Southampton á þriðjudaginn

Það er skammt stórra högga á milli, skjótt skipast veður í lofti og sjaldan er ein báran stök í tólf vindstigum. Möguleikinn á fjarkanum er ennþá galopinn eftir atburði helgarinnar, þar sem Liverpool tryggði sér bikar nr. 2 á leiktíðinn af X mörgum. Kannski verða þeir “bara” tveir, kannski þrír og kannski fjórir…? Ég veit ekki með ykkur, en ef einhver hefði boðið mér það í upphafi leiktíðar að Liverpool myndi vinna 2 bikara, þá hefði ég tekið því án þess að hugsa mig tvisvar um. En núna? Mikill vill meira!

Og áður en lengra er haldið: þetta mark er árs gamalt. Við þreytumst ekkert að rifja upp þessi tilþrif hjá Alisson:

Staðan í deildinni

Eftir að West Ham og City gerðu jafntefli (takk Fabianski og Bowen!), þá er allt galopið ennþá. Vissulega eru líkurnar ennþá City megin, enda liðið núna með 4ra stiga forskot á toppnum, en það er ennþá svigrúm fyrir meiri dramatík. Skoðum aðeins hvaða möguleikar eru í stöðunni. Það eru þrír leikir eftir hjá City og Liverpool:

Southampton – Liverpool (þriðjudaginn 17. maí)
City – Villa (sunnudaginn 22. maí)
Liverpool – Wolves (sunnudaginn 22. maí)

Ef City vinna leikinn gegn Villa verða þeir meistarar, og ef Liverpool tapar a.m.k. öðrum leiknum hefur það sömu áhrif. Þá er bara að sjá til þess að hvorugur þessara möguleika komi upp. Gefum okkur að City geri jafntefli við Villa. Þá þurfa Liverpool að vinna báða sína leiki, og vinna þá deildina með 92 stig, en City enda með 91. Allt annað en tveir sigrar hjá Liverpool í þessu tilfelli, og City verða meistarar, svo við látum það ekki gerast heldur. Þá eigum við eftir að skoða möguleikann sem kemur upp ef City tapar gegn Villa. Þá myndast sá möguleiki að Liverpool vinni annan leikinn og geri jafntefli í hinum, og þá ræðst þetta á markatölu. Þá enda bæði lið með 90 stig, en City er í dag með 7 mörk í plús. Ef þeir tapa gegn Villa þá fer sá munur að lágmarki niður í 6 mörk, og ef Liverpool gerir jafntefli í öðrum leiknum þá þarf að vinna hinn með a.m.k. 6 marka mun. Semsagt, ekki útilokað…

Hafandi farið yfir allt þetta, þár þarf Liverpool að klára sína leiki, og vona að Steven Gerrard, Philippe Coutinho og Danny Ings geri okkur greiða (og restin af Villa liðinu svosem líka). Við munum að Villa menn voru allt annað en auðunnir í leik liðanna sl. þriðjudag, og vonandi nær Captain Fantastic að gíra sína menn upp í ennþá meiri geðveiki gegn hinum ljósbláu. Mögulega spilar líka inn í að þarna mun Jack Grealish mæta sínum gömlu félögum, og vonandi spilar það enn meira inn í gírunina hjá Villa mönnum. En mögulega spilar líka inn í að Villa spilar leik í millitíðinni (á fimmtudaginn, gegn Burnley), á meðan City fær heila viku til að undirbúa sig. Að lokum spilar svo inn í að City hafa alveg átt það til að missa hausinn þegar á ögurstundu er komið (sjá: undanúrslitin gegn Real sem dæmi).

Ég hef rætt það áður að ég tel að það sé nákvæmlega ekkert skrifað í skýin af þessu tilefni. Jújú, Gerrard gæti alveg “unnið deildina fyrir Liverpool”, en hinn möguleikinn er líka alveg raunhæfur og jafnvel líklegri enda munu City menn spila á heimavelli og vita alveg hvaða áhrif það mun hafa ef þeir vinna ekki.

En munum hvað Klopp sagði.

