Nördarnir að fara

Undanfarnar vikur hafa óvæntar fréttir komið frá Liverpool, FSG er tilbúið að selja félagið og Mike Gordon sá úr eigendahópnum sem hefur langmest með daglegan rekstur félagsins að gera hefur dregið sig í hlé frá þeim störfum til að einbeita sér að söluferlinu. Áður hafði Michael Edwards sagt upp störfum og ekki var ekki tekið nema 18 mánuði í að koma arftaka hans inn í hlutina áður en hann tók endanlega við í sumar. Brottför þessara tveggja væri eitt og sér risamál fyrir Liverpool á svo skömmum tíma.

Núna í þessari HM pásu kemur það svo upp úr krafsinu að Julian Ward (arftaki Edwards) hefur sagt upp og hætti eftir þetta tímabil auk þess sem mesta nördið bak við tjöldin, Dr. Ian Graham sagði upp í júní og hættir líka í vor.

Það er því ekki að undra að maður velti fyrir sér hvað í fjandanum er í gangi bak við tjöldin hjá félaginu! Eru þetta breytingar tengdar söluferli félagsins sem er kannski komið betur á veg en við fáum að vita? Er þjálfarateymi félagsins hætt að taka eins mikið mark á nördunum í þjálfun liðsins? Hvað skipta þessar breytingar miklu máli fyrir félagið?

Aðalatriði

Fyrir það fyrsta held ég að mikilvægi allra þessara manna sé blásið all verulega upp og þeir eigi allir sérstaklega einum manni orðspor sitt að þakka, Jurgen Klopp. Þá er ég alls ekki að draga í efa að þetta eru topp fagmenn og meðal þeirra bestu í sínum störfum, en á meðan Klopp er ennþá stjóri Liverpool grunar mig að það verði alveg hægt að finna góða arftaka í staðin og satt að segja finnst mér ekkert á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool undanfarin ár benda til þess að það séu ekki hæfari menn í boði. Það er komið dágóður tími síðan Liverpool hitti á svona rosalega óvænt geggjuð leikmannakaup eins og Andy Robertson fyrir sama og félagið seldi Kevin Stewart (who?) á eða Mo Salah sem var talin of dýr þegar hann kom rétt eins og Mané árið áður. Eins hefur Liverpool ekki átt neina yfir meðallagi merkilega sölu á leikmanni síðan mögulega Solanke sumarið 2018.

Auk þess er ákaflega ólíklegt að Jurgen Klopp sé farinn að láta meira til sín taka við ákvarðanatöku í leikmannakaupum og það sé ástæða fyrir brottför Ward, nákvæmlega engar líkur á því. Klopp myndi ekki vilja það sjálfur og hefur þess utan ekki tíma í það, hann hefur aldrei unnið þannig og meðan FSG eru eigendur félagsins er slík U-beygja útilokuð.

Michael Edwards

Byrjum á brottför Edwards. Hann á sannarlega risastóran þátt í velgengni Liverpool undanfarin ár og var að gera ótrúlega hluti á leikmannamarkaðnum. Það gleymist samt aðeins að hann var lykilmaður í hinni alræmdu Transfer Committee í þrjú ár hjá Liverpool áður en Jurgen Klopp tók við og það er ekki hann sem sá um að finna leikmenn fyrir félagið. Dave Fallows og Barry Hunter stýra þeirri deild, Edwards sá um að semja við leikmenn og eins selja leikmenn, þar sérstaklega var hann frábær fyrstu árin.

Jurgen Klopp tók við Liverpool skömmu eftir að Edwards hafði tekið einn við sem yfirmaður knattspyrnumála og strax í kjölfarið fóru leikmannakaup Liverpool svona líka að svínvirka. Það er ekki tilviljun. Jurgen Klopp er svona 95% mikilvægari fyrir Liverpool en Michael Edwards án þess að vilja gera lítið úr hans störfum hjá félaginu, ef ég mætti velja eftirmann Ward væri það líklega einmitt Edwards aftur.

