Tiltektin framundan í sumar

Byrjunarlið Liverpool gegn Chelsea á útivelli í síðasta leik er líklega besta dæmið um hversu stórt vandamálið er orðið. Liverpool er ekki lengur í neinni keppni annarri en deildinni og hluti liðsins var að koma úr 17 daga pásu, samt þarf að gera sex breytingar á liðinu fyrir stórleik gegn Chelsea því það er svo mikið álag á liðinu í þessari viku! Klopp talaði um það fyrir leik að allir leikmenn ættu séns á að stimpla sig inn í liðið en maður er aðeins farin að efast um það og ekki voru þessir sex sem komu inn að sýna fram á að frekari eftirspurn væri eftir þeirra kröftum. Er ekki versta vandamálið hversu fáa leikmenn hægt er að benda á sem ættu skilið meiri séns en fá ekki traustið?

Það er ljóst að Julien Ward og félagar skitu hressilega í heyið síðasta sumar og raunar hefur endurnýjun Liverpool liðsins farið afar illa af stað. Meiðsli lykilmanna eru auðvitað aðalvandamálið en tóninn fyrir allt þetta tímabil var samt gefin strax í ágúst þegar Arthur Melo kom á panic láni sem sárabót fyrir að landa ekki Tchouameni og leggja ekki einu sinni í Bellingham. Já eða að hafa ekkert betra plan en það. Arthur er holdgervingur þessa tímabils, illa ígrunduð panic kaup sem á endanum afrekaði 13 mínútur inni á vellinum (hingað til).

Skoðum hópinn, hverjir eru að fara, hvað þarf að koma í staðin, hverjir mættu alveg fara og hverjir eru “ómissandi”

Hvað skilja þeir sem fara eftir sig stórt skarð?

Arthur

Strangt til tekið þarf Liverpool ekki að bæta neinum við til að fylla skarð Arthur enda kom hann til að tækla örvæntingafulla stöðu sem komin var upp á miðsvæðinu strax í ágúst. Hann skipti á endanum engu máli og gerði minna en ekkert gagn. Þetta er engu að síður leikmaður sem kemur frá Juventus og var þar áður í liði Barcelona og landsliði Brassa. Væntingarnar fyrir tímabilið að voru að við værum að bæta við hópinn leikmanni af því kaliberi sem gæti fundið fjölina aftur hjá Liverpool svipað t.d. og samherjar hans frá Juve gerðu hjá Tottenham. Liverpool vantar klárlega ennþá slíka leikmenn. Krafan var að vera betri en Ox og Keita og hann var mjög langt frá því. Bravó bara.

Keita

Mesti glæpurinn er að fara bara inn í enn eitt tímabilið og treysta á Naby Keita og Ox. Hann var auðvitað kominn á meiðslalistann áður en leikmannaglugganum lokaði og hefur ekkert nýst liðinu í vetur. Þar fyrir utan virðist hausinn ekki lengur vera við verkefnið. Liverpool getur bara sjálfum sér um kennt úr þessu og átti að vera búið að losa sig við Keita fyrir tveimur árum.

Þessi vonarstjarna er líklega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Liverpool, hann náði að spila um 25% af leikjum Liverpool undanfarin fimm ár. Það sem maður vonaðist eftir meiru sumarið 2018!

Ox

Eins hræðilegur og Keita hefur verið eru kaupin á Ox jafnvel ennþá verri. Hann var engu minna meiddur hjá Arsenal en hann hefur verið hjá Liverpool en kostaði samt €35m fyrir sex árum þrátt fyrir að eiga aðeins ár eftir af samningi. Hafið það í huga þegar Mount eða Maddison fara á galnar fjárhæðir í sumar þrátt fyrir að vera renna út á samningi.

Það eru a.m.k. þrjú ár síðan það lá fyrir að Keita og Ox voru ekki að fara verða framtíðin hjá Liverpool en samt leyfði félagið þessu að gerast, losaði sig við eina miðjumanninn sem spilaði alltaf, keypti jafngamlan í staðin sem spilar helmingi minna og ekkert annað.

Af spiluðum mínútur miðjumanna Liverpool hafa 7% þeirra farið í leikmenn á aldrinum 22-28 ára þegar flestir eru á hátindi ferilsins. Henderson, Fabinho, Thiago, Milner og Wijnaldum falla sem dæmi allir undir þann flokk, leikmenn sem voru á hátindinum 22-28 ára.

Ox og Keita áttu að vera safna þessum mínútum (og Arthur):

Bara fyrir þessa þrjá leikmenn þarf að fá a.m.k. inn tvo nýja í staðin. Það þarf svo annan í viðbót til að vinna upp fjarveru leikmanna eins og Hendo, Thiago, Jones og Fabinho.

Milner

Ef að Milner er ennþá leikmaður Liverpool á þeim forsendum að hann er svo mikilvægur utan vallar og stór partur af leiðtogahópi Liverpool held ég að þetta tímabil sýni ágætlega að það er stórlega ofmetið eða eigi ekki lengur við. Leiðtogahópurinn svokallaði hefur komið við sögu í flestum þessara tröllaskita Liverpool á þessu tímabili og virkar hvað þreyttastur allra.

Ekkert diss á Milner, hann er bara 37 ára núna, er að renna út á samningi og það er ekki að gefa Liverpool neitt þegar hann kemur inná umfram yngri ferskari og hungraðari leikmenn.

Ef að hann vill spila áfram þá þyrfti það að vera annarsstaðar en hjá Liverpool, annars taka hann inn í þjálfarateymið formlega. Hann er líklega hálfpartinn í því nú þegar.

Firmino 

Cody Gakpo kom líklega inn hálfu ári á undan áætlun svipað og Diaz gerði og fyllir skarð Firmino. Ben Doak myndi maður ætla að sé farinn að banka á hurðina hjá Klopp og svo eru Elliott og Carvalho auðvitað meira sóknarmenn en miðjumenn.

Adrián
Hér er auðveldlega hægt að laga home grown skekkjuna.


Klopp gerði sex breytingar í síðasta leik og ef maður horfir yfir hópinn eru ekki margir fyrir utan sem hafa gert tilkall til að fá fleiri mínútur, einn er þó aðeins farin að skera sig úr þar:

Fabio Carvalho 

Maður lifandi sem þessi strákur gerði mistök í sumar að velja Liverpool í staðin fyrir að halda áfram hjá Fulham þar sem hann var lykilmaður og væri að spila alla þeirra leiki núna. Þess í stað hefur hann verið gjörsamlega frystur hjá Liverpool þrátt fyrir að miðjan hjá liðinu sé fullkomlega steingeld og sóknarlínan verið frá meira og minna vegna meiðsla. Þegar það vantar mark undir lok leikja er bókstaflega alltaf sett 73 ára gamlan James Milner frekar inná í stað sóknartengiliðs sem skoraði 10 mörk og lagði upp önnur átta í Championship deildinni síðasta vetur þar sem hann spilaði 33 leiki í byrjunarliði Fulham. Það að skipta Milner inná á enn eftir að bera árangur og líklega verður hann ekki lengur hjá Liverpool næsta vetur en nei, treystum frekar á hann.

Carvalho hefur samanlagt spilað fimm mínútur í deildinni frá október á meðan Milner sem dæmi hefur komið inná sem varamaður í nánast öllum leikjum undanfarna tvo mánuði.

