Brighton 2 – 1 Liverpool

Þannig lauk þáttöku Liverpool í FA bikarnum þetta árið.

Mörkin

0-1 Elliott (30. mín)
1-1 Dunk (39. mín)
2-1 Mitoma (90+2 mín)

Gangur leiksins

Við ætlum ekkert að eyða neitt allt of miklum tíma í þennan lið. Fyrri hálfleikur var þó alls ekki slæmur, aldrei þessu vant komust okkar menn yfir á undan, en áður höfðu fyrst Brighton menn bjargað á línu á 4. mínútu frá Salah, og á 15. mínútu þurfti Trent að gera slíkt hið sama okkar megin. En á 30. mínútu náði Liverpool skyndisókn eftir að Keita fékk mögulega boltann í hendina, Salah og Elliott voru saman tveir gegn þremur, Salah náði að keyra inn á miðjuna, renndi til hægri á Elliot sem skoraði með viðkomu í leikmanni Brighton. Já, þarna var örvfættur leikmaður sem spilaði vinstra megin á kantinum að skora með hægri, hægra megin í teignum. Ágætt þegar menn eru fjölhæfir. En okkur bar ekki gæfa til að fara með þetta forskot inn í hálfleik, því eftir fast leikatriði náði Lamptey skoti fyrir utan teig sem fór í Dunk samherja hans, Alisson var farinn í hitt hornið og náði ekki að stoppa skotið þó hann hafi verið ótrúlega nálægt því miðað við allt. 1-1 í hálfleik, og það var í sjálfu sér ekki ósanngjörn staða. Okkar menn hefðu þó með smá heppni og betra sjálfstrausti hjá Salah sjálfsagt getað verið 2-1 yfir, því Salah slapp einn í gegn á 25. mínútu en setti boltann framhjá, og hefði fyrir svona rúmlega ári síðan alltaf klárað svona færi.

Síðari hálfleikur var hins vegar ekki í rétta átt. Brighton voru meira í boltanum og hættulegri. Klopp notaði allar skiptingarnar, mögulega var t.d. nauðsynlegt að skipta Trent út vegna meiðsla, en samt er tæpast hægt að tala um að leikur liðsins hafi batnað við þessar skiptingar. Fyrst komu Milner, Hendo og Nunez inn fyrir Trent, Keita og Elliott. Svo kom Jones inná fyrir Thiago, og undir lokin kom Fab inná fyrir Bajcetic. Jú mikið rétt, 18 ára unglingurinn fékk að vera lengst inná af miðjumönnum liðsins. Fab n.b. átti hræðilega innkomu, missti boltann í fyrstu sendingu, og steig svo á ökklann á leikmanni Brighton og fékk gult fyrir skömmu síðar. Ekki er hægt að segja að Hendo eða Jones hafi gert mikið heldur. Milner var bara dæmigerður Milner, alltaf öflugur og merkilegt hvað liðið getur best treyst á öldunginn annars vegar og unglinginn hins vegar. En í uppbótartíma fengu Brighton aukaspyrnu eftir brot frá Robbo aðeins fyrir utan teig. Sendingin kom inn að markteigshorni, þar var gefið fyrir á Mitoma við hitt markteigshornið sem fíflaði Gomez upp úr skónum og skoraði sigurmarkið. Leik lauk stuttu síðar og Brighton komið áfram í bikarnum en okkar menn fallnir úr báðum bikarkeppnunum.

