Upphitun: Fyrsti deildarleikur tímabilsins vs. Fulham á Craven Cottage

Heilir og sælir Liverpúlarar nær og fjær og verið fótboltalega velkomnir til upphafsleiksins í knattspyrnuveislu vetrarins! Rauða herinn blæs til bardaga á hefðbundinn máta í fyrstu umferð með leik gegn nýbökuðum nýliðum í úrvalsdeildinni. Við förum á fljúgandi fulla ferð gegn Fulham í kvikukraumandi upphituneldgosi á Craven Cottage! Upp, upp mitt Púl!!!

Mótherjinn

Hinir fimleikafélagsklæddu Fúlverjar stöldruðu stutt við í Championship eftir að hafa fallið úr deild hinna bestu og bresku sumarið 2021. Til að liðsinna þeim aftur upp í draumalandið fengu þeir Portúgalann Marco Silva við stjórnvölinn sem hafði góða reynslu af ýmsum verktakavinnum með botnbaráttuklúbbana Hull City og Watford en með takmörkuðum árangri þó. Liverpool-búar þekkja hann þó aðallega frá tíma hans við stjórn bláliða borgarinnar í Evritúnfíflum og þá sér í lagi á 96. mínútu Bítlaborgarslagsins 2. desember 2018 á Anfield þegar að draumaprinsinn Divock setti mark sitt á leikinn og ætlaði auðvitað strax að sækja boltann í netið til að bæta við marki enda nægur tími eftir. Sælla minninga:

Næstum sléttu ári eftir það undursamlega uppbótarmark þá var Divock aftur örlagavaldur í lífi Senhor Silva þegar hann skoraði 2 mörk í 5-2 sigri Liverpool á Everton en þau úrslit gulltryggðu brottrekstur hins brúnaþunga boltastjóra. Marco má þó njóta sannmælis fyrir sérlega góðan árangur með Fulham á nýliðnum vetri þar sem að Vestur-Lundúnaliðarnir fóru með himinskautum frá fyrsta flauti og voru tveimur mörkum frá því að jafna markamet skoruð í Championship með 106 mörk skoruð á tímabilinu.

Þeir sigruðu næstneðstu deildina örugglega og frá sjónarhóli Púlara þá var afar áhugavert að fylgjast með liðinu af ýmsum ástæðum. Hin fyrst var sú að við seldum Harry Wilson til þeirra í byrjun síðasta tímabils fyrir 12 milljónir punda og hann átti stórfínt tímabil með 10 mörk og 19 stoðsendingar í átt að upprisunni úr neðri dýpum. Á lokamínútum janúargluggans þá var ungstirnið Fabio Carvalho örstuttri ögurstuttu frá því að klára kaup til Liverpool sumarið eftir en fyrir gráglettni örlaganna þá frestaðist sú fullnaðarframkvæmd fram með vorinu þrátt fyrir að niðurstaðan hafi á endanum orðið sú sama eins og flestir þekkja.

Að lokum má nefna lánsdíl Neco Williams sem var gerður mínútunni nógu tímanlega í kaupglugganum til þess að hann gæti spilað fullt af mínútum, skorað 2 mörk og bætt við 2 stoðsendingum fyrir Fulham. Neco endaði þó að lokum hjá Forest fyrir fúlgu fjár núna í sumar og það var máske skiljanleg endastöð enda er Nottingham nær fyrirheitna föðurlandinu í Wales frekar en vesturbakkar Thames-árinnar. Það má því með sanni segja að Liverpool hafi haft sitt að segja um síðasta tímabil Fulham og því vel við hæfi að liðin mætist í fyrsta leik tímabilsins.

Af helstu liðsmönnum heimamanna má nefna serbneska sóknarmanninn sóknþunga Aleksandar Mitrovic sem sallaði inn 43 mörkum á síðustu leiktíð en á laugardaginn vonumst við frekar eftir úrvalsdeildarforminu hans frá tímabilinu þar áður þegar hann setti bara 3 mörk allan veturinn. Fyrrum ManYoo-maðurinn Andreas Pereira var keyptur í sumar og er líklegur í byrjunarliðið ásamt Bernd Leno sem kom í vikunni frá Arsenal eftir bekkjarsetu. Stærstu kaup Fulham voru þó varnarsinnaði miðjumaðurinn João Palhinha fyrir heilar 20 mill evra frá Sporting Lisbon og er hann áhugaverður nýliði í ensku úrvalsdeildinni sem vert er að hafa auga með.

