Liverpool 2-1 Leicester

0-1 Dewsbury-Hall 4′

1-1 Faes 38′ (sjálfsmark)

1-2 Faes 45′ (sjálfsmark)

 

Það var algjör martraðar byrjun á leiknum þegar Kiernan Dewsbury-Hall labbaði í gegnum sofandi vörn okkar manna. Henderson veitti honum litla sem enga mótstöðu meðan Van Dijk elti sinn mann til hægri og Robertson tók skrefið fram til að Ayoze Perez yrði rangstæður ef hann fengi boltann en allt þetta varð til þess að Dewsbury-Hall var allt í einu sloppinn einn í gegn án þess varla að reyna það og renndi boltanum auðveldlega framhjá Alisson og kom Leicester mönnum yfir.

Skrípaleikurinn hélt áfram og í nokkur skipti gáfu varnarmenn Liverpool beint í fætur sóknarmanna Leicester sem náðu þó ekki að skapa nógu mikið úr því. Það var svo á 23. mínútu sem Liverpool fékk sitt fyrsta almennilega færi þegar Darwin Nunez gaf boltann tilbaka á Salah sem náði þó ekki að koma honum á rammann.

Stuttu seinna skoraði Salah svo mark sem var dæmt af vegna rangstöðu en það var svo mark úr óvæntri átt sem jafnaði leikinn þegar Faes, varnarmaður Leicester, komst fyrir fyrirgjöf Trent og sendi boltann í fallegan boga yfir Ward í markinu og jafnaði leikinn.

Stuttu seinna var það sami maður á ferðinni. Nunez átti þá skot í stöng en þaðan fór boltinn í Faes og í markið og hann orðinn fjórði maðurinn í sögu ensku deildarinnar til að skora tvö sjálfsmörk í sama leiknum.

Bæði Henderson og Salah fengu ágætis tækifæri að bæta við forrustuna í byrjun seinni hálfleik en settu báðir skot sín rétt framhjá markinu. Það var hinsvegar þekkt vandamál hjá okkur á tímabilinu, slök miðja sem gerði okkur erfitt fyrir að ná stjórn á leiknum. Leicester voru alltaf í séns og einu sinni varði Alisson vel frá Harvey Barnes en það var þó ekkert skorað í seinni hálfleik og fjórði sigurleikurinn í röð í deildinni varð að veruleika, þó hann hafi ekki verið sannfærandi.

Bestu menn Liverpool

Thiago bar af í dag, sérstaklega á miðsvæðinu með Henderson og Elliott með sér að eiga skelfilegan dag. Darwin Nunez var einnig mjög öflugur var mikið í boltanum og skapaði mikla hættu en eins og oft áður gekk honum illa að koma boltanum í netið.

Vondur dagur

Með verri leikjum hjá Henderson í dag. Ég er mikill stuðningsmaður hans en það er að verða ljóst að hann hefur ekki lengur lappirnar í að vera sexa í þessu liði. Hef enn fulla trú á að sem leiðtogi hafi hann mikið að færa liðinu en þurfum að fara fá inn miðjumenn sem gera það að verkum að það er hægt að velja ákveðna leiki fyrir Hendo. Elliott var ekki mikið skárri inn á miðjunni tapaði boltanum oft, var of hægur á boltanum og virkaði oft of linur.

Umræðan

Þrátt fyrir allt var þetta sigur í dag og nú aðeins tvö stig í Tottenham í fjórða sætinu og nýr leikmaður kominn í hópinn (þó ekki víst að hann geti verið með gegn Brentford þar sem annar janúar er frídagur í Bretlandi og ekki ljóst hvort pappírarnir verði kláraðir í tæka tíð). Það er því alllavega bjartara yfir liðinu núna en fyrir nokkrum vikum en þó enn morgunljóst að við þurfum stór miðjumannakaup í janúar og helst önnur í sumar og ég væri til í að fara heyra meira af því nú þegar aðeins rúmlega sólahringur er í að félagskiptaglugginn opni.

