Liverpool 1 – 1 Aston Villa

Liverpool mátti svo gott sem sjá endanlega á eftir voninni um að spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa á Anfield í dag.

Mörkin

0-1 Ramsay (27. mín)
1-1 Bobby okkar Firmino (89. mín)

Gangur leiksins

Það er spurning hvort fjarvera Klopp af hliðarlínunni hafi haft áhrif á okkar menn í dag, við vitum að það getur alveg verið allt frá Dr. Jekyll og yfir í Mr. Hyde sem mætir á völlinn, það var nú svosem hvorugt í dag en heldur voru okkar menn samt ekki að finna sig. Það kom fyrst berlega í ljós þegar Villa menn fengu réttilega víti eftir að Watkins slapp í gegn og Konate felldi hann, en til allrar lukku ákvað Watkins að setja boltann framhjá. En 5 mínútum síðar slökkti Trent á sér í varnarvinnunni og Ramsay nýtti sér það þegar hann renndi boltanum framhjá Alisson Becker í markinu. 0-1 og það hreinlega frekar sanngjarnt.

Villa fengu fleiri tækifæri, t.d. þurfti Alisson að bjarga með úthlaupi eftir aukaspyrnu. Okkar menn áttu hins vegar ekki skot á markið í fyrri hálfleik. Ekki það, að með eðlilegri dómgæslu hefði uppskeran átt að vera a.m.k. eitt víti því Hendo var felldur inni í teig, svona dæmigert brot sem VAR hefði ekki snúið vítadómi ef dómarinn hefði bent á punktinn, persónulega virkaði þetta alveg nægilega mikil snerting til að vera víti en VAR var varla sammála. Gakpo kláraði svo hálfleikinn (og reyndar leikinn í heild sinni ef út í það er farið) með takkaförin hans Tyrone Mings á bringunni, hinn síðarnefndi fékk bara gult fyrir en hefði svo hæglega getað fengið rautt. Líklega svipað brot og Jota slapp með gegn Spurs, en á hinn bóginn þá hefði leikmaðurinn sem Jota braut á aldrei átt að vera inni á vellinum á þeim tímapunkti… jæja, nóg um það.

0-1 í hálfleik, engar breytingar gerðar í hléi og spilamennskan var mjög svipuð í seinni, en okkar menn þó heldur meira í boltanum og náðu einhverjum skotum á markið. Hins vegar nýttu Villa menn hvert tækifæri til að henda sér í jörðina og mesta furða að þeir hafi allir sloppið lifandi frá þessum leik miðað við aðfarirnar. Þá var Martinez duglegur að strjúka boltanum þegar hann átti að taka útspörk, fékk reyndar gult spjald fyrir leiktöf á 77. mínútu en fór þá bara úr því að tefja óhóflega í að tefja vel rúmlega hóflega, og tók alltaf í kringum 20 sekúndur að koma boltanum frá sér. Sko, líka þegar hann hélt á boltanum. Reglufróðir lesendur ættu að kannast við að það má ekki.

Okkar menn töldu sig hafa jafnað leikinn á 55. mínútu þegar Gakpo kom boltanum í netið eftir mikið japl, jaml og fuður í vítateignum eftir aukaspyrnu, dómarinn mat það svo að Virgil hefði verið rangstæður þar sem boltinn fór í varnarmann Villa og að sú snerting hefði ekki verið nægilega mikið viljaverk. Það er vissulega þannig að reglurnar eru mjög túlkanlegar þegar kemur að því að meta hvort varnarmaður hafi reynt að spila boltanum, þar koma við sögu atriði eins og hversu hratt boltinn fór, kom boltinn aftan að leikmanninum, var boltinn í loftinu eða rann hann á grasinu o.s.frv. (í alvöru, flettið þessu upp í reglunum). Dómarinn þurfti m.a.s. að fara í skjáinn sem gerist annars aldrei í rangstöðudómum, og markið dæmt af.

Jota kom inná fyrir Curtis eftir rúmlega korters leik í seinni hálfleik, scouserinn okkar hafði ekki náð viðlíka hæðum í sínum leik eins og í síðustu leikjum og mátti alveg við því að fara á bekkinn. Svo komu aðal menn dagsins, þeir Bobby og Milner, inná ásamt Tsimikas. Það lifnaði nú talsvert við okkar mönnum við þessa skiptingu, og hún bar árangur á 89. mínútu þegar Salah átti snilldarsendingu inn á markteig þar sem Bobby var fyrstur í boltann og náði að setja hann í netið. Mjöööög viðeigandi í lokaleik hans á Anfield! Það var svo heilum 10 mínútum bætt við síðari hálfleik, og okkar menn voru nær því að skora, en komust ekki lengra og 1-1 urðu úrslit leiksins.