Það er enginn að halda því fram að Fabio Carvalho sé stóra svarið við vandræðum Liverpool í vetur, alls ekki. En afhverju í fjandanum var hann keyptur í fyrra ef hann kemst svona lítið í þetta skítlélega lið okkar? Hvað er hann að gera svona mikið verra en t.d. James Milner sem alltaf er treyst inná frekar, sérstaklega í leikjum þar sem Liverpool vantar mark á lokametrunum (sem let´s face it eru flestir leikir). Hvernig er verra að gefa honum þessa sénsa og vonandi leikreynslu sem nýtist næstu ár frekar en Milner sem (vonandi) fer næsta sumar?

Milner er tekin sem dæmi hérna þar sem hann kemur nánast alltaf inná, alveg eins hægt að nota Ox eða Keita, leikmenn sem fara næsta sumar og eru ekki að skila nokkrum sköpuðum hlut en hafa verið að fá sénsa frekar.

Carvalho byrjaði gegn Man City í deildarbikarnum í desember og skoraði í þeim leik en hefur afrekað 68 mínútur síðan, bikarleikinn gegn Wolves (66 mín) og Bournemouth tapið (2 mín). Afhverju?

Eins og staðan er núna er ljóst að hann valdi kolrangt með því að veðja á Liverpool og það er lítið sem bendir til þess að hann verði stór partur af plönum Klopp næsta vetur. Verst er að sjá hvernig hann passar í leikstíl Liverpool því leikstíllinn virðist vera greptur í stein óháð leikmannahópi liðsins.

Curtis Jones

Allt í einu poppaði Curtis Jones upp í byrjunarliði Liverpool í fyrsta skipti síðan í nóvember. Hann var ekki nógu góður þremur dögum áður til að vera í hóp, Milner, Arthur og Ox voru það frekar en svo bara byrjar hann næsta leik. Þetta tímabil ætti með réttu að vera algjört make or break fyrir Jones sem hefur staðnað hrottalega sem leikmaður. Er einhver sem sér hann lengur sem einhverja framtíð hjá Liverpool?

Aðalvandamálið með Jones er að hann er álíka traustur og hraustur og Ox og Keita og þarf því jafn mikið að fara frá félaginu og þeir. Liverpool bara verður að vera miklu meira brutal við slíka leikmenn.

Mögulega var byrjunarliðssæti gegn Chelsea einhver líflína fyrir hann en guð minn góður þyrfti hann þá að grípa hana og nota þessa 10 leiki sem eftir eru af þessu ógeðslega tímabili. Sé það ekki gerast.

Það eru ekki mikið fleiri sem ekki er að fá sína sénsa í vetur og höfum alveg á hreinu að það er engin rosalegur skandall að Carvalho og Jones séu svona mikið utan hóps eða byrjunarliðsins. Sömu þreyttu skiptingarnar leik eftir leik eru þó farnar að verða fullkomlega óþolandi og því horfir maður t.d. til þeirra, eins stutt og það hálmstrá nú er.


Listi þeirra leikmanna sem mættu fara strax næsta sumar en gera það líklega ekki stækkar líka mjög hratt núna eftir áramót, þetta er samt það lélegt að líklega fer nú einhver af þeim.

Joe Gomez  

Endalaus meiðsli hafa augljóslega tekið sinn toll og gert það að verkum að Gomez er bara ekki nógu góður til að spila stórt hlutverk hjá Liverpool. Hann hefur verið orðaður við t.d. Newcastle og gæti vel verið söluvara í sumar en brottför er ólíkleg. Vonandi vill ekki nokkur maður aftur sjá hann í bakverði og hann hefur átt of marga shaky leiki í miðverði til að teljast alveg á þessu leveli. Svo þegar hann nær að sýna eitthvað nokkra leiki í röð hefur hann bókstaflega ALLTAF meiðst. Ef hann er þarna á þeim forsendum að þetta er enskur strákur þarf bara að kaupa annan enskan í staðin.

Jordan Henderson

Eftir því sem liður á þetta tímabil verð ég harðari á því að kominn er tími á að brjóta upp þennan svokallaða leiðtogahóp Liverpool og skipa nýjan fyrir næstu kynslóð leikmanna Klopp. Henderson hefur verið afleitur allt þetta tímabil og mjög oft sloppið við gagnrýni sem félagar hans hafa fengið í staðin. Það er auðvitað enginn að draga í efa að hann hefur verið frábær fyrirliði Liverpool og var mjög góður leikmaður einnig, það var þegar hann hafði slíka hlaupagetu og kraft að maður keypti bol fyrir utan Anfield sem á stóð að 70% of earth is covered by water, Jordan Henderson covers the rest. Hann er alls ekki frábær varnartengiliður, hann skorar ekkert og skapar alls ekki nóg þannig að ef hann hefur ekki box-to-box hlaupagetuna hvað er þá eftir?

Ástæðan fyrir því að smíðað er úlfalda úr mýflugu í atvikinu þegar fyrirliði Liverpool skammar markmanninn í hita leiksins í síðasta leik, eitthvað er fullomlega eðlilegt og gerist í hverjum leik, er vegna þess hversu kjánalega það lítur út að sjá Henderson skamma Alisson, hann hefur ekki efni á því. Hlaupatölur Alisson væru á pari við prime Haile Gebrselassie í hverjum leik ef hann væri hlaupandi á miðjuna í hvert skipti til að skamma samherja sína þar fyrir sín mistök.

Rétt eins og Gomez er þetta ennþá flottur EPL leikmaður en ekki elíte level lengur, eiga heima í liði sem er að berjast um að vera á bls 1 á textavarpinu, sem er reyndar einmitt það sem Liverpool er að gera í vetur.

Joel Matip

Það er ekki aðkallandi að losa Matip strax í sumar og líklega verður hann einn af fjölmörgum leikmönnum Liverpool sem snarbatnar með MIKLU MIKLU MIKLU meiri hjálp frá miðsvæðinu en það þarf samt að kaupa nýjan miðvörð og færa Matip aftar í goggunarröðina strax. Hann verður 32 ára í sumar og er pottþétt búinn að ná sínum hátindi sem leikmaður. Held að hann sé samningslaus 2024.

Nat Phillips

Liverpool verður bara að kaupa miðvörð sem meiðist ekki á lokadegi leikmannagluggans og eyðileggur framtíðarplön Nat Phillips. Þetta er Ben Davies (sem er ekki til) level af leikmanni, skoski boltinn eða Championship deildin. Það væri svosem ekkert að því að hafa hann sem fimmta kost áfram ef Liverpool þyrfti ekki svona oft að nýta sér það neyðarúrræði. Enn einn leikmaðurinn sem maður vill allt það besta en er á sama tíma ekki nógu góður til að vera leikmaður Liverpool.

Tsimikas

Þessi strákur er bara of aumur og of lítil samkeppni við Robertson. Robbo er núna 29 ára og gæti vel orðið bensínlaus á næstu árum eftir gríðarlega orku sem farið hefur í undanfarin tímabil undir stjórn Klopp. Við höfum verið að sjá samherja hans hrynja niður í formi eða líkamlega um of eftir þrítugt og því þyrfti að fara huga að arftaka hans fljótlega og það er ekki Kostas Tsimikas.

