Upphitun: Glasgow Rangers á Anfield

Rauði herinn mætir til leiks í Meistaradeildinni eftir dapran deildarleik um helgina og vonast til þess að gera betur á Anfield gegn skoska stórliðinu Glasgow Rangers. Merkilegt nokk þá verður þetta fyrsti keppnisleikur liðanna í milli en bæði eiga það sameiginlegt að hafa fagnað deildarbikartitli á síðasta tímabili ásamt silfurmedalíum í sinni heimadeild og einnig í úrslitaleik í Evrópu. Þegar enskir mæta skoskum þá er ávallt von á neistaflugi!! Hitum því eldheitt upp!!

Mótherjinn

Evrópu-Einar mun hita upp fyrir útileikinn í Glasgow-borg eftir rúma viku og við gefum honum því sviðið hvað varðar safaríka sagnfræði eins og honum er einum lagið. Ég mun líta til þessa núverandi liðs Rangers sem átti ágætt fyrsta tímabil undir Giovanni van Bronckhorst en Hollendingurinn tók liðinu af Steven okkar Gerrard í nóvember í fyrra þegar SteG fór til Aston Villa. Sem fyrrum leikmaður Rangers þá þekkir Giovanni vel til klúbbsins en einnig gerði hann garðinn frægan með Arsenal og Barcelona og hann varð einmitt Evrópumeistari með Barca þegar þeir lögðu Skytturnar í úrslitaleik CL árið 2006.

Þá fékk hann silfurmedalíu á HM 2010 þegar Holland beið lægri hlut fyrir heimsmeisturum Spánar en samtals spilaði van Bronckhorst 106 landsleiki og varð landsmeistara í Skotlandi, Englandi og Spáni. Sem leikmaður láðist honum að vinna deildina í heimalandinu en hann bætti úr því í sínu fyrsta stjórastarfi með Feyenoord er þeir urðu Hollandsmeistarar árið 2017. Þar fór auðvitað fremstur í flokki Kop-hetjan Dirk Kuyt sem skoraði þrennu í lokaleik tímabilsins til að tryggja titilinn með eins stigs mun:

Í liði gestanna verða nokkur kunnugleg andlit en Ryan Kent hefur gert mjög góða hluti hjá Rangers síðan hann kom til Glasgow frá Liverpool árið 2018, fyrst að láni en síðan keyptur. Í sumar bættist Ben Davies í hópinn en kaupin á honum fyrir um 4 millur punda voru dýrasta innkoman í kaupglugganum en tyrkneski vinstri bakvörðurinn Ridvan Ylmaz og hinn velski vængmaður Rabbi Matondo komu einnig fyrir ögn lægri upphæðir. Davies er ætlað að fylla skarð Calvin Bassey í vörninni en hann var seldur til Ajax fyrir 20 mill punda í sumar sem er hæsta leikmannasala í sögu Rangers.

Þá kom Króatinn Antonio-Mirko Kolac líka í sumar en sóknarmaðurinn hefur verið sjóðheitur í skosku deildinni með 8 mörk í 8 deildarleikjum ásamt 3 mörkum í forkeppni CL og sá gæti pottþétt að hann gæti reynt á okkar veiku varnartilburði sem einkennt hafa síðustu leiki Liverpool. Önnur hættuleg markaógn er spyrnusérfræðingurinn James Tavarnier sem hefur skorað 86 mörk og skapað 111 stoðsendingar í 361 leik úr hægri bakvarðarstöðunni frá árinu 2015 er hann kom til liðsins og það hlýtur að teljast ansi magnaður árangur. Þá gæti hin þaulreyndi og fertugi Allan McGregor staðið á milli markstanganna en hann hefur spilað rúma 450 leiki fyrir Rangers í tveimur törnun en á árum áður var hann samherji Andy Robertson hjá Hull City.

Segja má að Rangers hafi gert mjög vel í að fara alla leið í riðlakeppni CL með því að komast við ramman leik í gegnum Royale Union Saint-Gilloise frá Belgíu og hollenska stórveldið PSV Eindhoven. Þeim hefur þó ekki vegnað vel í fyrstu leikjunum eins og samanlagður 0-7 skellur gegn Roma og Napoli undirstrika en batamerki mátti sjá á leik liðsins í 0-4 útisigri gegn Hearts of Midlothian um síðustu helgi. Þeir munu því leggja allt í sölurnar í bardaganum um Bretland til að bjarga sinni CL-þátttöku frá glötun þetta árið og munu stilla upp sínu sterkasta liði sem í boði er:

