Upphitun: Liverpool vs. Real Madrid í CL Final í París!

Stærsti stórleikur ársins fer fram á morgun þegar að úrslit Meistaradeildar Evrópu fara fram á Stade de France í Saint-Denis í útjaðri París. Mun Liverpool landa sínum sjöunda Evrópumeistaratitli á þrennutímabili eða bætir Real Madrid sínum 14. titli við toppstöðuna í heimadeildinni?

Spáum í spilin og hitum upp!!!

Mótherjinn

Real Madrid eru nýkrýndir Spánarmeistarar eftir að hafa unnið La Liga á afar þægilegan og öruggan máta með 13 stiga forskot þegar að allt var upptalið í lok tímabilsins. Yfirburðirnir voru aðallega tilkomnir vegna djúprar tilvistarkreppu Barcelona og slakri titilvörn Atletico Madrid frekar en að hinir hvítklæddu hafi verið svo einstaklega öflugir þó að augljóslega hafi þeir verið sterkasta lið Spánar þennan veturinn með því að landa sínum 35. deildartitli.

Meira afrek þykir þó vera hvernig Real Madrid hafi tekist að komast alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með blöndu af eitursnjöllum öldungum og nýrri, yngri leikmönnum sem eru hluti af endurnýjun þeirra síðustu árin til að fylla skarð hinna brottförnu Cristiano Ronaldo, Sergio Ramos, Varane o.fl. Afrekið er mun merkilegra fyrir þá staðreynd að þeim tókst að slá út Englandsmeistara Man City, sitjandi Evrópumeistara Chelsea og fokdýra Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain en öll voru einvígin yfirmáta dramatískar markaveislur með tveimur framlengingum og samtals 25 mörkum í 6 leikjum.

Þeir sem horfðu á suma þessara leikja eru enn að jafna sig af sjóriðu eftir þá rússíbanareið sem í boði var og sér í lagi hið einstaka einstaklingsframtak sem lestarstjórinn Karim Benzema bauð uppá með tvær þrennur, samtals 9 mörk af 25 mörkum einvíganna og ávallt rak hann endahnútinn á öll einvígin með lokamarki sem rétt naumlega dugði til sigurs í hvert skipti. Liverpool verða að vonast til þess að franski framherjinn verði alls ekki í slíku banastuði annað kvöld en hann er augljóslega þeirra hættulegasti leikmaður ásamt ólíkindatólinu Vinícius Júnior.

Miðjan hjá Madridingum er hokin af reynslu og hæfileikum með Luka Modric (36 ára), Toni Kroos (32 ára) og Casemiro (30 ára) til að halda utan um leikstjórn, samspil og tæklingar en eitthvað virtist vera farið að hægjast á þeim þremenningum þegar að hasarinn var hvað mestur í seinni leiknum gegn Man City er öllum þremur var skipt útaf um miðjan seinni hálfleik. Hugsanlegt er að vangaveltur um úthald öldunganna gæti freistað Klopp til að keyra upp hraðann í leiknum í stíl við þýskættaðan heavy metal football og háhraða ensku úrvalsdeildarinnar og hagstætt veðurfar í París gæti hentað vel til slíkra launráða en veðurspáin er hóflegar 17 gráður og hálfskýjað er leikur hefst.

Talandi um gríðarlega mikla reynslu að þá er einn helsti styrkur þessa liðs Real Madrid að hinn viskufullu Carlo Ancelotti hefur stýrt liðinu með styrkri taktískri hendi og á sinn þekkta kumpánalega máta sem nær oft því besta út úr leikmönnum. Liverpool hefur gengið frekar illa í leikjum sínum gegn ítalska stjóranum sama hvaða liði hann hefur stýrt en samanlagt er hann með 50% vinningshlutfall í samtals 16 leikjum og hefur eingöngu lútið í gras í fimm skipti gegn rauðliðum. Í fjögur skipti hafa leikar skilið jafnir en þó ber vissulega að hafa í huga að eitt þeirra skipta telst hafa verið á Ataturk Stadium í Istanbul sælla minninga.

