Hverjir þurfa að sanna sig í sumar?

Undirbúningstímabilið er alltaf mikilvægur grunnur fyrir nýtt tímabil og leggjur Jurgen Klopp ofuráherslu á að nýta þessar vikur sem best. Það er rosalega erfitt að koma inn í leikstíl Liverpool liðsins án þess að fá þessar 4-6 vikur á æfingasvæðinu með liðinu.

Byrjunarlið Liverpool undanfarin ár hefur undanfarin ár verið nokkuð fastmótað og ætli einhver fyrir utan þennan segjum 14 manna kjarna að komast framar í röðinni er eins gott að byrja strax í júlí að sannfæra Klopp.

Skoðum í gamni hvaða tíu leikmenn þurfa að eiga sérstaklega gott æfingatímabil: 

Harvey Elliott – Markmið hans er augljóst, komast aftur í byrjunarlið Liverpool líkt og hann náði í byrjun síðasta tímabils. Þegar nýtt tímabil byrjar verður komið hálft ár frá því hann sneri aftur úr meiðslum og augljóslega gríðarlega mikilvægt fyrir hann að eiga gott undirbúningstímabil. Hann er með leikstíl félagsins á hreinu og hefur fengið smjörþefinn og býr að því núna. Hann er líklega nær byrjuarliðssæti núna í byrjun tímabils en t.d. Carvalho og eins líklega Curtis Jones.

Luis Diaz – Kólumbíumaðurinn kom inn í Liverpool liðið með bullandi sjálfstraust eftir frábært tímabil í Portúgal. Hann eignaði sér nánast strax stöðuna sem Mané hefur spilað undanfarin ár og það án þess að ná mikið af æfingum með liðinu. Þegar liðið spilar 63 leiki er lítið um taktískar æfingar eftir áramót og líklega hafa þær aldrei verið færri en á síðasta tímabili. Núna þarf hann fyrir alvöru að fylla skarð Sadio Mané og er að taka sitt fyrsta undirbúningstímabil hjá Liverpool. Núna fær hann vonandi tækifæri til að kynnast liðsfélögunum fyrir alvöru og læra meira inn á þeirra leik.

Fabio Carvalho – Það er verulega krefjandi fyrir nýja leikmenn að koma inn á miðjuna hjá Klopp og hefur nýjum mönnum jafnan verið sýnd mjög mikil þolinmæði. Fabinho fór ekki einu sinni beint í byrjunarliðið. Carvalho og hans hlutverk í Liverpool liðinu er ennþá mjög óskrifað blað. Hann er með bullandi sjálfstraust eftir frábært tímabil hjá Fulham og kemur til Liverpool talandi um að ætla að verða bestur í heimi, hann er ekkert að grínast með það. Sama hversu góður hann er þá þarf hann klárlega þessar 4-5 vikur á undirbúningstímabilinu og það fer líklega eftir því hvernig hann stendur sig þar hversu fljótur hann verður að komast inn í byrjunarliðshugmyndir Klopp. Að öllu eðlilegu myndi maður ætla að 19 ára strákur yrði 6-12 mánuði að spila sig inn í plön Klopp en það er eitthvað við Carvalho sem fær mann til að trúa að þetta verði mun frekar talið í 6-12 vikum.

Darwin Nunez – Undirbúningstímabilið er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir alla nýja leikmenn og þess vegna lögð áhersla á það hjá þeim liðum sem eru rekin hvað best að ganga frá þeim samningum í maí/júní. Það er óljóst hvernig Klopp ætlar að nota Nunez nákvæmlega en kaupin á honum benda til þess að liðið ætli að treysta meira á níu eða stilla jafnvel upp með tvo framherja, t.d. Salah/Jota/Bobby frammi með Nunez. Hvert svo sem planið er þá er mikilvægt að fá Nunez inn snemma til að stilla leik liðsins af m.v. hans innkomu. Liðið þarf að læra á hann ekki síður en öfugt.

Joe Gomez – Hann spilaði fimm og hálfan leik undir lok síðasta tímabils og var farinn að sýna brot af þeim leikmanni sem hann var með auknum leiktíma. Hann var reyndar að spila þær mínútur sem hægri bakvörður en það var betra en ekkert. Síðasta tímabil var jákvætt fyrir Gomez hvað meiðsli varðar og hann ætti að þekkja það manna best að það getur verið stutt í stærra hlutverk aftur sem miðvörður hjá Liverpool. Hann var engu að síður mjög afgerandi fjórði kostur Jurgen Klopp á eftir Van Dijk, Konate og Matip og þarf að koma undan sumri í fljúgandi toppformi. Hann gæti byrjað fyrstu leikina núna í Asíu þar sem Van Dijk og Konate eru enn í fríi. Hann má ekki við enn einu smávægilegum meiðslunum núna.

