Rangers FC úti

Ótrúlegt en satt þá er Liverpool að fara í fyrsta skipti í sögunni á Ibrox til að etja kappi við Rangers í opinberum keppnisleik eftir að hafa tíu sinnum mætt þeim í vináttuleiknum. Tenging Liverpool við Rangers er furðu lítil i samanburði við erkifjendur þeirra og nágranna í Celtic sem hefur í gegnun tíðina verið hálfgerður vinaklúbbur Liverpool. Kannski þess vegna hafa margir misskilið ríginn milli Liverpool og Rangers, hann er ekkert rosalegur og enganvegin byggður á trúarlegum grunni eins og rígurinn í Glasgow er í grunninn.

Liverpool og Glasgow eiga vissulega margt sameiginlegt og rígurinn milli knattspyrnuliðanna er eitt af því, en öfugt við Glasgow koma trúarbrögð ekkert við sögu í Liverpool borg. Ensku félögin eru frá sama svæði í borginni og skiptast oft fjölskyldur í stuðning við Liverpool eða Everton. Þannig er það alls ekki í Glasgow.

Rangers

Það þarf ekki að kynna sér sögu Rangers og Celtic lengi til að lesa út að skoska deildarkeppnin er ein sú leiðinlegasta í sögu evrópskar knattspyrnu og í raun ótrúlegt að aldrei í 150 ára sögu Rangers hafi það verið skoðað fyrir alvöru að sameina skosku deildarkeppnina við þá ensku, eða í það minnsta hleypa Celtic og Rangers í enska boltann. Yfirburðir þessara liða eru með þeim hætti í Skotlandi og það er síður en svo nýtt fyrirbrigði. Þessir yfirburðir hafa verið til staðar alla tíð.

Það eru 37 ár síðan eitthvað annað lið vann deildina. Rangers hefur í 108 skipti verið í topp þremur frá 1890. Rangers hefur raunar verið fyrir utan efstu sætin í aðeins um átján skipti og fjögur af þeim voru núna á þessum áratug er félagið varð gjaldþrota og dæmt niður í fjórðu deild. Það tók félagið ekki nema fjögur ár að jafna sig á gjaldþroti, vinna sig upp allar deildirnar og vera aftur mætt í topp 3. Celtic er skrefinu á eftir og hafa “aðeins” verið í topp þremur í 101 tímabil í sögu félagsins. Samtals eru þessi lið með 107 titla, rest er með 19!

Bæði félög væru líklega fljótlega komin í hóp sterkari liða á Englandi enda stuðningsmannahópurinn gríðarlega stór hjá báðum liðum. Rangers er t.a.m. töluvert stærra dæmi en Newcastle, þá vantar bara stærra svið til að sýna það almennilega. Þegar liðið spilaði til úrslita í UEFA Cup í Manchester árið 2008 er talið að um 200.000 manns hafi fylgt liðinu yfir landamærin. Þegar þeir spiluðu til úrslita í vor gegn Sevilla tóku þeir um 100.000 manns með sér til Sevilla. Aðeins hluti þeirra komst á leikinn sjálfan. Stuðningsmenn liðsins héldu einnig heldur betur tryggð við félagið þegar það varð fyrsti risaklúbburinn til að vera dæmdur niður í neðstu deild fyrir skattaskuldir, þeir slóu flest öll met yfir áhorfendur hjá liðum í neðri deildum.

Þessi hugmynd um að bæta Glasgow risunum við enska boltann er heldur ekki svo galin í ljósi þess að það er t.a.m. svipað langt frá Liverpool til Glasgow og það er til London. Newcastle er mun nær Skotlandi en t.d. höfuðborginni. Þarna hefði klárlega átt að gera eins og Wales og senda bestu liðin í enska boltann. Mögulega erum við þó þarna óbeint og óvart að tala máli Ofurdeildar Evrópu…

Old Firm

Rangers og Celtic hafa í það minnsta hvort annað og væru líklega ekki nærri því jafn sterk og þau þó eru án þess. Ekki það að stuðningsmenn liðanna horfi á þetta þannig. Liðin hafa mæst í 431 skipti í alvöru keppnisleik og miðað við að vera bæði nágrannalið og nánast alltaf í hatrammri baráttu um alla bikara er ekki skrítið að þarna hafi myndast gríðarlegur rígur. Þetta er þó aðeins partur af ríg liðanna sem á sér miklu lengri sögu, raunar frá því löngu áður en félögin voru stofnuð.

