Liverpool 2 – 1 Ajax

Liverpool bætti örlítið fyrir hræðilegan leik í síðustu viku, og unnu góðan en óþarflega tæpan 2-1 sigur á Ajax á Anfield í kvöld.

Mörkin

1-0 Salah (17. mín)
1-1 Kudus (27. mín)
2-1 Matip (89. mín)

Gangur leiksins

Það var allt annað lið sem mætti á Anfield í kvöld heldur en fyrir viku. Vissulega átti það við um hluta leikmannahópsins, því Matip, Tsimikas, Thiago og Jota byrjuðu allir en voru ekki í byrjunarliðinu fyrir viku. Á hinn bóginn voru svo hinir leikmennirnir – þeir sömu og byrjuðu fyrir viku – augljóslega allt öðruvísi stemmdir, og betur tilbúnir í leikinn. Þetta bar ávöxt á 17. mínútu þegar löng sending fram frá Alisson rataði á kollinn á Díaz, þaðan barst boltinn á Jota á miðjunni sem fann Salah í eyðu hægra megin, og egypski konungurinn gerði engin mistök og skoraði verðskuldað fyrsta mark leiksins. Á næstu mínútum fengu svo okkar menn færi sem á mjög góðum degi hefðu breytt stöðunni í 4-0: Díaz með skot rétt framhjá eftir aukaspyrnu, Jota með skot fyrir utan teig sem fór líka rétt framhjá, og Salah var nálægt því að bæta við öðru marki eftir aðra sendingu frá Alisson upp völlinn. En á 27. mínútu jöfnuðu Ajax menn, vissulega var varnarleikurinn hjá Trent ekki til útflutnings, en á hitt ber að líta að afgreiðslan frá Kudus var upp á tíu, hann negldi boltanum einfaldlega í þverslána og inn, alveg út við stöng. Smá munur á þeirri afgreiðslu og svo mörgum hjá okkar mönnum sem iðulega skutu eða skölluðu beint á markvörð gestanna. Það gerðist t.d. eftir hornspyrnu þar sem Virgil átti góðan skalla, en hefði bara gjarnan mátt setja boltann aðeins nær annarri hvorri stönginni.

1-1 í hálfleik, sú markatala var ekki að endurspegla færin, en það eru gömul sannindi og ný að það er ekki spurt um færanýtinguna heldur markatöluna.

Síðari hálfleikur var öllu meira streð, og minna um færi a.m.k. framan af. Eftir rúmlega 60 mínútna leik fóru Jota og Elliott af velli. Elliott var alveg ógnandi, en varnarlega séð á hann ýmislegt eftir ólært, átti bæði til að missa boltann og eins að tapa mönnum fram hjá sér. Jota var hins vegar mjög nálægt sínu besta, var kominn með stoðsendingu og góða marktilraun, en er klárlega enn að koma til baka úr meiðslatímabilinu. Inná komu Firmino og Nunez, hvorugur virtist ná almennilegum takti í leiknum. Bobby var jú líka að spila meira eins og alvöru nía frekar en þessi falska, og spurning hvort hann sé almennilega búinn að setja sig í þann gírinn? Færin voru færri, eitt hættulegasta færið kom þegar Blind skallaði hárfínt framhjá fjærstönginni hjá Alisson. Okkar menn fengu líka einhver færi, en héldu áfram að skjóta allt of nálægt markverðinum. Nunez átti fínt hlaup upp að endamörkum og gaf á Díaz en markvörðurinn rak litlaputta í boltann og þar fór það forgörðum. En örfáum mínútum fyrir leikslok átti Salah skot sem fór af varnarmanni í samskeytin og í horn. Tsimikas tók hornið, gaf beint á pönnuna á Matip sem skallaði að marki. Blind reyndi að bjarga á línu, en marklínutæknin sagði dómaranum frá því að boltinn hefði farið inn, og endursýningar sýndu að það var aldrei spurning. Fagnaðarlætin voru gríðarleg, og þá sérstaklega hjá Kamerúnanum knáa sem var þarna að skora sitt fyrsta meistaradeildarmark í 9 ár. Milner og Bajcetic komu inná fyrir Díaz og Thiago, spænski unglingurinn fékk líklega eitthvað rétt tæplega mínútu, og kom tæpast við boltann. Milner fékk það hlutverk að verja stigin þrjú, og gerði það eins og honum einum er lagið.

