Upphitun: Manchester City í góðgerðarskildinum

Á morgun verður opnunarleikur tímabilsins þegar okkar menn mæta Manchester City í góðgerðarskildinum sem verður á King Power vellinum þetta árið. Ástæðan fyrir því er að á sunnudaginn verður úrslitaleikur EM kvenna á Wembley og það voru undarlega fáir vellir sem sóttu um að fá að halda góðgerðarskjöldin og verður hann því í Leicester þetta árið.

Nýtt tímabil hefur nýjar vonir og verður áhugavert að sjá hversu mikla áherslu Klopp og Guardiola setja á þessa keppni. Stundum hefur góðgerðarskjöldurinn verið hálfgerður æfingaleikur og hefur aldrei verið jafn snemma og núna útaf Heimsmeistaramótinu í Katar. Þetta er hinsvegar frábært tækifæri að koma höggi á helstu keppinautana strax í upphafi tímabils.

Nokkrar breytingar eru á báðum leikmannahópum en bæði lið sóttu hreinræktaðan sóknarmann í sumar. Á meðan City tóku norðmanninn Erling Haaland fengu Liverpool hinn úrúgvæska Darwin Nunez. Það er því útlit fyrir að bæði lið muni breyta leikstíl sínum lítillega og gæti titilbaráttan ræðst á því hvort liðið nær að aðlagast fyrr að nýjum leikstíl.

Það er ljóst að umræðan verður mikil um einvígi þessa tveggja dýru sóknarmanna í vetur.

Auk Haaland eru City búnir að sækja ungan argentínskan sóknarmann í Julian Alvarez og sóttu einnig Kalvin Phillips frá Leeds en hafa leyft nokkrum að fara. Zinchenko og Jesus fóru til Arsenal, Sterling fór til Chelsea og Fernandinho fór heim til Brasilíu. City menn eru þó líklega ekki hættir en þeir munu líklega sækja vinstri bakvörð áður en tímabilið hefst.

Undirbúningur Manchester City hefur verið ansi undarlegur. Þeir spiluðu aðeins tvo æfingaleiki fyrir tímabilið og gerðu lítið af skiptingum í báðum leikjunum. John Stones, Ilkay Gundogan og Phil Foden gátu ekki ferðast með liðinu, líklega vegna bólusettningareglna í Bandaríkjunum þar sem þeir spiluðu æfingaleiki sína.

Okkar menn

Nokkur forföll eru í hópnum strax í fyrsta leik. Diogo Jota er meiddur og mun missa af byrjun tímabilsins og Klopp hefur einnig staðfest að Alisson sé enn tæpur en hann hefur lítið spilað á undirbúningstímabilinu og verður þvi Adrian í markinu á morgun þar sem Kelleher er einnig frá. Það er því ljóst að maður verður með hjartað í buxunum í hvert sinn sem City menn komast nálægt marki. Það er þó vonandi að við sjáum þann Adrian sem kom inn fyrir Alisson í byrjun tímabils 19/20 frekar en þann Adrian sem hennti okkur út úr Meistaradeildinni gegn Atletico Madrid. Auk þeirra er Oxlade-Chamberlain meiddur en það kemur fáum á óvart.

Eins og áður sagði erum við komnir með Darwin Nunez í hóp okkar manna og höfum einnig bætt við okkur ungum hægri bakverði í Calvin Ramsey og Fabio Carvalho kom einnig frá Fulham. Hinsvegar höfum við misst Sadio Mane sem verður mikill missir en auk hans fóru úr aðalliðshópnum Divok Origi, Taki Minamino og Neco Williams. Stærstu fréttir sumarsins voru þó þær að Mo Salah skrifaði undir nýjan samning og vonandi fagnar hann honum með enn einu marka árinu.

Ég tel líklegt að Klopp byrji með ansi sterkt lið á morgun. Við eigum æfingaleik við Strasbourg á sunnudaginn þar sem minni spámenn fá að setja mínútur í lappirnar fyrir nýtt tímabil. Stóra spurningin fyrir mér er hvort Darwin Nunez fái að byrja en þar sem Firmino fékk að spila með Salah og Díaz í síðasta æfingaleiknum gegn Salzburg tel ég líklegra að við sjáum Firmino í byrjunarliði og Nunez fái að koma inn af bekknum.

Spá

Ég spái því að Klopp taki sinn fyrsta góðgerðarskjöld í 2-0 sigri þar sem Mo Salah og Luis Diaz skora og leyfa okkur að byrja að dreyma. Spennan er að magnast, tímabilið að hefjast, hvernig lýst ykkur svo á komandi tímabil?

8 Comments

 1. Við vinnum þennan leik 3-0 Darwin skorar þau öll….ps.sakna þess að sjá ekki Sigkarl og Kalda koma með pistil og marga fleirri um þennan stórleik….

  1
 2. Sæl og blessuð.

  Þetta verður basl. Með Adrian í markinu og ,,þunga fætur” í framlínunni finnst mér lítið tilefni til bjartsýni. Hvað sem öllum samanburði líður þá er Haaland af öðru kalíberi en Nunezinn og það er ekki spurning að ótta-faktorinn sem fylgir honum verður risastór.

