Loksins aftur deildarleikur!

Fyrir rétt tæplega mánuði síðan, laugardaginn 3. september um kl. 14:25, flautaði Anthony Taylor til leiksloka í leik Liverpool og Everton. Ég stórefast um að nokkur einasti Liverpool aðdáandi hafi látið sér detta í hug að næsti deildarleikur yrði ekki fyrr en mánuði síðar. En örlögin höguðu því þannig að næstu tveim leikjum var frestað vegna andláts og jarðarfarar Elísabetar drottningar heitinnar, og svo tók við landsleikjahlé. Jújú, tveir leikir gegn Napoli og Ajax linuðu þrautirnar örlítið, þó sá fyrri hafi reyndar skapað annarskonar og verri þrautir.

En hér erum við stödd, kvöldið fyrir fyrsta deildarleikinn í hérumbil heilan mánuð. Nánast að þorna upp af fótboltaskorti. Mótefnið er á leiðinni, og það er leikur á Anfield á morgun. Verður þetta auðveldur leikur? Það er vafasamt. Mótherjinn er Brighton, lið sem var að missa knattspyrnustjórann sinn til Chelsea og mun því státa nýjum manni á hliðarlínunni. Roberto De Zerbi er Ítali sem síðast þjálfaði Shaktar Donetsk, reyndar ekki nema í tæpt ár, en á þeim tíma sá hann til þess að Shaktar unnu samfélagsskjöld þeirra Úkraínumanna, og skildi við liðið á toppi deildarinnar sem þurfti að fresta vegna innrásar Rússa. Semsagt: Liverpool er að fara að mæta knattspyrnustjóra sem er bókstaflega nýkominn af vígvellinum.

Annað sem bendir til þess að þetta verði erfiður leikur er að í þetta sinn er Brighton liðið sem er í toppbaráttu, en Liverpool er rétt fyrir ofan miðja deild. Jújú, Liverpool er búið að leika einum leik minna en flest önnur lið, en það sama á við um Brighton.

Það þriðja sem bendir til þess að þetta geti orðið erfiður leikur er sú staðreynd að Liverpool þarf rythma. Liðinu virðist líða best þegar leikirnir eru það margir að það gefst enginn tími til að láta hausinn fara á eitthvað flug, það er bara næsta verkefni. Svoleiðis tímabil er vissulega yfirvofandi, en okkar menn löbbuðu síðast út á grasið þann 13. september. Slíkt hefur alltaf verið til þess að skemma rytmann í liðinu. Reyndar benti Klopp svo snilldarlega á að rytminn sem var í liðinu eftir Napólí leikinn mátti bara alveg við því að skemmast, þvílík var frammistaðan. Og jújú, hann skánaði aðeins í Ajax leiknum, en síðan eru liðnar næstum 3 vikur. Svoleiðis er ekki gott fyrir rytmann.

Á hinn bóginn hjálpar það e.t.v. okkar mönnum að ýmsir leikmenn fengu smá ráðrúm til að ná sér af meiðslum. Henderson er farinn að spila aftur. Konate er mættur til æfinga. Sama á við um Ramsay og Kelleher, þó slúðrið segi að þeir muni byrja á að spila leiki með U21 (sem fær einmitt Arsenal í heimsókn til Kirkby á morgun). Það styttist í Jones, en Keita og Ox eru enn sem komið er frá og verða enn um sinn. Sjálfsagt kemur Ox fyrst til æfinga um það leyti þegar HM byrjar, og nær svo að meiðast á æfingu rétt fyrir fyrsta leik eftir HM. Í augnablikinu er það samt þannig að Andy Robertson er ekki búinn að ná sér, og verður því ekki til taks á morgun. Þetta er líklega stærsta skarðið í leikmannahópnum í augnablikinu. En breiddin er að færast í eðlilegt horf, og ekki seinna vænna því næsta mánuðinn eða svo verður leikið með 3.2 daga millibili að meðaltali. Sumsé, rétt svo tími fyrir gott ísbað milli leikja.

