Rangers 1 Liverpool 7

1-0 Scott Arfield  17. mín

1-1 Bobby Firmino  24. mín

1-2 Bobby Firmino  55. mín

1-3 Darwin Nunez  66. mín

1-4 Mo Salah  75. mín

1-5 Mo Salah  80. mín

1-6 Mo Salah  81. mín

1-7 Harvey Elliott  87. mín

Leikurinn hófst eins og svo margir á þessu tímabili með því að okkar menn lenntu undir eftir aðeins 17. mínútna leik þegar Scott Arfield skoraði fyrir Rangers með skoti fyrir utan teig. Nokkrum mínútum síðar jöfnuðu þó Liverpool þegar Firmino skoraði með skalla á nærstönginni eftir hornspyrnu frá Tsimikas. Enn heldur Firmino því áfram að bjarga liðinu á þessu tímabili. Það var ekki margt annað að gleðjast yfir í fyrri hálfleiknum enda spilamennska liðsins ekki upp á marga fiska en það átti þó eftir að breytast.

Það var allt annað lið sem mætti inn í seinni hálfleikinn. Þeir voru miklu grimmari í alla bolta og litu mun betur út en það tók þó alveg tíu mínútur að koma boltanum í netið þegar Firmino skoraði sitt annað mark í leiknum og kom Liverpool yfir. Næstur á blað var svo Darwin Nunez sem skoraði stórkostlegt mark þar sem hann stýrði boltanum í fjærhornið eftir frábæran undirbúning frá Firmino. Í kjölfarið á markinu kom Salah inná fyrir Nunez og nokkrum mínútum síðar kom Jota inn fyrir Firmino.

Þeir áttu svo sannarlega eftir að hafa áhrif á leikinn. Á 75. mínútu fékk Salah háan bolta inn á teig, náði að halda frá sér varnarmanninum og kom boltanum frá hjá McGregor í markinu úr þrögnu færi. Fyrsta sinn í nokkurn tíma þar sem Salah skorar Salah-legt mark. Fimm mínútum síðar skoraði Salah svo tvö mörk á tveimur mínútum. Þrjú mörk frá Egyptanum á sex mínútum og Jota með allar stoðsendingarnar. Harvey Elliott skoraði svo sjöunda og síðasta markið þegar frákast barst til hans í teignum og hann hamraði boltanum í netið. Fékk svo að bíða í dágóða stund meðan VAR skoðaði hvort það væri rangstæða í aðdragandanum og var frábært andartak þar sem Elliott og Salah stóðu í faðmlagi að bíða eftir því að sjá hvort sá fyrrnefndi væri að skora sitt fyrsta meistaradeildarmark.

Bestu menn Liverpool

Þetta var mjög tvískiptur leikur en margir eiga hrós skilið en þeir Salah, Jota og Firmino voru bestir allra í dag og vonandi að við sjáum Salah í þessum ham um næstu helgi.

Umræðupunktar

 • Nánast komnir áfram í Meistaradeildinni. Eitt stig í síðustu tveimur leikjunum myndi tryggja sæti okkar í sextán liða úrslitum.
 • Frábært að sjá Nunez og Salah skora, nú verður alvöru samkeppni um framherjastöðurnar í liðinu.

Næsta verkefni

Þetta er gott veganesti þar sem næst er alvöru próf þegar Manchester City mæta í heimsókn á sunnudaginn. Vitum að gæðin eru til í liðinu til að vinna þannig leiki en þurfum að sýna það næstu helgi til að geta farið að laga þetta tímabil. Því þó það er vissulega gaman að vinna 7-1 gegn Rangers þá yrði sigur um helgina enn sætari.

27 Comments

 1. Gangi þér vel að svæfa strákinn Hannes! Þið feðgar væntanlega í 7unda himni með kvöldið! ?

  9
 2. Gleðilegt að sjá Salah í sínu gamla formi og láta þetta líta svo einfalt út en er svo hár nákvæmt, vonandi vakna ég ekki af þessum draumi fyrr en í næstu viku eða bara aldrei.