Engin hefur talað Michael Edwards, Ian Graham, Dave Fallows og hvað þeir heita allir meira upp en Jurgen Klopp. Þegar vel gengur leggur hann gríðarlega áherslu á að benda á að þetta er liðsvinna og alls ekki sér einum að þakka, líklega er það rétt upp að vissu marki en það er magnað hvað svona liðsvinna gengur oft upp þegar Klopp er stjóri liðsins.

Mainz hafði bókstaflega aldrei komist upp í efstu deild og varla aðra deild þegar Klopp tók við því liði, þá með enga reynslu af þjálfun en auðvitað öllu kunnugur hjá félaginu. Eftir að hann fór hefur það félag haldist sem nokkuð stabílt Bundesliga lið og yfirmaður knattspyrnumála þar varð ágætlega þekkt stærð þar til hann hætti. Hann réði samt Klopp bara af örvæntingu á sínum tíma og var heppinn með útkomuna.

Dortmund var á barmi gjaldþrots þegar Klopp tók við þeim og gerði þá að einu besta liði Evrópu í 2-3 tímabil. Leikmannakaup Dortmund í tíð Klopp eru fullkomlega ævintýraleg og hvernig þeir gátu byggt upp svona gott lið fyrir svona lítin pening hefur ekki verið leikið eftir. Michael Zorc fyrrverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Dortmund hefur alltaf sagt að Jurgen Klopp séu bestu kaupin sem hann gerði hjá félaginu. Klopp gerði Zorc að einum þekktasta og virtasta yfirmanni knattspyrnumála í heiminum mikið frekar en að Zorc eigni sér heiðurinn að velgengni Klopp. Partur af þessari velgengni samt er hversu vel þeir náðu að vinna saman og einn af styrkleikum Klopp (og góðra stjórnenda almennt) er að treysta fólkinu sem hann er að vinna með fyrir sínum hlutverkum. Dortmund seldi nokkur ár í röð sinn besta mann í tíð Klopp en kom jafnharðan með næstu stjörnu upp í kjölfarið.

Liverpool hefur mikið betur haldið sínum bestu mönnum en sjáum t.d. hvað gerðist þegar Coutinho var seldur og hvernig það var leyst. Núna er komið að stórri endurnýjun sem er auðvitað löngu byrjuð og aðalatriði að Klopp sé ennþá þarna til að móta næstu kynslóð.

Það er líklega ekki tilviljun að Michael Ewdards hafði fljótlega tekið við af Zorc sem virtasti yfirmaður knattspyrnumála í boltanum eftir að Klopp mætti á Anfield, fram að því var Edwards lítið þekktur og umdeildur meðal þeirra sem höfðu heyrt um hann (einn af leikmannakaupanefndninni).

Julian Ward

The Athletic segir í sinni frétt að uppsögn Julian Ward hafi komið alveg flatt upp á eigendur Liverpool og að þeir hafi reynt að telja honum trú um að halda áfram. Skiljanlega enda ekki lítið búið að setja í það að koma honum í starfið upp á að halda áfram því starfi sem Edwards var að vinna. Eins er velt vöngum yfir því að uppsögn Ward komi í kjölfar brotthvarfs Mike Gordon sem hann vann náið með. Erfitt að segja og það er voðalega lítið sem bendir til að brottför Ward sé neitt í líkingu við Edwards.

Ward hefur haft yfirumsjón með leikmannakaupum í tveimur leikmannagluggum og miðað við hvernig sumarið fór er ekki hægt að sjá að þarna sé á ferðinni einhver snillingur, síður en svo. Hann keypti heitustu tvo bitana fra Portúgal, þeim markaði sem hann þekkir best. Ekki það að bæði Diaz og Nunez eru mjög spennandi leikmenn og góð kaup en þeir voru á allra vitorði og Liverpool nákvæmlega nógu stórt lið til að hjóla í slíka leikmenn. Næsti klassi fyrir ofan á leikmannamarkaðnum fór til Man City í sumar.