Frammistaða leikmanna

Elliott var líklega með skástu mönnum, þó svo hann sé ennþá aðeins of léttur í átökin, en jesús hvað ég væri til í ef hann fengi bara að spila sína bestu stöðu. Konate var líka öflugur, en reyndar stálheppinn að sleppa við rautt spjald seinnipartinn í seinni hálfleik þegar hann braut líklega á sóknarmanni sem var að sleppa einn í gegn. Dómarinn dæmdi ekkert, en þetta var í besta falli mjög tæpt. Andy átti leik í meðallagi, ekkert mikið meira en það. Trent bjargaði vel á línu en var annars mistækur. Gakpo er alveg að reyna, þetta er klárlega góður leikmaður og þegar hann verður kominn í takt við deildina og liðið (og liðið e.t.v. ekki að spila eins og miðjumoðslið), þá verður þetta öflugur liðsmaður. En hann er það ekki í augnablikinu. Og af hverju Klopp vill endilega spila honum upp á topp í stað þess að setja Salah þangað, Elliott hægra megin og Gakpo vinstra megin, tja það er bara lögreglumál.

Framundan

Núna eftir janúar sem samanstóð nánast eingöngu af leikjum gegn Wolves og Brighton, þá er næsti leikur eftir viku gegn… Wolves. Nú er ekkert annað eftir annað en deildin og meistaradeildin, rétt rúmar 3 vikur í fyrri leikinn gegn Real á Anfield. Erum við spennt fyrir þeim leik? Ég bara get ekki sagt það. Holningin á liðinu er svoleiðis allt önnur heldur en fyrir ári síðan. Framlínan með Salah/Mané/Firmino og/eða Jota og Díaz að rótera var að virka svo mikið betur heldur en núverandi framlína. Þá er líka umhugsunarefni að af öllum miðjumönnum liðsins, þá sé það 18 ára unglingur sem er síðastur tekinn útaf, og að skiptingarnar sem voru gerðar á hinum tveim miðjumönnunum hafi bara alls ekki verið til batnaðar. Þá er nú heldur betur gott að glugginn er enn opinn…. nema hvað að Klopp gaf það út í viðtali eftir leik að það muni ekkert gerast á leikmannamarkaðinum næstu daga. Hvernig geta menn verið ánægðir með miðjuna eins og hún er í dag? Aftur er þetta algjört rannsóknarefni. Það er líka umhugsunarefni af hverju Gakpo fær svona margar mínútur. Það einfaldlega bara getur ekki annað verið en að Nunez sé ekki að fullu búinn að ná sér, og að framlínan sé einfaldlega sjálfvalin. En bara það að færa Gakpo út á vinstri kantinn – þar sem hann hefur n.b. spilað langmest á sínum ferli – og færa Elliott þá á hægri vænginn – sem er líka hans staða – og setja svo Salah upp á topp, en þar hefur hann alveg virkað fínt. Stundum er þrjóskan í Klopp alveg að gera út af við mann.

Gleymum því ekki heldur að nú vantar enga menn á miðjuna, það eru allir heilir (OK ég er að gleyma Melo, en ég held að það séu allir að gleyma honum hvort eð er). Vissulega vantar í framlínuna: Bobby, Jota og Díaz allir frá, og líklega a.m.k. 2 vikur í að við sjáum þá tvo fyrrnefndu, og gætum þá séð Virgil um svipað leyti. Munu þessir leikmenn breyta því sem breyta þarf í leik liðsins? Það virkar einhvernveginn bara alls ekki líklegt.

Þegar ástandið er svona er ágætt að rifja upp þegar þetta lið okkar var að ná árangri, sem betur fer þurfum við ekki að leita langt yfir skammt. Við vitum hvað okkar menn eru færir um. Væri til of mikils ætlast að biðja um að þeir fari að sýna hvað þeir geta?

P.s. stelpurnar okkar duttu líka út úr bikarnum, en náðu þó að setja 2 mörk gegn Chelsea. Þrenna frá Kerr gerði það að verkum að Chelsea fer í næstu umferð. Enn ein helgin þar sem ekkert gengur né rekur hjá okkar fólki.

52 Comments

  1. Það er ljóta helvítis skitan sem Jurgen Klopp er að bjóða okkur upp á. Klopp er ekki heilagur og hugsanlega er hann kominn á endastöð með liðið.

