikmannamarkaðinum til að komast upp að hliðinni á bestu liðunum.

   Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá býst ég ekki við neinum alvöru kaupum.

   4
 6. Sælir félagar

  Takk fyrir þennan pistil Einar og gott að sjá hvað miðjan hjá okkur er búin að vera handónýt á leiktíðinni Þ. e. ef maður telur í spiluðum mínútum. Ekki að þetta komi nokkrum manni á óvart sem fylgst hefur með liðinu á leiktíðinni. Klopp og félagar þurfa að sýna röggsemi og taka það á sig að láta þá fara sem ekki standast þær heilbrigðiskröfur sem gera verður til leikmanna sem eru að spila á efsta stigi. Það segir að kaupa þarf eftir farandi eftir hreinsun:

  1 miðvörð úr efstu hillu 50 – 60 millur
  2 miðjumenn úr efstu hillu 130 – 140 millur
  1 – 2 sóknarmenn úr efstu hillu 70 millur
  1 mjög sterkan vinstri bak (það vantar betra “bakkupp” fyrir Robbo sem virðist vera farinn að gefa ansi mikið eftir) 40 millur Alls uþb. 300 millur

  Látnir fara:
  1 miðvörður (Matip?)
  Thiago plús þeir sem eru þegar kvaddir (Keita, Milner, Ox) Firmino er fyrir utan þennan hóp enda af allt öðru kaliberi á allan máta.
  Jota ??? og Elliot ??? (er Elliot miðjumaður eða slakt “bakkup” fyrir Salah og er Jota á leiðinni í Ox, Keita flokkinn???) Þarna eru líka spurningar um menn eins og Bajcetic, Ramsey, Gomes, Doak, Carvalho og ef til vill fleiri sem nú tilheyra hópnum.

  Ég er nú svo illa úr garði gerður að ég á ekki von á að FSG dótið leggi það til sem til þarf að kosta og ekki nálægt því sem ég ímynda mér að þurfi til. Það er líka ljóst að ekki má skipta of mörgum út á einu bretti. en þeir sem ég tel þurfa að koma eru að stórum hluta fyrir menn sem eru farnir eða 4 af 5 til 6. En hvað um það. Ég hefi sagt að ég ætla ekki að fara að bölva lélegum innkaupum fyrr en þeim er lokið í sumar. En ég viðurkenni að bjartsýnin er ekki mikil.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
  • Mér finnst enginn forgangur að kaupa sóknarmann úr efstu hillu. Við erum nú þegar frekar vel settir af sóknarmönnum, og sá síðasti var keyptur fyrir innan við 5 mánuðum.

   En ég er sammála því að það þarf að kaupa miðvörð. Ég hef reyndar engar skoðanir á því hvað hann á að kosta.

   Eitt sem menn þurfa að hafa í huga varðandi backup í vinstri bakvarðarstöðuna. Tsimikas kom bara mjög öflugur inní þetta og hefur heilt yfir staðið sig mjög vel. Menn lofsömuðu hann hann þvílíkt fyrir ekki svo löngu. Hvað hefur breyst ? – Það hefur ekkert breyst sem ekki myndi gerast hjá flest öllum öðrum. Hann fær bara alltof lítið að spila!!
   Þegar menn eru í þessari stöðu að vera varamaður fyrir leikmann sem er nánast aldrei meiddur, þá er það bara rosalega erfitt. Menn fá svo tækifærið, standa sig vel, og verðlaunin eru svo bara enn meiri bekkjarseta. Auðvitað sest þetta á sálina í mönnum og fer í hausinn á þeim. Þetta hefur gríðarleg áhrif á leikmenn, ofaní það að missa leikæfingu/form.

   Við sjáum þetta gerist með allar stöður á vellinum, þar sem þetta á við. Ef menn lenda í því að spila lítið, þá gerist þetta. Þess vegna eru t.d varamarkmenn sjaldan mjög góðir. Þeir einfaldlega spila mjög lítið. (Þess vegna er Kelleher alger gullmoli).