Thiago

Ef að Thiago gefur það til kynna að hann vilja nýja áskorun eða eitthvað lið sýnir honum áhuga hugsa ég að Liverpool myndi stökkva á það. Hann er að spila 44% það sem af er þessu tímabil sem er nokkurnvegin hans meðaltal og verður 32 ára í næstu viku. Hann er löngu búinn að toppa sem leikmaður og Liverpool þarf svo augljóslega miklu yngri, ferskari og hraustari leikmann í þessa stöðu. Þarf ekki endilega að vera betri í fótboltalegum skilningi enda fári betri þar en Thiago. Gini Wijnaldum góður miðjumaður sem spilar 85% leikja Liverpool er miklu “betri” en Thiago sem spilar 45% af leikjunum. Hann hefur einfaldlega ekki skrokk í efsta level og það er oft dýrt fyrir Liverpool að vera svona mikið án hans.

Diogo Jota

Ef að einhver sóknarmaður fer í sumar (ásamt Bobby) myndi ég tippa á Jota. Hann er einn af mörgum sem virðist ekki passa almennilega í leikkerfið, hann er gjörsamlega alltaf meiddur og er núna að afreka heilt ár án þess að skora eitt helvítis mark.

Aðalástæðan samt fyrir því að maður getur alveg séð það gerast að hann yfirgefi Liverpool er sú að það eru núna þrír aðrir leikmenn sem spila hans bestu stöðu á vinstri vængnum. Diaz er byrjunarliðsmaður þegar hann er heill. Darwin Nunez er einhverrahluta vegna notaður þarna núna frekar en upp á toppi og Cody Gakpo spilaði þarna í Hollandi.

Orðum þetta öðruvísi, ef það kemur sóknarmaður til Liverpool hugsa ég að Jota sé næstur út, ekki endilega í sumar samt.

Kelleher

Líklega þarf Kelleher að fara gera það upp við sig hvort hann ætli að sætta sig við að vera varamarkmaður megnið af ferlinum eða fara frá Liverpool. Eins er næsta sumar líklega besti glugginn fyrir Liverpool að fá eitthvað fyrir Kelleher. Af þessari upptalningu vona ég nú samt hvað mest að hann verði áfram hjá honum næsta vetur enda nógu góður til að vara varamarkmaður Liverpool. Yrði hann aðalmarkmaðurinn ef að Alisson færi? Það er líklega stóra spurningin sem sker úr um hvort framtíð hans verði hjá Liverpool eða ekki.

Sala á 2-3 af þessum leikmönnum gæti skapað pláss og fjármagn til að styrkja aðrar stöður án þess að veikja liðið að neinu ráði miðað við spilamennsku þessara leikmanna í vetur.


“Ómissandi”

Það eru sorlega fáir eftir sem maður myndi flokka sem ómissandi og líklega þarf að fara huga að framtíð þeirra flestra fljótlega

Alisson 

Eini leikmaðurinn sem kemur út úr þessu tímabili með einhverri reisn en höfum líka alveg í huga að það er oft þannig í liðum sem gefa allt of mörg færi á sér. Við erum að tala um markmann Liverpool sem langbesta leikmann liðsins í vetur á sama tíma og liðið hefur fengið á sig 1,2 mörk að meðaltali í leik í deildinni. Á útivelli fær liðið á sig 1,6 mörk að meðaltali sem er hreinlega glæpsamlegt.

Segir kannski sitt um hvað þetta tímabil er skrítið og Alisson góður að hann er þrátt fyrir þetta líklegur til að vinna golden glove í ár! Liverpool er að gefa næst mest af opnum færum á sig á eftir Fulham.

Hann verður 31 árs á þessu ári sem er kannski mesta áhyggjuefnið.

Trent 

Af uppöldum leikmönnum er Trent ennþá súperstjarna og í ljósi þess að hann er aðeins 24 ára er hann vonandi að fara sigla inn í sín bestu ár frekar en að þróast eins og t.d. Owen og Fowler sem voru útbrunnir eftir þann aldur. Setjum aftur alvöru miðjumenn sem geta hlaupið eitthvað smá áður en við afskrifum Alexander-Arnold. Hann hefur eins og aðrir varnarmenn liðsins oft á tíðum virkað áhugalaus í varnarleiknum sem er erfitt að fyrirgefa. Vonlaus miðja hefur svo fullkomlega tekið af honum vængina sóknarlega sem er hans helsta vopn og var raunar eitt helsta vopn Liverpool.

Van Dijk  

Núna í sumar er tíminn til að kaupa arftaka Van Dijk þá auðvitað án þess að selja VVD. Hann verður 32 ára í sumar og virðist vera kominn af sínu allra besta skeiði þar sem hann var sannarlega einn besti miðvörður sögunnar. Matip, Gomez og Phillips eru ekki að fara taka við af honum og því þarf að bæta í miðvarðahópinn strax alvöru gæðum. Augljósasti kosturinn er að spila fyrir Leipzig núna en það er óþarfi að láta eins og hann sé sá eini sem gæti komið til greina.

Konate

Það er vægast sagt áhyggjuefni að Konate sé framtíðin í vörn Liverpool og arftaki Matip og Gomez. Aðallega vegna þess að hann er jafn brothættur og þeir. Gæðin eru ekkert vandamál hinsvegar.

Robertson 

Ég óttast að Robbo hafi verið að toppa sem leikmaður 25-28 ára sem væri fullkomlega eðililegt. Vonandi nær hann sýnu mojo-i fyrir alvöru aftur á næsta tímabili í liði með betri holningu því hann ásamt Trent hefur líklega orðið hvað mest fyrir barðinu á því að Liverpool hefur ekki telft fram miðju í vetur sem ræður við leikstíl liðsins.

Fabinho 

Fabinho sem varð þrítugur á dögunum rétt svo nýtur vafans eitt ár enn ekki síst í ljósi þess að ég er að afskrifa nánast alla hina miðjumenn liðsins sem komnir eru í mútur. Hann hefur vissulega verið partur af vandamálum Liverpool í vetur en ég held að hann eigi enn töluvert inni fái hann gáfulegri hjálp og meiri stöðugleika á miðsvæðinu.

Liverpool þarf samt að fara kaupa annan varnartengilið sem getur slegið Fabinho úr liðinu. Ekki miðjumann sem breytt verður í varnartenglið (a la Henderson) eða sóknartengilið sem spilað er úr stöðu þar til hann missir sæti sitt í liðinu fyrir það að kunna ekki á varnarleik liðsins, nei takk, alvöru varnartengilið. Þetta er mikilvægasta staðan á miðjunni.

Salah

Set hann í nákvæmlega sama flokk og Van Dijk og Fabinho. Fyrir 18 mánuðum var hann réttilega meðal þeirra allra bestu strax í kjölfar þess að Messi og Ronaldo voru að kveðja það svið. Hversu langt frá því hefur hann verið síðan? Var hann að toppa sem leikmaður þá? Það gengur upp m.v. aldur. Eins hefur hann spilað nánast alla leiki Liverpool frá því að hann kom og það hefur gengið frá skrokkum (eða hausnum) á flestum samherja hans.