Ward hinsvegar hafði jafnframt yfirumsjón með því að klúðra fullkomlega kaupum á miðjumanni í sumar og miðað við hvernig þetta tímabil hefur spilast ætti það nánast að vera brottrekstarsök. Mögulega er það ekki tilviljun að Klopp gagnrýnir leikmannakaup Liverpool í sumar (í fyrsta skipti opinberlega) og Julian Ward hættir nokkrum vikum seinna? Ef að Klopp er að segja á blaðamannafundum að hann hefði viljað sjá félagið taka aðeins meiri áhættu á leikmannamarkaðnum ætti öllum að vera ljóst að hann orðar þar ekki svona pent bak við luktar dyr á fundi með þeim sem taka þessar ákvarðanir með honum.

Það sem gerði Edwards að svona miklum afburðamanni á leikmannamarkaðnum fyrstu árin (fyrir covid?) var að hann náði að losa Liverpool við farþega eins og Keita, Ox, Gomez og eins selja unga leikmenn eins og Phillips á toppverði áður en þeir urðu baggar á launaskrá félagsins eða færu að falla of mikið í verði. Það hefur lítið verið að frétta af slíkum sölum.

Sumarið 2021 var öllum ljóst að miðjan hjá Liverpool var að verða kominn á aldur og allt of meiðslagjörn. Að ná ekki að landa Tchouaméni er eitt, satt að segja finnst manni að Liverpool eigi alveg að standa jafnfætist Real Madríd á leikmannamarkaðnum en líklega er það óraunhæft hjá félagi í sjálfbærum rekstri. Allt í lagi að missa af honum í vor vegna samkeppni en alls alls ekki í lagi að hafa bara ekkert í bakhöndinni í staðin meða allt sumarið til að finna út úr því. Enda svo leikmannagluggann á panic lánsdíl á Arthur Melo sem sjálfur hefur verið mjög tæpur á meiðslum og dugi á endanum ekki í korter (bókstaflega). Það er viðvaningsháttur sem maður hélt að Liverpool væri vaxið uppúr.

Ef að þetta var síðasti leikmannagluggi Julian Ward verður hans ekki minnst á jákvæðan hátt, hann gæti mögulega bjargað andliti eitthvað í janúar og sá þarf á því að halda.

Magnað í raun að það sé hann sem segi upp eftir aðeins sex mánuði, bendir enganvegin til þess að hann hafi það sem þarf hjá Liverpool.

Dr Ian Graham

Það kom töluvert á óvart að Ian Graham hafi sagt upp líka og maður veltir fyrir sér hvort hann sé þegar búinn að stilla upp öðru starfi með Edwards eða Ward? Eða þá hvort eitthvað hafi breyst innanhúss hjá Liverpool sem gerir það að verkum að hann meti starf sitt ekki lengur eins mikilvægt? Hvaða leikmann keypti Liverpool síðast sem var augljóst og vel heppnað Moneyball dæmi sem hægt er að þakka Ian Graham og hans deild sérstalega fyrir að grafa upp?

Graham er enn einn sem á líklega frægð sína hvað mest Jurgen Klopp að þakka, ekki síst vegna þess að Klopp passar jafnan að hrósa þessum deildum innan félagsins sem við sjáum annars ekki og vitum lítið um. Graham er klárlega ekki eina nördið í knattsprynuheiminum sem kann að reikna út það sem Liverpool vill vita um þá leikmenn sem á að kaupa hverju sinni.

Eins skilur hann rétt eins og Edwards vonandi eftir sig verklag og þekkingu sem næstu menn búa að og halda áfram að þróa og viðhalda.


Þetta eru allt þeir menn í stjórnendastöðum Liverpool sem Klopp hefur unnið hvað mest með og því ljóst að það er smá óvissa framundan og auðvitað ekki sjálfgefið að mannabreytingar í þessum stöðum heppnist. Það má t.a.m. færa rök fyrir því að Julian Ward hafi ekki heppast sérstaklega vel.

Á móti gæti líka verið mjög spennandi að fá nýjar raddir að borðinu, ferskar hugmyndir og einhvern yfirmann knattspyrnumála sem verði orðinn næsta stjarna í þeim bransa innan tveggja ára (með Klopp sem gullkálfinn sinn). FSG þekkja það mjög vel úr NFL að skipa alveg um í brúnni en halda áfram að ná árangri. Þróa liðið þannig.

