Wolves – Liverpool – Upphitun

Gamaldags laugardagsleikur klukkan þrjú. Heimsókn til Wolverhampton í útjaðri Birmingham, spilað við lið í gargandi fallbaráttu. Vika frá vonbirgðar úrslitum gegn Brighton. Glugginn lokaður og ljóst að Liverpool verður ekki styrkt frekar fyrr en í sumar. Stemningin meðal stuðningsmanna er fremur lágstemmd, en fótboltinn hættir ekki og janúar er loksins liðin! Það eitt og sér gefur manni smá tilefni til bjartsýni.

Andstæðingarnir – Wolverhampton Wolves

Þegar ég var lítill var Wolves lið sem ég vildi alltaf spila í Fifa. Ekki að ég bæri einhverjar taugar til þeirra, fannst merkið og nafnið bara töff. Síðustu ár byggðu þeir upp hörku lið fullt af portúgölum en tímabilið 20-21 reyndist þeim afar erfitt af ýmsum ástæðum. Fyrir þetta tímabil voru þeir mátulega bjartsýnir en fyrstu leikirnir voru ein allsherjar katastrófa og þeir skiptu út þjálfaranum Bruno Lage strax í byrjun október.

Í hans stað réðu þeir spánverjann Julen Lopotegui. Árangurinn er kannski ekki búin að vera frábær, en þeir hanga samt núna fyrir ofan fallsæti á markatölu. Í janúar bættu þeir við sig sex leikmönnum og náðu að halda sínum helstu fallbyssum hjá liðunum. Ef þeir halda rétt á spöðunum ættu þeir að vera í fínum málum eftir tímabilið.

Julen væri fyrirgefið fyrir að líta á þennan leik sem hálfgerðan bónus. Wolves hafa ekki sigrað Liverpool á Molineux vellinum í síðustu níu tilraunum og síðustu þrír leikir liðanna hafa allir farið 0-1, fyrir Liverpool. Ef stuðningsmenn Wolves líta ögn lengra fram í tímann sjá þeir að næstu tveir leikir liðsins eru gegn Bournemouth og Southampton, tveir risa fallslagir.

Það er alveg sama hversu illa Liverpool hefur gengið, þeir eiga einfaldlega að vinna þennan leik. En spurningin stendur eins og svo oft áður: Hvernig mæta okkar menn til leiks?

Okkar menn.

Er þetta ekki falleg mynd?

Því miður er varnarlínan okkar orðin jafn þunn og framlínan okkar. Konate ákvað að meiðast svo það er nokkuð augljóst að Matip og Gomez byrja í hjarta varnarinnar, væntanlega með Trent og Robbo á sínum stöðum.

Fabinho er einn af uppáhalds fótboltaköllunum en innkoma hans gegn Brighton var hrein hörmung. Hann virkaði á mann eins og gæi sem er yfirspenntur og ætlar svo sannarlega að sanna sig. Á meðan hefur hann Bajcetic verið eins og góður og hægt er að búast við. Er hann heimsklassa? Nei, en hann þekkir sín takmörk. Mig grunar að frammistaða beggja á æfingasvæðinu þessa vikuna skeri úr um hver byrjar, en ég spái Bajcetic.

Manni sýnist að fyrir framan hann sé Klopp búin að ákveða að Thiago og Keita séu sterkastir. Stóðu sig svo sem flott í síðasta leik. Ég held hinsvegar að tilkoma Nunez þýði að Gakpo verði loksins færður í sína eðlilegu stöðu út á vinstri vængnum og Nunez fari á toppinn. Salah verður á sínum stað. Svona semsagt:

 

 

Spá

Ég er svo mikil Pollýanna að eðlisfari að ég get bara ekki spáð öðru en Liverpool sigri. Held að eitthvað smelli í þessum leik og okkar menn komist 3-0 yfir, við fáum svo á okkur þrjú mörk en eitthvað töframóment úr óvæntri átt skili okkur 3-4 sigri. Góða helgi gott fólk!

 

Spurning dagsins til lesenda:

Í ljósi alls sem á undan hefur gengið, hvaða árangurs væntið þið af liðinu í vetur?

14 Comments

  1. Mikið er nú gott fyrir sálartetrið að fá loksins leik og vonandi mæta okkar menn í þetta af hörku þrátt fyrir að vera örugglega frekar litlir í sér eftir vonbrigði síðustu vikna. Verðum hreinlega að ná úrslitum úr þessum leik svo einfalt er þetta. Tek undir með þér Ingimar að mjög líklega mun uppstillingin vera nærri því sem þú segir og ég spái naumum sigri okkar manna í erfiðum leik.

    2
  2. Ég ætla að veðja á að Harvey byrji, þrátt fyrir allt er hann sá leikmaður sem hefur verið að sýna mesta baráttuþrekið, og jú náð að pota inn marki hér og þar. Þar á meðal gegn Wolves. Bara spurning hvar hann verði á vellinum.

    1
    • baráttuþrekið hefur ekki mikið hjálpað HE á miðjunni. Betur nýttur úti á kanti, þó honum skorti hraða til að fara framhjá mönnum.

      1
  3. Hæ, kæru vinir. Við skulum taka þessu tímabili stútfull af jafnaðargeði. Annað er ekki í boði. Okkar tími mun koma með nýjum eigendum og við munum skemmta okkur við tv gláp. Ég held að launaþakið sem félagið setti og svo rauf með samningi við Salak hafi eitrað móralinn, en það líður hjá
    .Góða Helgi kæru félagar.