   Að vera backup fyrir leikmann sem meiðist nánast aldrei og spilar vel, er bara mjög erfitt. Við getum alveg keyot sterkara back up en Tsimikas, en það væri bara nákvæmlega eins, ef hann spilar jafn lítið og hann.

   Það þarf að halda þessum strákum ánægðum, glöðum og gráðugum. Robbo hefur alveg átt frammistöður sem eru undir pari, og það hefði líklega átt að spila Tsimikas talsvert meira. Þá hefði hann ekki koðnað svona niður.

   Ímyndaðu þér bara ef það væri einn leikmaður sem hefði það hlutverk að vera varamaður fyrir Salah ? Það myndu allir leikmenn staðna á bekknum í því hlutverki… sjálfur Messi myndi lenda í því ef aðstæður væru þannig. Lausnin væri ekki að kaupa annan varamann sem væri betri. Hann færi bara sömu leið.

   Tsimikas kann jafn mikið í fótbolta núna og þegar hann kom.
   Insjallah
   Carl Berg

   9
 7. Ætli það verði ekki frekar eitthvað FSG PR leikrit þar sem verður talað um að endurkoma Curtis Jones og Trent á miðsvæðið séu eins og new signings og að Ramsey sé loksins orðinn klár eftir 1 árs meiðsli.
  Fáum svo eh free transfer target og kanski 1 miðlungs kaup á miðjuna. Þar myndi maður þekkja FSG frekar ásamt því að þeir séu að leita að renewed styrktar aðilum fyrir klúbbinn.

  Ég treysti ekki FSG í dag bara alls ekki og þangað til ég sé alvöru kaup í stöður sem vantar miðjumenn í fleirtölu ,miðvörð og alvöru backup í hægri bak þá verður það þannig.

  11
  • Held að þetta verði málið. Gott leikrit og vel æft. Fær jafnvel tilnefningu til BAFTA. Við fengum ekki fyrsta kost og förum ekki í annan kost. Svo kemur yfirlýsing að sumarið 2024 verði stórt og öll innkaup verði tilbúin fyrir EM í Þýskalandi.

   Svona er FSG í dag !!

   6
 8. Það er verið að tala um 50-70 Mills fyrir Mount…
  Hann er langt langt frá því að vera eitthvað world class.
  Væri frekar til í að setja 70 mills í að klóna luka modric og Gerrard.

  Liverpool verður að ná Alexis Mac Allister, er samt hræddur um að Man city sé að fara stela Mac Allister frá okkur, setja hann beint á bekkinn og gleyma því að hann sé til.

  3
 9. Mason Mount er að fara til MU. Líklegt að MacAllister fari til City. Þeir geta boðið hærri laun og CL. Ef þetta gerist hvaða menn eru þá eftir á markaðnum fyrir okkur ? FSG fer aldrei í “bidding war” þannig að ég veit ekki hvernig þetta fer.

  Spennandi sumar fram undan eða hvað……………. ?

  3
  • Er það eitthvað neikvætt ef FSG vill ekki fara í eitthvað “bidding war” við Man City ?
   Það
   Er ekkert hægt að hægt að vinna þann bardaga, og það gæti það enginn (nema núna Newcastle).

   Mymdum við eitthvað vilja sjá FSG reyna að yfirbjóða þann samning sem City myndi bjóða ? Gera McAllister launahærri en t.d Salah ? Hækka þannig ránna, og missa launakostnað uppúr öllu valdi ?

   Ég er ekkert viss um að ég myndi vilja sjá það gerast.

   Insjallah
   Carl Berg

   10
   • Staðan er bara þannig í dag að leikmenn fara þangað sem mestu launin eru. Meðan við erum ekki samkeppnishæfir við þessi lið missum þau langt fram úr okkur. Þetta eru orðin ansi mörg lið.

    Man City, Man Utd, Newcastle, Chelsea. Þetta eru liðin sem eiga mikla peninga. Það er mjög göfugt að vera með ungmennafélagandann að leiðarljósi og vera að dóla í 5-7 sæti utan CL. Er það sem við viljum ?