FSG

FSG hafa rekið Liverpool gríðarlega vel, árangur félagsins í þeirra tíð hefur verið frábær og tekjurnar aukist margfalt. Þeim hefur tekist að stækka Anfield samhliða því að gera völlinn miklu arðbærari en hann var. Nýtt sameignilegt æfingasvæði er líka stórmál og eitthvað sem Klopp lagði mikla áherslu á. Það skapar óvissu að þeir vilji selja félagið og auðvitað þurfum við að fara varlega í hvað við óskum okkur í staðin. Það eru til svo miklu miklu verri eigendur þarna úti eins og stuðningsmenn Liverpool þekkja vel. FSG eru auðvitað fjárfestar með það sem aðalmarkmið að hámarka tekjur, en þeir hafa sýnt það núna í tveimur íþróttargreinum að þeir kunna að ná árangri með því að vera gáfaðari en andstæðingurinn og treysta á vísindin. Liverpool er síður en svo eina félagið sem gerir það ekki frekar en Boston Red Sox, en þeim gengur einhverra hluta vegna betur en flestum að vinna úr þeim göngum.

FSG hafa á móti ekki lagt krónu úr eigin vasa í í leikmannakaup í svona áratug og það er hægt og bítandi farið að sjá á liðinu núna. Við höfum talað um stóran glugga næsta sumar í svona þrjú ár án þess að hann komi og núna er það klárlega farið að bíta. Klopp getur ekki endalaust unnið kraftaverk á sama tíma og Olíufélögin bæta stjörnum eins og Haaland við hjá sér án þess að blikka, Grealish á 100m þarf ekki einu sinni að byrja leikina.

Þeir peningar sem Liverpool setur í leikmannakaup er það sem félagið tekur út úr rekstrinum. FSG virðast ekki vera að greiða eigendum út eins stórar fjárhæðir og Glazer fjölskyldan gerir hjá United né vera greiða vexti af háum lánum sem betur væri nýtt á leikmannamarkaðnum. Hinsvegar er spes hvernig United tekst að greiða eigendum sínum svona mikið árlega, greiða af himinháum lánum, borga svipað mikið í laun og Liverpool og samt eyða um 50-100m meira nettó á ári en Liverpool. Félögin eru með svipað miklar tekjur. Auðvitað er jákvætt hvað Liverpool hefur verið mikið betur rekið undanfarin ár en þetta gengur ekki endalaust upp. Núna er United t.d. komið með alvöru stjóra.

FSG er búið að eiga Liverpool í rúmlega áratug og þurfti auðvitað að byggja félagið upp í byrjun en inn í þá umræðu er jafnan ekki tekið inn í myndina að þeir keyptu félagið á skiptimynt. Félagið varð svona fimmtalt verðmætara bara við það að þeir keyptu það og er a.m.k. tífalt verðmætara í dag. Árangur Liverpool í þeirra tíð sýnir og sannar að þetta eru ótrúlega góðir rekstrarmenn því það er gjörsamlega galið að Liverpool hafi loksins unnið deildina og þrisvar farið í úrslit Meistaradeildarinnar með svona galið ójafna samkeppni:

Hvernig er Man Utd með sína hræðilegu Glazer eigendur búið að eyða €723m meira nettó en Liverpool? Það er vel hægt að skilja það að þeir hafi haft bolmagn fyrstu árin en €72m meira í nettó eyðslu árlega að meðaltali?

Man City er vissulega búið að eyða meira í leikmenn en reka félagið betur en United og hafa því tekið meira inn í gengum sölu leikmanna. Reyndar vantar launakostnað inn í svona samanburð. Man City hefur í áratug verið að eyða €64m meira í leikmannakaup að meðaltali en Liverpool og klárlega ekki lægri laun. Man City var nota bene enskur meistari vorið 2012 þannig að Liverpool hefur hægt og rólega þurft að vinna þann mun upp með -€64m nettó eyðslu að meðaltali í 10 ár!

Chelsea er annars áhugavert þarna líka því að þeir eiga jafnan mjög hæfileikaríkan lager leikmanna úti á láni sem þeir hafa verið að selja með mjög góðum árangri sem fegrar mjög nettó eyðslu félagsins. Man City er eina liðið sem hefur eytt meira í leikmenn undanfarin áratug og flestir þessara leikmanna sem Chelsea er að mokgræða á voru ekki lykilmenn liðsins. Afar sjaldgæft að þeir missi frá sér leikmenn sem þeir vildu ekki selja.