    14
    • Ekkert hugsanlega. Þetta er því miður bara búið hjá kallinum. Hann er jafn uppgefinn og leikmenn inná vellinum. Þetta er þrjóskan í honum að versla ekki annan þriðja fjórða kost og losa sig ekki við meiðslapésana.

      Klopp vinnur ekki fleirri titla hjá Liverpool.

      6
  2. Gomes fintaður í annað sinn á nákvæmlega sama hátt í teignum. Var það ekki Messi Wellbeck sem gerði það síðast? Þetta fer nú að verða fullreynt.

    5
    • En sjit hvað Konaté vinnur fyrir kaupinu sínu. Í fyrri hálfleik vann hann fyrir þrjá menn: sjálfan sig, Gomes og Trent. Kauphækkun!

      8
      • Djö….. sammála þér þarna, maðurinn er Monster í vörninni – van Dijk má muna fífil sinn fegurri!

        2
  3. Búlevarður brostinna vona – ætlar ekki að enda.

    Bless Carabao bikar
    Bless FA bikar
    Bless PL sigur
    Bless… CL?
    Bless … CL sæti í vor…?

    Sýnist allt stefna í það.

    Hvar enda þessi ósköp?

    13
  4. Það fór allt í skrúfuna þegar skiptingarnar komu í seinni hálfleik – bara sorry en þeir sem komu inná fyrir utan Nunez eru búnir með sitt, takk fyrir.
    Að sjá hvernig Mitoma leikur sér að Gomez í sigurmarkinu er átakanlegt að horfa upp á!
    En segi það satt, gott að losna við við “replay” og úr bikarnum, mannskapurinn þarf allan tíma sem í boði er til að núllstilla sig og hugsa sinn gang!
    Nú er bara að reyna að gera gott úr Meistardeildinni og þrauka fram á vorið – er ekki stórt sumar í vændum…… er það ekki??

    3
  5. það var gott að fá viku hvíld fyrir þennan leik.

    En síðan sér maður að þreytan eftir síðasta tímabil situr enn í mönnum.

    Hefðum þurfti aðeins lengra hlé á deildinni en þessar 6 vikur.

    4
  6. Besti leikur Gakpo til þessa hjá Liverpool. Mætti samt stilla honum úti vinstra meginn og Nuñez uppi á topp. Elliot má bara fara að fá leiki hægra meginn og Salah bara á bekkinn. Svo er það bara rannsóknarefni hvernig þessi vöntun á endurnýjun á miðjunni gat gerst….. moneyball kjaftæði eitthvað. Það er til það mikið af fótboltamönnum að þótt einhver einn til tveir sem eru top target fást ekki þá bara hjóla í næsta leikmann. Öll þessi lið í kringum Liverpool í töflunni eru með t.d. miðjumenn sem við gætum notað. Keita er einfaldlega, hvorki heill eða að skríða upp úr meiðslum, ekki nærri og nógu og góður. Svo verður bara að fara skipta út þeim þjálfara sem skipuleggur varnarleikinn okkar. Að geta ekki einu sinni kennt grunnatriði í varnarleik sem t.d. Trent vantar sárlega er ein og sér brottrekstrarsök. Ég nenni svo ekki að ræða þessa vitleysu sem liðið sýnir og vöntun á ákefð og vilja til að gera árás á bolta í fyrirgjöfum, hornum o.þ.h. Þetta tímabil er bara hræðilegt, löngu farið í vaskinn og það þarf að stokka mikið upp í sumar.

    11
  7. Menn eru að ganga af göflunum á samfelagsmiðlum, en þessi leikur var einfaldlega langt frá því að vera alslæmur. Okkar menn voru síst verri og fengu færi til að klára leikinn. Jafntefli hefði líklega verið sanngjörn niðurstaða eftir venjulegan leiktíma. Skiptingarnar gengu hinsvegar ekki upp og mér fannst við mjög óheppnir í fyrsta marki Brighton, það var algjört grísa mark.
    Eg er ósammála mönnum sem kalla eftir því að Klopp fari, það er enginn betri en hann þarna úti. Þessi leikur var allt öðruvísi en seinasti leikur á móti Brighton þar sem vorum arfaslakir og nkl ekkert jakvætt við þann leik, þannig ég reyni að sjá þetta þannig að spilamennskan er að batna enda ekki seinna vænna, fyrir mér er það eiginlega mikilvægara en sigur á þessum tímapunkti eins fáránlega og það hljómar.