    6
  4. Væri til í að sjá 3-4-3 svona einu sinni. Aðeins að hrista upp í þessu og prufa eitthvað annað. Robbo hefur spilað sem hafsent í 343 hjá Skotum. Henda Salah bara á bekkinn, hefur verið hræðilegur undanfarið.
    Ali
    Gomez Matip Robbo
    Trent Thiago Keita Tsmikas
    Elliott Darwin Gakpo

    3
  5. Við vinnum þennan leik 1-3 með tveim mörkum frá Nunez og svo potar Salah einu inn í uppbótar tíma.
    Við endum deildinni í fjórða sæti og ekki orð um það meir.
    YNWA.

    8
  6. Eftir leik kvöldsins er Liverpool í 10. sæti. Hvenær skyldi það hafa gerst síðast? (ég veit það eru leikir til góða, en samt)

    1
  7. Mér er skítsama hvaða leikmenn byrja þennan leik. Ég vill sjá baráttu og 11 stríðsmenn í liði okkar. Leggja sig 100% fram og ná sigri, sanngjörnum sigri. Ég vill líka sjá okkur halda hreinu. Í Fowlers bænum , takið þetta slaka lið sannfærandi. Ég er kominn með nóg af brighton og wolves út þetta tímabil.
    KOMA SVO LIVERPOOL ! !

    5
  8. Veit að þraða rán er ekki leyft en fannst þetta eiginlega of gott til að pósta því, fann þetta á fan síðu um Liverpool, þetta er eiginlega bara staðan núna, Liverpool vildi ekki eyða núna til að spara fyrir stóru targetin í sumar:

    “Liverpool have kind of backed themselves into a corner with Bellingham. He should’ve been a statement signing but bringing him in is now a minimum requirement. It is all our own doing too.

    The only way you can justify sitting out of multiple transfer windows and briefing journos on 2023 being the summer rebuild, is by signing him.

    Because if we miss out on him and end up signing someone we could’ve signed last summer or this month, we’ve wasted a season. A season we could’ve been bedding in new midfielders along with the new attackers.

    It isn’t Bellingham or nothing. There are plenty of midfielders out there who would suit our profile. But the club have sort of made it Bellingham or bust.

    This isn’t comparable to the Konate or Van Dijk situations either. Ibou had a release clause so we knew that as soon as he gave us his word, he was ours. VVD rejected other clubs and they briefed the media to distance themselves.

    City and Madrid haven’t admitted defeat which makes me think the reports are accurate and Bellingham hasn’t made a decision.

    ?“

    4
  9. Sælir félagar

    Bellingham kemur aldrei til LFC undir þessum eigendum. Til þess kostar hann of mikið og sprengir þar með nískuskalann hjá þeim. Það er líka þannig að þó Bellingham sé skotmark Klopp nr.1 þá vantar fleiri á miðjuna sem nauðsynlegt var að kaupa í janúar. Hvað spurningu Ingimars varðar þá er Wenger bikarinn lágmarks kraf á þetta lið.. Það er líka lágmarks krafa að vinna þennan leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    FSG out og það STRAX

    4
  10. Frá fyrstu vikum janúarmánaðar er mitt glas ekki búið að vera hálffullt eða hálftómt, það er galtómt liggjandi á hliðinni þar sem síðustu droparnir leka fram af borðbrúninni.

    Sum lið búin að versla eins og enginn sé morgundagurinn, nýliði í deildinni kaupir leikmann númer tuttuguogeitthvað, kjölfesta á miðjunni hjá ónefndu liði meiðist og mögulega ekki meira með á tímabilinu, það lið bregst við einn, tveir og bingó, miðjumaður fenginn að láni tilbúinn í slaginn rétt fyrir lokun, málinu reddað.

    Liverpool……….. tjaa…. hvað skal segja, framherji á kantinn verslaður í lok árs 2023 og látinn spila úr stöðu, þegar okkur vantar tilfinnanlega miðjumenn, okkur áhangendum haldið volgum í slúðrinu að meira sé væntanlegt, ekkert gerist, verslunarglugginn lokast.

    Okkur áhangendum haldið volgum um að næsta sumar sé sumarið, Bellingham þar aðal nafnið. Málið er bara að þegar glugginn opnast í sumar þá eiga öll hin liðin einnig eftir að versla og hver vill koma til liðs sem er ekki með í Evrópukeppni? City, Real og Newcastle eiga eftir að hirða bestu bitanna og Liverpool þarf að láta sér lynda 4 eða 5 kost.

    Okkar helstu garpar sem sáu um tossamiðann og versla leikmenn farnir, fregnir berast af veseni á bakvið tjöldin, sjúkrateymið í brasi og óeining á meðal manna þar og samskiptavandamál, einhver Kornmayer sem virðist einráður og erfiður í samskiptum. Endalaus meiðsli leikmanna svo jaðrar við heimsmet.

    Klopp karlinum er vorkunn að vinna við þessar aðstæður með ammríska eigendur sem virðast þegar öllu er á botninn hvolft hugsa meira um að ávaxta pundið í sinn vasa heldur en að styrkja liðið.

    Ég sagði í öðrum þræði að við myndum sjá Nat og Rhys í miðvarðastöðunum á móti Real en Rhys kallinn náði því miður ekki í hóp þannig að líklegast verður Gomez með Nat, þar sem Matip verður örugglega meiddur þegar þar að kemur – Real klárar einvígið og við siglum lygnan sjó fram á vorið.

    Það var spurt af pistlahöfundi hvernig okkur líst á veturinn framundan……. ég er svartsýnn!

    2

Gullkastið – Tímabil frá helvíti

Liðið gegn Úlfunum