Frammistaða leikmanna

Heilt yfir var þetta frekar gleymanlegt, lykilmenn ekki að finna sig. Menn leiksins og líklega áratugarins eru klárlega Milner og Firmino. Þeirra verður saknað.

Umræðan eftir leik

Það þarf klárlega að taka umræðu um dómgæsluna. Liverpool er vissulega ekki eina liðið sem verður fyrir barðinu á lélegri dómgæslu, það gerist líklega hjá öllum. Gerist það jafnt? Onei.

Það að brotið á Hendo innan teigs skyldi ekki vera skoðað betur sem víti er umhugsunarefni, og eins er líka umhugsunarefni af hverju dómarinn er ekki kallaður til að skoða brotið á Gakpo í lok fyrri hálfleiksins. En svo má kalla hann til þegar þarf að meta hvort varnarmaður hafi spilað boltanum viljandi.

Jú Meistaradeildin er líklega endanlega frá. Ég segi líklega, því ef Liverpool vinnur Southampton í lokaleiknum, og annaðhvort Newcastle eða United tapa báðum sínum leikjum, þá gæti Liverpool stolið sætinu. En núna eru líkurnar bara nánast engar.

Höfum það líka alveg á hreinu að þó svo við vælum yfir dómgæslunni – og það lang oftast réttilega – þá er staða Liverpool í deildinni engum öðrum um að kenna en liðinu sjálfu. Það eru bara of mörg úrslit sem fóru á einn veg en hefðu þurft að fara á annan, og óþarfi að rifja upp alla leikina sem liðið hefði átt að vinna en tapaði. Þar voru lykilmenn oft á tíðum ekki að standa sig, og það vantar nýtt blóð í liðið, sérstaklega á miðjuna.

Framundan

Einn leikur eftir, úti gegn Saints um næstu helgi. Væntanlega verður að litlu að keppa, ég ætla að veðja á að hvorugt liðanna muni geta breytt stöðu sinni í deildinni. En breytir því ekki að auðvitað viljum við enda á góðu róli, og 3 stig þá munu aðeins hjálpa til þó svo að þetta tímabil muni alltaf fá líklega lélegustu einkunn þeirra tímabila sem Klopp hefur stýrt liðinu.

22 Comments

  1. Sælir félagar

    Frammistaða Liverpool í þessum leik fer ekki í sögubækurnar fyrir góðan fótbolta. Það öskraði á mann allan leikinn hvað miðjan er léleg og McGinn einn og sér jarðaði þrjá miðjumenn okkar og okkar menn heppnir að vera ekki þremur mörkum undir í hálfleik. Firmino kastaði svo björgunarhring til liðsins á nítugustu mínútu eftir sending frá Salah sem var nánast það eina sem Salah gerði af viti í þessum leik.

    Það sem kom berlega í ljós í leiknum er hvað miðja liðsins er léleg. Dómgæslan er nottla kapítuli út af fyrir sig en það breytir ekki ferlegri frammistöðu miðjunnar í leiknum Þar að auki átti Salah algeran off leik fyrir utan sendinguna á Firmino. Jota bætti engu við lélega frammistöðu síðustu leikja og vörnin var afar brothætt og óörugg. Liðið má þakka fyrir þetta stig eftir ömurlega frammistöðu meiri hluta leiksins
    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  2. xG hjá Liverpool 0,75 og Villa 1,39.

    Ömurleg frammistaða.

    Á meðan vinna united sinn leik á útivelli.

    Fyrir utan stoðsendinuna var Salah ömurlegur.

    Verður að teljast ólíklegt að united fái 0 stig úr síðustu tveimur leikjunum, sem báðir eru á heimavelli.

    Algjör ömurð að vera ekki með í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

    Mun sakna Bobby hugsanlega meira en nokkurs annars leikmanns sem hefur spilað fyrir okkar ástkæra klúbb. Algjört legend og algjörlega frábær leikmaður ennþá.

    10
  3. Djöfull er maður pirraður en Meistaradeildarsætið var í raun úr augsýn fyrir þó nokkru síðan. Við vorum einfaldlega búin að grafa okkur í það djúpa holu að það hefði þurft kraftaverk til að ná 4. sætinu og algjörlega óraunhæft að ætlast til að liðið myndi vinna 9 leiki í röð. Og svo var ekki einu sinni víst að það myndi duga.

    En til að gæta allrar sanngirni þá var þetta fín frammistaða hjá liðinu gegn sprækum Villa mönnum sem tóku Mourinho á þetta. Masteruðu Maurinho í rauninni. Það var í t.d. fáránlegt að bæta aðeins 10 mínútum við – a.m.k. 15 mínútur hefði verið eðlilegt.