Afar mikilvægur sigur í höfn, og riðillinn galopinn.

Frammistaða leikmanna

Það voru sem betur fer engar hörmungarframmistöður hjá neinum leikmanni í kvöld. Jú, Trent hefði mátt gera betur í markinu, en þetta var samt ekki jafn hörmuleg frammmistaða og hann gerði sig sekan um hvað eftir annað fyrir viku. Var þetta besti leikur Trent? Nei alls ekki, en heilt yfir allt í lagi. Varnarlega bætti hann sig undir lokin, nú og svo saknar hann kannski Robbo þarna hinu megin á kantinum. Elliott hefur líklega átt betri dag, og spurningin um það hver hans besta staða sé er ennþá hangandi í loftinu. Maður hefði haldið að hann nyti sín e.t.v. betur í stöðunni hans Salah, en það er jú ekki staða sem er laus. Mögulega á hann eftir að þroskast betur upp í þessa miðjustöðu, en það munaði gríðarlega að hann var með Thiago við hliðina á sér frekar en Milner.

Þá er það spurningin um mann leiksins. Erfitt að taka einhvern einn út fyrir sviga, í spjalli okkar kop.is penna voru 4 leikmenn nefndir og gætu sjálfsagt verið fleiri. Matip, Thiago, Kostas og Fab voru allir að sýna mjög solid leik, og hefði mátt nefna fleiri (VVD, Alisson, Salah, jafnvel Díaz). Undirritaður kýs að gefa Thiago nafnbótina í þetta skiptið, þó ekki nema fyrir að sýna hvað hann er okkur mikilvægur.

Umræðan og tölfræði

 • Trent var í kvöld að spila sinn 50. Evrópuleik fyrir félagið, og er yngsti leikmaður í sögu Liverpool til að ná þeim leikjafjölda í meistaradeildinni og öðrum Evrópukeppnum.
 • Þetta var fyrsti leikurinn á leiktíðinni þar sem okkar menn hlaupa meira heldur en andstæðingarnir. Skiptir það máli? Ég myndi segja það já.
 • Liverpool spilar næst þann 1. október. Galið.

Næstu verkefni

Næsti leikur hjá strákunum okkar er sumsé gegn Potter-lausum Brighton þann 1. október (nema hann verði rekinn frá Chelsea í millitíðinni og fari aftur til Brighton, sem ég reyndar efast um). Ætli Lallana stýri þeim blá- og hvítklæddu í þeim leik? Yrði gaman að sjá…

Í millitíðinni gefst okkur færi að sjá stelpurnar okkar spila við Chelsea á Prenton Park næsta sunnudag, og svo við Everton á Anfield viku síðar.

Sem betur fer förum við aðeins glaðari í bragði inn í þetta óþarflega langa landsleikjahlé, þökkum strákunum okkar fyrir það!

32 Comments

  • Rétt mörðum lið með nýjan þjálfara og leikmannahóp í umbreytingu.
   Ánægðir með stigin þrjú en margir í okkar liði eru ekki að spila næstum því nógu vel.

   5
 1. Verðskuldað og gott að sjá að liðið tók þetta á seiglunni. Skiptir miklu máli fyrir framhaldið. Vonandi er liðið að komast í gang. Lifi enn í voninni um að við komumst á almennilega siglingu.

  5
 2. Það er eiginlega bara eitt að segja um þennan leik, það var með ólíkindum að við kláruðum hann ekki fyrr, það var nóg af færum og við spiluðum svona að mestu leyti vel, fyrir utan nokkra leikmenn. En förum ekki í þá sauma núna, við unnum og það er það eina sem skiptir máli.

  p.s. ef ég man rétt þá átti Ajax tvö skot að marki, annað var klárun sem kemur fyrir einu sinni fyrir í hverjum tíu skiptum, hitt var skallinn frá Blind, mikið ofsalega var það nálægt.

