Hvaða valkosti hefur Klopp?

Breiddin í hverri stöðu frá miðju til sóknar

Liverpool opnar jafnan á viðtöl við þjálfarateymið og leikmenn í æfingaferðum í öðrum heimsálfum sem þeir gefa jafnan ekki færi á þegar alvaran byrjar. Klopp fór í nokkur svoleiðis í vikunni og var mikið í mun að verja miðjumenn Liverpool og kveða niður kröfu stuðningsmanna um nýjan miðjumann, hann opnaði jafnvel á þessa umræðu af fyrra bragði.

Hann bendir réttilega á eins og við höfum rætt áður að kaup á Jude Bellingham gæti haft mikil áhrif á þróun leikmanna eins og Carvalho, Elliott og Jones. Jafnvel Tyler Morton sem Klopp hrósaði í hástert.

Klopp er að sjálfsögðu að meina það sem hann segir en tökum því samt með fyrirvara að tal um að Liverpool vanti eða vilji ekki nýjan miðjumann. Það er nokkuð ljóst að Liverpool var í viðræðum við Tchouaméni og eru klárlega tilbúnir að kaupa slíkan leikmann ef aðstæður á markaði eru réttar. Málið er samt á móti að líklega er Liverpool alltaf tilbúið að kaupa Tchouaméni leikmann, sama í hvaða stöðu hann spilar og þíðir ekkert endilega að það sé brennandi þörf á að skipa út þeim leikmanni sem spilar þá stöðu fyrir hjá Liverpool. Úr því að Tchouaméni fór til Real Madríd er ekkert víst að Liverpool verði þá að kaupa annan leikmann sem spilar sömu stöðu. Jude Bellingham er klárlega leikmaður í Tchouaméni klassa en líklega eru markaðsaðstæður alls ekki nógu hagstæðar í sumar til að klára þann díl.

Klopp hefur engu að síður töluvert fyrir sér þegar hann spyr hvar vandamálið er á miðjunni? Carvalho (og eiginlega Harvey Elliott) hafa núna bæst við miðju sem kom Liverpool í úrslit í bókstaflega öllum bikarkeppnum síðasta tímabils og skilaði rúmlega nítíu stiga tímabili!

Hann kom líka inn á það í viðtali fyrir United leikinn að Liverpool hefði alveg möguleika á að breyta um leikkerfi og bendir margt til þess í sumar að Liverpool komi til með að vinna með mun sóknarsinnaðari miðjumann í vetur en við höfum séð undanfarin ár. Hann svosem byrjaði síðasta tímabil með Harvey Elliott á miðjunni í allt öðruvísi hlutverki en Wijnaldum hafði leyst og líklega er hugmyndin að reyna aftur að þróa leikstíl liðsins í þá átt.

Liverpool hefur spilað 4-3-3 leikkerfið frá því Klopp tók við Liverpool og líklega er hann ekkert að fara umturna því neitt á næstunni. Hinsvegar hugsa ég að hann spái ekkert rosalega mikið í leikkerfinu sem slíku heldur hlutverki hvers leikmanns. Þetta 4-3-3 kerfi er mjög fljótt að breytast í 3-4-3 í vissum aðstæðum í hverjum leik, Fabinho dettur þá niður og bakverðirnir spila framar en Beckham gerði allan sinn feril sem kantmaður. Sama má segja með því að stilla upp sóknarsinnaðari miðjumanni en við höfum séð undanfarin ár og kalla það 4-2-3-1. Það væri engu að síður nokkuð róttæk breyting að gefa alvöru tíu frelsi sóknarlega öfugt við það sem t.d. Gini Wijnaldum fékk hjá Liverpool. Hann kom sem sóknartengiliður og spilar það jafnan fyrir landsliðið og gerir það mjög vel. Hjá Liverpool krafðist hans hlutverk hinsvegar miklu meiri aga og óeigingjarnrar varnarvinnu sem maður sér ekki fyrir sér að verði framtíð leikmanna eins og Carvalho og Elliott.

