Upphitun: Ajax á útivelli

Það er stutt milli leikja þessa dagana og erfitt að ákveða hvort það sé jákvætt eða neikvætt eftir leik síðustu helgar og stóran hluta þessa tímabils. Vissulega annar séns á að bæta upp fyrir þá hörmung sem við sáum gegn Nottingham Forest en á móti verður þetta langur og þungur kafli fram að HM ef frammistaðan batnar ekki.

Í fyrri leiknum á Anfield unnum við góðan 2-1 baráttusigur þar sem Joel Matip skoraði sigurmark mínútu fyrir leikslok með skalla eftir hornspyrnu frá Tsimikas. Ajax er á toppi deildarinnar heima fyrir með fjögurra stiga forskot á PSV. Þeir hafa hinsvegar tapað stigum í tveimur leikjum síðan við mættum síðast en þeir töpuðu gegn AZ Alkmaar og gerðu jafntefli við Go Ahead Eagles. Þeir hafa einnig mætt Napoli tvisvar síðan á Anfield og töpuðu þeim samtals 10-3. Ég mæli einnig með því að ef menn vilja kynna sér sögu Ajax og áhrif þeirra á Liverpool að lesa upphitun Einars frá 2020 þegar liðin voru einnig saman í riðli.

Staðan í riðlinum er sú að Ajax er með þrjú stig en Liverpool með níu stig sem þýðir að ef leikurinn tapast ekki er Liverpool komið í sextán liða úrslit. Þá væri Klopp að skila liðinu upp úr riðlinum sjötta skiptið í röð sem er eitthvað sem Liverpool hefur aldrei tekist í Meistaradeildinni.

Mótherjinn

Ajax liðið er mjög breytt frá síðustu árum. Eftir að liðið komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2020 misstu þeir flesta lykilmenn sína en náðu að byggja fínt lið í staðinn en síðasta sumar varð annað hóp brotthvarf í herbúðum Ajax. Markmaðurinn Onana og hægri bakvörðurinn Mazraoui fóru frítt frá liðinu og vinstri bakvörðurinn Tagliafico fór ódýrt en hann átti stutt eftir af samningi sínum. Bayern keypti ungstyrnið Gravenberch, Sebastian Haller fór til Dortmund og undir lok gluggans tóku Manchester United Lisandro Martinez og Antony fyrir rúmlega 150 milljónir evra auk þess að taka þjálfara liðsins Erik Ten Hag.

Ajax réðu fyrrum aðstoðarmann Ten Hag, Alfred Schreuder, til að taka við liðinu og héldu áfram að sækja unga leikmenn en stóru kaupin í ár voru að sækja Steven Bergwijn aftur í hollenska boltann eftir frekar ómerkilega dvöl hjá Tottenham og Calvin Bassey ungur miðvörður frá Rangers. Football manager spilarar þekkja þó líka Lorenzo Lucca sem er mikil stjarna í leik síðasta árs en þeir fengu að láni með möguleika á kaupum.

Þetta er því ansi nýtt lið en hafa náð að byrja vel og virðist markaskorarinn frá því á Anfield Mohammed Kudus, sem Everton reyndu að fá í sumar, vera að vaxa í það hlutverk að vera stjarna liðsins. Fyrir okkur Íslendinga verður þó áhugaverðast að sjá hvort Kristian Nökkvi Hlynsson verði í leikmannahóp en hann ferðaðist með til Liverpool fyrir fyrri leikinn en var svo skilinn eftir utan hóps.

Okkar menn

Af meiðslapésunum okkar er það að frétta að eyrnarbólga Thiago virðist ekki vera að hjaðna og var hann ekki með á æfingu í gær en Konate og Nunez eru báðir nálægt endurkomu og voru báðir á æfingunni. Naby Keita og Alex Oxlade Chamberlain eru báðir farnir að æfa aftur en hvorugur þeirra er í Meistaradeildarhóp en aðrir eru lengur frá.

Geri ráð fyrir þremur breytingum frá því gegn Forest og Elliott, Jones og Milner missi sæti sitt í liðinu og inn komi Trent, Henderson og Nunez. Vissulega gæti Konate komið inn fyrir Gomez sömuleiðis en býst við að það verði frekar um helgina gegn Leeds. Miðað við liðið um síðustu helgi kom á óvart að Henderson spilaði ekki en það hlýtur að hafa verið eftir ráðfæringar við læknisteymið og vonandi að það hafi bara verið eitthvað lítillegt. Jones fékk sénsinn og nýtti hann ekki og virðist vera að þó hann hafi verið mjög spennandi þegar hann var að koma í gegnum unglingastarfið að hann sé ekki nægilega góður fyrir þennan standard. Vissulega er hann enn aðeins 21 árs gamall en ég á bara erfitt með að sjá hvar hann fær sína leiki þegar það er ekki algjör meiðslakrísa í gangi.

Spá

Ég spái því að við sjáum Liverpool mæta til leiks af miklum krafti eftir deyfðina um síðustu helgi og við fáum að sjá stórskemmtilegan sóknarfótbolta í 4-2 sigri Liverpool þar sem Salah setur þrennu og jafnar Drogba sem markahæsti afríkumaður Meistaradeildar og Darwin Nunez setur eitt með skalla.

Ein athugasemd

  1. Sæl og blessuð.

    Útivöllur? já
    Ögurstund? já
    Andstæðingar eru undirhundar? já
    Skyldusigur? já

    Hef ENGA ástæðu til bjartsýni.

    4

Gullkastið – Guð minn góður!

Liðið gegn Ajax