    20
  8. Ég tippa á að klopp verði rekinn.

    Kaupir sóknarmenn fyrir 180m sem geta ekki rassgat í fótbolta og sleppir því að kaupa miðjumenn.

    8
  9. Ekki hækkuðu hlutabréfin í Liverpool/FSG í dag. Svo mikið er víst.

    4
  10. Er ekki bara best að detta ut ur öllum keppnum til að minnka álagið.
    Einbeita okkur að 4 sætinu

    • Hvaða andskotans álag???
      þetta eru atvinnumenn , held frekar að það þurfi að kalla út vodoo lækna þarna hjá þeim
      hausinn er algjörlega farinn hjá þeim

  11. Skiptingarnar hjá Klopp voru handónýtar, allar sem ein. Hann gat ekki einu sinni sett Darwin á réttan stað uppi á topp. Og auðvitað átti Gakpo að fara útaf, ekki Elliott. Síðan er þetta orðið þannig að þegar Curtis Jones er skipt inná – þá er rétt að standa upp og setja í þvottavél.

    8
    • Kannski er Klopp bara svona umhugað um hreinlætið á heimilum Liverpool aðdáenda?

      10
  12. Tímabilið búið í janúar,glæsilegt Hr Klopp og co.Mér er spurn til hvers var þessi tuskuböllur Cody Garði keyptur.

    4
  13. Eigum við að tala um Fabinho? Maðurinn hefur hrapað fram af kletti. Hann var bara hundheppinn að ökklabrjóta ekki Brighton leikmanninn með þessum fábjána-tæklingum sínum. Jæja, andskotinn. Best að hætta þessu röfli.

    7
  14. Minni á að Konate átti jöfnunarmarkið sem Brigton skoraði.

    4
  15. Þið sem viljið reka Klopp (eins fárálegt og það hljómar), hvaða plan eruð þið með? Hvern viljið þið fá í staðinn?

    2
  16. Sælir félagar

    Ég hefi ekkert um þessa skitu að segja nema það sem ég sagði í upphitunar athugasemd:

    “Það er “gaman” (eða hittó) að renna yfir kaup allra annara liða á góðum leikmönnum og líka það sem er í farvatninu hjá þeim. Það eru Arsenal, MU, Chelsea, Tottenham, M.City, Newcastle, Leichester o. s. frv. Um leið er afar stutt lesning á því hvað LFC undir hatti FSG er að gera á markaðnum. Það eina sem rætt er um er að LFC undir hatti FSG stefni á að kaupa Bellingham í sumar – sem verður aldrei. Til þess verður hann of dýr. Ef menn eru sáttir við þetta þá óska ég þeim til hamingju. Fyrir minn hatt er það FSG out og það Strax.”

    Það er nú þannig

    YNWA

    12
  17. Djöfull væri gott ef deildin myndi stoppa útaf Covid núna….

    5
  18. Ég er að setja saman dauðametal-listann sem ég ætla að hlusta á fram að næsta Gullkasti.

    2
  19. Jæja, þetta er nú meira ástandið, enginn, akkúrat enginn, með manndóm í sér að stíga upp.
    Aumingjaskapurinn alls ráðandi.
    En, svo ég segi það afur, hvernig er hægt að ætlast til að lið sem eyðir á við miðlungslið sé endalaust að keppa við stóru strákana, núna erum við í raun að sjá hvað menn geta, því miður.
    Sorglegt að horfa upp á öll lið í kringum okkur kaupa og kaupa en hjá Liverpool er ekki til neinn peningur, hvernig sem á því stendur.
    Verðum bara að fara að sætta okkur við stöðuna eins og hún er, erum ekki samkeppnishæfir við stóru strákana og eina sem hefur fært okkur það sem við höfum unnið undanfarin ár er snilli Klopp að þakka, engum öðrum. Dettur ykkur virkilega í hug að einhver annar þjálfari nái meiru út úr þessum mannskap en hann? Í alvöru?
    Sorglet, svo sorglegt.