Að þessu sögðu að þá tel ég að Ancelotti muni stilla liði sínu upp á eftirfarandi hátt en David Alaba hefur ekki spilað í síðustu 6 leikjum og ólíklegt að hann byrji leikinni:

Líklegt byrjunarlið Real Madrid í leikskipulaginu 4-3-3

Liverpool

Rauði herinn er kominn í 10. skipti í úrslitaleik um Evrópumeistaratitilinn en það eru stærstu verðlaun í heiminum sem hægt er að spila um hjá félagsliði í fótbolta. Þar mætum við Realistum Madridarborgar í þriðja skipti á slíkum vettvangi en liðin hafa skipt með sér heiðrinum í fyrri tvö skiptin og við eigum harma að hefna frá Kænugarði árið 2018. Tilviljunin er sérlega skemmtileg að við séum að mæta sama liði í annað sinn í París og vonandi verður niðurstaðan jafn gleðileg núna og árið 1981.

Nálæg eða fjarlæg fortíð mun auðvitað litlu skipta þegar inn á völlinn er kominn en vissulega eru margir í liðinu sem hafa bæði upplifað tap og sigur síðustu árin og geta nýtt sér þá reynslu til góðra verka og innblásturs. Nokkrir nýliðar verða þó einnig að spreyta sig í fyrsta sinn í úrslitaleik CL en Luis Diaz og Ibrahima Konaté eru líklegir til að vera í byrjunarliðinu og hugsanlega koma Diogo Jota eða Naby Keita af bekknum.

Vegferð Liverpool í átt að úrslitunum hefur verið öllu þægilegri með viðureignum gegn Inter Milan, Benfica og Villareal en liðið er engu að síður alveg jafn verðugur finalisti fyrir vikið og klárlega eitt allra besta lið í Evrópu og heiminum. Fernan er ekki lengur fáanleg eftir niðurstöður síðustu helgar en þrælmögnuð þrenna er enn í boði og ég hef fulla trú á því að hungur leikmanna sé jafn vel enn meira í ljósi þeirrar niðurstöðu. Þrátt fyrir augljósa þreytu eftir þolraun tímabilsins að þá getum við vel við unað hafa valkost um langflesta menn leikfæra og okkar sterkasta byrjunarlið í boði frá fyrstu mínútu.

Miðað við þróun tímabilsins þar sem Luis Diaz hefur komið inn sem ferskur stormsveipur á vinstri vænginn að þá geri ég klárlega ráð fyrir að hann byrji í þeirri stöðu sem hann er að eigna sér og með því móti getur Mané spilað fremstur þar sem hann hefur endurfundið sitt markanef. Eina aðra alvöru vangaveltan um byrjunarliðsmann er hver fær að spila við hlið Virgil van Dijk í vörninni en þar er valið milli hins unga Konate eða reynslumikla Matip. Ég mun giska á að ungdómurinn hljóti atkvæðið að þessu sinni í von um að geta spilað af mjög háu tempó með afar háa varnarlínu.

Mín uppástunga að byrjunarliði er því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Tölfræði

  • Liverpool hafa unnið 10 af sínum 12 síðustu leikjum í Meistaradeildinni.
  • Liverpool hafa skorað 2 mörk eða fleiri í 11 af síðustu 12 leikjum sínum í Meistaradeildinni.
  • Liverpool og Real Madrid hafa spilað 8 keppnisleiki sín í milli en rauðliðar hafa unnið 3, hvítliðar 4 leiki með eitt jafntefli þeirra í milli.
  • Liverpool hefur ekki unnið Real Madrid í síðustu 5 leikjum milli liðanna.