    Gakpo maður leiksins að mínu mati og aðrir fínir nema kannski Jones sem var alveg off í dag. Varamenn líka fínir nema kannski Elliot sem bættu litlu við og ég held að sé ekki maður í þetta level af fótbolta.

    Mikið svakalega á maður svo eftir að sakna Firmino og Milner. Fannst þeir báðir frábærir eftir að þeir komu inn á og við þurfum heldur betur að versla til að í fylla skörðin sem þeir skilja eftir. Sjota var líka fín og spurning hvort hann hefði ekki átt að byrja leikinn.

    Verð að viðurkenna að maður bíður spenntur eftir næsta tímabili. Hryggjarsúlan í liðinu er ógnarsterk og nú þarf bara að versla inn heimsklassa leikmenn sem geta gert gott lið betra.

    Þegar allt er á botnin hvolft réðum við ekki við hið ógurlega álag sem fylgdi baráttunni um alla titlana á síðasta ári og meiðslin í haust hjálpuðu svo ekki heldur. Þá kann það yfirleitt ekki góðri lukku að stýra að selja frá sér besta leikmann í heimi en Nunes náði því miður ekki að fylla í skarðið hans Mané þó hann eigi eftir að verða ógnarsterkur.

    Tökum úrvalsdeildina á næsta ári ásamt Evrópubikarnum og þá er ég sáttur.

    Áfram Liverpool!

    12
  4. Trent átti hræðilegan dag með arfa slakar sendingar og það sama á við Salah með endalaust af ömurlegum sendingum svo þegar þeir tveir eru off á Anfield að þá gerist varla mikið því miður. Robbo slakur og Luis Diaz að ofreyna og einspila trekk í trekk. Bobby er bestur og guð minn góður hvað maður á eftir að sakna hans.

    7
  5. AV voru mjög öflugir í leiknum og spiluðu hann nákvæmlega eins og dómarinn leyfði. Þeir gáfu okkar mönnum ekkert svigrúm og engan tíma, voru alltaf í löppunum á þeim og fyrir vikið voru Jones og Trent mjög týndir. Þegar sendingar bárust inn fyrir vörnina þá máttu framherjar okkar gera betur. Fyrsta og önnur snerting voru oftar en ekki mislukkaðar og þegar maður hefði á góðum degi séð fyrir sér leiftursókn – koðnaði þetta niður í þver- og baksendingar.

    Dómararnir leyfðu þeim svo að spila þennan slómó bolta, í bland við hörkulegar tæklingar.

    Jú, með betri frammistöðu hefði þetta getað gengið hjá okkur, en það hefði líka getað farið enn ver. Engin spurning að AV hefðu getað skorað fleiri og eins og fram kemur hér að ofan var xg-ið þeirra mun hærra en okkar.

    Svo er ég enn að brjóta heilann um þennan rangstöðudóm.

    4
  6. Jæja það mátti búast við því að þetta myndi fara svona, maður er svo sem ekkert hissa á því.
    Að fara inn í tímabilið með handónýta miðju og sjá svo til var ekki að gera sig.

    Maður er svo sem búinn að átta sig á því að Jurgen Klopp er ekkert alsaklaus af þessu gengi, hann virðist ekki hafa neitt plan B, keyrir nánast gegnum gangandi á sama leikkerfinu sem virðist hafa kostað okkur mörg stig í vetur, honum hefði átt að vera það ljóst að hann hafði ekki þann mannskap og gæði á miðjunni til að spila þetta hápressu leikkerfi sitt.

    Burt séð frá hörmungum þessa tímabils þá eru mestu vonbrigðin þau að FSG hafi hætt við að selja
    þeir eru flöskuhálsinn á árangur og stöðuleika og að Liverpool komist á þann stall sem klúbburinn á að vera á þar að segja það stórveldi sem saga Liverpool endurspeglar.

    Eins og ég hef áður sagt þá þarf Liverpool að eyða 200 – 300 milljónum punda í sumar, það er bara þannig. þetta er það sem þarf að gera að lámarki. Jude bellingham, Alexis Mac Allister + öflugan miðvörð og hægri bakvörð.

    Ef við höldum áfram á þessari braut undir sama eignarhaldi endar það með því að slagorðið muni breytast úr We never walk alone í We will walk alone!

    5
  7. Skýrslan komin inn. Nenni ekki að vera of neikvæður, sólin hækkar á lofti og það er jú alltaf næsta tímabil (sem verður sko okkar tímabil!)

    9
  8. Menn eru að tala um Liverpool sé að spila ílla, menn geta ekkert.