    11
  20. Þessi leikur sveið ekkert eðlilega mikið…
    En ætla að fara í annað.

    Það er ekki fræðilegt annað en FSG sé komið eitthvað áleiðis með söluna á þessu félagi.

    Menn ræða mikið að við erum eftirá að endurnýja miðjuna svo mikið að við erum farnir að stóla á 17-19 ára stráka sem eiga alls ekki að vera í lykilhlutverki.

    En um mitt næsta tímabil verður van Dijk
    33 ára gamall og hann er mikill skrokkur og er farin að meiðast soldið og mun klárlega ekki þola sama álag.
    Gæinn á móti honum matip sem er jafn gamall.
    Ég er ekki að tala um að losa þá heldur að benda á að hryggjasúlan er að eldast og það er ekkert verið að gera nema gera 5ára samning við Gomez sem spilar miklufleiri mínútur en hann ætti að gera svo er konate á móti honum og hann er ágætlega mikið frá líka en á þó frekar framtíð þarna en hinn.

    Ég er ekkert að grínast
    CB 70 plús alvöru gæja inn takk.
    DMC 70plús mann inn takk
    Og allavega 1 stk 70mp plús MC
    Og svo er að vona að kaupin á nunez og gakpo séu ekki flopp það væri alvöru skellur.
    Og þetta eru bara skyldukaupin fyrir utan þau sem auka þarf uppá breiddina …
    Liverpool er tekjuhæðstafélag á englandi fyrir utan City sem er örugglega með svona stórt fanbase og fullan völl og allt ótrúlega vel rekið eða önnur ástæða :).
    En að LFC hvað í anskotanum verðum um alla innkomuna?
    Gangi FSG vel að endurnýja liðið í sumar…
    Ef lítið gerist og byrjun næsta tímabils verður ekki í lagi þá eru þeir að fara í sömu átt og Glazer.

    10
  21. Ég er dapur þegar ég skrifa þetta. Af hverju notuðum við ekki tækifærið þegar við vorum með besta liðið 2020 og héldum áfram að bæta og stækka hópinn ? Af hverju höfum við leyft þessu að fara svona mikið niður ? Liverpool hefur engan “fear factor” lengur. Það er ekkert lið sem hræðist að spila við okkur og öll liðin eru búin að lesa okkur.

    Fyrir nokkrum árum var ég hræddur um framtíð LFC þegar Klopp myndi hætta. Ég er aðeins rólegri núna. Þrátt fyrir að hann sé einn af bestu stjórum í heiminum er hann rosalega þrjóskur og spilar alltaf sitt kerfi óháð því hvað leikmenn eru inn á. Þú verður að sveigjanlegur í þinni nálgun. Hann hefur reyndar unnið kraftaverk með takmarkað “budget” en það er ekki endalaust hægt að treysta á það.

    Ábyrgð leikmanna er líka mikil. Mér finnst þeir leikmenn sem koma inn í liðið t.d. vegna meiðsla ekki vera að standa sig nógu vel. Curtis Jones, OX, Keita, Joe Gomez. Vilja þeir ekki standa sig vel og sanna sig ? Það stígur aldrei neinn óvæntur upp hjá okkur. Nathan Ake kom t.d. inn í liðið hjá City og er núna kominn í fyrstu 11.

    Síðustu fimm ár hafa aðeins fjórir leikmenn komið sem hafa sett mark sitt á liðið. Alison,Van Dijk og Fabinho 2018. Thiago 2020. Það er alltof lítið. Keita voru hræðileg kaup sem Klopp hlýtur að sjá mikið eftir og ég er ekki sannfærður um kaupin á Nunez og Luis Diaz.

