Stelpurnar heimsækja Arsenal

Það er við hæfi að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fari fram baráttuleikur í Lundúnum milli stelpnanna okkar í Liverpool annars vegar, og Arsenal hins vegar. Hér er um að ræða fyrsta leik liðsins í hátt í mánuð, eða síðan þær fengu Leicester í heimsókn á Prenton Park, og hefst leikurinn kl. 19:15.

Arsenal mæta inn í þennan leik verandi nýbúnar að vinna deildarbikarinn. Merkilegt nokk þá var svipað uppi á teningnum hjá karlaliðinu núna um helgina þegar strákarnir okkar mættu nýkrýndum deildarbikarmeisturum frá Manchester, hvernig fór sá leikur aftur? Rifjið það endilega upp með mér. Mér finnst endilega eins og hann hafi farið 7-0, er það rétt munað?

Jæja, við eigum kannski ekki von á sambærilegum sigri okkar kvenna í kvöld. Bæði er andstæðingurinn sterkur – og þó þær hafi misst bæði Vivianne Miedema og Beth Mead í meiðsli, þá er restin af hópnum feykisterk. Okkar konur glíma einnig við talsverð meiðsli, og reyndar er staðan óvenju slæm þessa dagana. Matt Beard talaði um það á blaðamannafundi að mögulega yrði hann án 7 leikmanna, og líklega a.m.k. 5. Tvær voru í tæpasta lagi.

Það sést á liðsuppstillingunni:

Laws

Koivisto – Silcock – Robe – Hinds

Taylor – Nagano – Holland – Kearns

Humphrey – Stengel

Bekkur: Kirby, Bonner, Campbell, Lundgaard, Daniels

Ansi þunnur bekkur verður að segjast. Það var vitað að Leanne Kiernan yrði frá, og talað um að það séu enn 10 vikur í hana, því vafasamt að hún nái nokkrum einasta leik þessa leiktíðina fyrir utan þann fyrsta sem hún meiddist í. Þá þurfti Natasha Dowie auðvitað að togna aftan í læri, Shanice van de Sanden er líka frá, og þá sést hvorki í Niamh Fahey né Melissu Lawley á leikskýrslu, né Jasmine Matthews eða Rhiannon Roberts. Ég ímynda mér að Gemma Bonner og Megan Campbell væru báðar í byrjunarliði ef þær væru 100%, svo við sjáum akademíuleikmanninn Hönnu “van Dijk” Silcock í hjarta varnarinnar ásamt Leighanne Robe sem hefur mátt sitja á bekknum megnið af leiktíðinni en fær nú tækifæri til að stimpla sig inn. Þá fær Carla Humphrey sjaldséð tækifæri í byrjunarliðinu, og Miri Taylor byrjar sinn fyrsta leik. Hvort uppstillingin sé 4-4-2 eða eitthvað annað kemur í ljós í byrjun leiks.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player (í gegnum breskt VPN, annars er bara hægt að hlusta).

Nú væri gaman að ná í 3 stig.

ÁFRAM STELPUR!!!

4 Comments

  1. Það má líka minnast á að Eartha Cumings sem hefur nú haft titilinn markvörður nr. 2 skrapp yfir lækinn og spilar með Everton næstu 2 vikurnar á neyðarláni. Kannski spes að það skyldi ekki vera Faye Kirby sem færi í staðinn, því hún kom jú frá Everton, en mögulega vildi Eartha bara næla sér í mínútur.

    • Meiðsli.

      7 leikmenn nánar tiltekið.

      Bíddu, hvar sá ég aftur töluna 7 síðast?

      Ekki það, maður hefði haldið að akademían ætti einhverja efnilega leikmenn aðra en Hannah Silcock sem hefðu getað sest á bekkinn, þó ekki nema til uppfyllingar.

Gullkastið – 7UP

Andy Robertson