  7
 3. 1. Kunnum ennþá fótbolta
  2. Vinnum ekki nógu marga leiki ef við skorum tæplega 2 mörk en eigum að skora 3-4
  3. Sóknin heilt yfir er ekki að ná saman vel. Hreyfingar eru ekki frjálsar og fljótar.
  4. Nunez er vonandi bara ryðgaður, því við þurfum meira frá honum.
  5. Thiago. Unun.
  6. Vörnin treystir enn á að andstæðingar klári ekki hálf tækifærin. Það kostaði okkur mark í dag og marga aðra daga. Dugir ekki til stórra sigra, bara næstum því.

  Pirrandi að spila ekki næstu helgi.

  7
 4. Virkilega jákvætt get bara ekki annað en séð það jákvæða við þennan leik!

  6
 5. Sælir félagar

  Þetta var það sem liðið þurftir. Hefði getað skorað 3 mörk að auki en réttlætinu var fullnægt með þessum sigri. Nánast allir að spila vel en það er eftirtektarvert hvað Thiago breytir þessu liði mikið og vegur þungt bæði í sókn og vörnþ Er þó ekki í neinni leikæfingu en hæfileikarnir er bara þessir.

  Það er nú þannig

  YNWA

  10
 6. Sæl og blessuð

  Svakaleg barátta og andstæðingar fyrirsjáanlega komnir með krampa í lokin.

  Diaz, Thiago og Matip miklir kóngar
  Gaman að Salah skyldi skora
  úff hvað Nunes á eftir að finna taktinn.
  Trent mistækur. Átti nokkrar flottar sendingar og bjargaði stöku sinnum en þessi Deli Alli fnykur verður að fara að yfirgefa hann.

  En Ajax er hörkulið og þetta var virkilega vel þeginn sigur.

  Gæti alveg trúað því að næsta sumar verði einhver af þessum andstæðingum okkar kominn í fagurrauðan búning.

  5
 7. Thiago og Matip í guðsbænum haldið ykkur heilum við þurfum svo mikið á ykkur að halda að hálfa væri hellingur. Flottur liðssigur!

  YNWA.

  10
 8. Vorum að spila við gott lið eftir mjög erfið úrslit og okkar menn svöruðu! Við verðum að vera stollt af okkar mönnum ! Við höldum áfram
  YNWA!

  11
 9. Örlítið betri stemming í þessari skýrslu heldur en þeirri síðustu! Ræðið að vild.

  10
 10. Það er búið að gagnrýna Trent mikið undanfarið og stundum með réttu en ekki alltaf en ég held að sökin liggi líka hjá herra Klopp það er jú hann hann sem leggur upp leikplanið og leifir Trent að spila svona framarlega og það er ekki hægt að ætlast til að hann sé með fremstu mönnum á vellinum og sé kominn aftur í vörn þegar andstæðingarnir komast í skyndisókn. Elliott er þrælefnilegur leikmaður en hann á eftir að þroskast mikið en þarf að bæta sig sérstaklega varnarlega.
  Thiago er líklega skemmtilegasti leikmaður sem maður sér spila fótbolta þvílík gæði í einum leikmanni.

  6
  • Ég held að síminn minn sé andsetinn, hann breytir textanum um leið og ég sendi hann.

 11. Elliot er talsvert frá því að eiga byrja leiki hjá Liverpool, verður það vonandi en hann á örugglega einhver ár í það.
  Nunez lítur ekkert voðalega sannfærandi út miðað við verðmiðann. Klaufskur á boltann og klárar færi illa.
  Thiago er geggjaður og svo miklu betri en félagar hans á miðjunni.
  Vonandi getur þessi Arthur eitthvað því það þarf svo sannarlega að þétta raðirnar á miðjunni. Spurning hvort Trent og Firmino geti fært sig yfir á miðjuna.

  4
 12. Í millitíðinni gefst okkur færi að sjá stelpurnar okkar spila við Chelsea á Prenton Park næsta sunnudag, og svo við Everton á Anfield viku síðar.

  Bíddu ákvað FA að fresta ekki kvennaboltanum??? Eða er Chelsea – Liverpool eingöngu frestað af því að hann ber uppá jarðarfarardag Drottningarinnar?

  Annars er drullugott að klóra fram sigur. Erum ennþá langt frá okkar besta.

  1
  • Leikur Liverpool og Chelsea í kvennaboltanum fer fram á Prenton Park. Leikur karlaliðanna frestast af því að hann er í Lundúnum. Það voru meira að segja uppi pælingar um að færa hann til Liverpool, en það hefði líklega verið ógerlegt því Everton voru að spila í Liverpool á sama tíma.