  6
  • Flottur sigur. Gott að rústa þessum Bestu deildar spilurum í seinni hálfleik.
   Áttum líka svona frammistöðu á móti Bournemouth og menn vilja líklega segja sem minnst til þess að vera ekki brenndir eins og síðast.
   Það er nú þannig.

   2
 3. Geggjað að stíga svona upp eftir undanfarna leiki. Nú er að halda áfram og sigra næsta leik…

  5
 4. Eftir erfiðar fyrstu 45 fengum við loksins að sjá okkar ástkæra félag rísa og þar munaði miklu um Bobby Firmino þvílíkur leikmaður og unun að fylgjast með hvernig liðið fékk trúna og ákváðu að slátra rangers. Nú er bara að krossleggja fingur og vona að svona úrslit komi liðinu á bragðið og við náum að slökkva á norðurljósinu á Anfield um helgina

  6
 5. Til hamingju kæru þjáningar bræður og systur, glasið mitt er aftur orðið hálf fullt.
  Vonandi er þetta það sem koma skal, mjög góður seinnihálfleikur eftir brösótta byrjun hjá okkur.
  Ég hef trú á að vörnin komi til með að halda betur núna en verið hefur með komu Gomez og Konate, geggjuð stoðsendingu hjá Gomez í seinna markinu hjá Firmino.

  5
  • Og svo má ekki gleyma Robbó það munar um minna að fá hann aftur inní liðið.

   4
  • Erum eftir úrslit kvöldsins erum við komnir úr topp 10 og niður í neðri hluta deildarinnar.

   1
 6. Sælir félagar

  Þetta var magnað þegar það á annað borð skall á. Minn maður Firmino grunnstoðin í leik liðsins eins og svo oft það sem af er. Meira seinna.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 7. Mikið var þetta gott og kærkomið.
  Verð að nefna Elliott sem var mjög góður í kvöld.

  5
 8. Rosalega flottur seinni hálfleikur eftir nokkurvegin meira af því sama í fyrri hálfleik. Erum alltaf að bíða eftir neistanum sem kemur þessu tímabili af stað hjá Liverpool, það þarf klárlega meira en sigur á Rangers sem er töluvert langt frá Liverpool getulega en þetta var í það minnsta mjög gott veganesi í vikurnar fram að HM. Stærsta tap Rangers á heimavelli í sögunni var kannski ekki alveg í kortunum í fyrri hálfleik.

  Salah VERÐUR að fara spila nær markinu, hann hefur verið týndur og tröllum gefin allt of lengi. Svona innkoma og þessi mörk vonandi kveikja neistann hjá honum. Þetta er allt of góður leikmaður til að vera eins ógeðslega lélegur og hann hefur verið, hvað þá þetta lengi.

  Sama með Nunez, frábært að hann sé byrjaður að pota inn mörkum, hann var alls ekkert sérstakur í dag, ekki frekar en um helgina en hann fær aukið sjálfstraust með því að skora mörk.

  Já og Bobby sem skorar mörk er stórkostlegur.

  Varnarvinna fremstu manna í fyrri hálfleik var vandræðalega léleg og miðjan hjá okkur er alvöru vandamál gegn góðum liðum. Töluvert betra í seinni hálfleik í kvöld þegar leikmenn Rangers fóru að gefa eftir en augljóst að það vantar helmingi meiri hlaupagetu og kraft á miðstæðið til að tengja liðið betur saman. Henderson, Fabinho og Thaigo eru allir töluvert frá sínu besta en það er líka orðið ljóst að okkur vantar yngri og ferskari menn þarna inn. Henderson fyrir 5-7 árum, leikmanninn sem Keita er á pappír, jafnvel Wijnaldum fyrir 3-4 árum. Endurnýjun liðsins á miðsvæðinu hefur klikkað eða tekið of langan tíma og það er að kosta okkur illa á öllum vígsstöðvum, sókn, miðju og guð minn góður í varnarleiknum.