From doubters to believers

Það væri auðvelt að gefa bara upp vonina strax, þá væri hægt að segja ef allt fer á versta veg: “æ ég vissi að svona færi og var ekkert að gera mér vonir um annað”. En svo má líka einfaldlega leyfa sér að halda í vonina. Það hefði verið einfalt að segja við sjálfan sig þegar Sadio Mané klikkaði á sínu víti í bikarúrslitaleiknum: “æ nú eiga Chelsea eftir að vinna þetta”. En það gerðist ekki. Það hefði líka verið hægt að segja á 89. mínútu í leik City og Real “jæja þetta er búið, City eiga eftir að hirða CL þetta árið”. En það gerðist ekki.

Never give up.

Tölum líka aðeins um “ef og hefði”. Það væri auðvelt að segja “ef Salah hefði ekki klikkað á vítinu gegn Leicester”. “Ef liðið hefði ekki fengið á sig 3 mörk gegn Brentford”. “Ef liðið hefði ekki misst niður tveggja marka forystu gegn Brighton”. Og svo framvegis. En áttum okkur á því að ef ein úrslit á tímalínunni breytast, þá getur það haft áhrif á önnur. Hefðu City fengið á sig tvö mörk gegn West Ham ef Liverpool hefði verið efst í töflunni á þeim tímapunkti? Hefðu City tapað stigum gegn Palace og Spurs eins og raunin varð ef Liverpool hefði verið nær þeim í stigum? Það er nefnilega engin leið að segja. Eins með atvikið þar sem Rodri fékk boltann í höndina gegn Everton. Kannski hefði sá leikur átt að fara öðruvísi. En það er bara engin leið að segja hvað slík breyting hefði haft að segja varðandi næstu leiki á eftir.

Svona er staðan, og miði er ennþá möguleiki. Vissulega getur Liverpool ekki stólað eingöngu á eigin frammistöðu, heldur þurfa aðrir hlutir að falla með okkar mönnum. En leyfum okkur að vona að þeir hlutir muni gera akkúrat það. Klopp og hans teymi þurfa svo bara að einbeita sér að einum leik í einu, og sá næsti er einmitt gegn Southampton.

Næstu andstæðingar

Það er nú tæpast hægt að segja að lið Southampton hafi að miklu að keppa komandi inn í þennan leik. Liðið er í 15. sæti með 40 stig, næsta lið fyrir neðan er Everton með 36 stig og næsta fyrir ofan er Newcastle með 43 stig. Öll þessi lið eiga 2 leiki eftir, þ.e. nú í miðri viku og svo á sunnudaginn. Líkurnar á því að Southampton endi í 16. eða 14. sæti eru ekki núll, en klárlega er líklegast að liðið sé búið að finna sinn stað í töflunni. Þá hefur gengi þeirra í síðustu leikjum ekki verið neitt sérstakt, vissulega unnu þeir Arsenal 1-0 fyrir mánuði síðan, en hafa síðan gert eitt jafntefli (gegn Brighton) og tapað þrem leikjum (gegn Burnley, Palace og Brentford). Það er James Ward-Prowse sem er þeirra hættulegastur, og er í efsta sæti yfir bæði skoruð mörk og stoðsendingar. Meiðslalistinn hjá þeim er ekki langur: Livramento er frá út tímabilið. Annars skulum við bara reikna með þeirra sterkasta liði, vonandi semí- búið að stimpla sig út og á leið í sólina.

Við gætum rifjað upp marga leiki þessara liða frá fyrri árum, en látum duga að rifja upp söng stuðningsmanna úr bikarleik liðanna í lok árs 2015 þar sem VVD og Mané voru ennþá að spila fyrir suðurstrandarliðið, og máttu þola 6-1 tap gegn Jordon Ibe og Brad Jones:

He’s winning six one
He’s winning six oooooone
Adam Lallana
He’s winning six one

Okkar menn

Það ætti nú ekki að hafa farið framhjá neinum að okkar menn voru alveg á síðustu bensíndropunum, jafnvel bara á gufunni í lok leiksins gegn Chelsea. Og í ljósi þess að möguleikinn í deildinni er enn til staðar, þá er ljóst að það er ekki hægt að hvíla allt aðalliðið og spila Cannonier, Balagizi, Musialowski og félögum (hefði samt verið alveg nógu gaman að sjá þá fá mínútur…) Það er því líklegt að liðið gegn dýrlingunum verði sambland af þeim úr aðalliðinu sem enn standa á löppunum, plús þeim leikmönnum sem minna hafa fengið að spila.

