Liverpool – Crystal Palace á mánudag (Upphitun)

Þá er komið að næsta verkefni. Liverpool vill eflaust bæta fyrir vonbrigðin gegn Fulham og fær kjörið tækifæri til þess á morgun (mánudag kl. 19) þegar Crystal Palace kemur í heimsókn, sem jafnframt er fyrsti heimaleikur tímabilsins.

Sagan og formið

Það verður ekki annað sagt en að Liverpool hafi haft talsverða yfirburði í viðureignum þessara liða. Í minningunni var þetta búið að vera meira strögl en líklega er Crystanbul og tími Alan Pardew eitthvað að hafa áhrif á upplifunina.

Liðin hafa leitt saman hesta sína í 26 skipti í ensku úrvalsdeildinni þar sem Liverpool hefur unnið 18 sinnum, Crystal Palance 5 sinnum og einungis 3 jafntefli hafa litið dagsins ljós. Tölfræðin verður ekkert mikið betri þegar síðustu 5 deildarleiki liðanna eru skoðaðir, Liverpool er þar með fullt hús stiga með markatöluna 19-1.

Það er komið rétt tæpt ár síðan gestirnir mættu síðast á Anfield en þá voru það mörk Mané, Salah og Keita sem tryggðu okkur öll stigin í tiltölulega þægilegum 3-0 sigri.

Annars er erfitt að ætla að lesa í eitthvað form í annarri umferð í deildinni. Gestirnir koma inn í þennan leik, rétt eins og við, eftir erfiða fyrstu umferð þar sem þeir töpuðu á heimavelli gegn Arsenal í leik þar sem þeir spiluðu ágætlega á köflum en náðu ekki að nýta færin. Það er því ljóst að bæði lið vilja komast á skrið í deildinni – og svei mér þá ef manni finnst ekki vera dálítil pressa á okkar mönnum eftir einungis eina umferð…

Liverpool

Það verður forvitnilegt að sjá uppstillinguna fyrir þennan leik. Við erum í miklum meiðslavandræðum, svo miklum að við erum komnir ansi nálægt beini – maður spyr sig hvort eitthvað hafi klikkað á undirbúningstímabilinu. Kannski verra að mikið af þessum meiðslum eru á miðjunni, svo möguleikarnir þar eru takmarkaðir.

  • Keita missti af leiknum gegn Fulham sökum veikinda en æfði í vikunni og ætti því að taka þátt. Spurning hvort að hann eða Elliot taki sér stöðu með Henderson og Fabinho. Ég hallast að því að það verði Keita. Hann náði undirbúningstímabilinu loksins og það var ekki nema rétt í restina og um síðustu helgi sem hann datt aðeins úr gír en það voru ekki meiðsli í þetta skipti.
  • Thiago, Curtis Jones og Ox eru allir frá vegna meiðsla. Styttist í CJ en öllu lengra í Thiago og Ox. Maður er nánast hættur að velta sér upp úr fjarveru Ox, hann virðist bara ekki ná að halda sé heilum, en það er svekkjandi hve brothættur Thiago virðist vera. Það veitir því ekki af að vera með mikla breidd á miðjunni þar sem við erum með talsvert af leikmönnum þarna sem einfaldlega ná ekki að halda sé heilum.
  • Matip gat víst ekki æft um helgina og er ólíklegur fyrir morgundaginn. Hann bætist því við Konaté á meiðslalistanum en Tsimikas gæti náð í hóp eftir að hafa misst af síðari hluta undirbúningstímabilsins og Fulham leiknum sökum meiðsla.
  • Jota er enn frá sökum sömu vöðvameiðsla og hafa haldi honum frá allt undirbúningstímabilið og það virðast vera nokkrar vikur í hann ennþá.

Ég ætla að skjóta á að það verði þrjár breytingar á liðinni frá því um síðustu helgi, þ.e. Gomez (Matip), Keita (Thiago) og Nunez (Firminho) en það kæmi mér heldur ekkert á óvart ef Elliot byrji í stað Keita og Firmino haldi sæti sínu. Þrátt fyrir öll þessi meiðsli þá erum við ennþá með nokkra möguleika, en ég ætla að skjóta á þetta lið á morgun:

Alison

TAA – Gomez – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Keita

Salah – Nunez – Diaz

 

Crystal Palace

Hjá gestunum er Tomkins enn frá vegna meiðsla ásamt McArthur en Olise er búinn að vera að æfa og verður a.m.k. í hóp.

