Ajax 0 – 3 Liverpool

Liverpool er komið í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar – sem er meira en mörg önnur lið geta sagt… – eftir góðan 0-3 sigur á Ajax á útivelli í kvöld.

Mörkin

0-1 Salah (42. mín)
0-2 Nunez (49. mín)
0-3 Elliott (52. mín)

Gangur leiksins

Ekki byrjaði þetta nú sannfærandi af hálfu okkar manna. Ajax var mun sterkara liðið lengi vel framan af fyrri hálfleik, og einu færin sem litu dagsins ljós komu frá þeim hvít- og rauðklæddu. Snemma leiks áttu þeir skot í stöng sem var bara pjúra heppni að fór ekki inn. Þeir fengu nokkur önnur færi, ekkert svosem jafngott og þetta, en annaðhvort hittu þeir ekki rammann eða þá að Alisson hirti boltana. En skömmu fyrir leikhlé vann Hendo boltann á vinstri kantinum, átti fullkomna utanfótar snuddu inn á Salah sem lúrði milli bakvarðanna, og lyfti boltanum af þvílíkri fagmennsku og nákvæmni framhjá markverðinum. Örfáum mínútum síðar kom svo frábær sókn hjá okkar mönnum: Robbo keyrði í áttina að vítateigsboganum, átti hnitmiðaða sendingu í gegnum vörnina á Bobby sem var í fínu færi sjálfur, en ákvað að renna fyrir markið á Nunez sem var dauuuuuuuuuðafrír en setti boltann í stöngina og út. 0-1 í hálfleik, og í ljósi þess hvernig færi Liverpool skapaði sér undir lokin, þá var þetta bara nokkuð sanngjarnt. En ekki leit út fyrir þetta megnið af hálfleiknum.

Seinni hálfleikur byrjaði svo mjög svipað og sá fyrri endaði, Robbo tók hornspyrnu frá vinstri, og Nunez stakk sér framfyrir tvo varnarmenn og stýrði boltanum af öryggi í fjærhornið. Það hefði verið auðvelt fyrir hvaða sóknarmann sem er að láta klúðrið í lok fyrri hálfleiks fara í hausinn á sér, en það gerðist a.m.k. ekki þarna.

Það liðu svo bara 3 mínútur þangað til Elliott var búinn að bæta þriðja markinu við. Boltinn barst upp hægra megin, Salah kom til baka og sótti boltann á meðan Elliott átti hlaup inn á teiginn, Salah fann hann með góðri stungusendingu, og Elliott smurði boltanum upp í þaknetið með hnitmiðuðu skoti. Meistardeildarmark númer 2 hjá kappanum, og vonandi bara forsmekkurinn að því sem koma skal. Okkur vantar klárlega þessa markaógn af miðjunni!

Þegar hér var komið sögu var eiginlega ljóst að þetta var búið spil hjá Ajax, því þeir hefðu þarna þurft að skora 5 mörk til að standa betur að vígi en Liverpool ef liðin myndu enda jöfn að stigum. Klopp gat leyft sér að skipta Jones inná fyrir Nunez eftir rúman klukkutíma leik, unglingunum Carvalho, Bajcetic og Milner inná fyrir ALLA miðjumennina þegar 20 mínútur voru eftir, og Tsimikas fékk svo mínútur í stað Andy undir lokin. Allir þessir leikmenn stóðu fyrir sínu, og Jones átti nokkra hættulega spretti og sýndi talsvert meira en hann gerði um helgina. Mögulega skipti máli að hann var í engu leikformi og þarf að spila sig í gang?

Eini ókosturinn við þennan leik er að Hendo fékk högg á hnéð um það bil sem hann var tekinn út af, og ekki ljóst hvort það var bara vont í smá tíma eða hvort það muni hafa einhver eftirköst. Vonum það besta.

Það var a.m.k. fagnað vel og innilega þegar flautað var til leiksloka, enda ljóst að sætið í 16 liða úrslitum tryggt.

Frammistaða leikmanna

Þó svo liðið hafi verið áberandi næstbesta liðið inni á vellinum stóran hluta fyrri hálfleiks, þá var samt erfitt að tala um að einhver hafi beinlínis verið að spila illa. Þetta lagaðist mikið eftir fyrsta markið, og seinni hálfleikur var aldrei spurning. Við förum ekkert að eyða meiri tíma í það, en ef við ættum að velja mann leiksins má alveg nefna t.d. Andy Robertson. Mætti alveg nefna nokkra aðra til viðbótar.

Umræðan og tölfræðin

  • Þetta er sjötta árið í röð sem Liverpool kemst í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar, og það er met hjá klúbbnum.
  • Alisson var að spila sinn 200. leik fyrir félagið, og hélt upp á það með því að halda hreinu, eins og hann hefur gert í 90 leikjum af þessum 200.
  • Darwin Nunez er núna búinn að skora 4 mörk í síðustu 4 leikjum sem hann hefur byrjað í. Það er nú bara ágætt fyrir leikmann sem margir hafa hengt “flopp” verðmiðann á.