12 mörk í deildinni í vetur og fjölmargir leikir þar sem hann er eins og draugur er langt frá því að vera nógu gott í ljósi þess að sóknarleikur Liverpool virðist stundum bara ganga út á að koma boltanum á hann. Bestu leikmenn í heimi eru jafnan í meira sexy tölum en þetta. Hann var varla með eftir áramót í fyrra heldur.

Hann verður 31 árs í sumar og miðað við þetta tímabil er hann líklega nú þegar búinn að toppa sem leikmaður, þrátt fyrir það gætum við alveg ennþá átt þarna heimsklassa sóknarmann.

Nunez

Springur hann út svipað og Suarez gerði? Hann hefur kraftinn og hæfileikana í að verða 25-30 marka maður en virðist ekki njóta fullkomlega traust hjá Klopp ennþá. Það er fullkomlega fáránlegt að horfa á Klopp taka hann af velli leik eftir leik sem fystu breytingu þegar liðinu vantar mark. Síðast t.d. hélt hann Jota frekar inná sem ekki hefur skorað mark í 31 leik.

Diaz

Áður en hann kom til Liverpool hafði hann varla misst úr leik vegna meiðsla…

Rétt eins og Nunez er þetta strákur með hæfileika til að verða framtíðin hjá Liverpool en þá má hann ekki halda áfram að meiðast alltaf.

Gakpo 

Ekki séð mikið frá honum sem gerir hann ómissandi en þetta er nýjasta viðbótin og allt of snemmt að dæma. Hann hefur klárlega hæfileika og veit hvar markið er.

Elliott 

Ekki jafn spenntur fyrir Elliott og fyrir ári síðan og velti fyrir mér hvort hann sé að spila svona mikið í vetur og það úr stöðu vegna þess að hann er svona mikið efni eða vegna þess að miðjan er svona léleg hjá Liverpool? Hver er hans besta staða og er hann nógu góður þar til að vera þar hjá Liverpool? Ef það er á vængnum í því hlutverki sem Salah spilar óttast ég að hann þurfi að þroskast töluvert líkamlega fyrst, líka reyndar ef hann ætlar að verða miðjumaður.

Hvorugt eitthvað sem er útilokað enda varð hann bara tvítugur í gær. Erfitt að átta sig á því hvar þakið hans er, Curtis Jones var sem dæmi líka að spila slatta á þessum aldri en hefur staðnað algjörlega síðan.

Bajcetic

Þetta er augljóslega gríðarlegt efni og hann er að fá gríðarlega mikilvæga leikreynslu aðeins 18 ára. En er hann svona góður eða er miðjan hjá Liverpool svona rosalega léleg? Bajcetic var að spila nokkuð mikið og sýna ágæta takta en það er ekki eins og Liverpool hafi getað eitthvað í þessum leikjum. Tyler Morton var líka að óvænt að fá slatta af mínútum á svipuðum aldri. Eins boðar alls ekki gott að hann meiðist strax við fysta álag.

Það er mjög mikið að það liggi fyrir að 5-6 leikmenn fari pottþétt í sumar (klára samning) og léttilega er hægt að telja um 5-6 til viðbótar sem vel er hægt að sjá kveðja einnig. Auðvitað verðum við að hafa í huga að nú þegar er búið að kaupa inn fyrir hluta þessara leikmanna og maður myndi ætla að leikmönnum eins og Bajcetic, Carvalho, Jones, Doak, Gordon, Ramsey o.fl. sé ætlað stærra hlutverk, ekki öllum en einhverjum þeirra. Þ.e. það komi ekki 10-12 inn ef það kveðja 10-12 í sumar. 

 

29 Comments

  1. Jurgen Klopp gæti verið á leið út, eða svo segja fjölmiðlar í Englandi. Ég tel samt að hann muni klára samninginn, en vænti þó einskis af honum framar eftir þetta hörmulega tímabil.

    8
  2. Hér er farið rækilega ofan í Vandamalin sem er ágætt en stjórinn Klopp er ekki nefndur sem hugsanlega bleikur fíll í postulinsbuðinni.Eins mikið og við elskum kallinn þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að það var hann hefur klúðrað bæði Mans og Dortmund á sjöunda árinu og er nú á góðri leið með það hjá LFC . Klopp hefur líka tapað coolinu í vetur og virðist í það heila tekið uppgefinn á verkefninu. Svo ef að FSG ætla að eiga okkur áfram þurfa þeir að hafa pung til að ákveða stóra hluti sem að ég tel næstum því óhugsandi að þeir geri því LFC er ekki eina félagið sem þeir hafa vanrækt.Hafnaboltaliðið þeirra í Boston er líka í storum vandamálum út af nizkunni í Henrý gamla . En það má samt segja það að við lifum á spennandi tímum og óvissan er mikil hjá okkar liði en við höfum verið þar áður svo ég ætla ekki að fara sð hafa of miklar áhyggjur af þessu en mun samt fylgjast vel með á silly sisoninu í sumar.

  3. Sæl og blessuð.

    Þetta er snilldarpistill um risabömmer.

    Ég man hvað ég var undrandi á Chambo kaupunum á sínum tíma. Horfði á Salah (30 m.) pakka honum saman í sigurleik og svo keyptum við hann á 35. Keita fór í taugarnar á mér frá fyrsta leik og maður beið og beið eftir einhverju sem varð svo ekki neitt. Ætla ekki að endursegja það sem hér stendur. Kvitta bara upp á það og dreg saman í þá niðurstöðu að heilabúið í liðinu er ekki að virka sem skyldi.

    Klopp og samstarfsfólk eru föst í einhverri kergju og þurfa að byrja á því að sætta sig við orðinn hlut og glataðar ákvarðanir. Ef það verður ekki gert þá þarf að hafa heilatransplant = fá inn nýtt fólk.

    Góðu fréttirnar eru þær að liðið hefur verið að eyða á borð við liðin í neðri deildum um leið og tekjur hafa hrúgast inn. Ekki hafa eigendurnir verið að hreinsa upp ,,óráðstafað eigið fé”. Það hljóta því að vera þarna digrir sjóðir sem hægt er að ganga í.

    Svo, nú þarf að hætta að leita að óslípuðum demöntum í skarninu. Við höfum reynt slík kaup undanfarin tvö-þrjú ár og lítið komið út úr því. Nú þarf kaupa þessa proven-given snillinga sem koma til með að hefja okkur upp í efstu hæðir að nýju.

    Vonandi sjá Klopp og co. að sér og breyta um kúrs. Að öðrum kosti þarf að taka upp símann og fá nýtt fólk inn. Það væri satt að segja sorglegt eftir þau dýrðarár sem við höfum fengið að njóta.

    2
  4. Já, það er áhyggjuefni að Jurgen Klopp sé mögulega á leið út, ég spái því að hann færi í sumar.

    Einar, ég er sammála flestu í greiningu þinni á mannskapnum, því miður vegna þess að við höfum sofnað á verðinum þarf Liverpool að fara í alltof stórar breytinga í sumar sem myndi taka einhvern tíma að slípa saman. Það er ekki ólíklegt að það þurfi að eyða 200 – 300 milljónum punda í leikmenn í sumarglugganum til að koma sér aftur í hóp bestu liðana.