 13. Sammála síðasta ræðumanni … Kostas með algerlega geggjaða sendingar meira og minna allan leikinn og bara virkilega flottur … Robbo þarf að fara að passa sig heldur betur …

  7
  • Kostas er með mun betri sendingar en Robbo eins og staðan er í dag. Bæði aukaspyrnur og hornspyrnur. Það eitt og sér ætti að réttlæta að hann verði í byrjunarliði á næstunni. Miklu meiri möguleikar á marki eftir sendingarnar hans.

   4
   • þeir eru með nákvæmlega sama stoðsendingahlutfall. Kostast kemur væntanlega betur úr þegar reiknað stoðsendingar eru reiknaðar út frá spiluðum mínútúm.

    Væri gott að hafa annað eins back up hægra megin.

    Þó Robbo muni væntanlega vera fyrsti kostur eitthvað lengur þá finnst mér líklegt að þeim verði róterað mun meira en í fyrra.

    4
   • þeir eru með nákvæmlega sama stoðsendingahlutfall. Kostas kemur væntanlega betur út þegar stoðsendingar eru reiknaðar út frá spiluðum mínútum.

    Væri gott að hafa annað eins “back up” hægra megin.

    Þó Robbo muni væntanlega vera fyrsti kostur eitthvað lengur þá finnst mér líklegt að þeim verði róterað mun meira en í fyrra.

    vildi ég sagt hafa

    2
 14. Ég horfði bara á leikinn, Birgir. Notaði augun og var ekkert að fletta upp tölfræði. Og ég sá að Kostas spilaði mjög vel og átti afbragðs sendingar.

  Það horfðu fleiri á leikinn en ég og hérna eru nokkur dæmi af Twitter:

  “Tsimikas was quietly brilliant there tonight. Wouldn’t be in any rush to take him out the team if he continues to perform like that.”

  “Kostas Tsimikas created 5 chances tonight, assisting Joel Matip’s winner. It’s the most he’s created in a single match for Liverpool. He’s averaging an assist every 74 mins this season, and every 240 mins in his #LFC career.”

  “Possibly Tsimikas best game since we signed him, was genuinely flawless.”

  “Kostas killer krosses and his work rate makes him motm for me. Thiago outstanding too but the Greek Scouser was brilliant.”

  “Crazy Tsimikas stat of the day: Liverpool have scored from a set piece in 7 of his last 9 starts.”

  4
 15. Heyriði, nú vill Klopp bara skila Arthur Melo, helst sem fyrst og ekki seinna en í janúar! Sá má vera slappur ef það er ekki hægt að nota hann í hina krambúleruðu miðju Liverpool þessa dagana…

   • Ég held að við verðum að gefa Darwin smá séns ekki afskrifa hann strax þekki tvo Portúgali sem eru Benfica aðdáendur og þeir eru ekki frá því að hann hafi byrjað jafnvel verr hjá þeim? Þannig að sýnum smá þolinmæði því að Klopp á eftir að ná að gera hann að topp leikmanni lásuð það fyrst hér.

    YNWA.

    5
   • það voru margir sem byrjuðu á að afskrifa DN eftir 30 mín innkomu í fyrsta æfingaleiknum.

    Maðurinn hefur þegar spilað sirka 200 mínútur fyrir klúbbinn. Hefur skorað 2, lagt upp, fiskað víti.

    Mikil er dómharkan.

    4
   • Darwin dómharkan fylgir kannski verðmiðanum. Mer finnst hann spennandi og ég elska hvað hann virðist ástríðufullur. Ég hélt reyndar hann væri betri slúttari. Ef það kemur þá fer hann að raða inn mörkum.

    Varðandi Melo, Jesús hvað það virkar illa á mig og gerði alltaf. Ég hræðist líka við séum buin að missa af Jude Bellingham. Ef hægt er að missa af einhverju sem aldrei var okkar.

    FSG náðu aldrei að hamra járnið meðan það var heitast.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp.

    3
   • Salah virtist ekki góður slúttari eftir sínu fyrstu leiki með LFC.

    Var þá eldri en DN er núna og með PL reynslu.

    1

Liðið gegn Ajax

Gullkastið – Elísabet kveður