Næsta verkefni

Næst er það kvöldleikur gegn Brentford annan janúar og gæti það orðið erfitt verkefni. Brentford er virkilega góðir í að sækja hratt og Ivan Toney er sjóðandi heitur og enn með leikheimild eins og er og ljóst að við þurfum að gera mun betur á miðju og í vörn til að fá sigur í þeim leik!

28 Comments

  1. Hörmulegir í kvöld. Feels like tap. Vonandi forum við að skora fljótlega.

    5
  2. Sælir félagar

    Einhver ömurlegasti leikur sem ég man eftir hjá liðinu okkar. Ef ekki væri fyrir Thiago, Nunez, Alisson og Salah hefði þessi leikur tapast. Báðir bakverirnir nánast úti á túni og þar var Eliot með þeim. Hendo adfar slakur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ox var reyndar ekki á túninu heldur faldi sig í hlöðunni svo enginn sá hann í leiknum Miðverðirnir vori nokkurn vegin á pari nema í fyrsta marki marki Leicester sem skoraði öll mörk leiksins. Maður hefur verulegar áhyggjur af leik liðsins og ef leikmenn mæta svona til leiks þá verður janúar erfiður. Thiago maður leiksins.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
    • Fannst Trent verjast vel i þessum leik hann og Robertsson er ætlað að vera einsog kanntmenn í kerfi Klopp þá opnast allt uppá gátt öðru hverju Konate er bestur með Trent…

      11
  3. Meira bullið í þér Sigkarl
    Trent Alexander Arnold
    var besti maðurinn á vellinum
    Á hvað varstu að horfa ?

    8
    • Mitt mat er að Trent vann leikinn fyrir Liverpool
      lagði upp mark 1 og bjargaði svo marki eftir fyrirgjöf Leicester
      Gæti trúað að hann hafi hlaupið meira en Thiago

      3
    • Ef Trent hefði ekki verið á vellinum þá líklega hefðum við ekki unnið leikinn.
      En Thiago var á öðru leveli algjörlega maður leiksins fyrir mér þvílík unun að horfa á þennan leikmann spila þvílík gæði!

      2
  4. Sæl og blessuð.

    Þetta var stórundarlegur leikur og vonandi sjáum við ekki mikið af þessari frammistöðu meira í vetur. Henderson var skugginn af sjálfum sér og þá er eins og allt liðið detti niður um gíra. Thiago var á hinn bóginn magnaður.

    Átta mig ekki á þeim sem hæla Salah í leiknum. Hann var mjög passívur. Chambo er ,,í aðlögun” ekki við neinu að búast þaðan nema mögulega frekari meiðslum. Og Nunez… geggjaður að snapa sér færi, hleypur eins og vindurinn, átti gullfallega sendingu sem Salah klúðraði svo … já og svo eru það slúttin.

    Ef, og vonandi þegar, hann fer að skora í eðlilegu hlutfalli við færin öll – þá erum við með eldfjall í liðinu.

    En nú er það bara tvennt sem ég vil segja til viðbótar: Þrjú stig í hús og næsta leik, takk.

    12
  5. Þetta var skrýtinn leikur. “Feels like tap” er rétta tilfinningin. Margir óvenju lélegir en sumir líka bara lélegir eins og venjulega (ég er að horfa á þig Ox). Verst finnst mér varðandi hörmungina á miðjunni að Elliott er sennilega númeri of lítill í djobbið. Þrátt fyrir að vera vinnusamari en andskotinn, þá skapar hann sáralítið. Bless 2022, ekki koma aftur!

    7
  6. Vel Thiago besta ( skársta ) mann Liverpool eins og Sigkarl i þessum annars slappa lokaleik ársins. Vonandi ná okkar menn að hysja upp um sig brækurnar á nýju ári.

    7
  7. Ekkert helv kjaftæði sigur er sigur sem gefur 3 stig.
    Áfram gakk.