    A.v eru búnir að vera mjög góðir, spila hundleiðinlegan bolta en hann virkar, þeir eru að mæta Liverpool sem eru búnir að vinna 7 í röð og planið er bara, sjáum hversu langt við getum komist með að drepa leikinn og láta Liverpool líta út eins og Rugby lið.
    Emry er líklegast brosandi, gefandi high five á sýna leikmenn talandi um besta leik liðsins síðan hann kom.

    Vandamálið er ekki að Liverpool er að spila ílla, það er bara ekkert plan fyrir svona leiki ef pressan okkar frá 1 mín virkar ekki.
    Við náum ekki að skora eftir 5-10 mín og A.v leikmenn liggja út um allan völl sárþjáðir.
    Menn verða pirraðir og leikurinn dettur i eitthvað pirrings limbo.

    Klopp veit hverju þeir eru að fara mæta og spilar samt upp á þeirra leikplan.

    Þegar Man shity er að mæta liðum sem eru að fara pakka í vörn, drepa leiki og spila allt annað en fótbolta.
    Þá byrja þeir leikinn á því að halda boltanum eins lengi og þeir geta, þeir jú sækja – missa boltan, fá hann aftur, fara svo bara aftur í planið að byggja upp super slow sókn og stjórna leiknum.

    Þetta drepur leikplanið hjá öðrum liðum, þeir ætlar sér að pakka í vörn en eru bara að elta boltan stanslaust í 10-15 mín, city sækir aðeins inn á milli, en þeir eru með boltan, þeir eru að stjórna leiknum frá 1 mín og liðið á móti þeim verður pirrað.

    Þetta er ekki til hjá Liverpool, planið er bara sækja eins hratt og hægt er og vinna boltan aftur og aftur, þetta plan er perfect fyrir lið sem er með leikmenn sem eru ekki 30+ ára gamlir að spila á móti 5-4-1 kerfi þar sem dómarinn er að dæma aukaspyrnur og stoppa allt momentum.

    Ég hefði viljað sjá Liverpool mæta með allt annað plan en það sem var i gangi i dag.
    Leyfa A.V að hlaupa, pakka okkar mönnum a miðjuna, leyfa Tren að klappa boltanum og fá 100-200 sendingar.

    Annars er ég bara sáttur við að sjá þetta 7 leikja sigur rönn, gefur manni smá von um að næsta tímabil verði stærra, betra og skemmtilegra.

    7
    • Ég er sammála. Klopp sleppur við mikla gagnrýni. Spilar alltaf sama kerfið og liðin eru búin að læra á okkur.

      Hann þarf að vera “ruthless” í sinni nálgun. Ekki endalaust að knúsa menn sem hafa ekki getað neitt. Losa þá bara af launaskrá. Ox í sex ár og Keita í fimm ár. Báðir með yfir 100 þúsund á viku. Var þeim peningum vel varið ? Svo sannarlega ekki.

      Henderson er td búinn á þessu leveli. Það hefur sést að undanförnu. Hlaupagetan er farin og þá er ekki mikið aftur. Margir aðrir á síðustu metrunum.

      Vonandi náum við aftur fyrri styrk en þá þarf líka að hreinsa duglega út úr hópnum. Vonandi fer Klopp í það.
      Það getur nefnilega verið hættulegt að verða of góður vinur leikmanna.

      Góðar stundir….

      5
  9. Held að úrslitin í Newcastle-Brighton hafi haft mikil áhrif á hvernig liðið kom motiverað til leiks. Fannst leikmenn andlausir og vantaði allan kraft og ákefð í leikmenn. Aston Villa voru grimmir og manni fannst eins og að það væri meira undir hjá þeim í þessum leik.

    Nenni ekki að fara sérstaklega í dómgæsluna í þessum leik en áhersluatriðið fyrir næsta season verður að fara taka á leiktöfum. Það er ótrúlegt hvað menn eru að komast upp með að drepa leikinn með að henda sér niður við minnstu snertingar og þurfa endalausar aðhlynningar. Markveðir fá að halda boltanum 10-15 sek, lið eru að taka 30-60 sek í innköst og útspörk o.s.frv.

    City meistarar. Því miður er það bara að verða normið og menn bara farnir að sætta sig við það að þetta lið sem fer á svig við allar reglur vinni ár eftir ár svo lengi sem lið erkifjénda vinna ekki á meðan. Fyrir mér er það sorgleg þróun.

    3
  10. Þetta snýst allt um sumargluggann úr þessu, klopp klúðraði tímabilinu með að kaupa enga miðjumenn í fyrra, ef ekki koma inn 2 í hæðsta klassa þá sé ég litoð annað nokkura ára uppbyggingu því miður

    3
    • Hann tekur eflaust á sig sökina en á hana mjög líklega alls ekki. GLÆTAN að hann hafi bara tekið því brosandi bak við tjöldin að missa af Touchameni í maí 2022 og enda svo með Arthur á panic lánsdíl í lok ágúst. Hugs að síðasta sumar hafi mun meira með það að gera að Julien Ward er að hætta enda hans að klára samninga við nýja leikmenn. Hann er eins yfir hópnum sem sér um að finna slíka leikmenn þó Klopp sé vissulega partur af því teymi líka og eflaust með mestu vigtina í þeim ákvörðunum.