Stóra breytingin á miðjunni í vetur gæti því orðið að Klopp noti tvo kjölfestu miðjumenn í mun fleiri leikjum í staðin fyrir þrjá líkt og hann hefur gert hingað til hjá Liverpool. Þriðji verði meiri joker og stærri partur af sóknarleiknum. Ekki í öllum leikjum, líklega verða þrír af Fab, Hendo, Thiago og Keita áfram kjölfestan í flestum leikjum en vopnabúrið er miklu stærra núna með komu Carvalho og Nunez.

Ef að við miðum við 51 leik í deild og Meistaradeild fyrir tvo miðjumenn eru það 9.960 mínútur samtals. Á síðsta tímabili var skiptingin svona milli fjögurra helstu miðjumanna Liverpool:
3.869 Henderson
3.690 Fabinho
2.381 Thiago
2.083 Keita
12.023 Samtals 

Á pappír ættu þessir fjórir því vel að geta skipt þessum tveimur stöðum með sér í stóru leikjunum.

Hvernig er breiddin í hverri stöðu fyrir sig?  

Sexan

Fabinho er rosalega óumdeildur sem aðal varnartengiliður Liverpool og ef hann er frá í einhvern tíma bítur það Liverpool illa. Henderson er hans fyrsti varamaður og gæti með aukinni samkeppni á miðjunni orðið meira á bekknum ef Fabinho er í byrjunarliðinu. James Milner kom við sögu í tæplega 40 leikjum á síðasta tímabili en spilaði 15-20 mínútur í langflestum þessara leikja. Hans hlutverk verður líklega svipað í vetur, sérstaklega með fimm skiptingar og kemur mjög líklega oft inn fyrir Fabinho eða Henderson undir lok leikja. Keita, Thiago og Morton geta svo allir spilað aftast á miðjunni í töluverðu hallæri. Trent Alexender-Arnold líka og er líklega okkar næst besti leikmaður í þessari stöðu (ef hann væri ekki svona ómissandi sem hægri bakvörður).

Áttan

Thiago er áfram okkar besti leikmaður á miðri miðjunni en spilaði rétt svo helming leikja liðsins á síðasta tímabili sem er í takti við ferilinn í heild sinni. Hann er alltaf í einhverjum meiðslavandræðum. Ef að Keita er í alvöru búinn að ná sér af sínum endalausu meiðslavandræðum keppir hann líklega við Thiago um stöðu á miðjunni. Henderson auðvitað líka þó maður sjái fyrir sér að hann færist neðar á miðsvæðinu núna þegar aldurinn færist yfir.

Curtis Jones er líklega hugsaður sem partur af þessum hópi líka frekar en t.d. Carvalho og Elliott sem eru ennþá meira sóknarsinnaðir en Jones. Jones gæti alveg sprungið út í vetur og komið sér framar í goggunarröðinni, hans tækifæri gæti komið í formi fjarveru frá Thiago og Keita sem verður að teljast nokkuð líkleg. James Milner er svo auðvitað valkostur í þetta hlutverk eins og flest önnur á vellinum.

Tían

Ef að Klopp ætlar að fara alla leið í Dortmund 4-2-3-1 leikkerfið er líklega fyrsti kostur leikmaður sem er nánast búið að afskrifa, Bobby Firmino. Hann hefur átt erfitt undanfarin tvö tímabil og verið í meiðslavanfræðum en er heill heilsu núna og ennþá á besta aldri. Það er ekki til meiri Klopp leikmaður og væri verulega áhugavert að sjá hann spila fyrir aftan níu með Diaz og Salah á vængjunum.

Fabio Carvalho spilaði allt síðsta tímabil sem sóknarsinnuð tía í 4-2-3-1 leikkerfi hjá Fulham og var frábær. Hann byrjaði leikinn gegn United sem miðjumaður sem er áhugavert þar sem Harvey Elliott var á vængnum á sama tíma, Ellott byrjaði auðvitað síðasta tímabil á miðjunni. Báðir verða að teljast mjög líklegir til að vera ofarlega í plönum Klopp, sérstaklega ef hann ætlar að spila 4-3-3 áfram en með sóknarsinnaðari miðjumann. Þá eru þeir líklegri til að byrja en t.d. Firmino.

Tían eða sóknartengiliður er líklega sú staða sem hentar Jones og Ox best einnig, Ox spilaði raunar þetta hlutverk vel 2018 þar til hann meiddist gegn Roma.