    Maggi kom inn á góðan punkt í síðasta Podcasti. Klopp þarf að vera meira “ruthless” og losa menn sem eru ekki nógu góðir. Þetta sama gerðist hjá Dortmund 2014 og 2015. Þetta er kjarni málsins.

    Við höfum einfaldlega sofið á verðinum eins og og gerðist upp úr 1990. Unnum deildina þá á gömlu liði sem Dalglish reyndi að endurnýja með slæmum kaupum á David Speedie og Jimmy Carter ( ekki forsetanum). Á þessum tíma misstum við MU fram úr okkur og það tók næstu 25 árin að ná þeim.

    Þetta er ennþá verrra núna. Núna þarf að berjast við “peningavélar” eins og City, Newastele, Chelsea og MU. Gleymum ekki heldur Arsenal.

    Við erum líklega ekki að komast í CL í vor. Hver er þá framtíð LFC hverjir vilja vera áfram. Ég hef áhyggjur af þessu.

    3
  22. Pressan var fín frá toppnum með Elliott kominn í sína stöðu og vann ok með Gakpo og Salah reyndi að pressa líka. Það bara er ekki hægt þegar miðjan er svo slök og algjörlega án lífsmarks, sem gerir að verkum að Brighton labbar í gegnum hana og vörnin verður mun veikari fyrir vikið. Þetta er bara svo augljóst að maður er kominn að því að fara að taka þjálfaraprófið!

    Það einnig fékk mig til að næstum kasta kjöltutölvunni í fiskabúrið þegar ég las Klopp segja Liverpool ekki kaupa meira í janúarglugganum þetta árið. Það sem bjargaði tölvunni var að kötturinn var sofandi á mér á meðan ég las þetta.

    En hvað Liverpool varðar og framtíð þess, þá er það engin dolla þetta árið innanlands og vonandi töpum við bara með svona 3-4 mörkum samanlagt gegn Real Madrid svo lendingin verði aðeins betri en maður á von á. Mér finnst einnig tímasetning FSG að setja liðið á markað vera það heimskulegasta sem þeir hafa gert síðan þeir tóku við Liverpool. Afhverju var þetta ekki gert í sumar þegar nýir eigendur gætu t.d. gert smá skipulag hvað leikmenn ofl varðar? Afhverju var beðið svona lengi? Ef Gakpo er sá eini sem kemur inn í janúar (góður leikmaður) þá tel ég klúbbinn vera í frjálsu falli þangað til að FSG togi í strenginn og fallhlífin opnist, en samt ekki yfir vatni fullu af krókódílum!!

    Þeir heimta að fá inn einhverja sem borga óraunhæfa upphæð fyrir smá hlut í fyrirtækinu til að geta nýtt hann í leikmenn (væntanlega!) en það myndi meika meiri sense fyrir þessa aðila að bjóða í Scummarana sem virðast prenta pening sama hversu vel/illa gengur. Eins og ég hef sagt áður að þá tel ég að FSG séu búnir að byggja upp liðið á 8-10 árum og nánast eyðileggja þessa uppbyggingu á einu ári.

    Allavega, þetta tímabil er búið. Nú er spurningin hvort FSG og Klopp séu done líka.

    Það er mín skoðun. Prove me wrong, please!

    4
  23. Afhverju í andskotanum erum við að fara að spila við Wolves aftur í næsta leik???

    Þessi mánuður er eins og groundhog day???

    9
    • Gott að spila við lið sem er á svipaðri getu og Liverpool…gætum marið jafntefli jafnvel.