  Sáttur með sigurinn og enn betra að Ajax tapaði þannig að 16-liða úrslit eru innan seilingar. Báðar fætur samt sannarlega á jörðinni, Liverpool vann líka Bournemouth 9-0 um daginn en er fyrir neðan þá í deildinni rúmlega mánuði seinna.

  20
 9. Ekkert að marka þennan leik frekar en B’mouth. Rangers er í besta falli championship lið. Að því sögðu mjög flottur seinni hálfleikur þar sem allt virtist smella. Sammála Einari að Salah þarf að spila nær markinu, alveg týndur útá kanti núna í 8-9 mánuði. 442 eða 424 alveg sexy en frekar brothættir tilbaka. Fab crucial í svoleiðis kerfi og þetta var besti leikur hans á tímabilinu. Elliott líka góður, hans staða er klárlega left winger. Ef Klopp ætlar í þetta kerfi gegn City þá sömu back five, fab og thiago mids, jota og elliott kantar og salah og bobby fantastic frammi.

  6
  • Jú, að sigra 1-7 á útivelli í gríðarlegri stemningu er merki um mikla getu og styrkleika. Við vitum að liðið okkar getur miklu meir og betur en síðustu vikur hafa sýnt. Vonandi er þetta allt að koma og sigur á shjitty í næstu umferð yrði frábær! Getum unnið alla enda gerðum við það í fyrra með sama lið mínus meiðsli.

   6
 10. Þetta var mjög kærkominn sigur og framistaða. Rangers sprengdu sig í fyrri-hálfleik. Eftir 10 min í seinni höfðu þeir ekki orku í að loka sendingaleiðum á milli línanna sinna og Liverpool gekk á lagið og nýtti sér stöðurnar sem upp komu. Ég nefndi það fyrir leikinn að Elliot hafi ekki heillað mig með varnarleik sínum fram til þessa en hann var mjög góður í kvöld og átti markið skilið Auðvitað er andstæðingurinn ekki í PL klassa og við þurfum sannarlega leikmenn inn á miðjuna en það ber að hrósa sem vel er gert og þessi leikur var góður hjá okkar mönnum. Robbo spilaði hreinilega meiddur í haust og þvílík innkoma! …læsti vinstri vængnum. Liverpool eru bestir þegar þétt er spilað og nú er bara að halda þessum dampi fram að HM!!

  4
 11. Ég sá bara seinni hálfleikinn og miðað við hvað Rangers lögðu mikla orku í fyrri þá virkuðu þeir þreyttir í seinni og LFC gekk á lagið. Ég var ánægður að sjá menn reyna að koma sér hratt á milli lína í stað þess að gaufa með boltann manna á milli fyrir framan tíu menn eins og oft er.

  Salah hafði gott af bekkjarsetunni og sammála því að hann þarf að spila nær markinu til að koma sér í færi.Hann virtist eitthvað pirraður í lok leiks,tók upp boltann og gekk af velli á meðan leikmenn klöppuðu fyrir áhangendum sínum upp í stúku.Hann hlýtur að sjá það að hans spilamennska hefur ekki verið upp á marga fiska á árinu og svona hegðun er ekki eftirtektarverð.

  Flott veganesti fyrir leikinn um helgina og vonandi verður Robertsson með – allt annar bragur á leik liðsins með hann inná.

  5
 12. Sælir félagar

  Þetta var reglulega gott og þrátt fyrir að gefa sitt venjulega mark í forgjöf þá komu leikmenn okkar til baka og unnu leikinn auðveldlega. Ég er sammála þeim sem segja að munurinn milli Rangers og Liverpool er amk. ein deild ef ekki tvær. Firmino var lykillinn að þessum sigri og hefur verið að halda þessu liði á floti í þeim leikjum sem það á annað borð flýtur í. Gaman að sjá Mo Salah í sínu gamla “klíniska” formi þar sem nákvæmni skotanna hjá honum er nánast ómennsk.