Líklegt byrjunarlið Glasgow Rangers í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Það var þrælsvekkjandi að okkar menn kæmu ekki betur undirbúnir til leiks heldur en raun bar vitni síðastliðinn laugardag. Landsleikjahléið var greinilega ekki að nýtast okkur neitt sérstaklega vel til endurskipulagningar en hafa ber í huga að fjölmargir okkar fastamanna ferðuðust út um hvippinn og hvappinn til að sparka í bolta fyrir hönd sinnar þjóðar. En öll helstu vandamál okkar upp á síðkastið voru opinberuð í slælegri byrjun í upphafi leiks, sundurleitri spilamennsku, samhengislausu sóknaruppleggi og vandræðalegum varnarleik.

Við vorum svo sem næstum búnir að bjarga okkur fyrir horn með ágætri endurkomu en það hefði í raun bara fegrað þá staðreynd að fjölmargir lykilmenn eru að spila langt undir getu og liðið í heild er ekki að spila vel saman sóknar- eða varnarlega. Í raun má segja að bara Diaz, Alisson, Firmino og kannski líka Elliott séu að spila á eðlilegri getu sem ætlast mætti til af þeim en aðrir séu mislangt undir eigin viðmiðum. Það má fara í eldheita eldhúskrókasálfræði ásamt fullfermi af fótboltafrösum til að leita að ástæðunni en við verðum bara að vona að okkar menn finni taktinn hið snarasta því annars er hætta á einhvers konar hruni í frammistöðu sem átti sér stað í byrjun árs 2021 eftir erilsöm ár á undan.

Helsta vangaveltan fyrir þennan leik er hvort að Klopp muni horfa til þess að rótera sínum mannskap fyrir stórleikinn gegn Arsenal um næstu helgi eða hvort hann muni veðja á sitt allra sterkasta lið. Ég hygg að hann hallist frekar að fleiri fastamönnum en færri til að stíla inn á öruggan heimasigur í riðli þar sem við megum ekki við mörgum mistökum. Kannski gæti hann litið á þetta sem tækifæri til að koma mönnum eins og Salah í gang en ég ætla að spá því að Darwin Nunez fái sæti í byrjunarliðinu í framlínunni. Þá hefur Trent Alexander-Arnold eðlilega verið milli tannanna á fólki fyrir verulega vonlausa varnarvinnu á löngum köflum og ég ætla að spá því að Klopp gefi Gomez sénsinn í hægri bakverðinum í þessum leik.

Þetta er því mitt uppkast að byrjunarliði heimamanna:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Kloppvarpið

Stjórinn fór yfir ástandið á varnarmálunum, stöðuna á Rangers og skoska boltanum, aðlögun Nunez og okkar fyrrum leikmann Ben Davies.

Tölfræðin

  • Liðin hafa aldrei mæst í keppnisleik en í 10 æfingaleikjum þá er leikar hnífjafnir með 4 sigra á hvort lið með 2 jafntefli og markatöluna 16 gegn 15 mörkum Liverpool í vil.
  • Rangers hafa ekki unnið í 25 af síðustu 28 leikjum liðsins í Meistaradeildinni.

Upphitunarlagið

Það er úr fjöldamörgum böndum að velja sem eiga uppruna sinn í Glasgow-borg en ég ákvað að vonast eftir því að Primal Scream veki upp fótboltaleg frummennsku öskrin í Rauða hernum og Movin’ on Up færi okkar ofar upp í töflum og titilbaráttum. Það er einnig ágætlega við hæfi að Bobby Gillespie kyrji sína söngva til dáða Liverpool enda mikill Glasgow Celtic stuðningsmaður og myndi klárlega vilja syngja YNWA með okkur Púlurum í sigurleik yfir Rangers á Anfield.

Spaks manns spádómur

Ég geri fastlega ráð fyrir góðri stemmningu á Evrópukvöldi á Anfield og þá sérstaklega þegar að skoskt lið mætir í bæinn með sína ágætu áhangendur. Miðað við leikformið á Liverpool að þá megum við ekki við neinu vanmati eða slappri byrjun á leiknum og við ætlumst til þess að okkar menn vakni af sínum væra blundi með miklum hvelli. Munurinn í gæðum á ensku og skosku úrvalsdeildinni ætti að vera undirstrikaður í kvöld með skyldusigri þó að mun erfiðara gæti verið að heimsækja Skotana á Ibrox að viku liðinni.