      6
  11. Enn von. Markið hans Firminho skiptir máli. United geta alveg tapað fyrir Chelsea. Og Leicester þurfa að vinna Newcastle.

    Firminho og Milner unnu meistaradeildina og Premier League með félaginu. Gott að geta kvatt þá á Anfield. Takk fyrir allt félagar.

    4
  12. Var að horfa á match of d the day. Markið sem var dæmt af gapko er ennþá galnara eftir að hafa séð markið sem fékk að standa hjá Fullham, það var meiri rangstaða heldur en markið sem var dæmt af okkur miðað við rangstöðu regluna. Ekki það að allir þulirnir í match of the day töldu að þetta mark hjá gapko hefði átt að standa. Kær kveðja Burkni

  13. Hvað sem má segja um frammistöðu Liverpool í dag er erfitt að horfa framhjá því að þetta var mjög líklega versta frammistaða dómarateymis á tímabilinu sem er gjörsamlega ótrúlegt í ljósi þess að Paul Thierny er búinn að dæma sjö leiki Liverpool það sem af er vetri. Jurgen Klopp var í banni í dag, síðasta heimaleik tímabilsins út af atviki sem gerðist fyrir nokkuð löngu síðan og hver er settur á þennan leik á Anfield, jú maðurinn sem Klopp fékk bann fyrir að öskra á. Þetta er ekki tilviljun, ekki frekar en það er tilviljun að Thierny dæmi fleiri leiki hjá Liverpool en nokkur dómari dæmir hjá nokkru öðru liði, eini dómarinn sem Klopp hefur nokkuð opinberlega haldið fram að hafi eitthvað á móti Liverpool m.v. hvað hann er hræðilega lélegur. Þvílíka lausnin sem það var hjá enskum dómurum í vetur til að bregðst við því hversu ógeðlega lélegir enskir dómarar eru í alþjóðlegum samanburði að fá Howard Webb fíflið þarna inn til að stjórna þessu.

    Svona leikir og svona dómgæsla er líka orðið rosalega mikið og vont vandamál á Englandi, það gilda bara alls ekkert sömu reglur fyrir lið sem leggja ekki upp með að spila fótbolta og lið sem vilja gera það. Enskir dómarar eru þeir verstu í veröldinni hvað þetta varðar og hjálpa beinlínis þessum “Brentford” liðum að spila sinn fótbolta, þau fá magnafslátt á brotum.

    Aston Villa, líkt og svo ótrúlega mörg lið var mjög augljóslega byrjað að tefja frá fyrstu mínútu, það þurfti engan kjarneðlisfræðing til að átta sig á að öll þessi “brot” voru ekki svona alvarleg og leikaraskapurinn oft á tíðum súrrelískur. Ashley Young t.a.m. ætti að fá rautt fyrir að misnota regluna um höfuðmeiðsli líkt og hann gerði þegar hann lagðist niður eftir að hafa skallað fallhlífarbolta frá markinu. Moreno meiddi sig fyrir utan völlinn, dröslaði sér inná og lagðist aftur þar. Svona var þetta gegnum gangandi allann leikinn, endalaus leikaraskapur og tafir, komu sér fyrir í föstum leikatriðum svo ekki væri hægt að taka það fyrr og spörkuðu boltanum frá. Rétt eins og gegn Brentford sem spilar svipaðan anti fótbolta var Liverpool nálægt metum í brotum dæmdum á sig, einmitt það já!

    Emi Martinez fékk ekki gult fyrr en á 80.mínútu eftir líklega mestu leiktafasýningu tímabilsins á Anfield. Alisson fékk eins og þið munið gult gegn Brentford um daginn fyrir fjórðu lengsta tímann sem fór í markspyrnu í þeim helvítis leik. Dómarar sem taka aldrei á svonalöguðu, falla í allar gildrur og hjálpa andstæðingnum við ætlunarverk sitt að drepa allt tempó eru þannig partur af andstæðingnum. Það er ekkert við Aston Vlla, Brentford eða þessi lið að sakast þannig, þau ráða ekkert við að spila fótbolta gegn liði eins og Liverpool, en það er dómara að sjá til þess að hafa stjórn á leiknum. Hvað nærðu t.d. að flýta leiknum mikið með að setja línuna fyrsta korterið og spjalda t.d. markmanninn þá fyrir leiktöf?