Skotland var í grunninn kaþólks þjóð en eftir “siðbót” árið 1560 var kaþólskri trú nánast útrýmt og bannað að iðka hana, bannað messur og völd páfa í landinu ekki viðurkennd. Þetta er töluverð einföldun á flóknari sögu en kannski ekki svo ósvipað því þegar Þorgeir Ljósvetningagoði datt í það eina helgina hér á landi og ákvað í þynnkunni að við skildum breyta um trú. Skotum var bannað að iðka þau trúarbörgð sem höfðu fram að því verið ríkjandi í stórum hluta landsins í um þúsund ár.

Á 19.öld fóru skotar að slaka á lögum um kaþólska trú og náðu kaþólikkar þó nokkurri fótfestu aftur með komu gríðarlegs fjölda íra sem voru að flýja hungursneyð í heimalandinu, 75% íranna voru kaþólikkar en 25% mótmælendatrúar. Margir þeirra settust að í Glasgow og með því að lesa á milli línanna má sjá að rígurinn á milli Celtic og Rangers átti sér a.m.k. 150-200 ára forsögu áður en félögin voru stofnuð. Liverpool og Glasgow eiga það svosem sameignlegt að fjölmargir írar fluttu búferlum til Liverpool einnig á þessum tíma og á borgin sterkar rætur til Írlands. Samfélagið í Liverpool þróaðist bara ekki eins og í Glasgow og alls ekki hvað stuðning við knattspyrnuliðin varðar. Mikið frekar að íbúar Liverpool hafi ekki fundið sig sem partur ensku samfélagi.

Celtic var stofnað í austurhluta Glasgow sem var meira fátækrahverfi byggt upp af stórum hluta innflytjenda frá Írlandi, félagið var bókstaflega stofnað sem tól til að afla peninga til að styðja við góð málefni í hverfinu. Nafnið á félaginu, Celtic gefur augljóslega til kynna hvaða bakgrunn stofnendur félagsins höfðu. Hiberninan var stofnað nokkrum árum áður í Edinborg með sömu hugmyndafræði að leiðarljósi, einnig af kaþólikkum sem flestir höfðu írskan bakgrunn. Það er því ekki að undra að Celtic er lið flestra íra og fáni félagsins þjóðfáni íra.

Stuðningsmenn Rangers eru á hinn bóginn að langstærstum hluta mótmælendatrúar og voru þeir með óopinbera stefnu frá því eftir að fyrri heimstyðjöldinni lauk að kaupa aldrei kaþólska leikmenn og ráða enga kaþólikka í vinnu. Stuðningsmenn félagsins voru bókstaflega aldir upp með hjálp félagsins að hata erkifjendurna. Með árunum fór gagnrýni á þessa óopinberu stefnu að verða mun háværari þó forráðamenn Rangers hafi jafnan neitað fyrir það þetta væri í raun stefna.

Þessi rígur er auðvitað beint og óbeint tengdur þeim átökum sem voru í gangi milli mikið til sömu hópa á Írlandi. Það hefur t.a.m. nokkrum sinnum gerst að hægt er að rekja morðmál beint til Old Firm leikja. Old Firm var (og er) stundum meira vettvangur fyrir útrás ákveðinna hópa fyrir fordómum sínum frekar en nokkuð tengt áhuga á knattspyrnu. Þetta hefur oftar en ekki verið fært í einhvern dýrðarljóma í umræðu um hvað Celtic og Rangers eigi harða stuðningsmenn og hversu mikill rígurinn er milli liðanna.