Kloppvarpið

Jürgen Klopp mætti fyrir framan heimspressuna í París og fór yfir stöðu mála fyrir úrslitaleikinn og með góðri upphitun frá TAA og Robertson:

Klopp tjáði sig einnig fyrir nokkrum dögum áður en hann ferðaðist til Frakklands og þar höfðu Henderson og Salah einnig ýmislegt að segja:

Ancelotti mætti einnig fyrir framan sjónvarpsvélarnar og fór yfir víðan völl:

Spaks manns spádómur

Liverpool og púlarar heimsins hafa marga fjöruna sopið í úrslitaleikjum í gegnum tíðina og hafa einnig þambað nokkrar ausufyllir það sem af er þessu tímabili með mýmargar maraþonmínútur spilaðar og vítaspyrnum sparkað. Aðalatriðið í úrslitaleikjum er þó hið einfalda að spila til sigurs hvort sem það er gert með funheitri flugeldasýningu eða harðsóttum hörkusigri. Ekkert annað skiptir máli.

Ég hef fulla trú á að okkar menn muni mæta vel stemmdir og einbeittir til leiks en ef að þeim tekst að sýna sitt rétta andlit að þá er ég fullviss um að við höfum nóg til að sigra Spánarmeistarana. Að mínu mati þá mun Salah kvitta fyrir 2018 með marki, Mané mun halda áfram sinni sjóðheitu skorun og Virgil mun hamra inn skallamarki eftir hornspyrnu en auðvitað mun hinn óstöðvandi Karim Benzema setja sárabótarmark fyrir hvítliða. Lokaniðurstaða í mínum spádómstöflureikni er því 3-1 sigur fyrir Liverpool í líflegum lokaslag í París.

YNWA

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

10 Comments

  1. Hef eiginlega ekki áhyggjur af þessum leik hvað okkar menn varðar, bara að hugarfarið sé á réttum stað þá verður þetta ekkert mál. Engin hefnd fyrir síðasta leik, eða eithvað svoleiðis bull, spilum bara okkar leik, no problem. 3-0 fyrir okkar strákum

    YNWA

    3
  2. Eftir að hafa fylgst vel með fótbolta í yfir 30 ár þá veit maður að þetta verður ekki eitthvað auðveldur leikur.
    Fyrir því eru þrjár ástæður.

    1. Þetta er Real, jájá allt tal um að þeir séu ekki eins góðir og þeir voru en ef það er eitthvað lið í heiminum sem eru snillingar í úrslitaleikjum og kunna að klára þá, þá er það Real.

    2. Það er allt undir í svona leikjum og það hefur áhrif. Það er mjög sjaland sem lið spila sinn langbesta leik á tímabili í úrslitaleik. Sjáið sigurinn okkar 2019 gegn Tottenham. Líklega einn af okkar verri í meistaradeildinni það tímabil en það breytti því ekki að við sigrum. Sjáið líka 2018 Real sigurinn. Real liðið var búið að spila mjög vel en í úrslitaleiknum gegn okkur þá litu þeir illa úr þanngað til að Salah meiðist. Svo að ég á von á jöfnum leik.

    3. Við gerum okkur þetta stundum extra erfitt. Sjáið þegar við vorum t.d að sundruspila Chelsea á köflum í FA Cup en náðum ekki að skora. Sjáið þegar við fáum á okkur mörk að fyrra bragði gegn Southampton og Wolves í síðustu tveimur leikjunum í deild.
    Ég gæti alveg séð okkur eiga betri kafla en Real í morgun en ég er ekki alltaf viss um að það skilar sér í marki og maður finnst oft eins og það eigi eftir að stinga mann í bakið.

    Annars er spennustigið hægt og rólega að magnast og vonar maður að Klopp nái að hjálpa þeim að halda spennustiginu á góðum stað því að staðan er sú að ef bæði lið spila sinn besta leik þá vinnum við.