    Enn vandamálið er að ég sé ekki að FSG muni fara í þessar framkvæmdir á mannskapnum, það eru engar líkur að það sé að fara að gerast. Það sem ég sé fyrir mér að sé að fara að gerast er að Jurgen Klopp mun trúlega fara í sumar og Liverpool fær inn einhvern stjóra sem er ekki á sama leveli (hugsanlega Gerrard) og við munum þurfa að gera minni kröfur á næstu árum hvað varðar árangur, það er nú bara þannig því miður.

    YNWA

    2
  5. FSG geta varla verið svo vitlausir að láta Klopp fara. Þeir vita nákvæmlega um eyðslu annarra liða og gera sér vonandi grein fyrir að lið eru ekki samkeppnishæf til lengri tíma ef leikmennirnir eru ekki nógu góðir. Hluti af vandanum er að það fylgir því alltaf spenningur fyrir aðra leikmenn ef keyptur er öflugur leikmaður en við höfum verið að kaupa vonarstjörnur sem þurfa sinn tíma. Of margir leikmenn spila of marga leiki vegna endalausra meiðsla (Ox, Keita, Thiago) og það veldur andlegri þreytu ekki siður en líkamlegri. Þetta verður að laga strax í sumar því annars eigum við eftir að lenda í enn meiri vanda og þá gefast fleiri leikmenn upp.
    Undanfarið hafa verið að birtast fréttir af því að City, Chelsea, Real Madrid og fleiri hafi verið að semja við efnilega leikmenn frá Suður Ameríku (og undanfarin ár hafa sumir orðið að stórstjörnum t. d. Vincius Jr hjá RM og Alvares hjá City) en slíkt er ekkert í gangi hjá okkur. Þá vaknar sú spurning hvernig ,,scouting” kerfið okkar er uppbyggt? Af hverju t.d. vorum við ekki að bjóða í Enzo Fernandes meðan hann spilaði í Argentinu? Fór hann ekki til Portúgal á rúmar 10 milljónir punda?

    2
  6. Góður lestur þetta. Kemurninn á það sem er að.

    Ef Klopp flýr skipið áður en samningurinn er úti þá er allt mitt álit á honum farið, sama hvað hann hefur gert. Menn tala um svakalega uppbyggingu sem er í raun kjaftæði. Við erum að kveðja Milner, Ox, Keita og Firmino sem losar um fyrir td Conor Gallagher og Mount frá Chelsea (£70-75m því CHE þarf pening inn) og svo Bellingham (£100m þeas ef Klopp verður ekki horfinn). Þetta er siðan saxað niður með sölu á Kelleher (GK) og Philips (DC) og jafnvel Gomes ef Newcastle gefur okkur góðan pening. Fyrir svo utan það að FSG þá fara að taka upp veskið þar sem þeir hafa lofað frá byrjun að kaupa þegar þörf er. Þörfin var fyrir 4 árum. Fengum Thiago inn á milli. Yess! Bætum honum inn á “BæBæ” listann.

    Að Klopp aftur. Ef hann er búinn að fá nóg og fer þá tel ég hann hafa logið að okkur. Hann segir stöðugt í uppistandi fyrir hverja helgi fyrir framan fjölmiðla að hann hafi nóg eftir og gefur okkur brauðmola. Klopp verður að koma sjálfur fram og segjast verða ALLAVEGA ut samninginn til að Bellingham komi. Það ger enginn að skrifa undir ef hann er farinn daginn eftir.

    Klopp og FSG eiga þetta rugl sameiginlegt. Setjið á ykkur karlmannsbuxurnsr og reddið þessu.

    4
  7. Flottur pistill en ég er ekki sammála um mikilvægi sumra leikmanna og læt því mína skoðun fylgja.
    Ég er sammála því að hópurinn verði minnkaður, það fara ca. 10-12 og ekki keypt inn fyrir hvern einn sem fer út. Það er verið að hlæja að stærð hópsins hjá chelsea sem telur 32 leikmenn, Liverpool er með 30. Þetta eru of margir leikmenn sem dregur úr gæðum á æfingasvæðinu og allt, allt of margir leikmenn sem gagnast okkur nákvæmlega ekki neitt líkt og Keita.
    Ef ég fengi einhverju ráðið, mundi ég telja þetta væri raunhæft:
    Adrián rennur út á samning í sumar, fá inn nýjan enskan markmann og losa eitt “Foreign” pláss.
    Nat Phillips þarf að selja.
    Rhys Williams þarf að selja: Í staðin fyrir þessa tvo þarf amk einn leikmann og Skriniar er samningslau í sumar en svo eru Josko Gvardiol (þótt hann hafi verið afleitur á móti city) og Min Jae Kim hjá Napoli mjög spennandi leikmenn.
    Tsimikas má selja og hér þarf að kaupa alvöru leikmann til að hjálpa Robertson – Tyrick Mitchell hjá Cristal Palace er að mínu viti mikið betri en Tsimikas og einnig Mitchel Bakker hjá Leverkusen.
    Það þarf að kaupa inn betri og meiri samkeppni fyrir Trent og þá horfi ég til Benjamin Pavard hjá Bayern eða Max Aarons hjá Norwich, báðir mikið betri en Ramsey eða Gomez.
    Miðjan er stóra vandamálið og eins og sakir standa getum við aðeins haldið Henderson, Fabinho, Bajcetic og Thiago. Þar sem Jones fékk nýjan samning í haust er hann líklegast ekki á leið út en mér finnst hann ekki nógu og góður og galinn þessi lantímasamningur sem hann fékk í haust. Á miðjuna þurfum við Bellingham en eitthvað óttast ég að hann sé að renna okkur úr greypum sem er alveg hræðilegt. Við verðum að losa Keita, Arthur, Ox og Milner og svo finnst mér Caravalho eiginlega aldrei hafa fengið að spila sína stöðu inni á miðjunni og nýtist alls ekki á vinstri kantinum. Ef að það á að nota hann áfram eins og hingað til, þá má þessi drengur fara. Það sama má eiginlega segja um Elliott, hans besta staða er á hægri kanntinum en þar vantar hann hraða til að leysa Salah af hólmi svo það er eiginlega bara hægt að halda öðrum af þeim tveimur, Elliott og Caravalho.Mér finns best hugsa miðjuvandann út frá like for like og þá kemur Gallagher hjá chelsea upp í hugann. Hann minnir mig á Henderson með “mótorinn” í lagi og getur verið “átta” sem hleypur “box to box”. Einnig verður barist um Declan Rice og hann kæmi með margt að borðinu fyrir okkur. Mount væri flottur kostur og væri ég alveg til í að sjá hann í rauðu á næsta tímabili. Ég vil ekki sjá Liverpool blanda sér í Tielemans umræðuna því ég held að hann sé á sama stað getulega og Carvalho.
    Frammi erum við ekki líklegir til að bæta við okkur en mér finnst við vera með of fáa sem geta leyst Salah af hólmi. Gakpo er að bæta sig í þessu hlutverki, sem Firmino skilur eftir sig, að koma djúpt niður og sækja boltann en hann verður að bæta sig í því að senda boltann frá sér ef þetta á að vera uppstillingin.
    Hvað sem verður að þá er enginn að fara í sumarfrí sem sjá um leikmannamál hjá Liverpool í sumar.