Rígurinn er sannarlega ennþá til staðar milli þessara félaga en ekkert í líkingu við það hvernig hann var megnið af síðustu öld og hafa bæði félög lagt í mikla vinnu við að auka öryggi á leikjum liðanna. Rangers sýndi loksins í verki að þeir hefðu breytt um stefnu árið 1989 er þeir keyptu fyrsta leikmanninn sem aðhyllist kaþólska trú, sá var Mo Johnston fyrrum leikmaður Celtic sem var búinn að semja um að ganga aftur til liðs við sína gömlu félaga þar til Rangers kom og bauð betur. Greame Souness var þjálfarinn hjá Rangers sem fór svona gegn þessari óopinberu hefð og líklega sá eini í landinu sem hafði hugrekki til þess (sami maður og flaggaði Galatasaray fánanum í miðjum heimavelli Fenerbahce!)

Friður á Írlandi áratug seinna hefur líklega eitthvað hjálpað til einnig við að draga örlítið úr spennu milli félaganna þó vissulega hafi það aðallega haft áhrif á Írlandi. Eins er Glasgow auðvitað búin að taka töluverðum breytingum á 200 árum og skipting (og misskipting) milli þessara hópa ekki eins og hún var kannski þegar þessi félög voru stofnuð.

Þetta skýrir þó kannski eitthvað afhverju stuðningsmenn Rangers bauluðu svona hressilega á You´ll Never Walk Alone lagið á Anfield fyrir fyrri leikinn og afhverju stuðningsmenn Liverpool tóku lagið aftur þegar leikurinn var unninn. Ein sterkasta tenging Liverpool og Celtic er einmitt You´ll Never Walk Alone auk auðvitað King Kenny Dalglish, besta leikmanns í sögu beggja liða.

Tími Steven Gerrard er ekki alveg að tengja stuðningsmenn liðanna jafn mikið þó okkar maður hafi vissulega unnið frábært starf í Glasgow.

Rangers liðið er þó enganvegin stóra málið fyrir þessa viðureign. Ryan Kent fyrrum leikmaður Liverpool og Ben Davies sem er ekki til nema maður horfi á leikinn með þrívíddargleraugum eru lykilmenn í þeirra liði sem segir kannski sitt um muninn á þessum liðum.

Hinsvegar eru Liverpool fullfærir um að klúðra hvaða viðureign sem er um þessar mundir og Rangers á Ibrox er alltaf alvöru verkefni, sérstaklega þegar andstæðingurinn er frá Englandi. Fyrir þeim er þetta rétt rúmlega bikarleikur og þetta lið fór alla leið í úrslit Evrópudeildarinnar í fyrra mikið til á þeirri stemmingu sem hægt er að mynda á Ibrox.

Liverpool

Þessi vika hefur verið hreinlega fáránlega slæm fyrir stuðningsmenn Liverpool. Það gekk fullkomlega ekkert upp í leiknum gegn Arsenal, hjálpaði auðvitað ekki að dómarinn í þeim leik átti verri leik en sú sem dæmi landsleik Íslands í Portúgal í dag! Ofan á ömurlega svekkjandi úrslit þá bættust þrír leikmenn við meiðslalistann í ofanálag.

  • Luis Diaz er frá fram yfir áramót (eftir HM). Tomas Partey gerpið kláraði hann og fékk ekki svo mikið sem tiltal fyrir frá vonlausum Oliver um helgina.
  • Matip er frá í 2-3 Matip vikur sem eru alltaf 7-8 vikur skv. okkar tímatali.
  • Trent Alexander-Arnold er svo frá í 2-3 vikur (sem eru svona 7 leikir) eftir meðferðina sem ökklinn á honum fékk um helgina, aftur, hann fékk ekki einu sinni aukaspyrnu.

Á móti kemur Andy Robertson aftur í hóp, hann er ekki að fara spila gegn Rangers en verður vonandi klár í slaginn um helgina þá. Curtis Jones er einnig mjög nálægt því að koma aftur ásamt því að Ox-Chamberlain er mættur til æfinga og er ekki áætlaður í að meiðast aftur fyrr en eftir þrjár vikur þegar mögulega verður þörf á að nýta krafta hans næst.