Mín spá er að við höldum hreinu og skorum nokkur ágæt mörk í 3-0 heimasigri þar sem að Nunez skorar tvö mörk og Salah setur eitt.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

7 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Hressandi að lenda í ærlegri lægð og minnir okkur á hlutskipti okkar félags ár og áratugi áður en þessi gullöld hófst. Við verðum að taka því að þetta er ekki félag sem kaupir leikmenn sem hvaða áhugasauður sér að eru fyrsta flokks. Kaupstefnan hefur hingað til fært okkur demanta sem enginn sá í öskunni – leikmenn sem maður klóraði sér i kolli yfir að skyldu valdir, fremur en stórstjörnurnar sem önnur lið keyptu á miklu hærri pening. En núna er eins og við séum að upplifa veikleikana á því kerfi – eða hvað?

    Ég ætla amk að fylgjast með mínu félagi, sjá hvað þau læra af þessum hörmungum og hvort við taki annar skuggadalur sem mun vara í ár og áratugi eða hvort hópurinn heldur af stað í nýtt skeið, ríkur að reynslunni.

    Að því sögðu, þá á ég von á því að skotar mæti ólmir til leiks og reyni að keyra yfir okkur á fyrstu mínútunum. Er ekki bjartsýnn. Hver er það svo sem?

    4
  2. Sæl öll,
    undir Klopp hefur Liverpool verið bestir þegar leikið er þétt. Ef að Liverpool kemst ekki í gírinn núna í október er laaaangur og erfiður vetur framundan og það VERÐUR að kaupa inn miðjumann í janúar.

    Darwin skorar í kvöld og Liverpool vinnur leikinn 4-1.

    5
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir þessa fínu upphitun Magnús. En fyrir mína parta þá hafa fæst orð minnsta ábyrgð og í ljósi undanfarandi frammistöðu þá er bezt að segja sem minnst. Ég vona að þessi leikur vinnist og mun það fyrst og fremst byggjast á vörn og miðju. Sóknin skorar alltaf einhver mörk en spurningin er hvað miðja og vörn ákveða að gefa mikla forgjöf. Yfirleitt hafa þeir aðilar gefið eitt mark í þann pakka en ákváðu í síðasta leik að gefa 2 mörk í forgjöf. Ef svo verður þá tapast þessi leikur einfaldlega.

    Það hefur verið bent á að ef til vill væri reynandi að spila með þrjá hafsenta (Gomes, Matip, Virgil) og fjóra á miðjunni (TAA, Thiago, Fab, Robbo) og þrjá frammi (Diaz, Firmino(Nunez), Salah). Þetta mundi létta varnarskyldum TAA en nýta sóknargetu hans. Auðvitað mundi hann verða að verjast líka því hjá Klopp byrjar varnarleikurinn hjá sókninni og endar hjá markmanni. Það þýðir að auðvitað þurfa allir leikmenn að taka þátt í varnarleiknum eins og sóknarleiknum. En hvað veit ég sosum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  4. Ali
    Gomez Nat Matip Tsimikas
    Elliot Arthur Bajcectic Carvalho
    Nunez Jota

    Ef ég væri að spila FM væri þetta ca liðið í kvöld. Stóru strákarnir geta svo komið inn ef það gengur illa.
    Ég held að Trent, Virgil, Fabinho og Salah hafi ágætt að fá smá hvíld og reality check í kvöld. Stórir leikmenn sem nenna örugglega ekki að hlusta á meistaradeildarstefið á hliðarlínunni aftur. Líklega eina jákvæða við næstu helgi er að við spilum á þriðjudegi en Arsenal á fimmtudegi við eldspræka Alfons og félaga. Þar höfum við forskot og við ættum að nýta okkur það með því að hvíla nokkra lykilleikmenn í kvöld. Með fullri virðingu fyrir Rangers, þá eiga þeir aldrei að ná stigi á Anfield, sama hvaða liði við stillum upp.

    YNWA

    3
    • Og auðvitað Henderson og Thiago. Þurfum sárlega á þeim að halda á sunnudaginn og ég vona að Klopp taki enga sénsa með þá.

      2
  5. 4-2-3-1 í kvöld.
    Alisson; Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Tsimikas; Henderson, Thiago; Salah, Jota, Diaz; Nunez

    Varamenn: Adrian, Kelleher, Gomez, Fabinho, Konate, Milner, Firmino, Elliott, Ramsay, Carvalho, Bajcetic, Phillips

    2
  6. Ánægður að sjá Klopp breyta kerfinu trúi ekki öðru en að þeir taki þetta koma svo !!!

    3

Continental bikarkeppnin að byrja hjá kvennaliðinu

Liðið gegn Rangers