    Þá er ég ekki einu sinni farinn að tala um stóru ákvarðarnir í dag. Jordan Henderson fer niður í teignum og endursýning sýnir að varnarmaðurinn kom ekkert við boltann og augljóslega við Henderson. Brooks gat ekki flautað nógu hratt á öll svipuð brot hinumegin.

    Tyron Mings á augljóslega að fá rautt spjald og þetta er ekki einu sinni sambærilegt við Jota um daginn. Jota var að reyna við boltann og Skipp kemur niður með hausinn í sama boltann, tæpt vissulega og mögulega rautt (þó það sé aldrei dæmt á slíkt á Englandi, nema Mané fyrir 5-6 árum) en þarna fer Mings bara með sólann í Gakpo og nær ekkert í boltann. Þetta er mikið nær því að vera jafn galið og að Skipp hafi ekki fengið rautt um daginn.

    Þá er svo eftir þessi sirkús í kringum markið sem var dæmt af vegna rangstöðu, þau fá mann einfaldlega til að efast um heilindi Brooks í þessum leik. Klopp fékk bann fyrir að draga (fullkomlega réttilega) heilindi Thienry í efa, og ætti að taka á sig annað eftir þennan leik.

    Reglan er algjör þvæla til að byrja með en hvernig koma svona atvik svona oft upp í Liverpool leikjum? Dómari hefur aldrei verið sendur í skjáinn til að meta rangstöðu fyrir það fyrsta og markið er dæmt af þar sem þeir meta það sem svo að Konsa hafi ekki sparkað boltanum frá eða reynt að gera það heldur fékk boltann í sig. Skoðið þetta atvik aftur og reynið að fá þetta þannig út! Allt í einu núna er þetta ekki nýtt atvik en sanniði til þetta verður dæmt á hinnvegin næst þegar sambærilegt atvik kemur upp, samræmið hjá þessum mönnum er ekkert og það á ekkert eins og Daníel bendir á ekkert bara við um Liverpool eða hallar eitthvað fekar á okkar menn.

    En já já þrátt fyrir þetta var Liverpool sannarlega ekki nógu gott gegn vel skipulögðu og þéttu Aston Villa liði. Þair áttu samt mun meira skilið úr þessum leik.

    Miðjan hjá Liverpool í lokin var Milner – Elliott með Trent í stuðningi sem sýnir okkur hvar mesta þörfin er á að styrkja liðið. Henderson var alveg heillum horfin í dag, Jones komst ekkert í takt við leikinn og klappaði boltanum allt of mikið. Trent og Robbo bara hittu ekki sendingu o.s.frv.

    Mo Salah kom vissulega að marki Firmino en var þar fyrir utan líkur sjálfum sér í ansi mörgum leikjum frá því fyrr í vetur og drap fleiri sóknir en hann skapaði. Gakpo hefur eins verið mun betri undanfarið.

    Erfitt samt að horfa fram hjá því að Liverpool átti að vera manni fleiri rúmlega hálfan leikinn og skoraði gott mark snemma í seinni hálfleik til að leiðrétta mjög dapran fyrri hálfleik. 1-1 snemma í seinni hálfleik setur lokamínúturnar og upplegg liðanna í allt annað samhengi.

    Það var svo auðvitað frábært að Bobby skuli klára Anfield með marki í uppbótartíma. Það er ekki oft sem 10 mínútna uppbótartími án alvarlegra meiðsla sé í raun fáránlega lítil uppbót, en það var það í dag. HM uppbótartíminn verður að vera eitt af því sem bætist við enska boltann næsta vetur til að bregðst við endalausum og óþolandi leiktöfum. Það er svo lítið mál að taka á megninu af þessu, en engin vilji.

    19
    • Takk fyrir þetta dómara-rant, ég er búinn að benda á þetta í mörg ár hvað dómarar eru lélegir á Englandi og London-, Manchesterklíkan hatar Liverpool. Þetta eru nefnilega engar tilviljanir!!! Hver er t.d. eðlislegur munur á broti Konate og brotinu á Henderson? Og svo er það morgunljóst að það er bara leyfilegt að brjóta á Salah, það þarf ekkert að ræða það. Rangstæðan á Saka í fyrri leiknum og hendin á Gabriel!!! Munið þið þegar manutd fékk víti vegna þess að VAR endursýningar virtust hugsanlega sýna að stigið hefði verið rétt á endann á einni tánni á Rashford!!?! Berið það saman við brotið á Salah í 7-1 tapinu á móti AV þegar staðan var 1-0, algjör bilun. Brotið hans Silva á Salah í haust, hvað getðist….. EKKERT…..jú Klopp fékk bann???
      Ég benti á í leikjarþræðinum í gær og rifjaðo upp þegar Mignolet fékk dæmdar á sig 6 sekúndur, hvar voru þær reglur í gær? Þetta er bara brot af því sem mig dettur í hug og nenni að rifja upp….. helvítis dómarar á Englandi.