    Núna er “mómentið” fyrir FSG að stíga upp og sýna að þeir ætli sér eitthvað með okkar ástkæra lið. Munu þeir gera það ? Það kemur í ljós í haust.

    5
   • Held reyndar ef við skoðum launagreiðslur toppliðanna á Englandi hafi Liverpool ekkert verið eftirbátar þar undanfarin tímabil.

    5
  • shb, Það er nokkuð til í þessu hjá þér. miðað við það bakland sem Liverpool hefur þá erum við í mesta lagi 5 – 7 sætis lið.

   Stórklúbbur eins og Liverpool þarf að vera með stóran og öflugan eiganda, ekki eiganda sem myndi sæma vel Stoke eða Fulham!

   4
 10. Það er náttúrulega himinn og haf á milli þess að vera með ungmennaliðsandann að leiðarljósi og þess sem Liverpool er að gera. Við erum að borga 3-4 hæstu launin í deildinni, og á síðasta ári greiddum við næst hæstu launin!

  Þegar við urðum meistarar greiddum við lægri laun, svo það er engin trygging fyrir árangri að fara í eitthvað kapphlaup.

  Liðið þarf að borga samkeppnishæf laun, miðað við markaðinn í heild, en ekki vera að keppa við City eða einhver sugardaddy lið, í keppni sem er ekki hægt að vinna, og gerir ekkert annað en að keyra upp launastrúktúrinn, og gera aðra leikmenn óánægða.

  LFC þurfti að hækka launin sem það gat boðið, og gerði það. Í dag er LFC alveg samkeppnishæft varðandi laun, og ég vil ekki sjá að klúbburinn fari útí eitthvað rugl í þessum málum.

  8
 11. Nú tröllríður öllum fréttum á SkySports að MU ætli sér, Kane, Mount og Declan í sumar!

  Það stefnir í hasar á leikmannamarkaðnum og verður spennandi að fylgjast með hvað okkar menn gera!

  En góður pistill Einar M sem ávallt – í vinkilinn eins og fyrri daginn!

  5
 12. Ég myndi miklu frekar vilja Eze heldur en Mount. Er ekki alveg sannfærður með Mac Allister. Í fyrsta lagi 70m.p. alveg galið og í annan stað þarf alvöru skrokka inná miðjuna. Væri miklu spenntari fyrir leikmönnum eins og Rice, Caicedo eða Palinha. Jújú, Macca er fínn fótboltamaður og gæti nýst okkur vel og yrði væntanlega ósáttur ef hann endaði í Sjitty eða Manure.

  Ég myndi heldur ekki grenja það ef Thiago færi og Hendo yrði álitinn sem 5-6 kostur á miðjuna. Hef sagt það áður að keyptir verði max. 3 á miðjuna en ef lífið væri tölvuleikur þá selja bæði Thiago og Hendo og complete yfirhalningu.

  Minn óskalisti; Rice, Caicedo, Eze og Macca

  3
 13. Það sem við þurfum er samhentan hóp, hóp sem fílar hvern annan. Ekki einhverja Mounthana, sem halda sig meira en þeir eru, eða hrísgrjónadreifara. Samhentur hópur hefur fleytt mörgum liðum langt, eins og LFC. Hverjir þeir eru, er eitt af verkum Klopps og félaga að finna.

  YNWA

  1
 14. Sælir félagar

  Það virðist enginn eftir af þeim sem mest hafa verið orðaðir við læiðið undanfarið nema ef til vill MacAlister. Það hefur þó verið sterkur orðrómur um að M. City ætli sér að ná honum. Af hverju er maður ekki hissa? FSG???

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
  • Undanfarin ár hefur Liverpool oftar en ekki dregið alveg óvænta kanínu (eða eitthvað) upp úr hattinum, um leið og glugginn opnar. Kaup sem ekkert hafði kvisast um. En ég veit ekki hvort það fyrirkomulag er ennþá í gildi. Er ekki kraftaverkamaðurinn á innkaupastofunni hættur?

   2

Gullkastið – Lykilmenn kvaddir á Anfield

United mæta á Prenton Park – síðasti leikur kvennaliðsins í bili