  8. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil Einar hann er “orð í tíma töluð”. Ég er sammála öllu sem þar er sagt og það er morgunljóst að gríðarleg tiltekt þarf að fara fram í hópnum. Sú staða skrifast á KLopp og ekki síður og ef til vill frekar á FSG. Það að Klopp hafi látið þessar aðstæður skapast innan leikmannahóps Liverpool er nánast ófyrirgefanlegt og verður stærsti mínusinn í kladda sögunnar þegar Klopp tíminn verður gerður upp.

    Því miður tel ég að tiltektin muni taka anzi mörg ár og Klopp muni ekki klára hana undir FSG. Sú drullusjoppa mun ekki leggja það til sem þarf til að hefa tiltektina hvað þá klára hana. Listi þeirra manna sem verða að fara er legíó. Þar með er listi þeirra sem þarf að fá í staðinn anzi stór. Miðað við aðhalds stefnu (les. sveltistefnu) FSG undanfarin ár þá sé eg ekki að mikið gerist í leikmannamálum í sumar. Mér finnst einfaldlega að það séu mjög dimmar horfur fyrir okkar ástkæra lið á komandi árum. En sjáum til hvað gerist áður en bölmóðurinn drepur mann.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  9. Enn eitt bitra bullið í Dietmar Hamann útí Klopp. Mikið rosa virðist Klopp fara í taugarnar á honum. En það segir ýmislegt þegar fyrrum hetja Liverpool hefur fullkomlega enga trú á að FSG muni gefa Klopp þá peninga sem þessi stóra endureisnin þarnast.

    https://liverpoollatestnews.com/klopp-urged-to-leave-the-club-by-former-liverpool-player-161762/

    Klopp hefur marg gefið út að hann muni klára samninginn. Skil ekki þetta tal í mönnum hérna. Hann er ekki að fara segja upp í sumar nema FSG gangi algjörlega frammaf okkur í sinni endalausu nísku og styrki liðið ekki sama og ekki neitt.
    FSG eru algjörlega á síðasta séns í sumar. Ef þeir klúðra þessu sumri mun ekki einu sinni afsakanafræðingurinn Carl Berg með sína hundalógík reyna réttlæta þá lengur.
    Það verður ekki farið alltof seint í einhvern Asíutúr í sumar til að auka auglýsingatekjur FSG. Klopp verður að stíga fæti niður og vernda leikmenn sína gegn öllu slíku rugli. Það verður að gera fullkomlega allt til að leikmenn fái hvíld og alvöru undirbúning. Það er möst að komast strax aftur í CL og titilbaráttu. Það verður svo að taka fartölvuna og pennann af Pep Lijnders, kemur ekki til greina að hann tjái sig eða gefi út aðra bók um þjálfunaraðferðir Liverpool. Þvílíkt taktlaust heimsku fíaskó sem það var.

    Fyrir mér eru Alisson, Van Dijk, Konate, Salah, Diaz, Trent, Robertson, Gakpo, Bajcetic og Doak ekki til sölu í sumar. Allt annað má brenna eða setja til hliðar.
    Eftir þessi ótrúlegu vonbrigði með Keita þá er spurning hvort við eigum að vera leita mikið í þýsku deildina að leikmönnum. Ekki gerðu Havertz og Timo Werner hjá Chelsea miklar rósir eftir að hafa verið mikið orðaðir við okkur. Keita leit stórkostlega út í Þýskalandi en hafði bara ekki fætur og andlegan styrk í enska boltann. Spurning að vera ekki að leita mikið til M-Evrópu með miðjumenn ef þeir eru farnir að nálgast 30-aldurinn eins og sást af Fabinho og Thiago. Leikmenn Klopp þurfa hlaupaorku í 5-6 ár ekki 1-2. Spurning að finna bara unga greddulega og vinnusama S-Ameríku gaura í bland við enska leikmenn á miðjuna. Einhverja tæknilega góða en grófa og vinnusama nagla á miðjuna fyrir Klopp til að þjálfa upp í pressufótbolta í bland við enska stráka eins og Bellingham, Declan Rice og Mount. Ég tek undir með þeim sem spurði hvort njósnarakerfið okkar í S-Ameríku sé að bregðast. Afhverju vorum við ekki á eftir mönnum eins og Juan Alvarez? Afhverju erum við ekki að ná að kaupa menn eins og Enzo Fernandez áður en hann fór til Benfica?

    Klopp mun ná afburða árangri ef hann fær það sem hann biður um. Hann kreistir allt útúr sínum leikmönnum og býr til frábæra liðsheild. Þessi pressufótbolti er rosalega skemmtilegur áhorfs og árangursríkur. Mér finnst við vera í mjög svipaðri stöðu núna og Liverpool var uppúr 1990. Eftir langt glæsilegt sigurtímabil var komið að því að yngja og endurnýja liðið. Menn eins og Ian Rush, John Barnes, Mölby, Whelan, Björnebye ofl komnir um og yfir þrítugt. (Eins og Van Dijk, Salah, Firmino, Fabinho, Thiago, Henderson ofl eru núna)
    Nú þurfum við að vanda okkur betur en við gerðum þá. Sleppum öllum Neil Ruddock og Phil Babb kaupum og kaupum bara gæðaleikmenn eða unga leikmenn með hátt potential. Ég trúi ennþá og treysti Klopp til að búa til frábært lið fyrir næsta ár. Það eru ennþá mjög mikil gæði í hópnum okkar og það verður að sjá til þess að eldri leikmenn (Salah, Van Dijk) fái tækifæri til að kljást við yngri efnilega leikmenn á æfingum og þjálfi þá upp og styrki.

    4
    • Margt satt og rétt hjá þér en við skulum ekki gera menn eldri enn þeir eru 😉 Stig Inge Bjørnebye kom til Liverpool 1992 og þá 23 ára.

      2
      • Takk fyrir þetta. Rétt skal vera rétt! Ég var að rugla við einhvern annan leikmann.

        1
    • AEG

      Afhverju ætti ég að reyna að réttlæta FSG eitthvað, ef þeir styrkja ekki liðið verulega í sumar ?

      Ertu bara í alvörunni staddur þar í kollinum á þér að halda að ég sé einhver aðdáandi FSG ?

      Þó að mér finnist FSG eiga að fá tækifæri í sumar til þess að rétta skútuna við, þýðir það ekki að ég sé einhver talsmaður þeirra gagnvart þér eða öðrum. Þessi skíta skrif hjá þér gera ekki neitt annað en að benda til þess að þú hafir ekki skilið umræðuna.

      En þér er velkomið að vera þarna í drullunni, og halda að þú sért einhver svakalegur kall af því að standa í einhverjum persónulegum skotum og leiðindum. Bara verði þér að góðu vinur.
      Maður hefði haldið að það væri hægt að halda umræðunni á hærra plani en þetta samt.

      1
  10. Ekki Liverpool tengt. Hefur einhver hér farið á leik á Ítalíu og kostar það annan handlegginn?