      3
      • Og JÁ!!!!……. þessi rangstöðudómur er mesta þvæla sem ég hef séð og er bara rangur. Þegar tveir leikmenn eru komnir í gegn, verður boltanum að vera spilað fram á við svo upp komi rangstæða!!! Diaz skallar boltanum frá markinu…… HVERNIG Í ÓSKÖPUNUM GETUR ÞETTA VERIÐ RANGSTÆÐA!!!

        3
    • Hver er munurinn á broti Dijk, hér um árið á Lamela og brotinu á Henderson?

      1
  14. Tek undir allt hjá þér Einar Matthías. Það virðist vera eiithvað inngróið hatur gagnvart Liverpool bæði hjá dómurum og líka öðrum stuðningsmönnum. Endalausir söngvar um Hillsborough en ekkert gert í málinu. Hvilíkir vesalingar að kyrja þessa söngva. City með sínar 115 kærur á sér – það er greinilega bara allt í góðu.

    Mér finnst oftast halla á okkur í dómgæslu, sérstaklega í dag. Er reyndar frekar litaður. Ef þetta er 50/50 fer það á hinn veginn. Þetta var eins rautt spjald og hægt er. Harry Kane hefði alltaf fengið víti því hann er svo “clever”. Okkar leikmenn eru alltof soft vantar allt svona dirty element í þá. Þetta snýst um að vinna leiki. Ég hef ekki áhuga á fair play. Þú vinnur ekki titla þannig.

    Sammála með leiktafir. Það leggja öll liðin upp með þetta því fyrsta spjaldið kemur kannski á 80 mín. Við getum líka kennt okkur sjálfum um. Ef við kæmumst í forystu fljótlega neyðast andstæðingarnir til að koma úr skotgröfunum.

    Því miður getum við ekki breytt enskum dómurum eða stuðningsmönnum annarra liða. Við getum bara breytt okkur sjálfum með betri spilamennsku og öflugum innkaupum. Þar liggur rót vandans.

    3
    • Langlíklegast að FA sé að refsa okkur fyrir að hafa baulað á enska þjóðsönginn um daginn. Þeim dauðlangaði að drepa niður alla CL möguleika hjá okkur. Settur einhver algjör trúður á leikinn. Aston Villa sjá að hann er enginn bógur í að tækla leikaraskap og liggja hreinlega í grasinu frá 1.mínútu.
      Mér þótti það virkilega flott í fyrra þegar Alisson var með djók leikaraskap og kastaði sér í grasið eftir auðveldum bolta og gerði stólpagrín að Everton viðrinu honum Pickford þegar hann var byrjaður faðma boltann og kasta sér í grasið í fyrri hálfleik alveg eins og Aston Villa gerðu í dag. Við þurfum bara að niðurlægja svona lið. Annaðhvort að vinna þau mjög stórt eða gera grín að þeim á áberandi hátt þangað til FA getur ekki annað en tekið á þessu.

      Maður mun missa áhuga á fótbolta sem íþrótt ef þetta heldur svona áfram. Enska deildin er að verða algjört djók þegar City fær að svindla á öllum reglum ár eftir ár og kaupa sér titla, annaðhvert lið í ensku deildinni komið í eigu araba eða einhvers vogunarsjóðs, dómarar eru eins og hauslausar hænur dæmandi án nokkurs samræmis eða vits og kunna td ekki 6 sek regluna lengur og lið komast upp með að spila bland af rugby anti-fótbolta og leikaraskap leik eftir leik. Deildin mun hrynja ef áhorfendur fá nóg svona rusl spilamennsku og mæta ekki lengur á leiki.

      Maður elskar fótboltapjúristann Jurgen Klopp en ef það er eitthvað við hann sem fer í taugarnar á manni við hann þá er það hvað við erum stundum soft. Við leyfum svona sultuhundum eins og Everton, Brentford, Aston Villa að bíta í hælana á okkur og erum ekkert að sparka í og hrista þá alltaf af. Við þurfum stundum að vera meira nasty sem lið. Það fá alltof mörg lið að hömpa og spræna utan í okkur glottandi án þess að við bregðumst við. Við þurfum að vera miklu meira ruthless og refsa liðum. Við þurfum nýja leikmenn sem eru leiðtogar eða með algjört killer instinct.