Framundan

Það er leikur gegn Leeds seinnipartinn á laugardaginn. Alveg ljóst að sumir leikmenn hafa spilað mikið upp á síðkastið, og hefðu gott af því að fá eitthvað af þessum leikmönnum inn sem hafa verið að koma til baka úr meiðslum. Það væri t.d. frábært ef Konate gæti byrjað, og svo mætti Thiago alveg fara að hrista þessa eyrnabólgu af sér. Núna þarf liðið einfaldlega að fara í þann ham að vinna bara einn leik í einu, það væri óskandi ef það gæti gerst á sama tíma og meiðslalistinn myndi kannski bara styttast hægt og bítandi. Því leikurinn í kvöld sýndi okkur að þegar það er hægt að spila leikmönnum í byrjunarliði sem eru ekki “squad” leikmenn, þá getur þetta lið unnið hvaða lið sem er, bæði í deild og í Meistaradeild.


P.s. stelpurnar okkar voru líka að spila í kvöld, en þær mættu Leicester í Continental bikarnum á heimavelli andstæðinganna. Matt Beard stillti upp að mestu þeim leikmönnum sem fá minna að spila, eins og Eartha Cumings í marki, Leighanne Robe og Hannah Silcock í vörninni, Charlotte Wardlaw á miðjunni og Carla Humphrey í framlínunni. Stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og unnu öruggan 4-0 sigur með mörkum frá Missy Bo Kearns, Rhiannon Roberts, Rachel Furness og Katie Stengel. Þær hafa því unnið báða leikina í bikarnum það sem af er, og geta greinilega skorað mörk úr opnu spili. Þurfa bara að yfirfæra það yfir á deildina. Fínt að gera það í næsta leik gegn City um helgina.

22 Comments

  1. Solid leikur hjá okkar mönnum vonandi tekst þeim að koma svona gegn Leeds líka á laugardaginn.

    7
  2. Frábært að svara gangrýni svona, minni og annara???vel gert og gott að sjá Jones koma tilbaka. Fagmannlega gert !

    Á laugardagskvöld vill ég sjá sama og þá fleiri koma tilbaka eins og Keita og Ox, líka eyrna barnið hann Thiago.

    8
  3. floppið Nunez með 4 mörk í síðustu 4 leikjum sem hann hefur byrjað. Í 3 af þessum 4 leikjum fór hann snemma af velli.

    15
    • Nunez er með 0.8 mörk í leik miðað við spilaðar mínútur. Aðeins minna en þessi í ljósbláu en þetta er sterk byrjun. Þetta samsvarar yfir 40 mörkum á tímabili og hann er rétt að byrja. Ennþá hrár en efnið sem í honum býr… Hann er sko ekkert flopp.

      3
  4. Hvað segir fólk um græna búninginn?

    Mitt korn á vogarskálina er að hann sé ágætur og flottur í nærmyndatökum einstakra leikmanna, en með heildaryfirsýn á völlinn þá vantar eitthvað (lesist: nær allt) á “fílinginn”.

    Er hins vegar mjög sáttur við leikinn og úrslitin, flott mörk!

    3
    • Liturinn er mjög óspennandi og einhvern veginn enginn karakter í lúkkinu. Ég sé mjög eftir New Balance búningunum, þar voru alltaf flott kit. Nike er ekki með góða hönnun, þrátt fyrir frægð.

      En lítum á björtu hliðarnar… VIÐ UNNUM Í ÞESSUM BÚNINGI!

      3
  5. Sælir félagar

    Hvar var þetta lið og uppsetningin á leiknum á laugardaginn. Það er auðséð að Liverpool leikmenn geta ekki tekið til í hausnum á sér fyrir leiki við lið eins og Nott. Forest. Aftur á móti þegar við alvöru lið er að keppa þá spila þessir menn eins og englar. Ég tek það fram að ég er mjög ánægður með frammistöðu og úrslit þessa leiks. Það verður ekki frá leikmönnum Liverpool tekið að þessi sigur og frammistaða var mjög góð. Það aftur á móti breytir engu um skituna á móti N. Forest og þau úrslit verða liðinu og stjóranum til langvarandi skammar.

    Ég gæti sagt miklu meira en þetta um þessa tvo leiki en læt þetta nægja.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  6. Aron Jó með sannleikskorn kvöldsins, í meistaradeildamörkunum með Kjartani Atla, “ef de Bruyne hefði átt þessa sendingu ( Salah á Elliott) væru allir samfélagsmiðlar á hliðinni”!

    9
  7. Sæl og blessuð.

    Útivöllur, já
    Ögurstund, já
    Andstæðingar eru undirhundar, já
    Skyuldusigur, já

    Og við PÖKKUÐUM ÞEIM SAMAN!

    Komin áfram upp úr riðlakeppni. Hvað? fjórða árið í röð? Sjitt. Það er vel gert.