    YNWA

    7
    • Auðvitað er sigur,.. sigur og þrjú stig í hús og allt það.. en frammistaðan var hörmung og hefur í raun verið frá því hm hléið kláraðist að undanskildum fyrrihálfleik gegn Villa. Mark Leicester manna er einhver versti varnarleikur sem sést hefur og sennilega auðveldasta mark vetrarins til þessa og það er bara alvöru áhyggjuefni. Robertson er í ruglinu varnarlega þessa dagana og með TAA í hans veseni (sýndi þó ágætis kafla í kvöld) er ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af varnarleik okkar manna. Með fullri virðingu fyrir Leicester þá eiga þeir ekki að klappa boltanum eins og þeir gerðu í kvöld. Við vorum ansi heppnir að vinna.

      4
  8. Mjög sáttur með 3 stig. Loksins tökum við 3 stig eftir slaka spilamennsku. Það er styrkleikamerki. Vonandi eru þetta merki um að vélin sé að hökkta í gang.

    4
  9. Keita með fína innkomu. Hlýtur að fara að komast fram fyrir hinn stórlega ofmetna Elliott í goggunarröðinni.

    7
  10. Lélegur leikur hjá okkar mönnum en við tökum þessum 3 stigum fagnandi.

    Fyrstu 45 voru ömurlegar en síðari hálfleikur var skömmunni skárri en þetta gat varla verið verri.

    Bestu menn Liverpool
    Trent hefur fengið mikla gagnrýni fyrir varnarleik en menn verða líka að hrósa þegar hann spilar vel og hann var frábær varnarlega.
    Thiago fannst mér eins og allir lélegir í fyrri hálfleik en hann var góður í síðari.
    Nunez er með kraftinn, áræðina og viljan en þarf að skora meira.

    Verstu menn
    Salah hann var ekkert skelfilegur en maður er búinn að setja hann á stall með bestu leikmönnum heims en hann dettur of oft í svona leiki þar sem hann er nánast týndur.
    Elliott hefur spilað betur, Hendo er ekki góð 6, Ox var nánast ósýnilegur og Andy var ekki með sendingarnar í lagi.

    Á þessum tímapunkti eftir langt HM hlé er mjög eðlilegt að liðið spilar ekki sinn besta bolta en 2 leikir og 6 stig eru vel af sér vikið en maður veit að við fáum ekki alltaf svona mikla hjálp frá andstæðingum okkar en við tökum þessari jólagjöf með bros á vör.

    YNWA – Gleðilegt nýtt ár

    7
  11. Þrjú stig eftir slakan leik er merki um hversu góðir við erum. Gleðilegt nýtt ár!

    5
  12. Frábær 3 stig og því ber að fagna. Styrkur liða getur falist í svo mörgu og eitt er að sigra leiki án þess að spila mjög vel. Munum hvernig ónefnt lið á fyrsta áratug þessarar aldar spilaði leik eftir leik án þess að tapa, án þess að spila vel og oftar en ekki 1-0 sigur. Hef ekki neinar áhyggjur meðan liðið okkar sigrar en auðvitað verða menn að spila vel, eða nýta dauðafærin betur og halda hreinu, gegn bestu liðunum. Jákvætt eftir leikinn…
    …4 sigrar í röð í deild
    …TAA að lifna heldur betur
    …stutt í að sterkir menn komi til baka úr meiðslum
    …guttar nánast á fermingaraldri fengu að spreyta sig í síðustu leikjum
    Gleðilegt nýtt ár

    5
  13. Nú sá ég ekki leikinn og get því ekki kommentað á hann sem slíkan. En umræðan um Elliott hefur aðeins farið að taka meira pláss upp á síðkastið, og það er það umfjöllunarefni sem mig langar að halda áfram með.

    Málið er að maður veit ekki almennilega hvað það er sem er sterka hlið Elliott. Eru það mörk? Nei, Leicester maðurinn Faes er með fleiri deildarmörk fyrir Liverpool í þessum eina leik heldur en Elliott frá upphafi. Eru það stoðsendingar? Nei, þær eru ansi fáar sömuleiðis, ein á þessari leiktíð (4 mörk og 3 stoðsendingar í 45 leikjum fyrir Liverpool í öllum keppnum frá upphafi finnst mér bara ekki nógu gott fyrir þetta sóknarþenkjandi leikmann). Er það varnarleikur? Nei, hann virkar einfaldlega allt of linur – ennþá.