Þetta er meira en nógu góð breidd og klárlega nægur fjöldi leikmanna. Ef að Liverpool ætlar að kaupa leikmann fyrir 50-100m þarf það að vera leikmaður sem kemur í staðin fyrir einhvern af þessum leikmönnum. Jafnvel þó að Ox fari í sumar er ekkert aðkallandi að bæta slíkum leikmanni við strax.

Klopp varði miðjumenn Liverpool með kjafti og klóm í vikunni og er með góða breidd eins og staðan er í dag. Ox er sá eini sem virðist ekki njóta traust hjá Klopp m.v. liðsval hans eftir áramót á síðasta tímabili. Næsta sumar verða Henderson og Thiago árinu eldri (báðir nú þegar komnir norður fyrir þrítugt). Fabinho verður þrítgur og Milner yfirgefur líklega félagið. Ox klárar sinn samning og framtíð Curtis Jones verður líklega skýrari. Það er því miklu eðlilegra að kaupa nýjan miðjumann á næsta tímabili, ekki nema það sé einhver ofur góður kostur ómissandi tækifæri í sumar. Tchouaméni er dæmi um slíkan leikmann.

Sjöan 

Salah á auðvitað hægri vænginn áfram hjá Liverpool. Hann var besti leikmaður í heimi fyrir áramót á síðasta tímabili og bara alls ekki eftir áramót. Vonandi nýtir hann sumarið vel í að hlaða batteríin og engin óvissa um nýjan samning léttir vonandi á okkar manni. Hann virkaði alveg búinn á því eftir áramót en á blessunarlega ekki eins langt tímabil fyrir höndum næsta vetur. Ekkert stórmót á miðju tímabili sem dæmi.

Elliott er vonandi nær því núna að vera næsti kostur fyrir hann í þessu hlutverki ásamt því að Diaz getur auðvitað spilað á báðum vængjum líkt og fleiri leikmenn í hópnum.

Ellefan 

Diaz var búinn að taka vinstri kantinn af Mané strax á síðasta tímabili og Jota getur leyst það hlutverk vel einnig. Nánast allir sóknarleikmenn Liverpool hafa spilað á vinstri vængnum einhverntíma á sínum ferli.

Nían

Nunez er fyrsta nían hjá Liverpool sem kemur inn í hópinn hjá Klopp hugsaður sem byrjunarliðsmaður. Klopp hefur haft níur eins og Origi, Benteke, Ings, Sturridge og Solanke á tíma sínum hjá Liverpool en ekki getað treyst á neinn þeirra sem byrjunarliðsmann. Hann hefur reyndar verið ævintýralega óheppinn með meðsli leikmanna eins og Origi, Ings og Sturridge.

Þetta gerir allar vangaveltur fyrir þetta tímabil áhugaverðar enda sjaldan verið eins miklil óvissa um hvaða leikkerfi Liverpool er að fara spila í sumar.

Ef að Nunez byrjar ekki með flugeldasýningu er Bobby Firmino ennþá algjörlega ennþá valkostur í sóknarlínuna og ef hann er í fullu formi er alls ekkert víst að Nunez sé hugsaður á undan honum í byrjunarliðinu (svona til að byrja með).

Diogo Jota er einnig valkostur í sóknarlínunni, hvort sem það er sem partur af tveggja manna sóknarlínu, sem vængmaður eða einn upp á toppi. Hann dalaði illa eftir áramót en kemur vonandi endurnærður til leiks í ágúst.

Besta við þessa þrjá leikmenn er hvað þeir eru ólíkir.


Að þessu öllu sögðu á maður alls ekki von á frekari alvöru leikmannakaupum frá Liverpool í sumar.

Aldrei að segja aldrei samt…

12 Comments

 1. Takk fyrir áhugaverðan pistil, einmitt sú umfjöllun sem mig langaði til að lesa.

  4
 2. Sælir félagar

  Afar áhugaverður pistill Einar og takk fyrir það. Ég segi eins og Hjalti hér fyrir ofan að það er einmitt eitthvað svona sem mann langar að lesa eftir ógeðslegt tapið (það er alltaf ógeðslegt að tapa fyrir MU) í gær. Ég sé ekki að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af einni einustu stöðu í liðinu sem stendur. En við vitum að allur andskotinn getur gerst en samt lítur sá mannskapur sem úr er að velja anzi vel út.