Það eru nokkur spurningamerki varðandi uppstillinguna á morgun. Er Hendo klár í að byrja? Ef ekki, þá ætla ég að veðja á að Milner byrji við hliðina á Fab og Thiago, en Harvey gæti vel byrjað sömuleiðis. Salah og Díaz byrja sjálfsagt sitt hvoru megin fremst, en hver verður á milli þeirra? Ég ætla að veðja á að Klopp vilji spila Nunez í gang, líka í ljósi þess að Jota vildi fá skiptingu með landsliðinu í vikunni. Við gætum þó í raun séð hvern þeirra sem er frammi: Jota, Bobby eða Darwin.

Sumsé, líklegt lið er svona:

Alisson

Trent – Matip – Virgil – Tsimikas

Hendo – Fab – Thiago

Salah – Nunez – Díaz

Staðan er einfaldlega sú að ef þessi leikur vinnst ekki, þá getum við í raun farið að kveðja þetta tímabil bless. Það hafa einfaldlega of mörg stig tapast til að það sé ráðrúm til að tapa fleirum. Vissulega gætum við séð toppliðin tapa stigum um helgina, bæði í London derby leiknum milli Spurs og Arsenal, og eins í leik Manchester liðanna. Eigum við ekki bara að panta tvö steindauð 1-1 jafntefli í báðum leikjum, með slatta af rauðum spjöldum í báðum leikjum? En undirritaður ætlar að panta heimasigur á Anfield. 2-1 var spáin fyrir leikinn á morgun, við stöndum við það. Mörkin koma frá Matip og Díaz.

KOMA SVO!!!!

23 Comments

  1. Maður er eins og krakki að bíða eftir jólunum vaknaði allt of snemma búin með óþarflega marga kaffi bolla og lesa allt sem maður finnur um Liverpool.
    Segið svo að þetta sé ekki bilun en þetta er skemmtileg klikkun og stundum full dramantísk.
    Við vinnum með þrem gegn einu og töpum svo ekki fleiri leikjum á arinu.
    YNWA

    4
  2. Diaz og Numes ekki 100% kemur a óvart. Held ekki veik hvað anskoti er i gangi þarna hja Klopp og Co..

    Jafntefli i loftinu

    1
      • Geggjuð byrjuð eða þannig, en eg er ennþa bara sattur við jafntefli eins og fyrir leik

        2
  3. Hvað er orðið um okkar góðu síðuhaldara ekkert byrjunarlið komið og 10 mín í leik ?

    3
    • Ég var einmitt að spá í þessu einnig, beið og beið og beið….
      Oog beið og beið og beið..

      4
  4. Gott innlegg inn í umræðu síðustu daga varðandi varnar-hæfleika TAA.

    4
    • Hvað er i gangi þarna i vörninni hja okkur, Brighton bR ganga þarna i gegn.
      Heppnir aö vega ekki 3 mörkun undir

      Aldeilis buið að nytta þetta breake vel. Gjörsamlega hauslausir

      1
  5. Guð minn góður þetta lið er bara alveg skelfilegt.

    Hendo var stórkostlegur í mörg ár og frábær fyrirliði en hann er búinn. Punktur.

    Trent hefur líka staðnað og ekki skrítið að hann komist ekki í landsliðið.

    Virgil því miður kominn yfir sitt besta.

    Og Salah er mest í því að telja peninga. Enda fær hann enga þjónustu frá miðjunni.

    Vonandi náum við að stela stigi eða stigum í dag.

    3
  6. Arsenal slær markametið í einum leik með þessu áframhaldi. Hvað er í gangi?
    2 mánuðir eiga ekki að breyta world class leikmönnum í nobodys nema eitthvað ofboðslegt áfall eigi sér stað.

    2
  7. Klopp out? Eru menn blekaðir á Rauða Ljóninu að splæsa i comment a kop.is? Þessi endar 4-2
    Ekkert stress, smá ryð eftir landsleiki. Brighton eru ekki að fara að halda út. Salah setur tvö, Diaz eitt.

    2
    • Gleymdi Alisson, en án hans, hvar væri þetta lið?
      Klárlega maður leiksins!

      2

Gullkastið – Ofur Október

Liðið í dag