Lánabækur Liverpool

Það er alltaf eitthvað um það í leikmannagluggunum að leikmenn Liverpool – þá sérstaklega úr akademíunni – séu sendir út á láni til liða í neðri deildum eða jafnvel erlendis. Markmiðið er skýrt: gefa þessum leikmönnum alvöru mínútur, jafnvel þó svo andstæðingarnir (og samherjarnir) séu e.t.v. ekki í úrvalsdeildar gæðaflokki. Í fæstum tilfellum endar þetta með því að viðkomandi leikmaður vinnur sér inn sæti í aðalliði Liverpool, Harvey Elliott er í raun eina undantekningin á þeirri reglu frá síðari árum. En í mörgum tilfellum verður þetta til þess að viðkomandi leikmenn verða betri söluvara fyrir vikið, og þannig hafa allnokkur pund komið inn á síðustu árum. Dæmin eru allnokkur: Harry Wilson, Jordon Ibe, Brad Smith, Ryan Kent, Kamil Grabara, o.fl. o.fl., allt leikmenn sem skiluðu ágætis hagnaði þegar upp var staðið.

Í núverandi sumarglugga hafa allnokkrir leikmenn farið út á láni:

  • Marcelo Pitaluga

    Pitaluga er kominn til Maccelsfield Town, en liðið er í áttunda þrepi í enska fótboltapýramídanum. Hann á enn eftir að koma inná fyrir aðallið Liverpool, en var skráður á bekk í fjórum leikjum síðasta vetur. Brottför hans segir okkur að menn hafi metið það sem svo að hann sé ekki tilbúinn í að taka við Kelleher sem markvörður nr. 2, og líklega var það aldrei planið svona snemma hvort eð er. Vonandi verður Kelleher a.m.k. eitt ár til viðbótar, en alveg ljóst að hann er með gæði til að spila mun reglulegar en hann gerir með Liverpool í dag. Það er reyndar sjaldgæft að menn séu lánaðir til liða sem eru svona neðarlega í píramídanum, en planið er víst að Pitaluga haldi áfram að æfa með Liverpool, og sást t.d. á æfingum í Kirkby í vikunni þrátt fyrir að skiptin hafi gengið í gegn.

  • James Balagizi

    Balagizi er einn af þessum efnilegu sem hafa vakið athygli með U18 og U23, og er farinn til Crawley á láni. Hann náði að vera á bekk í tveim leikjum í vetur, en er klárlega skráður sem leikmaður U23 enn sem komið er. Hann skrifaði þó undir nýjan samning við Liverpool áður en hann flutti sig um set.

  • Conor Bradley

    Með komu Calvin Ramsay var nokkuð ljóst að tækifærin sem Conor Bradley fengi í hægri bakvarðarstöðunni yrðu líklega ennþá færri en í vetur, og því lá beinast við að lána hann út. Sem var akkúrat það sem var gert, og hann er kominn til Bolton. Þar er hann strax farinn að vekja athygli

  • Billy Koumetio

    Billy the Kid vakti talsverðar vonir fyrir um tveim árum síðan og fékk sénsinn með aðalliðinu í æfingaleikjum, en svo hefur hann ekki tekið skrefið upp á við sem hann hefði þurft að gera til að gera alvöru atlögu að aðalliðinu. Hann fer til Austria Vienna í fyrstu deildinni í Austurríki. Munum þó að Billy er ennþá ungur, hann verður tvítugur í haust og næstu 2-3 ár því krítísk ef hann ætlar að gera atlögu að aðalliðinu.

  • Adam Lewis

    Lewis fer til Newport County, þetta er leikmaður sem hefur byrjað einn leik með aðalliðinu, en það var gegn Shrewsbury í deildarbikarnum. Sjáum til hvort hann fái fleiri mínútur í framtíðinni.

  • Jakub Ojrzynski

    Jú það passar, Liverpool fékk til sín ALLA pólsku markverðina á sínum tíma, Orjzynski kom árið 2019 og fer nú aftur til Póllands á láni, nánar tiltekið til Radomiak.

  • Viteszlav Jaros

    Þó nafnið hljómi e.t.v. pólskt, þá er Jaros tékkneskur, var á láni hjá Notts County í fyrra, og fer til Stockport í ár.