    1
  11. Fyrir mér mega Adrián, Phillips, Williams, Tsimikas, Keita, Arthur, Ox og Milner fara. Jones mætti fara líka en hann fékk langan samning í haust og því ólíklegt að hann fari. Eins og Caravalho hefur verið notaður að þá skil ég ekki hví hann var keyptur. Elliott er of “léttur” til að spila inni á miðri miðjunni og mér finnst hann of hægur til að geta leyst Salah af hólmi…. hann er pínu óskrifað blað núna eftir að hafa verið talaður mikið upp. Firmino er því miður kominn yfir hæðina og yfirgefur okkur en við erum ágætlega mannaðir frammi þótt gott cover vanti fyrir Salah.
    Tyrick Mitchell hjá Cristal Palace ætti að fást fyrir lítið eða Mitchel Bakker frá Leverkusen og báðir betra back up en Tsimikas.
    Benjamin Pavard hjá Bayern og Max Aarons eru mikið betra back up og aðhald fyrir Trent.
    Milan Skriniar er samningslaus í sumar og það er alveg þess virði að reyna við hann. Svo væri fínt að reyna við annað hvort Josko Gvardiol eða Min Jae Kim.
    Í mínum villtustu draumum fáum við svo Bellingham, Mount, Gallagher og Rice alla inn í hópinn og miðjuvandinn leystur 🙂 Ég vil ekki fá Tielemans því hann er dýrari útgáfa af Jones eða Caravalho og bætir því hópinn ekki. Rabiot er bara með vesen…. eða mamma hans. Declan Rice, Mount, Maddison, Sergej Milinkovi?-Savi?, Julian Brandt og Ruben Neves eru allir að detta inn á síðasta árið á sínum samningi og ég væri alveg til í að sjá einhvern eða einhverja koma til Liverpool.

    3
    • Gleymdi Sander Berger hjá Sheffield United….. held að hann verði flottur á næsta ári í PL, vert að skoða hann inn á miðjuna hjá okkur.

  12. Góð greining en ósammála varðandi Jota, vil halda honum. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli (veit að það hljómar eins og kaldhæðni um Liverpool mann) og er geggjaður leikmaður, kom með hluti sem vantaði í sóknarleikinn á sínum tíma, m.a. skallamörk. Fabinho er mun meira spurningamerki og mætti fara mín vegna. Málið er að enginn leikmaður hefur litið vel út í vetur en um leið og búið er að taka vel til í hópnum gætu menn eins og Jota, Trent og Elliott farið að sýna hvað í þeim býr.

    3
    • Ósammála, Jota var farinn að labba um völlinn í síðasta leik og lagði ekkert til hans nema síður væri. Hann hefur ekki skorað mark í heilt ár eða meira. Endilega losa sig við hann ef einhver vill kaupa sem er hæpið.

      Það er nú þannig

      YNWA

      2
      • Þetta með að labba um völlinn í síðasta leik, spurning hvort það geti skrifast á leikform, jafnvel að einhverju leyti á almennt vonleysi yfir stöðu liðsins. Það er alveg ljóst að það þarf ferska fætur og hugarfar til að rífa þetta lið í gang. Kannski er ég að horfa of mikið á Jota eins og hann var fyrst þegar hann kom til liðsins en ég er a.m.k. ekki farinn að setja hann í sama meisðlapésaflokk og Ox og Keita.

        6
    • Jota í leikformi er klárlega leikmaður sem ég vill halda sem einum af þessum fimm. Hef bara ekki trú á því að hann hafi líkama í það lengur og langar ekki að bíða enn eitt árið. Losa fyrr þessa leikmenn sem eru alltaf að meiðast. Þeir kosta liðið ekkert eðlilega mikið af stigum yfir heilt tímabil, sama hvað þeir eru svo góðir þegar þeir spila

      Partur af því að Jota hefur ekki skorað í eitt ár er að hann er alltaf meiddur eða að spila sig í gang eftir meiðsli. Tökum svosem ekki af honum að hann hefur lagt upp 11 mörk og er að spila í liði með handónýta miðju og vonlausa holningu fyrir vikið.

      Vandamálið er aðallega meiðslin og ef maður horfir á leikmannakaup Liverpool undanfarið er það alltaf leikmaður sem er hvað bestur í sömu stöðu og hentar Jota hvað best.

      3
      • Góður punktur með nýja menn í hans stöðu, vil síður missa Diaz og Nunez en Jota. En samt finnst mér hann mega fá séns annað tímabil, ef hann er jafnmikið meiddur þá er þetta fullreynt og hann má fara.

        5
  13. Það er erfitt að vera ósammála þessum pistli. Þarna kemur nokkurn veginn allt fram sem er að hjá okkur í dag.
    Það mætti reyndar fækka verulega í flokknum “ómissandi” ef ég er spurður.

    Varðandi vandamálið þá hef ég sagt það áður að ALLIR þurfa að taka það til sín.

    1. Klopp og hans teymi:
    Goggunnarröðin hjá honum er óskiljanleg, og skiptingarnar oft líka. Menn eru frystir þangað til þeir kunna ekki lengur að reima á sig skó, og svo hent inná í einhverri random skiptingu þegar liðið inná er í einhverju klösterfökki!! Svo fá sumir leikmenn endausar mínútur, sem nenna ekki einu sinni að reima á sig skó, eða þurfa að láta sjúkraþjálfarann gera það fyrir sig!!

    2. Innkaupa teymið. Ef við hefðum eytt budgetinu okkar í að kaupa leikmenn sem acctually geta spilað leikina, þá værum við líklega ekki í þessari stöðu. Eins og Einar segir þá er maður af wijnaldum kalíberi sem getur spilað nánast alla leiki, miklu betri fyrir liðið en leikmaður af Thiago kaliberi sem getur spilað kanski 45% af leikjunum.

    3 FSG. Það er ljóst að Budgetinu okkar hefur verið illa varið, að miklu leyti og það þarf að bæta hressilega í.

    Að þessu sögðu, þá kæmi mér ekkert á óvart, og ég býst við því, að Liverpool eyði ca 300m punda í leikmenn í sumar. Bæði vegna þess að: a) liðið þarf að endurnýja, það sjá allir. b) þrýstingurinn er orðinn mikill á að kaupa leikmenn, frá stuðningsmönnum og þjálfara. FSG er bara ekki stætt á að halda að sér höndum. c) það meikar engan sens að gera það ekki út frá bisness pælingum. Eigendurnir vilja halda virði klúbbsins háu. Þeir munu einn daginn selja. Ef Liverpool verður aftur fast um miðja deild, lækkar bara verðið á klúbbnum. 300m í leikmannakaup, gætu skilað sér í milljarði hærra verði þegar klúbburinn verður seldur.

    Ég spái bara einu stykki Bellingham í sumar, og ca 200m í aðra leikmenn, þar af einu óvæntu, stóru nafni. (Er með ákveðið nafn í huga) 🙂

    Insjallah
    Carl Berg

    3
    • FSG hefur verið að fara mjög illa með hafnarboltaliðið sitt undanfarin ár. Meiðslalistinn nær til tunglsins og lítil sem engin endurnýjun í hópnum. Hljómar það kunnuglega?

      Svo ég myndi ekki gera mér of miklar (=neinar) vonir um kraftaverk í sumar. 300 milljónir og Bellingham og steik með rjómasósu? Nei, það mun ekki gerast.

      Næstu 12 mánuðir verða meik or breik fyrir Liverpool í ýmsum skilningi. Klopp er greinilega alveg brjálaður yfir stöðunni á bak við tjöldin og það mun reyna verulega á hann að klára samninginn sinn við áframhaldandi peningaleysi og ráðaleysi. Þetta getur hreinlega brugðið til beggja vona.