Curtis Jones – Ætlar Jones að verða partur af uppeldisfélaginu næstu árin eða þróast hann í svona Aston Villa, West Ham eða Wolves level af Úrvalsdeildarmiðjumanni. Hann var alveg efniviður í að verða svipað góður og Mason Mount eða Phil Foden en þeir hafa tekið nokkuð framúr honum undanfarin 1-2 tímabil. Jones var svo óstöðugur í fyrra að það var erfitt að greina hvort það level væri þarna ennþá eða hvort hann yrði svona Ross Barkley / Jesse Lingard. Leikmenn sem voru jafnvel meira efnilegir en Jones á sínum tíma.

Hann er núna á krossgötum, 21 árs og kemur undan síðasta tímabili með 27 leiki fyrir Liverpool. Tímabilið þar á undan spilaði hann enn meira og kom við sögu í 34 leikjum (meiðsla tímabil dauðans muniði).

Mason Mount var að spila í Championship með Derby þegar hann var tvítugur og sprakk svo út hjá Chelsea árið eftir. Phil Foden kom ekkert fullmótaður inn í City liðið, hann tók svipaða kúrfu og Jones hefur verið að gera, Foden er bara árinu eldri, eitthvað sem maður áttar sig ekki á nema fletta því upp. Jones er í raun búinn að gera magnaða hluti hjá Liverpool m.v. aldur og samkeppni í liðinu. Klopp hefur augljóslega trú á honum og bjóst líklega ekki við öðru en þeim óstöðugleika sem við sáum á síðasta tímabili, fullkomlega eðlilegt hjá tvítugum strák á þessu leveli. Það eru fáir á mála hjá félaginu sem stuðningsmenn vilja meira sjá slá almennilega í gegn.

Jones hefur klárlega sjálfstraust í að taka næsta skref sem leikmaður og gæti líklega ekki verið hjá betra þjálfarateymi. Eins vinnur það töluvert með honum að Liverpool virðist ekki ætla að bæta við sig miðjumanni í sumar heldur treysta frekar á aukið framlag frá leikmönnum eins og t.d. Jones og Elliott. Auðvitað viljum við öll 100m kaupin á Bellingham eða Touchameni en það getur vel verið að það hamli framgangi leikmanna eins og Jones/Elliott sem verða ekki stórstjörnur nema fá traust og tíma. Hann býr að 74 leikja leikreynslu nú þegar og þarf núna að fullnýta æfingatímabilið.

Calvin Ramsey – Það verður fróðlegt að sjá hvort Klopp ætli sér að breyta eitthvað aðeins hlutverki bakvarða samhliða töluverðum breytingum á framlínu liðsins. Hvort heldur sem er verður þessi staða áfram lykilhlutverk og meira en að segja það að læra á leikstíl félagsins. Fyrsta verk Ramsey er að sannfæra þjálfarateymið um að hann sé næsti besti kosturinn í stöðu hægri bakvarðar hjá félaginu.

Ox-Chamberlain – Hann er í nokkuð áþekkri stöðu og Joe Gomez nema hann er nú þegar búinn að fá samninginn sem Liverpool er að bjóða Gomez núna. Ox er líklega mesti farþeginn í leikmannahópi Liverpool eins og staðan er núna. Leikmaður með of góðan samning m.v. framlag til liðsins og eitthvað sem önnur lið vilja ekki taka áhættu á. Við höfum oft verið með mikið verri og dýrari farþega en þetta.

Hann býr núna að jákvæðu síðasta tímabili hvað meiðslavandræði varðar, hann er aðeins 29 ára (ágúst) og gæti alveg með smá heppni og trausti náð sér aftur í alvöru leikform þannig að hann nýtist Liverpool liðinu. Hann kom inn í liðið í janúar og fyrra og stóð sig nokkuð vel. Það var engu að síður nokkuð merkilegt í öllu því leikjaálagi sem var á Liverpool undir lokin að Klopp leitaði aldrei aftur til Ox eftir miðjan mars, leikmanns sem getur spilað bæði miðju og sem vængmaður. Hann komst varla í hóp.

Hann þarf líklega að eiga eitt besta æfingatímabil sögunnar til að spila sig inn í plön Klopp, eins og staðan er núna virðist hann vera áttundi kostur á miðjunni og svona sjötti kostur á vængnum.

Kadie Gordon – Það verður töluverður fókus á Gordon á undirbúningstímabilinu enda strákur sem hefur komið gríðarlega flott inn í aðalliðið. Hann er ennþá bara 17 ára og á ekki afmæli fyrr en í október. Það sem hefur breyst fyrir Gordon núna er að Origi og Minamino eru farnir frá félaginu. Þegar kemur að deildarbikarnum, fyrstu umferðum FA Cup og mögulega Meistaradeildinni gæti hann alveg komist að í plönum Klopp. Þar og á undirbúningstímabilinu þarf Gordon að sýna hvað í honum býr því það er erfitt fyrir 17 ára pjakk að keppa við Salah, Nunez, Diaz, Jota og Firmino um stærra hlutverk í sóknarleiknum.