Leikkerfið

Það verður fróðlegt að sjá hvað Klopp gerir með leikkerfið í fjarveru Trent og Diaz. Calvin Ramsey er mættur aftur til æfinga en ekki klár í slaginn og því líklegt að Joe Gomez komi inn í hægri bakvörðinn eða James Milner. Hvorugt er að fara hjálpa leik liðsins og skiptir þar engu hvort hann stillir upp 4-3-3 eða 4-2-4.

Leikkerfið undanfarið hefur verið nær því að vera 4-2-4 / 4-4-2 með Nunez og Jota frammi og Diaz og Salah á vængjunum. Miðjan er með þessu alveg galopin sem kom ekki mikið að sök gegn Rangers en var suicidal gegn Arsenal. Hvað þá með Fabinho á bekknum frekar en t.d. Henderson sem hefur byrjað þetta tímabil fullkomlega hræðilega. Jamie Carragher kom einmitt með áhugaverða athugasemd í MNF í gærkvöldi þar sem hann velti því fyrir sér hversu mörg topplið væru að spila 4-4-2 í dag og afhverju það væri! Skiptingin á Salah í síðasta leik sem skilaði sér í Jordan Henderson á hægri vænginn er eitthvað sem við vonandi sjáum aldrei aftur hjá Liverpool, gekk álíka vel og þegar hann spilaði á kantinum árið 2011 og var næstum seldur til Fulham í kjölfarið.

Vonandi færir Klopp sig nær því að spila 4-2-3-1. Munurinn væri þá að hann hefði þá miðjumann í holunni í stað Jota sem hefur verið að spila sem einskonar second striker í síðustu tveimur leikjum með takmörkuðum árangri. Það er hörmung að missa Luis Diaz út sem hefur verið okkar bjartasti punktur í framlínunni í vetur og ekki hjálpar að Salah er varla eins og skugginn af sjálfum sér.

Klopp þarf að finna lausnir og fyrir mér blasir svolítið við að setja Carvalho bara í sína stöðu og ef ekki hann þá Elliott. Raunar er mér fyrirmunað að skilja afhverju þeir eru að spila á miðri miðjunni í 4-3-3 leikkerfi og draga sig út á vænginn þar sem þeir eru meira og minna bara fyrir í stað þess að prufa þá í holunni í 4-2-3-1 leikkerfinu sem er líklega besta staða beggja. Fabio Carvalho var bókstalega keyptur eftir frammistöðu sína hjá Fulham í fyrra í nákvæmlega þessu hlutverki þar sem hann spilaði fyrir aftan stóran target sóknarmannn í 4-2-3-1 leikkerfi. Hans hlutverk er vissulega töluvert sóknarsinnað en þó nær miðjumönnum en Jota var í leiknum gegn Arsenal og mögulega betri í að tengja miðju og sókn saman. Elliott var eins mjög góður hjá Blackburn þá 17 ára í svipuðu hlutverki.

Bobby Firmino er svo enn einn leikmaðurinn sem gæti hentað vel í holunni en þá sérstaklega í meira sóknarsinnuðu liði. Liverpool á svo inni þrjá miðjumenn sem myndu líklega allir gera tilkall í þetta hlutverk í Keita, Jones og Ox. Helvíti dýrt að vera með þrjá svona leikmenn sem henta allir best þarna en eru aldrei heilir.

Til að leysa fjarveru Diaz blasir við að Jota fari á vænginn sem er líklega nær því að vera hans staða, eins gætum við mögulega séð Nunez draga sig meira á vænginn og Bobby/Jota farið fram.

Liðsuppstillingin

Hvorki Henderson eða Thiago ráða við leikjaálag og Klopp þarf klárlega að hvíla annan þeirra ef ekki báða í þessum leik. Fabinho kemur alltaf inn og líklega setur hann bara Milner inn líka en ég held mig við Henderson. Elliott eða Bajetic koma einnig til greina sem þó væri meira langskot.