  Spái vandræðalega stóru tapi. Sorrí.

 3. Maður er ansi hræddur með Adrian í marki en hann snýr okkur öllum við í dag og mun eiga stórleik (vonandi) ég er súper spenntur fyrir komandi tímabili þessi leikur fer 2-3 eftir stórhríð á markið báðu megin

 4. Er orðinn mjög spenntur fyrir þessum leik enda úrslitaleikur um titil. Man að fyrir tveimur árum vann Arsenal okkur í þessum leik og var þ.a.l. (tímabundið) krýnt besta lið Englands.
  Klopp á að stilla upp okkar sterkasta liði í dag sem þýðir að við eigum ekki að þurfa horfa á menn á borð við Gomez skokka á hliðarlínunni í eina sekúndu.
  Bendi pistlahöfundi á að það er ekki til neitt sem heitir góðgerðarskjöldur, þetta er samfélagsskjöldur. Alveg eins Liverpool spilar ekki í ensku Landsbankadeildinni.
  YNWA

  2
 5. Mitt mat er það að gæðalega séð er Diaz á svipuðu kaliberi og Mane og því er framlínan okkar ekkert verra þeirri sem var í fyrra. Þar að segja ef Firmino er í nánd sitt besta.

  Diaz- Firmino- Salah

  Nunez er enn óskrifað blað og því ætla ég ekkert að fjölyrða neitt um hann en ætla samt að gerast svo djarfur að halda því fram að hann sé bæting á Origi.Vonandi stendur hann undir væntingum.

  Ég er á því að Elliot ætti að vera í byrjunarliðinu ef hann er kominn í svipað form og hann var í áður en hann meiddist. Hinir segja sig sjálfir. Persónulega finnst mér Fabinho okkar besti miðjumaður. Bæði vegna sendingagæða og einnig hve mikill afburðar varnarmaður hann er.

  Thiago- Fabinho- Elliot.

  Þrír af fjórum varnarmönnum okkar eru nokkuð öruggir í okkar besta byrjunarlið. Stóra spurningin er hver mun spila við hlið Van Dijk í vetur. Ég ætla að setja Matip.

  Robertson – Van Dijk- Matip- Trent.

  Markvörðurinn er sjálfvalinn af þessu sinni. en það er okkar þriðji valkostur. Adrian. Við venjulegar aðstæður væri – Brasliski Kóngurinn, Alison aðalkosturinn.

  breiddin er það mikil að ég get sett að minnsta kosti 5-6 leikmenn sem gætu líklega (ekki alveg öruggt) alveg eins verið byrjunarliðsmenn án þess að liðið veikist. t.d Nunes, Carvahlo, Henderson, Keita, Jota, Kostas.

  Svo eru leikmenn eins og Milner og Jones líka leikmenn sem hafa skilað frábærum frammistöðum fyrir klúbbinn okkar. Þó þeir kæmust hvorugir í okkar alla besta ellefu manna byrjunarlið sem fyrir mér fer dálítið eftir því hvernig viðrar hverju sinni.

  Ég held við töpum þessum leik. Andstæðingurinn er of erfiður og við erum ekki enn kominn í almennilegt leikform. Vona að ég hafi rangt fyrir mér. Því titlar eru alltaf titlar, sama hver lítis virði þeir eru í hinu stóra samhengi.

  YNWA

  1
 6. Ég er ekkert alltof svartsýnn … tel að við endum í einhverju af fjórum efstu sætunum í vor í deildinni. Varðandi leikinn í dag, þá finnst mér einhvern veginn momentið vera City-megin og spái þeim 1-3 sigri. En tel mjög líklegt að við endum ofar að loknu tímabilinu 🙂 — p.s. mér finnst gaman að hafa rangt fyrir mér… tel að Darwin muni hrökkva síðar meir í gang og vona að þetta verði ekki Andy Carroll horror 🙂 … nei nei … Klopp gerir meistaralið úr þessum hópi, en í dag … æ, veit ekki. 1:3 er enn spáin.

 7. Staðfest byrjunarlið
  Liverpool: Adrian, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Henderson, Thiago, Diaz, Salah, Firmino.

  Subs: Davies, Gomez, Konate, Milner, Keita, Jones, Elliott, Nunez, Carvalho.

 8. Liverpool hefur að mínu mati þurft að hafa meira fyrir sigrunum gegn City en öfugt. Ég er hinsvegar jafn spenntur fyrir því að sjá City í dag eins og okkar menn. Ég er að vona Pep sé að ofmeta sig á þessu tímabili og sé að breyta leikkerfinu sínu of mikið fyrir Norðmanninn. Hann verði með tilraunir í þessum leik sem skili Liverpool sigri í dag 1-0 og Nunez með markið í seinni.

  City er auðvitað samt ennþá liðið til að sigra og líklegastir til að vinna deildina. Flott að máta sig við þá strax í fyrsta leik.

  Áfram Liverpool og áfram Klopp.

  1

Gullkastið – Fiðringur fyrir nýju tímabili

Liðið gegn City í góðgerðarskildinum