Tap í fyrsta æfingaleik tímabilsins

Það lítur aldrei vel út að sjá lokatölur í fótboltaleik þar sem Liverpool tapaði 0-4 gegn Man Utd. Á móti eru úrslitin í þessum leik ágætis viðmið um hversu mikill fyrsti æfingaleikur tímabilsins þetta var. Þetta skiptir bókstaflega engu máli. Alla jafna er þetta leikur sem Liverpool spilar á Englandi við Tranmere eða Chester og eins og Klopp kom inná eftir leik kom þessi leikur aðeins of snemma fyrir Liverpool. United er komið lengra í sínu undirbúningstímabili, flestir þeirra leikmanna voru að æfa í síðustu viku á meðan Van Dijk og Trent voru á Silverstone og Salah í Grikklandi sem dæmi.

Þeir stilla nánast upp sínu sterkasta liði í fyrri hálfleik og vinna svo með það sem ég myndi kalla eðlilegan hluta af hópnum í seinni hálfleik og gefa flestum þeirra leikmanna sem koma til með að spila fyrir þá í vetur alvöru æfingu.

Liverpool er með tæplega fjörutíu manna hóp í þessum Asíutúr og 36 leikmenn komu við sögu í þessum leik. 3 x 30 mínútur á þrjú mismunandi lið pretty much. Það er skiljanlegt að fara með unga leikmenn í svona ferðir, bæði sem uppfyllingarefni fyrir leikmenn sem ekki eru komnir til æfinga og eins til að gefa þeim smjörþefin af því að ferðast með aðalliðinu. Öllu má samt ofgera og það er aðeins erfitt að sjá hvað aðalliðið fær út úr því að gefa leikmönnum sem koma aldrei til með að spila fyrir aðalliðið svona stóran hluta af sviðinu? Mögulega var þetta samt bara svipað sterkt lið og Liverpool hefur verið að spila gegn Tranmere undanfarin ár á þessu stigi undirbúningstímabilsins.

Byrjunarliðið var svona og hópurinn:

Liverpool: Alisson, Mabaya, Phillips, Gomez, Chambers, Henderson, Morton, Carvalho, Elliott, Diaz, Firmino.

Subs: Adrian, Mrozek, Davies, Fabinho, Van Dijk, Konate, Thiago, Milner, Keita, Salah, Oxlade-Chamberlain, Jones, Tsimikas, Robertson, Nunez, Matip, Bajcetic, Williams, Clark, Clarkson, Alexander-Arnold, Van den Berg, Norris, Hill, Frauendorf.

Leikmenn sem spila líklega ekki eina mínútu í deildarleik í vetur nema bæði himin og jörð farist eru ca 15: Mabaya, Phillips, Chambers, Morton, Adrian, Mrozek, Davies, Bajcetic, Williams, Clark, Clarkson, Van den Berg, Norris, Hill, Frauendorf.

Ekki misskilja, efa ekki í eina sekúndu að Klopp viti mjög vel hvað hann er að gera með að taka svona stóran hóp með út en þetta sýnir líka kannski aðeins hversu asnalegt það er að taka þessi úrslit hátíðlega eða hafa áhyggjur af þeim.

Leikurinn

Lið 1 – Að því sögðu þá var þetta alls ekki 0-4 leikur, liðið sem spilaði fyrsta hálftímann var sérstaklega óheppið, gefa tvö hörmulega klaufaleg mörk, varnarlínan var nota bene Mabaya, Phillips, Gomez, Chambers og leit Nat Phillips langverst út af þeim. Hinumegin átti Liverpool mun fleiri færi, tvö skot í tréverkið en inn vildi boltinn ekki.

Áhugavert í þessu liði að Henderson var sexan en Morton fyrir framan hann á miðjunni með Fabio Carvalho. Harvey Elliott var hinsvegar í Salah stöðunni hægramegin. Carvalho, Elliott og auðvitað Luis Diaz áttu nokkra efnilega spretti og lofa eftir sem áður mjög góðu.

Andstæðingurinn var nokkurnvegin sterkasta lið United sem þeir hafa úr að velja þarna úti. Þeir refsuðu auðvitað fyrir barnaleg mistök í vörninni.

Lið 2 – Þriðja markið kom nánast strax í kjölfarið á 10 skiptingum hjá Liverpool, Rhys Williams var ekki alveg klár og raunar fengu bæði hann og Phillips mann til að velta því fyrir sér hvernig í veröldinni Liverpool náði 3.sæti og Meistaradeild með þá í hjarta varnarinnar í 10 leiki. Leikurinn dó aðeins niður eftir þetta, Adrian kom inn fyrir Alisson í hálfleik (Kelleher fór ekki með út, meiddur).

Lið 3 – Síðasta hálftímann kom restin af stóru nöfnunum inná, Trent, Van DIjk, Keita og Salah sem allir eru nýkomnir til æfinga ásamt auðvitað Darwin Nunez sem var ekki beint með neina flugeldasýningu. Tom Hill fékk svo að spila með þessu holli en hann er 19 ára uppalin leikmaður sem hefur verið meiddur í meira og minna tvö tímabil. Skemmtilegt fyrir hann.

Innkoma Konate, Van Dijk og Fabinho hjálpaði þó ekki við varnarmistökin og United setti eitt í viðbót. Liverpool átti enn einn skotið í trévirkið á móti hinumegin. Salah óheppin þar og eins Nunez sem fékk frákastið til sín en skaut yfir.

Líklega verður leikurinn á föstudaginn svipaður enda þetta fyrstu dagar undirbúningstímabilsins hjá mörgum lykilmanna Liverpool, förum að horfa meira í frammistöður og upplegg liðsins í Þýskalandi og Austurríki. Þar fækkar líklega um 10-15 manns í hópnum.

2 Comments

 1. Þessi leikur segir ekkert um það sem koma skal. Kom ekki á óvart að sjá Gomez fá séns svona snemma á undirbúningstímabilinu og ekki var frammistaða hans óvænt heldur. Hann leit hræðilega út í fyrstu tveimur mörkunum. Andi hans sveif enn yfir vötnum í mínútu eftir skiptinguna því áfram hélt ruglið.
  .
  Ekkert að marka fyrsta leikinn okkar í miðjum júlí, höldum ótrauðir áfram.
  .
  YNWA

  1
  • Fagna því að meistari Gomez sé búinn að skrifa undir langtímasamning

   4

Liverpool – Man utd æfingaleikur

Hvaða valkosti hefur Klopp?