En gott og vel að Liverpool eyði minna en Manchester liðin og Olíufélögin. Þetta skipti ekki máli meðan vel gekk en það er eitthvað verulega bogið við að þrettán liði hafi haft bolmagn til að eyða meira í leikmenn en Liverpool undanfarin áratug og samt eigi Liverpool í erfiðleikum með að fjármagna nauðsynlega endurnýjun á liðinu. Liði sem augljóslega er komið á aldur.

Arsenal sem hefur ekki beint verið þekkt fyrir bruðl hefur sett €240m meira nettó í leikmannakaup en Liverpool. Everton, Aston Villa og West Ham hafa einnig lagt meira út en Liverpool.

Fókusinn fer gríðarlega hratt á þetta þegar eigendur félagsins hætta að sinna nauðsynlegu viðhaldi.

Auðvitað vonum við (flest) að Liverpool endi ekki í ríkisrekstri hjá einhverju Olíuveldanna eða þá öðru svona Hick & Gillett eignarhaldi. En hvað gæti Liverpool gert með Jurgen Klopp við stjörnvölin og €50-80m meira úr að moða á leikmannamarkaðnum í svipað samansettu eignarhaldi og er nú hjá t.d. Chelsea, Arsenal eða AC Milan? (ekki að neitt þessara liða sé í einhverju drauma eignarhaldi).


Hvað næst?

Fari svo að FSG selji allan eignarhluta sinn í Liverpool eins og allt bendir til er mjög ólíklegt að það verði á næstu vikum eða mánuðum. Líklega tæki það ferli allt næsta ár og það er ef tekst að semja um kaupverð við nýja eigendur núna á næstunni. Salan á Chelsea er algjört one-off í ljósi mjög sérstakra aðstæðna. FSG er alls ekkert að fara á hausinn og sjá þetta líklega sem mjög góðan tímapunkt til að hámarka hagnað af kaupum á Liverpool. Það hefur ekkert staðist hvað varðar loforð um FFP þegar þeir keyptu félagið og Super League hugmyndin var augljóslega eitthvað sem FSG hugnaðist vel og sá fyrir sér sem framtíðarkost og grundvöll fyrir áframhaldandi veru í fótboltanum.

Líklega hefur yfirvofandi sala ekki nein áhrif á leikmannakaup í janúar eða sumar enda sá peningur tekin úr rekstri félagsins. Það veikir bara söluvöruna og lækkar verð ef þeir viðhalda ekki núverandi kúrs.

FSG er nú þegar sagt vera í leit að eftirmanni Ward og sagt að Klopp taki þátt í því ferli (með Billy Hogan sem er nú æðsti maður Liverpool réttu megin Atlandshafsins).

Það hafa alveg áhugaverð nöfn þegar verið orðuð við Liverpool í það hlutverk:

Paul Mitchell hjá Monaco til dæmis, hann var áður hjá Southampton, Tottenham og RB Leipzig. Sá á nokkur mjög öflug leikmannakaup á ferilsskránni og leggur jafnan áherslu á leikmenn sem henta einmitt vel fyrir hugmyndafræði Jurgen Klopp. Sadio Mane (Southampton) er einn þeirra og Son annar (Spurs). Monaco hefur heldur betur verið með áhugaverða leikmenn undanfarin ár.

Christoph Freund hjá Red Bull Salzburg liggur svo auðvitað nánast beint við ásamt Mitchell enda góð tengsl milli Liverpool og Red Bull og svipuð hugmyndafræði innanvallar. RB Salzburg hefur í hans tíð fengið leikmenn eins og Mane, Dayot Upamecano, Erling Haaland og Naby Keita.

Michael Edwards væri einnig spurning, gerðist eitthvað milli hans og FSG/Klopp eða þurfti hann bara frí? Mjög ólíklegt en svosem ekki útilokað og á pappír auðvitað lang vænlegasti kosturinn.