      MacAllister virðist vera nánast frágenginn á tæpar 70m punda. Mjög gott að fá argentínskan bolabít á miðjuna. Ætti að smellpassa inní okkar bolta. Klopp er að fara hætta 2026. 3 tímabil í viðbót. Ég vil titla á þessum 3 árum og það marga. Ég vil toppbaráttu við City ógeðið á næsta ári og vinna Evrópudeildina. Þetta er undir FSG komið að láta Klopp fá það sem hann þarf til þess. Þeir eru á allra síðasta séns í sumar. Ég vil ekki 20 ára gamlan Gravenberch sem þarf að byggja upp á 3-4 árum. Klopp hefur ekki þann tíma. Við þurfum leikmenn sem hafa áhrif strax í haust og styrkja byrjunarliðið mikið.

      14
  15. Það er eiginlega synd að þessi þráður sé að deyja. Pistillinn hjá Einari Mattíasi og viðbrögðin við honum hér á síðunni eru bara eins og töluð úr mínu hjarta.

    Í fyrsta lagi er algjörlega fáránlegt að mark Gagpo hafi verið dæmt af. Varnarmaðurinn gerði allt sem hann gat til að forðast að skallinn hans Días kæmis á Kónate sem hefði verið í dauðafæri. Að segja að hann hafi fengið hann óvart í sig er bara eins og að segja að svart sé hvítt. Varnarmaðurinn hagnaðist sem sagt tvisvar á því að hafa náð að slæma fætinum í sendinguna frá Días. Ömurlegt.

    Í öðru lagi er sturlað að Mings hafi ekki fengið rautt spjald. Það bara skiptir engu máli þó boltinn hefði verið á milli. Hann fer með sólann á undan sér og Gagpo var einfaldlega stálheppinn að stórslasast ekki. Ég bara næ því ekki hvað er rautt ef þetta er ekki rautt.

    Í þriðja lagi er það ekkert annað en til marks um það að enska dómarasambandið ætlaði sér að kenna Livepool lexíu að setja dómarann sem Klopp fagnaði fyrir fram á leikinn. Og jú dómaranum tókst svo sannarlega að hefna sín. Sorrý, ég veit að ég er að vega að heilindum þessa manns en það er bara þannig að allt það sem Klopp sagði um Tierney um daginn átti fyllilega rétt á sér og það veit þessi dómari og dómarasambandið.

    Í fjórða lagi er bara bilað að dómarinn sjái sig tilneyddan að bæta við u.þ.b. 20 mínútum við leikinn (sem var samt allt of lítið) en gefi engum rautt spjald fyrir tafir og leikaraskap. Þetta er svo absúrd að maður eiginlega þarf að klípa sig til að átta sig á að þetta var þannig í raun og veru. Ég meina ef þetta á að vera svona þá þarf bara að lengja allar útsendingar um ca hálftíma. Auðvitað ganga ömurleg lið eins langt og þau komast upp með. Stóla á að slakur dómari leyfi þeim að komast upp með þetta. En þetta bara gengur ekki í nútíma fótbolta. Það verður a.m.k. að leyfa mönnum eins og Young ekki að koma inn á í 5 mínútur eftir svona leikaraskap nema að brotið á honum hafi verskuldað gult eða rautt – sambærilegt eins og er í handboltanum.

    Í fimmta lagi þá var Henderson sparkaður niður inn í vítateig. Það er bara svindl að það hafi ekki verið dæmt víti á það. Augljós snerting sem leiddi til þess að Henderson missti boltann og ég bara skil ekki af hverju það var ekki dæmt víti. Ég held að það sé nákvæmlega ekkert sem rökstyðji það að hann hafi ekki átt að fá víti.

    Jæja – það er eflaust meira en ég verð svo pirraður að hugsa út í þetta að ég ætla að láta staðar numið hér.

    Áfram Liverpool!

    5
  16. Ef Liverpool væri virkilega að bregðast við vandamálinu sem þeir hafa haft í allan vetur á miðjunni væru þeir búnir að ganga frá kaupunum á Jude Bellingham, síðast þegar ég vissi er ekkert að gerast þar og Liverpool er sagt hafa dregið sig út úr þeim viðræðum. því miður er ekkert að fara gerast sem nemur einhverjum stórkostlegum breytingum fram á við í þessum sumarglugga. Það er hugsanlegt að Alexis Mac Allister verði keyptur enn ekkert meira úr efstu hillunni.

    Ég mun sakna Bobby Firmino og James Milner, flottir leikmenn enn allir eiga sinn tíma, hinir tveir sem ég ætla ekki einu sinni að nefna hefðu átt að vera farnir fyrir mörgum árum síðan. Enn aðalatriðið er að Liverpool Fc þarf fyrst og fremst að losna við FSG til að taka skrefið að velgengni og til að komast upp að hlið Man City til að berjast um enska meistaratitilinn það er mun stærra skref fram á við enn að þessir fjórir leikmenn séu að fara núna.

    5

Liðið gegn Villa

Takk fyrir allt strákar YNWA