Harry okkar Wilson er meiddur í næsta leik þannig að uppstillt lið Marco Silva er líklegt til þess að vera á þessa leið:

Líklegt byrjunarlið Fulham í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Samfélagsskjaldargæjarnir undir skipstjórn Jürgen Klopp eru mættir eftir nýjustu viðbótina í bikarsafnið og stefna fullu stími á alvöru atlögu að Englandsmeistaratitlinum ásamt öllu öðru sem í boði er. Um síðustu helgi þá sáum við sérlega einbeittan og hungraðan hóp tæta Man City í sig í alvöru leik með þungum undirstraum sem markaði yfirlýsingu um árangursmarkmið tímabilsins.

Við gerum okkur vongóðar væntingar um að Liverpool endirtaki söguna um árangur árin eftir að hafa verið 1 stigi frá toppi deildarinnar og einnig tímabilið eftir að hafa tapað CL-Final fyrir Real Madrid. Bæði árin eftir þau vonbrigði voru sérlega happadrjúg og þá sáum við einstaklega einbeittan Rauðan her landa stærstu titlunum í boði. Það má deila um hvort að Liverpool hafi styrkt sig í sumarglugganum eða einfaldlega tekið öflugt hliðarskref en það er ljóst að mikil endurnýjun er í gangi og margir spennandi ungir leikmenn eru mættir til leiks í rauðu treyjunni.

Missirinn af Mané, Origi, Minamino, Neco og fleirum verður ekki gerður upp fyrr en að leikslokum hjá Darwin, Carvalho og Ramsay og hversu þung lóð þeir hafa langt á vogarskálarnar í velgengni þessa og komandi tímabila. Öll teikn á æfingatímabilinu eru þó þau að við séum að fá fullsterkan sóknarmann í Darwin sem gæti verið hápunktur þróunarkenningarinnar og frumskógarlögmálsins! Þá hefur Fulham-forverinn Carvalho virkað mjög spennandi í sínum sóknarsprettum og gæti með tíð og tíma orðið hálfgerð arftakablanda af Firminho og Couthinho. Ho ho ho!

Meiðslalistinn hefur þó verið að lengjast í leiðindum sínum og því miður eru Oxlade-Chamberlain, Kelleher, Jota, Jones og Konate orðnir meiddir en mislengi þó hver og einn í sínu amstri. Það ætti þó ekki að bitna á byrjunarliðinu sem verður líklegast að mestu leiti hið sama og síðustu helgi nema hvað að Alisson kemur inn fyrir skjaldarvörðinn Adrian. Hið eina óvænta sem við gætum grunað Klopp um væri að setja Darwin inn fyrir Bobby en ég mun veðja á að hann breyti ekki uppskriftinni frá síðasta sigurleik. Upphafslið Liverpool á fyrsta leik tímabilsins ætti því að vera eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Tölfræðin

  • Liverpool hefur unnið 16 af sínum síðustu 18 deildarleikjum.
  • Fulham hefur tapað sínum síðustu 6 heimaleikjum í Úrvalsdeildinni.
  • Liverpool er með 58% vinningshlutfall í öllum leikjum gegn Fulham og 47% vinning á Craven Cottage.
  • Jamie Carragher er sá Liverpool-leikmaður sem hefur spilað flesta leiki gegn Fulham eða 20 leiki samtals. Steven Gerrard er næstur með 16 leiki.
  • Billy Liddel hefur skorað langflest mörk gegn Fulham fyrir hönd Liverpool eða 13 mörk í 12 leikjum. Robbie Fowler er næstur með 8 mörk í 7 leikjum.

LiverFulPool FC

Lið leikmanna sem hafa spilað fyrir bæði Liverpool og Fulham og pússlað saman af pistlahöfundi er sérlega sértækt sóknarlega og agalega áhugavert almennt. Geysisterkt sóknarlið með Riedle og Collymore í fremstu línu og með tvo snilldar il trequartista í holunni að mata þá af færum í formi Beardsley og Litmanen. Miðjan er létt, lipur og lágvaxin með Houghton á hægri og Harvey á vinstri með Murphy að dreifa boltanum vængjanna á milli. Smá frumlegheita og þarfagreininga er þörf í vörninni þar sem Finnan neyðist til að spila hafsent og Riise og Neco sækja upp bakvængina með scouserinn Tony Warner í markinu. Sókndjarft sigurlið sem sæist sífellt í sjónvarpinu:

 

Stóri skandallinn er auðvitað sá að hvorki Lazar Markovic né Paul Konchesky komast í liðið en næsti maður inn af bekknum er hinn ofurefnilegi Lauri Dalla Valle og vofur leikmannaskiptanna sem blessunarlega urðu aldrei svífa yfir vötnunum með Henderson takandi sigur-shuffle fyrir framan Clint Dempsey. Þökkum snillingunum í LFChistory fyrir grunnheimildir en enginn sannur Púlari þarf að leita lengra en í þann viskubrunn til að finna gullmola og gimsteina um Liverpool.