  Það sem særði í þessum leik var að liðið okkar lenti undir á móti liðið sem í raun á ekki að geta skorað mark á móti liði eins og Liverpool. Samt gerðist það??? Hinsvegar var fleira sem gladdi en þetta eina sem særði. Innkoma Mo Salah var með þeim hætti að vonir kvikna um framhald. Frammistaða Robbo sýndi hvað hann stendur Kostas miklu framar sem fótboltamaður. Jota loksins flottur eftir langt þurrk tímabil. Gomes er góður varnarmaður miðað við . . . þó hann hafi átt ein mistök sem sterkara lið hefði ef til vill getað nýtt sér.

  Þrátt fyrir þennan sigur standa samt enn eftir áhyggjur af miðjunni sem ver vörnina mjög illa leik eftir leik. Það hlýtir að vera hægt að finna ungan miðjumann í klúbbnum sem hefur þá hlaupagetu leikskilning og hraða sem þarf á móti City í komandi viðureign. Veikleikar liðsins á miðjunni hafa verið liðinu dýrir á þessari leiktíð og sýnt er að sú miðja sem hefur verið að spila undanfarið er ekki nógu sterk og ákvarðanatökur þar oft ekki nógu góðar. Hendo endist hámark 50 – 60 mín., Fab hefur gefið verulega eftir og Thiago hefur ekki hraðann sem stundum þarf til að afstýra hættulegum áhlaupum. Carvalho er ekki varnartengiliður og Elliot er ennþá of villtur. Vonandi getur Klopp leyst þennan vanda en það verður ekki gert með Milner vélinni þó öflug sé.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 13. Verður samt að segjast, í allri þessari óánægju með frammistöðu leikmanna, að þrátt fyrir að lenda alltaf undir þá koma þeir nánast alltaf til baka, stundum ekki nóg, en nánast alltaf skulu þeir gera það, það segir ýmislegt.

  5
  • Þetta er rétt Brynjar og af því að sóknin skorar alltaf þá hefði vörn og miðja þurft að standa sig og þá væru stigin anzi mikið fleiri 🙂

   • Asskoti óþægilegt að horfa á endursýningu af marki Rangers. Fabinho stóð hreinlega grafkyrr þegar Rangers maðurinn kom á fartinni og Henderson fór ekki af stað fyrr en seint og um síðir. Kagsprungnir miðjumenn og alveg kraftlausir. Þarna þarf að yngja upp um ein 6-8 ár ef vel á að vera. Man City á eftir að spóla í gegnum þennan steinrunna double-pivot á sunnudaginn.

    1
 14. Bíddu við…bara 20 komment miðað við 74 komment í síðasta tap leik.

  Hellisbúarnir og niðurrifs seggirnir láta ekki sjá sig núna á KOP.IS

  Einsog Shankly sagði-
  If you can’t support us when we lose or draw, dont support when we win.

  YNWA

  15
 15. Þá segi ég-
  If you don’t want to hear any negative reaction when you draw or lose, don’t expect any positive reaction when you win.

  4
 16. Sæl og blessuð.

  Þetta var auðvitað stórbrotinn árangur og ég er nokkuð viss um að okkar menn mæti með aukið sjálfstraust gegn mc á morgun. Magnaðar sveiflur í leik liðsins – 9-0, 1-7 og svo koma þessar skitur þarna inn á milli.

  En við gleðjumst á góðum stundum og fögnum því sem býr í okkar liði. Nú er það bara samfellan sem skiptir máli. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með rimmu morgundagsins.

  1

Byrjunarliðið gegn Rangers

Man City á morgun