Ég ætla því að spá því að Viera spili á sömu leikmönnum frá því í tapleiknum gegn Arsenal utan að Mateta kemur inn í stað Edouard:

Guaita

Clyne – Andersen – Guehi – Mitchell

Schlupp – Doucoure – Eze

Zaha – Mateta – Ayew

 

Spá

Zaha hefur oft reynst okkur erfiðlega í gegnum tíðina og Viera hefur verið að gera flotta hluti með þetta Crystal Palace lið. Ég sé samt ekki annað en sigur okkar manna í þessum leik og ætla að skjóta á að hann verði nokkuð þægilegur þar sem að Diaz skorar tvö mörk, Nunez eitt og Salah eitt í 4-0 sigri.

Þar til næst.

 

YNWA

8 Comments

  1. Ég myndi vilja sjá Elliot, Fabinho og Keita á miðjunni, og geta þá frekar sett Henderson inn á í seinni hálfleik.

    6
  2. Þetta verður erfiður leikur hjá okkar mönnum, sérstaklega ef þeir verða jafn slakir í vörn eins og í síðasta leik. Ég spái því að þetta hafist samt og að við tökum þetta tæpt, liðið er ekki orðið alveg nógu slípað saman frammi með Darwin. Við tökum þetta 3-1, Salah með tvö og Darwin eitt kvikindi. 🙂

    3
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Eyþór. Það er ekkert í boði fyrir okkar menn nema rífa sig upp ur eymdinni sem þeir sýndu í síðasta leik og spila eins og það lið sem var einu stigi frá meistaratitli síðustu leiktíðar. Ég á ekk von á öðru en svo verði og vona að Gomes sýni að það var engin tilvíljun að hann var á sínum tíma fyrsti kostur við hlið VvD í hjarta varnarinnar. það getur verið snúið að eiga við Zaha en Gomes hefir bæði hraða og styrk til að taka hann í nefið. Sigur er það eina sem ég fer fram á – en hann má að ósekju vera stór.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  4. Diaz mætti skora í þessum leik yrði gott fyrir hann að komast í gang..en þeir meiga allir skora líka vill bara 3 stig eftir skituna gegn Fulham.

    Erum komnir með 4dja kost í miðvörðin í leik nr 2 í PL og miðjan er þunn ég treysti ekki Keita því miður hann er eins og súkkulaði úr konfekt kassa veist ekki hvað þú færð þann daginn.
    Það má hvíla Hendo hann virkar þreyttur..vill sjá Carvalho-Fab-Elliot fá að byrja þetta og keyra á þessa djöfla og skora 3-4 mörk væri fínt til að starta þetta season almennilega !

    YNWA

    5
  5. Hvaða gaur fékk þá hugmynd að það væri sniðugt að stilla upp leikjum á mánudagskvöldi ? Hann á enga heiðursorðu skilið.

    En hvað um það.

    Stóra spurningin er hvaða gæði liðið okkar býr yfir. Samkvæmt Fullhamleiknum voru þau eitthvað farinn að riðga en vonandi hefur það með undirbúningstímabilsálagið að gera en ekki vegna þess að liðið er komið fram yfir síðasta söludag. Vona innilega að svo sé ekki og við mætum eiturferskir í þennan leik og pásan hafi verið nýtt í það að koma liðinu almennilega í gang.

    YNWA
    .

    4
  6. Ég hef áhyggjur eftir að hafa horft á Fulham liðið bully-a Liverpool í síðasta leik. Fannst okkur vanta styrk. Held þetta verði erfiður leikur. Carvalho-Fabinho-Elliot miðja hljómar vel en þeir verða að eiga alvöru leik og gefa sig 100% í verkefnið. Ekki halda þeir séu of góðir. Þetta á auðvitað alltaf við en liðið þarf að stíga upp. Við misstum einn betsa mann í heimi í Mane og menn eru ekki að yngjast. Þurfum alvöru baráttu í bland við hæfileika. Öðruvísi vinnst ekkert.

    Ég ætla að spá 2-1 sigri.

    Áfram Liverppol og áfram Klopp!

    4
  7. Nat Phillips í byrjunarliðinu við hliðina á van Dijk! Alltaf batnar það…

    1
  8. Ánægður með Nunez og Elliot byrji ..hvernig Nat á undan Gomez í röðini skil ég ekki alveg.

    2

Harvey Elliott skrifar (aftur) undir nýjan samning

Byrjunarliðið gegn Palace