  • Anderson Arroyo

    Arroyo er 22ja ára varnarmaður og er búinn að vera hjá félaginu síðan 2018, en mun spila með Alaves á næstu leiktíð í næstefstu deildinni á Spáni. Jafnframt var samningur hans við Liverpool framlengdur áður en hann var lánaður út. Hann hefur lítið verið viðriðinn aðalliðið hingað til, og kannski ólíklegt að það breytist neitt á næstunni.

Þetta eru þeir lánsdílar sem búið er að tilkynna, en það kæmi ekkert á óvart þó talsvert fleiri leikmenn fari á láni áður en glugginn lokar. Það eru ennþá leikmenn í leikmannahóp aðalliðsins sem munu tæpast fá margar mínútur á næstu leiktíð (Rhys Williams, Ben Davies o.fl.), og ef þeir leikmenn verða ekki seldir verða þeir sjálfsagt lánaðir út. Jafnframt er slatti af akademíuleikmönnum sem hefðu gott af því að spila meðal fullorðinna, t.d. Clarkson, Cain, Frauendorf, Beck, Quansah o.fl. Nú svo eru það guttar eins og Tyler Morton og Kaide Gordon sem voru að daðra við aðalliðið og fengu bara allnokkrar mínútur á síðustu leiktíð, kannski vill Klopp hafa þá við höndina, en svo er líka meira en líklegt að þeim verði fundinn staður þar sem þeir geta haldið áfram að þroskast. Við höldum áfram að fylgjast með hvernig ungviðinu vegnar, og hvar þeir spila næstu mánuði.

10 Comments

  1. Blackburn og Stoke vilja fá Ben Davies í sínar raðir.bbbbbbbbbbbbbbbb

  2. Ekki að ræða það að selja Ben Davies þetta er leikmaður sem á eftir að slá í gegn, það er að segja ef einhver hefur séð hann og veit hvort hann er til á annað borð.

    • Ææii þetta kom nú eitthvað öflugt út af lyklaborðinu hjá mér.

      1
  3. Pitaluga er sendur í svipað dæmi og Rhys Williams.

    Þarna er hann að fara eins langt út úr þægindarammanum og nokkuð er mögulegt, vellir sem kalla á allt annað en Brassinn er vanur og líkamlegi þáttur leiksins ansi öflugur, nokkuð sem hann þarf að læra inná. Svo er reyndar annar punktur þarna en Macclesfield er lið með stórt “spotlight” á sér (ef það er hægt í áttundu efstu deild) eftir að hafa farið á hausinn og síðan re-startað af fjármagnsfyrirtæki í eigu Robbie Savage.

    Svo þetta er mjög flott ákvörðun hjá klúbbnum að mínu viti og liður í því að efla kappann sem á pottþétt að vera í framtíð félagsins. Annars er þessi lánsbransi okkar manna alltaf öflugur og gaman að fylgjast með þessum strákum…

    3
  4. Nýjustu fréttir úr herbúðum MU gleðja minn innri óþokka. Maguire verður áfram fyrirliði. (hehehe)

    4
  5. Owen Beck farinn á láni til Famalicao í Portúgal. Kom lítið á óvart að hann yrði sendur út. Getur samt verið að það sé að aukast að leikmenn séu sendir út fyrir England? Finnst eins og það hafi ekki verið jafn algengt fyrir nokkrum árum, en kannski er það bara misminni.

  6. VIAPLAY með leikinn á morgunn, hlakka til, en finn hvergi hina æfingaleikina sem eru á næstunni. Veit einhver hvort að þessir leikir verða aðgengilegir fyrir Íslendinga?

    4
  7. Ég a heima a Spáni og er bara með íslenska afruglarann og allar íslensku stöðvar sem hægt er að hafa ásamt viaplay og veit ég get náð leiknum á morgun heima en ég ætlaði að hitta vin frá Íslandi á geggjuðum írskum veitingastað hérna sem er með geggjaðan mat og allar bresku stöðvarnar og gervihnött og horfa þar, er þessi leikur á morgun ekki sýndur á einhverjum breskum stöðvum veit það einhver ?

    • Skysport-Lfc tv….. hægt að sjá hvar allir leikir í öllum íþróttum eru sýndir á Liveonsat.com

Gomez áfram en Neco farinn.

Liverpool – Man utd æfingaleikur