Konate kemur vonandi inn fyrir Matip og eignar sér stöðuna og helst heill. Gomez er líklegur í hægri bakvörðinn í næstu leikjum og Robertson verður ekki klár í þennan slag.

Framlínan væri nokkuð spennandi svona og þá á Klopp samt Firmino og Elliott inni.

Spá 

Ibrox verður skoppandi í þessum leik sem gæti haft áhrif á verulega brotthætt lið Liverpool. Eðlileg úrslit væri þriggja til fimm marka sigur en eins og haustið hefur spilast tek ég 0-1 sigri þarna og þremur stigum.

Liverpool má ekki við því að klúðra Meistaradeildinni fyrir áramót eins og búið er að rústa deildinni, sigur í Glasgow færi langt með að tryggja liðið áfram. Vonandi sjáum við 4-2-3-1 og liðið tekið úr þessari ömurlegu handbremsu sem það hefur verið í sóknarlega undanfarið. Varnarleikurinn hreinlega hefur ekki svigrúm til að versna mikið frekar.

 

 

 

 

6 Comments

  1. sælir félagar

    Takk fyrir þetta Einar Matthías, frábært eins og við var að búast. Hvað hugleiðingar þínar um Liverpool liðið varða þá hefi ég engu við að bæta og er þér algerlega sammála í hvívetna.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  2. Formsatriði að klára Rangers sem er á pari við lélegustu lið PL. Maður horfir nánast bara á leikinn við Ajax sem orrustuna um 2. sætið, og eina leikinn sem gæti farið í báðar áttir.

    4
  3. Sæl öll.
    Skiptir maður um hest út í miðri á?
    Í mínum huga er ekkert sérlega mikill munur á Liverpool liðinu hvort sem kerfin eru kölluð 4-2-3-1 eða 4-3-3. Munurinn liggur fyrst og fremst í því á hvað tímapunkti og stöðu liðsins á vellinum hvenær bakverðirnir fara hátt upp á völlinn. Í síðasta leik okkar voru Trent og Tsimikas svakalega “lengi” að skila sér upp og hefur það klárlega verið fyrirskipað vegna hraða Martinelli og Saka. Núna erum við neyddir í eitthvað svipað þar sem Gomez er ekki jafn sterkur fram á við en ætti að vera sterkari varnarlega en Trent. Með leikinn um helgina í huga og það að við verðum að vinna þennan leik mundi ég vilja sjá Liverpool spila svipað upplegg og á móti arsenal en þó leyfa Gomez og Tsimikaz fara ofar á völlinn því við höfum ekki vinnusemi Diaz að njóta.
    Alison : Gomez-Konate-Dijk-Tsimikas : Fabinho-Milner : Jota-Carvalho-Firmino : Núñez
    Með þessari uppstillingu getum við sent skilaboð til Salah að drulla sér í gang. Ættum að hafa breidd á bekknum til að breyta til ef okkur vantar mark og líka reynslu til að “loka” leiknum. Svona getum við líka “sparað” Henderson og Thiago sem koma þá inn í liðið gegn city ásamt Salah og vonandi Robertson.
    0-3 fyrir Liverpool (Núñes, Firmino, Jota)

    2
  4. Takk fyrir FRÁBÆRA upphitun Einar, enn aftur !
    Það er ekkert annað í boði en sigur á Rangers, svona upphitun fyrir leikinn á sunnud. Ég vill sjá Konate koma inn í vörninni, jafnvel á kostnað VVD. Er svo ekki miðjan og sóknin nokkurn vegin sjálf valin.

    KOMA SVO RAUÐIR ! !

    4
  5. Ég vil í hreinskilni sjá Salah á bekknum og leyfa honum að átta sig á því að hann er ekki ómissandi og þessi spilamennska undanfarið ár er ekki boðleg.Tomiyasu var með hann í vasanum í siðasta leik og hann virtist andlaus heilt yfir.

    Spái jafntefli eftir að hafa lent undir enn einu sinni,1-1.

    3

Gullkastið – Bullandi stormur

Byrjunarliðið gegn Rangers