Stuart Webber hjá Norwich gæti einnig komið til greina. Hann var hjá Liverpool fyrir áratug og tók við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Huddersfield og svo Norwich í kjölfarið. Bæði lið hafa verið að gera nokkuð öfluga hluti á þeirra mælikvarða í hans tíð.

Michael Zorc hætti hjá Dortmund í júní og þekkir auðvitað þjálfarateymi Liverpool vel. Ekki líklegt Liverpool rífi sextugan fyrrum yfirmann knattspurnumála aftur á flot en fáir þekkja þennan bransa betur en Zorc.

Svo er þetta auðvitað eitt af fáum hlutverkum sem James Milner á eftir að spila hjá félaginu!

Það er sannarlega ekki þægileg tilhugsun að Liverpool sé komið á sölu og allir helstu nördarnir sem við höfum verið að hrósa undanfarin ár séu að hætta á sama tíma. Það bendir til að eitthvað meira sé í gangi bak við tjöldin. En á móti er óþarfi að hafa miklar áhyggjur af þessu á meðan Jurgen Klopp er ennþá sjóri Liverpool, það er aðalatriði í þessu öllu saman og hinn raunverulegi lykill að árangri félagsins.

9 Comments

 1. Takk fyrir þetta. Góður pistill.

  Varðandi ManU og að þeir eyði meira í leikmenn þá er alveg hluti inn í þá jöfnu að enginn peningur hefur farið í innra starf þar, völlurinn þeirra er t.d. hálf ónýtur. Liverpool hafa verið að setja mjög háar upphæðir í að efla innra starf og stækka völlinn.

  7
  • Einmitt. Þessi vinkill gleymist stundum í umræðunni. Það má reikna með hruni hjá þeim þegar þeir þurfa að fara að pússa upp gamla traffordið sitt.

 2. FSG hafa gert stórkostlega hluti fyrir félagið og jafn góða eigendur verður nær ógjörningur að finna. Eins og Arnór H bendir á hafa þeir bætt umgjörð til muna og bara allt í kringum klúbbinn. Maður er með kvíðahnút í maganum að sálarlausir glæpamenn frá landi nærri Mesópótimíu eignist félagið.
  YNWA

  6
 3. Sindri, vonandi færð þú lækningu við þessum kvíðahnút 😉

  Ég mun taka nýjum fjársterkum eigendum fagnandi sem gætu fært Liverpool á þann stall sem þeir voru á níunda áratugnum hvaðan sem þeir koma.

  Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér hvort fleiri sálarlausir glæpamenn finnist í Arabalöndunum eða BNA.

  2
  • Nóg af sálurlausum glæpamönnum Í Bandaríkjunum í boði Biden og demókratanna. Þar eru þó inná milli heiðarlegir ríkir hópir, öfugt við mið-austurlöndin.

   2
   • Gott og vel, við getum verið sammála að mestu leiti um það ég ætla svo sem ekki að fullyrða að það finnist ekki heiðalegt fólk í mið-austurlöndum, ég held að þjóðfélögin þarna séu mjög ólík okkur í hugsun, því miður er BNA búnir að halda uppi ríkisstjórnum þarna ásamt því að ryksuga peninga út úr þessum samfélögum.

    Það sem ég vil sjá hjá okkar mönnum eru eigendur sem geta stutt við klúbbinn á pari við hin stórliðin í Evrópu það hefur FSG ekki gert og geta greinilega ekki gert.

    Það versta við fótboltann í dag er að peningar stjórna öllu og spillingin í þessu öllu saman er meiri enn nokkurn getur grunað

    4
 4. Auk þess legg ég til að við kaupum bæði Tyler Adams og Enzo Hernandez. Getum selt eða gefið Ox og Keita og einhverja aðra ef þarf með. En ég er til í að setja 10.000 kall í þetta sjálfur.

  2
 5. Takk fyrir þennan pistil. Virkilega góðar pælingar og vel settar fram.

  3
 6. Liverpool fékk heimaleik gegn Úlfunum í þriðju umferð FA bikarsins.

  2

Nýja græna treyjan mætt – á afslætti um helgina

Stelpurnar fá Blackburn í heimsókn í deildarbikarnum