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
  • Sammála Sigkarli. Alveg óþarfi að tala niður þennan sigur ManUtd á okkur. Skemmtiþátturinn “Söööör-Alex-hefði-aldrei-gert-þetta-svona-…” mun fljótlega fara af stað aftur með tilheyrandi niðurrifi og neikvæðni hjá þeim. Það fer okkur Púllurum betur að taka þetta á kinnina og bíða eftir næsta leik á móti þeim.

   Miðjan lítur sterk út – er svolítið óskrifað blað – en Klopp og Co. eru vanir að finna lausnir ef einstakir leikmenn lenda í holu eða meiðast.

   3
 3. Gott að lesa svona góða grein í morgunsárið. Hópurinn er sterkur og til alls líklegur og engin staða sem virkilega þarf að bæta. Nú bíður maður bara fullur tilhlökkunar eftir því að tímabilið byrji 🙂
  YNWA

  2
 4. Æ finnst þetta samt smá lúðaháttur, greinilega átti að finna miðjumanna en svo allt í einu er hans ekki þörf því við getum mögulega spilað annað kerfi, en ef það kerfi mun síðan ekki fúnkera? Að treysta á Milner, Curtis Jones og Ox er bara ekki nógu gott fyrir lið eins og Lpool. Þessir tveir síðastnefndu voru farþegar á seinasta seasoni og verða það aftur í ár.

  10
  • Alveg sammála Dúdda. Miðjan er okkar veikasti hlekkur. Margir þar að komast á aldur og við fáum lítið af mörkum frá þessum mönnum. Veit ekki af Keita er ennþá hjá okkur. Er ekki í Liverpool klassa og passar ekki inn í ensku deildina.

   5
 5. Ég get ekki verið sammála því að miðjan sé léleg hjá okkur, hvað þá veikasti hlekkurinn.

  A- Miðja – Thiago – Fabinho- Henderson
  B- Miðja – Elliot – Keita – Fabio
  C- Miðja – Milner – OX- Jones

  Milner, Jones og Ox spiluðu mjög vel í vetur sé tekið mið af því að þeir eru kringum það að vera sjötti valkostur í byrjunarliðið. Ég hef aldrei á ævinni séð önnur eins gæði hjá Liverpool og fullyrði að gæði þessara leikmanna eru vanmetin. Milner kemur með háan standard, Jones er leikmaður í þróun og Ox getur orðið svipaður og hann var ef hann sleppur við meiðsli.

  Hvernig er hægt að efast um gæði liðs sem vinnur tvo bikara,kemst til úrslita í meistaradeild Evrópu og fær 92 stig í deildinni ? Ferguson náði mest 90 stigum undir stjórn Man Und.

  Þessi umræða minnir dálítið á gagnrínina þegar það átti að kaupa Delight og Klopp sagði þá að hann efaðist um að nokkur leikmaðurinn væri á markaðnum sem hefði meiri gæði en Joe Gomez sem miðvörður og hvað kom á daginn ?

  Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér. Ef einhver er með púlsinn á sínum leikmaður og lekmannamarkaðnum þá er það Klopp og hans teymi.

  11
  • Ég trúi nú meira á jólasveininn heldur en að Ox haldist heill sem var btw að meiðast núna

   2
 6. Aðallega finnst mér okkur ennþá vanta mann sem öll hin toppliðin eiga á miðjunni, sem er 30metra sleggjan/aukaspyrnufóturinn. Maðurinn sem trítar aukaspyrnu eins og víti. Sú hætta er hverfandi í liðinu okkar sem er miður.

  En frábær breidd að öðru leyti ?

  2
  • Hárrétt athugað hjá þér, Oddur. Þessi maður hefur varla fundist síðan Gerrard var og hét. En þó geta bæði Thiago og Fabinho gert þetta á góðum degi.

   1

Tap í fyrsta æfingaleik tímabilsins

Æfingaleikur 2 – Palace í Singapore: 2-0 sigur