    Og þýðir þetta að maður sé tilbúinn að afskrifa Elliott sem leikmann? Alveg klárlega ekki. Ég sé hann alveg geta orðið leikmaður sem maður myndi alltaf setja í byrjunarliðið, hann hefur alveg burði til að verða legend. En þá þarf hann líka að bæta sig. Og ég geri mér grein fyrir að það eru aðrir hlutir sem skipta máli heldur en mörk, stoðsendingar og varnarleikur. Það væri bara gaman ef það væri aðeins augljósara hvað það er nákvæmlega sem hann kemur með að borðinu. Til að allrar sanngirni sé gætt, þá megum við ekki gleyma að hann er ennþá bara 19 ára þangað til í apríl á næsta ári, og hann þarf spilatíma til að ná að bæta sig. Kannski er þetta bara óþolinmæði hjá manni. En áttum okkur líka á því að ef hann á að fá X marga mánuði / misseri til að spila sig í gang og öðlast þá reynslu sem þarf til að hann verði leikmaðurinn sem hann getur orðið, þá þarf liðið að hafa efni á því að vera með slíkan leikmann í liðinu. Og ef miðjan samanstendur af leikmönnum sem eru komnir yfir hæðina, þá er ég ekki viss um að það sé innistæða fyrir slíku.

    4
    • Sæll Daníel

      Afburðaleikmenn eru orðnir býsna góðir 19 ára gamlir samanber Bellingham. Elliot er ekki afburðaleikmaður og verður ef til vill aldrei. Hann hefur dugnaðinn og viljann – hleypur úr sér lungun í hverjum leik sem hann spilar en það kemur lítið út úr því. Hann virkaði gríðarlegt efni þar til hann meiddist illa en hefur einhvern vegin ekki náð að bæta neinu við sig síðan þá. Tölfræðin sem þú leggur fram sýnir það svart á hvítu.

      Leikmenn eru oft lengi að ná sér eftir slæm meiðsli. Má þar benda á VvD sem nú fyrst er að nálgast sinn fyrri styrk eftir að “Pigford” slasaði hann. Elliot hefur ekki verið góður undanfarið en vonandi batnar það sem fyrst. Ég vil frekar þó að leikmenn eins og Doak og Bajcetic fái fleiri mínútur því þeir virðast hafa meira til að bera en Elliot, amk. nú um stunduir. En hvað veit ég sosum 🙂

      Það er nú þannig

      YNWA

      4
  14. Ef menn eru að gagnrýna Elliot fyrir mörk og stoðsendingar:
    Hvað er Thiago búinn að skora mörg mörk eða leggja upp síðan hann kom ? Hann er góður leikmaður en ekki mikið “end product” hjá honum.

    5
  15. Hendo, Chambo, Elliot, Thiago eru allir hægir leikmenn. Gengur ekki að spila high intensity leikkerfi með low speed leikmönnum.

    Chambo er búinn og Gakpo tryggir vonandi að hann spili ekki aftur.
    Hendó getur ekki spilað nema 1.5 leiki á viku.
    Elliott virkar ekki nema í kerfi þar sem aðrir eru hraðinn.
    Thiago er æði en þarf hraða í kringum sig.

    Vinnum ekkert ef við spilum með þessa uppstillingu oft.

    4
  16. Eina mínútu yfir tólf verður störukeppni á FSG og refresh hnappurinn sjóðandi

    1
  17. Ekki alslæm úrslit á Etihad. City missti tvö stig. Verst að Utd tókst að klára sinn leik. En… það eru samt ekki nema fjögur stig í MU og fjórða sæti. Annað eins hefur þetta Liverpool lið unnið upp. YNWA!

    4

Byrjunarliðið gegn Leicester

Leikmannaglugginn opnar á morgun