Newcastle heimsækir Anfield á morgun

Nú fer að koma alvöru tempó í leikjaprógrami Liverpool og er liðið að fara að spila sex leiki á næstu nítján til tuttugu dögum eða svo. Fjórir deildarleikir og tveir leikir í erfiðum riðli í Meistaradeildinni. Margir af þessum leikjum gætu talist nokkuð strembnir – liðið heimsækir Everton, Napoli og Chelsea og Wolves, Ajax og Newcastle heimsækja Anfield.

Newcastle eru fyrstir í röðinni og munu mæta á Anfield annað kvöld. Þeir hafa litið nokkuð öflugir út á köflum það sem af er liðið leiktíðar en hafa gengið erfiðlega að vinna leiki – líkt og Liverpool – og eru með þrjú jafntefli og einn sigur, eitt þessara jafntefli var 3-3 jafntefli gegn Man City. Fyrir þennan leik þá gætu þeir hins vegar verið í pínu ströggli þar sem lykilmennirnir Bruno Guimaraes og Allan Saint-Maximin eru tæpir fyrir leikinn en þeir meiddust í síðasta leik, bakvörðurinn Krafth sleit krossband og verður lengi frá líkt og Jonjo Shelvey, bakvörðurinn Trippier meiddist en verður líklegast klár aftur annað kvöld og þá er framherjinn Callum Wilson meiddur og nýja stjarnan þeirra Alexander Isak er ekki enn kominn með leikheimild en gæti verið klár í slaginn ef hún skilar sér í tæka tíð fyrir leikinn – 75 mínútúr fyrir leik held ég að tímaramminn eigi að vera.

Loksins vann Liverpool deildarleik á leiktíðinni og það var nú heldur betur sigurinn! Eftir nokkra vonbrigða leiki og vonbrigða frammistöður, til að mynda tap gegn Man Utd, þá svaraði Liverpool með því að gjörsamlega niðurlægja Bouremouth og jafnaði metið yfir stærsta sigur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, 9-0!

Til að mynda þá skoraði Luis Diaz tvö glæsileg skallamörk og Bobby Firmino skoraði sömuleiðis tvö og lagði í þokkabót upp þrjú, og þeir Carvalho og Elliott skoruðu sín fyrstu deildarmörk fyrir Liverpool. Það var rosalega létt yfir leikmönnum í þessum leik og virtust áhyggjur og þyngd síðustu vikna hverfa af þeim og vonandi skilar það sér í kvöldleik á Anfield annað kvöld.

Darwin Nunez mun taka út sinn síðasta leik í banni á morgun og enn eru nokkrir leikmenn frá en þær jákvæðu fréttir hafa þó borist að þeir Jones og Matip eru byrjaðir að æfa aftur með liðinu, líkt og Calvin Ramsey, sem hefur verið meiddur frá því að hann kom í sumar. Þá segir Klopp að Diogo Jota sé líklegur til að hefja æfingar aftur eftir leikinn og því ljóst að það styttist í styrkingu innan hópsins von bráðar. Það kemur í ljós hvort þeir Matip og Jones séu í nógu góðu standi til að vera með á morgun en það væri frábært ef þeir myndu ná sæti á bekknum og þá nógu heilir til að koma eitthvað inn á.

Alisson

Trent – Gomez – Van Dijk – Robertson

Elliott – Fabinho – Henderson

Salah – Firmino – Diaz

Ég myndi giska á að liðið verði óbreytt frá því í leiknum gegn Bournemouth, aðallega vegna þess að það eru ekki margir kostir á bekknum sem ég myndi telja líklega til að byrja en það væri þá kannski einna helst það að Milner gæti farið á miðjuna fyrir annað hvort Henderson eða Fabinho – jafnvel Elliott ef hann er ekki orðinn alveg heill eftir síðasta leik en ég reikna með því að hann byrji þennan leik. Carvalho átti góða innkomu í liðið í hálfleik um helgina en ég yrði hissa ef hann byrjar leikinn svo óbreytt lið en þar sem leikirnir eru margir á skömmum tíma héðan af þá er ekki ólíklegt að einhverjar breytingar verða á liðinu í næstu leikjum.

Þetta gæti orðið erfiður leikur á morgun enda Newcastle þétt og sprækt lið en Liverpool á að vera betra og þarf að sýna það á morgun. Nota momentum-ið frá því í síðasta leik, klára verkefnið og koma sér á smá skrið – takast loksins að byrja þessa leiktíð!

8 Comments

 1. Sælir félagar

  Það er ekkert annað í boði enn sigur í þessum leik gegn liði sem er með 3 lykilmenn meidda og þann fjórða tæpan. Ef liðið okkar sýnir þann anda og leikgleði sem það sýndi í síðasta leik á sigurinn að vera vís. Leikmenn verða þó að gera sér grein fyrir að þeir valta ekkert yfir Newcastle liðið eins og Bournmoth heldur verður andstaðan mikil og erfið. En ef hausinn er rétt skrúfaður á verður sigur í höfn á Anfield í kvöld. Ég spái 3 – 1 sigri í hunderfiðum leik og nú verður Salah með 2 og VvD 1.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
  • Minn fimmtíukall á að Díaz skori aftur! Ég er að fíla þann stríðsmann alveg í botn. Megi vegur hans verða sem mestur hjá Liverpool.

   10
 2. Firmino má alveg vera í sambastuði í kvöld ég myndi ekki fussa við því gegn Newcastle.
  Tek undir með Sigkarl held að þetta verði erfiður leikur en okkar menn þurfa bara mæta með hausinn skrúfaðan vel á í þennan leik og þá taka þeir þetta !

  YNWA !

  5
 3. Við EIGUM að vinna þennan leik – punktur. En burt séð frá þessum leik, þá vil ég sjá miðjumann koma inn fyrir lokun glugga, takk.

  7
 4. Nú þarf að ganga á lagið, svo hefur newcastle ekki tapað leik ennþá og því þarf að breyta í kvöld.
  Týpískt ef þessi Isak yrði okkur skráveifa… en koma svo!
  Kveikti á Liverpool glerljósinu mínu í fyrsta skipti síðustu helgi. Líklega er betra að muna að kveikja á því á eftir.

  4

Gullkastið: 9-0!

Liðið gegn Newcastle