    YNWA – Ég hef trú á sigri á morgun. 2-1 Mane og Salah með mörkin(skrifað í skýin að Salah skorar, 7,9, 13)

    5
  3. Mig langar að hvetja fólk til þess, ef allt fer á besta veg á morgun, að fagna þessu almennilega og kíkja jafnvel á Spot eða einhvern álíka stað og gleðjast saman yfir þessu frábæra tímabili með öðru Liverpool fólki. Fannst skrítið hve margir fóru fljótt heim eftir eftir að bikarinn fór á loft 2019 því fyrir mér er fátt skemmtilegra en að fagna stórum titlum almennilega eftir leik 🙂

    5
  4. Vonandi ráðumst við á madridinga með látum strax í upphafi leiks og setjum mark eða mörk og náum yfirhöndinni held það sé leikplanið hjá Klopp….erum betra lið en Real i dag en það telur ekki alltaf í úrstlitaleikjum einsog sagan hefur sýnt…trúi samt að við vinnum þennan leik 4-1 og Mane framlengir við okkur um nokkur ár eftir leik

    4
  5. Gòðan dag kæru Liverpool bræður og systur. Er einhver hér vel að sér varðandi hvar er best að horfa á leikinn á Akureyri? Er td. einhver staður líklegur til að vera með útiskjá í blíðunni downtown? Annars bara að njòtið dagsins og áfram Liverpool.

    3
  6. Sæl og blessuð.

    Þetta verður rosalegt. Bæði hádramatík og úthugsuð skák að hætti stórmeistara. Reikna með að Courtois eigi stórleik og haldi þeim á floti fyrsta hálftímann undir orrahríð okkar manna. Tíminn mun vinna með hvítliðum, úthvíldir og þaulæfðir eftir tíðindalítil endalok á tímabili.

    Á móti kemur að ekkert ætti að koma okkur á óvart, t.d. varðandi Benzema. Reikna með að varnartröllin okkar gefi honum ekki smugu og Salah verður á eldi.

    Þetta verður mikil prófraun og ég ætla að fá að reikna með tæpum baráttusigri. En tæpt verður það.

    3
  7. Eins og svo margir aðrir spá, þá held ég að þetta verði drulluerfiður leikur. Ef okkar menn mæta rétt stemmdir til leiks þá held ég að fá lið í heiminum standist þeim snúning, en Real er líklega eitt þeirra liða sem gæti gert það. Þetta mun á endanum ráðast á dagsforminu. Ég vona og trúi að okkar menn standi uppi með pálmann og bikarinn í höndunum.

    3
  8. Sælir félagar

    Eins og Daníel segir þá verður þetta drulluerfitt. Þó vörn Real sé frekar slök þá er Courtois frekar góður þar fyrir aftan og á eftir að verða okkar mönnum erfiður. Ég vil ekki taka undir það að okkar lið sé sigurstranglegra í þessum leik. Real er gríðarsterkt og með stjóra sem kann öll trixin í bókinni. Liverpool er ef til vill sterkara á pappír og þjálfarinn er snillingur í að koma þessu liði í þann gír sem ekkert lið ræður við. Ég vona að það gerist og við vinnum þetta með einu marki. Spái 2 – 1 fyrir okkur í hunderfiðum og taktískum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  9. Hef verið að lesa spakra manna spádóma vítt og breitt. Sumir spá yfirburðum fyrir okkur, aðrir stál í stál. Engan hef ég heyrt segja að þetta verði léttara fyrir Real.

    Það er ekki vísindalegt að draga af því miklar ályktanir, en ég hef komist á að þetta verði eins og nálin bendir á miðað við að ofan. Aðeins auðveldara yfirferðar fyrir okkar lið og því vinnum við 2:1, þar sem Real skora undir lokin þegar þeir leggja allt í sölurnar að komast inní leikinn. Auðvitað getur margt farið úrskeiðis eins og í deildinni síðust leiki. En líkt og þar, þá ég held að jafnvel þó við lentum undir myndum við landa þessu. LFC er bara talsvert mikið betra lið á venjulegum degi beggja þessara liða.

    In Klopp we Trust

    3
  10. Er hreint út sagt drull stressaður fyrir þessum leik og auk þess staddur í Berlín og hef ekki fundið enn neinn stað sem sýnir leikinn og enda sjálfsagt með að horfa á hann í símanum einhversstaðar en hef trú á okkar mönnum og spái 2—1 í framlengdum leik , dijk og díaz með mörkin YNWA

Gullkastið – Liverpool búið að bursta tennurnar frá 2018

Úrslit CL – liðið gegn Real