      Við skulum ekki hlæja of mikið að Everton…

      7
  14. Ég ætla að spá því að við munum ekki fá Bellingham í sumar og við náum ekki að hreinsa eins vel og stuðningsmenn vilja og margir stuðningsmenn verða fúllir EN liðið mun standa sig á næstu leiktíð.

    3
  15. https://www.footballinsider247.com/liverpool-bank-105m-as-new-financial-document-reveals-all/

    Það eru greinar eins og þessi hér að ofan sem fara illa í mig og maður fær ælu í munninn sem maður þarf að kyngja sama hvað. Ef 105m punda eru að koma inn fyrir að tapa fyrir RM í úrslitum CL síðast þá fer maður að spyrja sig aðeins hvert þessi peningur er að fara? Við seljum vel, við gerum viðskiptasamninga vel, við höfum staðið okkur innan sem utan vallar mjög vel undanfarin 3-5 árin. Semsagt innkoman hefur aukist og er kominn á par við þau lið sem þéna mest. Frábært!

    Ég hef oft á tíðum verið harður í gagnrýni minni á FSG og þeirra aðferð og hvernig Klopp er sveltur hvað pening varðar fyrir leikmannahópinn. Það hefur allavega litið þannig út að þeir séu slæmu karlarnir í þessu dæmi. Ég hef einhvern veginn verið að snúa mér við í nærbuxunum hvað þá skoðun varðar og séð fyrir mér Klopp sem á þennan hiksta sem við erum að ganga yfir, 100% upp á sitt einsdæmi. Þetta er að sjálfsögðu bara pæling því við vitum ekkert hversu þrýstinn Klopp er á hlutina. En hvað með:

    * Kaupin á Thiago á sínum tíma. FSG vilja EKKI kaupa eldri leikmenn því þeir eru með “moneyball” hugtakið sem þeirra sérgrein og er ég sammála þeirri aðferð. Þetta er hinsvegar EKKI moneyball fjárfesting. Þarna hlýtur Klopp að hafa lamið hart í borðið og beðið um Thiago. Þarna fer Klopp að taka út inneign sem hann á inni hjá FSG fyrir velgengni sl. árin. Klárt mál.

    ** Sama með Henderson og hans samning. Það voru greinar um að samningur Henderson væri orðinn langdreginn og ekkert heyrst frá FSG hvað nýjan samning varðar. Þá voru 18 mánuðir eftir. Svo allt í einu kemur Klopp fram í einu af hans blaðamannauppistandi og segir að Hendo sé ekkert að fara og hann fái samning. Þá sömu viku kemur nýr samningur handa fyrirliðanum. Litlu síðar kemur upp sú staða að innkaupasnillingurinn (eins og menn kölluðu hann) Michael Edwards segist hætta að loknu tímabilinu. Er linkur þarna á milli? Klopp ekki sáttur með það sem Edwards er að bjóða honum hvað leikmenn varðar og Edwards telur vegið að sinni vinnu? Hver veit. Annar eins viðsnúningur hvað lykilstarfsmenn sem hafa verið að yfirgefa Liverpool undanfarið er að sjálfsögðu alltaf áhyggjuefni. Þetta gæti hafa verið Klopp að nýta sér inneignina sem hann á hjá FSG og því treysta FSG honum fyrir þessu.

    *** Eitthvað hefur farið á mis í hausnum á Klopp hvað leikmannahópinn varðar en nú er hann búinn að láta mikinn part af þessum hóp sínum hlaupa stanslaust í 5 ár (sumar lengur) og voðalega lítil hreyfing á mannskapnum. Þó nokkur slatti af þessum leikmönnum hlaupa ekkert þar sem þeir eru alltaf meiddir en samt eru þeir í uppáhaldi. Þetta er eitthvað sem við höfum alltaf talað um hér og er hlutur sem ALLIR hafa séð og ekki hægt að kenna FSG um.

    **** Við munum öll eftir Coutinho sem startaði þessari velgengni allri, þeas, salan á honum. Hann sem leikmaður kom vel út hjá Liverpool og fékk sína draumasölu sem varð að draumi fyrir Liverpool. Coutinho stöðvaði allt spil hjá Liverpool og gerði okkur að mjög auðveldu liði að spila á móti. Hraður leikur. Hraðar sendingar. Coutinho fær boltann. Allt stoppar og allir bíða eftir hvað hann gerir. Lið voru farin að setja leikmann/menn á hann til að stoppa okkur og það virkaði oft. Við leystum það vel með fáránlegri sölu sem gaf okkur nýja byrjun. Hraðspólum fram að 2020 (minnir mig) er Thiago er keyptur fyrir 20m punda frá Bæjurum sem glaðir selja hann af sjúkrabekknum en láta okkur líða eins og við séum að fá gullmola (rétt eins og þegar við vorum að selja Jordan Ibe, Wilson ofl gaura á rugl verð til annara liða). Þessi góða þróun sem liðið var í á þessum tíma tók algjöra dífu niðurávið við þessi kaup. Þarna er mættur eldri týpan af Coutinho sem lítur vel inn á velli, getur gefið boltann, flottir snúngar, les leikinn vel og ég veit ekki hvað. Það minntist enginn t.d. á hvernig hann er hrikalega lélegur að tækla leikmenn, verulega hægur, og getur bara spilað gegn liðum sem láta hann í friði til að gera það sem hann getur. Og þetta allt gátum við séð ÞEGAR hann var heill heilsu sem gerðist ekki oft og gerist ekki enn. ÞARNA og set ég þetta í stóra stafi….ÞARNA ER VIÐSNÚNINGURINN HJÁ LIVERPOOL! Ef við hefðum keypt á þessum tíma miðjumann í sama flokki og Wijnaldum (endalaus hlaup, góður lestur á leiknum, getur sent boltann, tæklað……getur spilað fótbolta án þess að meiðast), þá væri þetta miklu auðveldara í dag. Þá væru t.d. Fabinho og Hendo ekki útbrunnir. Sama með VVD og vörnina. Þá yrði meiri dreifing á álaginu á liðinu en er í dag. Ef Klopp á þessi kaup á Thiago þá er þetta klárlega hans mistök.

    Ég veit ekki. Þessir punktar hér að ofan hafa allavega ekki verið að öskra á mig FSG EYÐIR ENGU því þeir hafa staðið sig í að gera hluti sem Klopp hefur eflaust beðið um. Hendo er ekki ódýr á þessum aldri og hans framtak er orðið verulega lítið hvað mig varðar (og var ég hans aðdáandi þegar best lét). Thiago spilar aldrei og fær 200k á viku sem er rugl og hann passar ekkert við liðið nema gegn litlum liðum í bikarnum. Dýrt gaman það. Þetta er allt bakkað upp af FSG en spurningin er núna hvort Klopp sé búinn með inneignina og hegðun hans á blaðamannafundum og á hliðarlínunni sé hjá þjálfara sem er tilbúinn að fara. Það finnst mér. Ég meina, menn verða að taka afleiðingum gjörða sinna.
    FSG bakkar upp þjálfarann og spurning hversu langt þeir fara í sumar og hvort þeir treysti Klopp.

    8

Chelsea 0 – 0 Liverpool

Upphitun: Topplið Arsenal mætir á Anfield