Upphitun fyrir City: Hádegisleikur númer þúsund í vetur.

Tólf leikir eftir. Eftir rúmlega tveggja vikna landsleikjahlé eru Liverpool að fara spila sjö leiki í næsta mánuði. Fyrstu þrír eru risavaxnir, svo koma taugatrekkjandi leikir á móti versta óvini Liverpool í ár (það er að segja liðum í botnbaráttu) og apríl endar svo á leik sem gæti vel orðið stærsti leikur tímabilsins, Tottenham á Anfield.

Fyrstur á dagskrá er nýjasti erkifjandi Liverpool. Síðustu fimm ára hafa Liverpool og City eldað grátt silfur saman og er erfitt að halda fram að hitinn milli liðanna, bæði innan vallar og utan muni nokkuð lækka í náinni framtíð. Það eina jákvæða sem hægt er að segja um Manchester City er að leikirnir við þá eru alla jafnan algjörir spennutryllar.

Andstæðingurinn

Fyrir nokkrum vikum komust Manchester City í fréttir því að enska deildinn virðist ætla að ákæra þá fyrir rúmlega hundrað brot á fjárhagsreglum fótboltaliða. Maður er mátulega bölsýnn á að eitthvað verði úr þessu, það var nokkuð fyndið að stuðningsmenn City svöruðu þessu með því að prenta fána með mynd af stjörnulögfræðing City. Ef einhver lögfróður maður hefur dýft sér þetta mál má hann endilega deila því sem hann hefur komist að með okkur.

Mikilvægasti maður City næstu vikur og mánuði.

En City er ekki að eiga gott tímabil, allavega miðað við sig. Þeir eru fimm stigum verr settir en í sömu leikviku í fyrra, búnir að fá á sig einu færra mark en allt tímabilið í fyrra og sitja í öðru sæti á eftir Arsenal. Norska undir hefur hrúgað inn mörkum fyrir þá en liðið er ekki ennþá búið að laga sig að leikstíl hans (og öfugt) sem hefur þýtt að þeir virka eins ósigrandi og þeir hafa oftast gert. Sigur á Liverpool myndi þýða að þeir vinna fjóra í röð í fyrsta sinn á tímabilinu, sem er hálf magnað.

Þeir munu sakna Haaland í þessum leik og Phil Foden er frá vegna meiðsla. Þeirra menn voru líka virkir í landsleikjahléinu og ekki ljóst hvort einhverjir þeirra þurfa að hvíla þess vegna. Maður vonar smá að Robbo fái að pönkast í Rodri slatta, sá spænski missti sig eftir ósigur gegn skoska landsliðinu.

Manchester City koma til leiks og verða að vinna. Arsenal eru átta stigum á undan þeim og eiga að öllu jöfnu að vinna Leeds eftir hádegi á morgun. Vonandi geta okkar menn látið þá finna fyrir þeirri pressu, ekki að þessi leikur sé minna mikilvægur fyrir Liverpool…

Okkar menn.

Luis Diaz, velkominn aftur.  Kólumbíumaðurinn hefur verið að æfa á fullu síðustu vikur og gæti aftur orðið afar mikilvægur á síðustu vikum tímabilsins. Thiago er líka á barmi þess að snúa aftur og ekki veitir af á miðjum vellinum. Internetið er tvísagna með Nunez, hann dró sig út landsliðsverkefni vegna skurðar á ökla en maður vonar að því verði reddað með saumum og tonnataki ef þess þarf.

Verri fréttir eru að Bajcetic er meiddur út þetta tímabil. Ætli þessum unga manni hafi dottið í hug síðasta sumar að í apríl yrði hann komin á þann stað að stuðningsmenn yrðu æfir yfir að hann meiddist í apríl? Óskum honum alls hins besta í bataferlinu.

Nú þarf ég að sýna svolítið sturlað:

Það er ekki gegn toppliðunum sem Liverpool hefur verið í brasi í vetur.

Það þarf reyndar að hafa það samhengi að þarna inni eru úrslit gegn Chelsea sem eru þar sem þeir eru í töflunni. Sýnir kannski hversu mikið að vandamálum ársins eru í hausnum á leikmönnum, þeir geta alveg spilað eins og kóngar þegar þess þarf.

Hvað varðar byrjunarliðið held ég að framlínan og varnarlínan verði kunnuleg uppskrift: Alisson, Van Dijk, Matip, Robbo og Trent. Frammi Nunez, Gakpo og Salah. Kannski smá séns á að Bobby fái að byrja til að auka reynsluna.

En hvað verðu á miðjunni. Fyrirliðinn og Fabinho eru sjálfvaldir en sá þriðji? Held að Klopp treysti á reyndasta mann deildarinnar, Milner verður þarna og vonum að hann geri gömlu liðsfélögum sínum grikk.

Spá

Eins vel og okkar menn hafa spilað í stórleikjunum þá hafa þeir verið hörmung í hádegisleikjum í ár og Liverpool hefur verið í töluverður brasi í útileikjum gegn City. Held því miður að sá hamur verði á City að þeir sundurtæti vörn Liverpool, þrátt fyrir að sóknarmenn okkur verði á skotskónum. Spái 2-4 fyrir City og mikið afskaplega vona ég að ég hafi rangt fyrir mér.

5 Comments

  1. Það er engin leikur eitthvað risavaxinn ! Hann er þá bara risavaxinn í hausnum á leikmönnum. Það hlýtur að vera því LIVERPOOL er með besta árangur topp 6 liða innbyrgðis.
    Hausinn bregst mönnum síðan á móti liðum eins og bournmouth sem við unnum 9-0 !
    Það þarf bara að mæta 100% í ALLA leik í þessari deild. Ég vona að við mætum þannig á morgun og GUÐ hvað mig langar í frábæra frammistöðu og sigur.

    3
  2. Við vinnum þennan anskotans leik 2-3 og tökum 9 stig úr mæstu þrem leikjum og lítum ekki til baka fyrir en í vor og þá verðum við komnir í fjórða sæti og farnir að narta í það þriðja.
    YNWA.

    6
  3. Mín spá er 3 – 2 fyrir Man City
    Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér

    YNWA

    1

Gullkastið – Endaspretturinn að hefjast

Liðið gegn City