Kloppvarpið

Blaðamannafundur Klopp er kominn:

Upphitunarlagið

Til að heiðra heimavöll hvítliða þá koma enginn annar til greina í upphitunarlagspilun en sá hvítasti af öllu hvítu og frægasti stuðningsmaður Fulham: heimsmeistari hettunnar og heltekinn hipp hopp Halli; herra EMINEM. Við Púlarar vonum að sjálfsögðu að FulEMINEM mæli manna heilastur og að hans lið tapi sjálfum sér algerlega og þar með leiknum samhliða því en lagið er hipp hoppandi heitt og upphitandi:

Spaks manns spádómur

Liverpool sýndi vígtennurnar og gargandi hungur um síðustu helgi gegn meisturum Man City og ég geri ekki ráð fyrir neinn vægð eða kæruleysi í fyrsta leik tímabilsins gegn nýliðum Fulham. Það er alltaf ákveðið vandaverk að mæta í slíkan leik en okkar menn eru því vel vanir eftir leikjaniðurröðun síðustu ára og leiktíminn hjálpar til við að tempra stemmningu heimavallarins um hádegisbilið.

Það er hugsanlegt að það verði ákveðin kergja eða undiralda tengd leikmannaskiptum liðanna síðustu örfáu ára og þeirri staðreynd að stjóri þeirra stýrði eitt sinn Everton (tilheyrandi samúð vottuð). En ég trúi því að gæði og grimmd okkar manni muni yfirstíga alla erfiðleika í þessum leik og skila okkur 3 stigum á töfluna. Markaskorun munu annast Salah, Darwin og Diaz í sterkum 0-3 útisigri!

Hvernig fer leikurinn gegn Fulham?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

6 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir magnaða upphitun Beardsley og ekki hefir þér farið aftur frá þeirri síðustu. Skemmtilega ritfær og orðgnóttin mikil. Hvað leikinn varðar held ég að þetta verði hunderfitt en hafist á gæðamun liðanna og við vinnum þetta með einu marki 0 – 1. Það verður samt enginn “slembilukkusigur” heldur grjótharður vinnusigur. Salah með markið og allir sáttir

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  2. Smá yfirferð af meiðslum leikmanna Liverpool

    Kelleher út ágúst. Alisson ný komin úr meiðslum og þarf að fara varlega með hann.
    Konate slæm meiðsli ekki vitað hvenær hann kemur aftur.
    C.Ramsey sem var keyptur er á sjúkralista en talið um að hann sé ekki í formi? .
    Ox meiddur út ágúst/sept annars er manni nokk sama hann meiðist aftur.
    Naby Keita ekki slæm meiðsli en væntanlegur um miðjan ágúst.
    Curtis Jones var að meiðast frekar illa tognun á kálfa væntanlegur til baka eh tíman í september.
    Jota væntanlegur seint í ágúst byrjun sept.

    Ég veit ekki um ykkur en ég er bara virkilega pirraður yfir hversu margir eru að meiðast og tímabilið ekki byrjað?

    5
  3. Hvort eruð þið á því að byrja Firmino eða Darwin á morgun ?
    Ég myndi vilja sjá Darwin byrja bara strax, henda honum beint í djúpu laugina og koma honum strax í þetta.
    Svo á heimavelli þá myndi ég vilja sjá 4-2-3-1 með Firmino fyrir aftan Darwin og Salah og Diaz á köntunum með þá félaga Fabinho og Thiago á miðsvæðinu.

    En með þennan leik þá held ég að þetta verði pínu strögl til að byrja með en svo keyrum við yfir þá í seinni og vinnum 0-2

    4
    • Sammála vill að Nunez byrji þetta líka. Þá er hægt að fá Firmino frekar inn til pönkast í þeim í síðari. Annars hefur þetta virkað vel so far það sem Klopp ákveður 🙂

      3
    • Ég vill sjá Bobby byrja á morgun.
      Bobby leit virkilega vel út gegn Man City og var mikið spil í gegnum hann. Fulham eru að koma úr Championship deildinni þar sem 90% af liðinum spila með stóran sterkan framherja og eru þeir ekki vanir að mæta lið með falska níu eins og Firmino.

      Nunez á eftir að spila fullt í vetur en ég er til í að byrja með Bobby.

      3
    • Bobby byrjar. Núñez kemur inn á þegar hálftími er eftir. Hugsið ykkur lúxusinn að hafa fimm skiptingar.

      4

Spáuppgjör 2021-2022

Spá Kop.is