Tyler Morton – Liverpool slapp sæmilega við meiðslavandræði á síðasta tímabili, þrátt fyrir það kom 18-19 ára Tyler Morton við sögu í níu leikjum, þar af þremur sem byrjunarliðsmaður. Hann er bókstaflega eini varnartengiliður félagsins á eftir Fabinho sem er líklega ástæðan fyrir því að Klopp og Ljinders hafa leita til hans frekar en að hann standi jafnöldrum sínum svona mikið framar. Hann er reyndar talin líklegri sem átta í framtíðinni en varnartengiliður.

Hann er aftar en Ox í goggunarröðinni sem miðjumaður en það er eitthvað að hjá 19 ára strák sem tekur ekki eitthvað út úr tímabili þar sem hann kom níu sinnum við sögu hjá einu besta liði í heimi. Um að gera hjá honum að sanna sig í sumar, sérstaklega meðan Klopp kaupir ekki nýjan miðjumann. Framtíð hans er líklega ekki á Anfield en hann gæti a.m.k. farið með nokkuð öflugt CV fái hann áfram tækifæri líkt og í fyrra.

Bobby Clark – Einn af nokkrum efnilegum sem kom á síðasta ári. Sonur Lee Clark og var jafnvel líkt við Paul Gascoigne hjá sínu fyrrum félagi. Engin verðlaun fyrir að giska á hvaða félag það var m.v. samlíkingu og hvers son hann er. Strákur sem gæti alveg farið að koma við sögu í bikarleikjunum og jafnvel núna á undirbúningstímabilinu, Strasbourg leikurinn sem dæmi?

Svo eigum við enn eftir að sjá Musialowski fá sénsinn, mest hype-aða leikmann akademíunnar. Þjóðverjinn Melkamu Frauendorf hefur verið að gera góða hluti og eins Spánverjinn Stefan Bajcetic sem kom frá Celta Vigo í fyrra. Hann er gríðarlegt efni. James Balagizi er farinn á láni í vetur en hann hefur verið nefndur í þessum hópi. Spurning hvort það sé ekki næsta skref líka hjá t.d. Musialowski?

9 Comments

  1. Er Kadie Gordon ekki meiddur? Fannst ég hafa leið um það einhvers staðar og er því ekki en mættur.

    1
    • Smá lúðakomment frá mér.

      Nafnið hans er stafað Kaide og borið fram KEID, ekki keidí.

      (ég veit, ég veit, fer bara inn í herbergi…)

      7
  2. Svo má bæta við að það eru allskonar baráttur um stöður

    Konate langar að verða númer 2 með Van Dijk og þarf að slá út Matip til þess.
    Tismikas setur klárlega stefnuna á að reyna að slá út Andy.
    Jota langar að festa sig inn sem einn af þremur fremstu sem byrjar oftast. Salah er með gefinst eitt pláss og mjög líklega verður Diaz oftast með en Jota þarf að berjast við Nunez og Bobby um að vera fremstur.

    4
  3. Fyndið hvað maður hreinlega áttaði sig ekki á hversu ungur Curtis Jones er…. hélt að hann væri amk 24 ára
    Vona innilega að hann nái að taka skref upp á þessu tímabili. Hefur sýnt af og til að það er mikið varið í hann en jafnframt einnig verið með frammistöður sem leikmaður í Bestu Deildinni myndi skammast sín fyrir.
    Langar að sjá hann sem traustan “squad” leikmann fyrir Liverpool. Alltaf xtra skemmtilegt að hafa local stráka í liðinu.

    9
  4. Finnst pre season talsvert mikilvægara f. leikmenn eins og Salah, Bobby og Keita heldur en Gordon, Morton og Clark (fyrstu menn á kajak umhverfis Grænland). Salah þarf að sýna að hann sé kominn aftur eftir Afcon, Bobby mögulega að berjast f. nýjum samningi auk Keita, sem líka þarf að sýna að hann sé starter á miðjunni.

    5
  5. Ég ætla að gerast svo kræfur að segja að Ox Chamberlain sé sá leikmaður sem á mest inni og ef dettur ekki ofan í meiðslagryfjuna og á gott undirbúningstímabil. Tel hann vera íþróttamann að guðs náð og hann hafi burði til að verða enn betri en hann var áður en hann meiddist.

    3
    • Ox er ekki að fara að gera neitt í vetur, meiðslin eru einfaldlega búin að taka of stóran toll af heilsunni.

      Hann hefur vissulega þetta “element of surprise”, skýtur og skorar utan af velli eða gerir eitthvað óvænt og tekur leikinn í sínar hendur. En það vinnur líka stundum á móti honum, þegar hann er of upptekinn af því að reyna að skipta sköpum og gleymir að spila leikinn með hinum.

      Það er ekkert lið að fara að kaupa Ox núna fyrir einhverja upphæð að ráði, og hann er líka með hátt kaup. Það er orðið langt síðan hann hefur lagt eitthvað verulega af mörkum og ég hugsa að Klopp lofi honum bara að klára samninginn sinn í vetur, með þökk fyrir góð kynni.

      5

Gullkastið – Salah skrifar undir nýjan samning

Gomez áfram en Neco farinn.