    STÓRLIÐ!

    9
  8. Skil ég það ekki rétt eftir leik kvöldsins að Salah vanti aðeins eitt mark til jafna markamet Steven Gerrard (41 mark) í Evrópukeppnum?

    4
  9. Frábær úrslit og gaman að sjá okkar menn mæta til leiks.
    Nú er bara að flengja Leeds á laugardagskvöldið og þá verður partý hjá mér ?

    YNWA

    3
  10. Flottur sigur og margir leikmenn spiluðu vel.
    Pössum samt að missa okkur ekki í gleðinni Ajax er með nýjan stjóra og greinilega ekki á góðum stað hafandi selt slatta af mönnum í sumar.
    .
    Það kemur í ljós á laugardaginn hvort hægt sé að byggja á þessum leik eða hvort öll orkan fyrir næstu vikuna hafi farið í þennan eina leik.

    Það er nú þannig.

    5
    • En þessi stjóri þeirra, fannst engum hann vera Ten Hagen “look a like”?

      2
  11. 3 Grílur dotnar út Barc, AM og Juve og nú eru bara Liverpool og leppalúðarnir eftir og ekki væri slæmt ef TOT fari sem síðasta grílína út úr kepninni allavega þá þurfa þeir að leggja allt í síðustu umferðina og mæta svo okkur algerlega sprungnir á því vonandi. Ég er á því að hvíla alla okkar bestu á móti Napolí og taka frekar hressilega á TOT. En hvað veit ég heima í sófanum svosem ?

    YNWA.

    8
  12. Gjörsamlegast frábær árangur hjá okkar mönnum og ég er með hugmynd… Vinnum bara þessa keppni. Það yrði svakalega sexý að vera með sjö CL-titla eftir þetta tímabil!

    16
  13. Flottur sigur og allt það en betra lið hefði líklega jarðað þetta fyrripart fyrri hálfleiks. Menn verða að mæta til leiks þegar flautað er til leiks. Liðið hefði auðveldlega getað verið 2-0 undir snemma leiks og þá hefði verið á brattann að sækja.
    Nunes er líklega hörku leikmaður og vonandi halda menn áfram að tengja betur við hann.

    3
  14. Þetta var nú aldeilis fínt, fyrir utan fyrstu 40 mín þar sem við vorum arfa slakir.
    Eftir að Klopp breytti í gamla góða 4-3-3 þá fór þetta að ganga miklu betur.
    Meira að segja grænu búningarnir litu vel út.

    1
  15. Perfect dæmi um hvernig mörk breyta leikjum, þetta leit ekkert alltof vel út til að byrja með, ef Ajax hefði nýtt eitthvað af sínum færum þá hefði þetta verið allt annar leikur og við líklega strögglað mun meira. Eftir að við náðum inn marki þá var þetta eiginlega aldrei spurning.
    Annars verð ég að hrósa Henderson, hann var eiginlega vinstri vængmaður í þessum leik. Hann stóð sig vel þarna og miklu betur en ég bjóst við. Firmino var mun aftar á vellinum fyrir miðju þannig þetta upplegg kom aðeins á óvart en gekk upp að lokum, Klopp á hrós skilið, þó byrjunin hafi verið erfið, þurfti kannski smá tíma til að aðlagast.

    4
  16. Skólabókardæmi um hvað sjálfstraust gerir fyrir þig. Veit ekki hvernig menn náðu að umturna þessu eftir fyrstu 35 mín en það var gott að sjá að við getum “bætt” eða “breytt” okkur inná vellinum. Aldrei spurning eftir fyrsta markið. Seinni hálfleikurinn var svo mjög fagmannlega leikinn og ég held að það hafi ekki farið mikil orka í hann. Gott að sjá Jones koma inná með kraft og Bajectic gæti orðið alvöru leikmaður. Fabio mér finnst hann oft á svona 75% og það fer smá í mig. Hörku gæði í löppunum hans og ég væri til í að sjá hann koma inná með sama kraft og Jones gerði. Klopp og Milner ástarsambandið. Þetta er akkúrat tímasetningin sem hann á að koma inná. 3-0 yfir og fá mann inná sem er bara mættur til að vera með leiðindi. Elska að sjá þetta.

    Komnir í stöðu að geta hvílt í heila viku milli leikja. Efast um að Klopp geri það. Var það ekki í fyrra þegar við vorum tryggðir eftir 4 leiki en hann notaði nánast sitt sterkasta lið í síðustu 2 umferðunum?
    Kannski hugsar hann öðruvísi í ár en það væri frábært að gefa Bajectic, Jones, Fabio, Tsimikas, Ramsey, Gomez og svona mönnum alvöru leik gegn Napoli.

    Frábær sigur og maður fékk aðeins meiri áhuga aftur eftir hörmungarnar síðustu helgi. Sigur gegn Leeds og ég er mættur aftur.

    YNWA

    2

Liðið gegn Ajax

Leeds á morgun (laugardag)