      4
  24. Eru Kop-sérfræðingarnir ekki til í að taka koffín-misnotkunar umræðu fljótlega í Gullkasti? Þessar lífseigu sögur um að liðið sé yfirkeyrt á koffíni og verkjalyfjum annað hvert ár – en hvíldir hitt árið svo þeir fái ekki hjartaáfall? Um doping í fótbolta og hvernig leikmenn eru með fimm sinnum meiri astma en eðlilegt telst, og MEIÐSLUM snarfjölgar? Væri mjög fróðlegt að heyra aðeins um þessar sögur sem grassera á bak við tjöldin.

    3
    • Ef það er eitthvað til í þessum sögum, hvort voru þeir þá hvíldir tímabilið 2018-2019 – þegar þeir unnu meistaradeildina – eða 2019-2020 – þegar þeir unnu PL?

      3
    • Lyfjaeftirlitið hefur eftirlit með þessum málum hjá öllum liðum menn eru sendir reglulega í lyfjapróf…..koffintöflur orkudrykkir hóstasaft eða hvað menn taka fyrir leiki kemur fram í þessum prófum…..ekki hlusta eða taka mark á einhverjum netníðum sem reyna að draga okkur niður í svaðið….settu bara í aðra vél og nóg af þvottaefni minn kæri…

      3
    • Stutta svarið varðandi þetta efni í næsta þátt er einfalt nei, hvaða síður ertu eiginlega að lesa? 🙂 Hvar eru þessar svona líka afskaplega trúanlegu samsæriskenningar bara lífsseigar?

      • Þetta stakk upp kollinum í kommentum á annaðhvort Guardian eða BBC og ég gúglaði því mér fannst þetta svo spes. Kom upp slatti af greinum/fréttum, mikið síðan 2019.

  25. Á þessu stigi málsins er það annaðhvort klór eða 90 gráður.

  26. Klopp mun ekki lifa af mikið lengur sem stjóri Liverpool ef hann fer ekki að ná úrslitum hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
    Besta er þetta yfirklór frá honum í viðtölum og meðvirkni með eigendum Liverpool algjörlega óásættanlegt.

    Robertson sagði í viðtali eftir leikinn hann sagði þeir væru í raun að versna þrátt fyrir að hafa sett sér háleit markmið og vilja fresh start og þá kemur Klopp næst og segir að það sé ekki alveg rétt eða rangt.
    Hann er að verða eins og stjórnmálamaður með loðin svör algjörlega hættur að nenna hlusta á hann í viðtölum og það er mjög slæmur fyrirboði.

    FSG þurfa drullast til að selja klúbbin sem fyrst.
    Endum ekki í evrópukeppni með þessu áframhaldi á næsta ári.

    5
  27. Eg held að liverpool þurfi að gefa Sala aðeins meiri laun . Hann er buinn að vera frabær 😉

    2
  28. Ég bara trúi ekki að FSG ætli ekki að gera neitt í þessum miðjumálum hjá okkur núna í janúar. Að öllu óbreyttu verður liðið bara þarna um miðja deild í vor og engin Evrópukeppni á næsta ári. Kanski það sé bara planið til að þurfa ekki eins skarpa endurnýjun, því þá komast þeir upp með minni hóp fyrir færri leiki.
    Ógeðslega leiðinlegt að vera horfa upp á enn eitt fallið hjá þessu liði (við sem erum eldri en tvævetur höfum horft upp á þau nokkur 😉 ) og sérstaklega leiðinlegt eftir frábær síðustu ár.

    4
    • FSG sjá að einn miðjumaður er ekki að fara að bjarga neinu. Allavega ekki að fara að skila meistaradeildarsæti. Þannig best að spara peninginn sinn og reyna áfram að fá fjármagn frá öðrum í leikmannakaup gegn smá hlut í félaginu. Æðislegir tímar.

      3
  29. Ömurlegt illa samsett og illa spilandi lið. Þrot í öllu sem viðkemur þessu liði. Fab og Konate áttu báðir að fá rautt. Trent nennir þessu engan veginn, Mitomo labbaði 2svar framhjá honum eins og hann væri ekki þarna. Klopp virkar alveg jafn clueless og allir aðrir. Hefur hrunið í áliti hjá mér síðustu mánuði. Hvernig getur liðið hrunið svona í getu? Liðið nær ekki topp7 og alvarlegt spurn.merki sett við Klopp í vor.

    3
  30. Ég bara skil ekki þessa endalausu meðvirkni stuðningsmanna Liverpool með kattspyrnustjóranum Klopp. Ég skil vel að hann sé vinsæll meðal stuðningsmanna (það á líka við um mig), en hann er að koma liðinu á sama stað og hann tók við því, en þó í mun brattara ferli. Það má alveg kenna FSG um margt, en það er Klopp sem ber ábyrgðina á þessu rugli sem er í gangi. Klopp hefur alltaf verið svo ánægður með hópinn sinn og engan tilgang séð í reglulegri endurnýjun. Þessir gömlu eru greinilega búnir að missa trú á verkefninu og nenna þessu ekki lengur fyrir Klopp. Það þýðir ekki núna að fylla liðið af 18-20 ára guttum, þeir þurfa nokkur ár í viðbót. Þetta eitt skemmtilegasta fótboltalið sögunnar er að breytast í “geisp” og leiðindi. Það er ekki hægt að horfa á þetta lengur.

    4
  31. Það að Klopp segji í fjölmiðlum að hann sé ánægður með hópinn sinn þýðir á engann hátt að hann sé það í raun. Hann þarf að tala til eigenda og leikmanna og hann veit að það gagnast aldrei að sýna opinbera óánægju með leikmannakaup nema hann hugsi sér annars til hreyfings. Klopp er bara aðeins heilsteyptari en margur annar stjórinn sem notar fjölmiðlana gagnvart liðinu sínu og eigendum. Hann áttar sig á að þá ertu ekki að vinna með liðunu og skapa heild í átt að sameiginlegu markmiði. Það er einmitt hlutverk leiðtogans að vinna sem best með það sem hann hefur og skapa umgjörð. Klopp og FSG hafa lagt áherslu á umgjörðina og það er mjög farsæl langtímastefna í átt að sjálfbærni. Það getur aftur kostað dip í formi og þá reynir á leiðtogan að halda í gildin sín.

    6
  32. Núna ætla chelsea að borga 105 mijónir fyrir Enzo Fernandes sem setur eyðsluna þeirra á eitthvað annað level.
    En ætti Liverpool ekki að sjá sér leik á borði og bjóða í Mason Mount ?
    Það getur ekki verið að chelsea ætli bara að hafa alla þessa leikmenn og Mount er flottur leikmaður sem virðist ekki vilja skrifa undir hjá þeim og ætti ekkert að kosta endilega rosalega háar fjárhæðir

    5
  33. Úff. Eru menn í alvöru að tala um að reka Klopp eða er þetta þráðrán stuðningsmanna manu og mancity???

    Klopp var með hæsta sigurhlutfall allra stjóra á síðasta ári. ÞAÐ ER EINN MÁNUÐUR SÍÐAN.

    Klopp er vissulega ekki hafinn yfir gagnrýni en hann á svo sannarlega skilið að fá smá þolinmæð, jafnvel alla heimsins þolinmæð, í mínum huga. Sérstaklega í öllum þessum meiðslavandræðum.

    Áfram Liverpool!

    11
  34. úffff búin að fá nóg liðið hrikalega slaft burt með klop skitu og hann má taka salah með sér.

    1
  35. Bara svo að það sé sagt og á kristalshreynu að þá vil ég ALLS ekki láta Klopp fara. Treysti engum manni betur að yngja upp liðið. Hann sagði líka við okkur (stuðningsmenn) í vor og aftur í nóvember að þetta tímabil yrði erfitt því liðið væri í “umbreytingafasa”. En að tímabilið yrði svona erfitt og endurnýjun á miðjunni yrði engin, átti ég ekki von á.

    1

Liðin gegn Brighton og Chelsea

Að horfa í hálftóma glasið