Fabinho er klárlega ennþá frá, Klopp staðfesti það á blaðamannafundinum. Salah og Virgil eru meiri spurningamerki, báðir sögðu þeir að þeir hefðu getað spilað áfram á laugardaginn en að Klopp hafi tekið gerræðislega ákvörðun um að taka þá af velli. Sem var hárrétt eftir á að hyggja, og ekki ólíklegt að þeir verði báðir sparaðir á morgun. Eins var Robbo tekinn út af með krampa, og því ekki ólíklegt að hann fá smá pásu. Ef liðið væri í svipuðum málum eins og í úrslitaleiknum 2018 gegn Madrid þar sem næsti sóknarmaður inn af bekknum var Solanke, og næsti miðjumaður var Woodburn, þá væri þetta kannski svolítið öðruvísi. En núna eru raunverulega til fínir fótboltamenn á bekknum og uppi í stúku sem geta komið inn í staðinn. Spurningin er einna helst hvað Klopp ætlar að grafa djúpt til að stilla upp byrjunarliði. Veðjum á þetta svona:

Alisson

Trent – Matip – Gomez – The Greek Scouser™

Ox – Milner – Jones

Jota – Firmino – Origi

Hér er ég t.d. ekki með markahæsta leikmann deildarbikar- og bikarkeppnanna: Takumi Minamino. Kannski fær hann sénsinn. Eins vantar Harvey Elliott, leikmaður sem var að byrja leiki í haust, meiddist svo illa og hefur verið lítt sjáanlegur síðan þá, rétt svo tekið einn leik með U23. Það kæmi ekki á óvart ef við sæjum þá a.m.k. á bekk, og útilokum bara alls ekkert að annar eða báðir byrji.

Þarna eru auðvitað allnokkur spurningamerki. Ox er t.d. búinn að vera í algjöru frosti síðustu vikur, hefur tæpast verið á bekk hvað þá meira. Trent er búinn að spila heilan heeeeeellllling síðustu vikur, og kannski er kominn tími á að gefa honum smá pásu. Mögulega fer þá Gomez í hægri bak, og þá líklegast Konate í miðvörðinn við hlið Matip, þrátt fyrir að hafa spilað allar 120 mínúturnar í síðasta leik. Miðjan er eitt stórt spurningamerki, en Milner spilaði ekki svo margar mínútur á laugardaginn, á meðan Keita var tekinn frekar seint af velli. Alls ekkert útilokað að hann byrji samt.

Klopp segist alltaf vera að horfa bara einn leik fram í tímann, en ég yrði samt mjög hissa ef hann sé ekki a.m.k. með leikinn í París aðeins í huga. Getum við hætt á að missa leikmenn í álagsmeiðsli á þessum tímapunkti? Hendo og Trent eru kannski mikilvægastir, og má vart á milli sjá hvor er mikilvægari. Trent í stuði er einfaldlega besti hægri bakvörður í heiminum í dag, og Hendo er fyrirliði liðsins, sá sem drifur menn áfram þegar á móti blæs. Það er bara mjög mikilvægt að þeir verði báðir til taks í París, þó svo Hendo gæti alveg þurft að færa sig á bekkinn ef NFT miðjan byrjar (Naby, Fab, Thiago).

En svo má liðið ekki verða of “cocky” gegn Southampton. Þetta er nefnilega ekki leikur sem er unninn fyrirfram. Í ljósi þess að það eru litlar líkur á að markamunurinn spili neina rullu úr þessu, þá verðum við bara mjög sátt með þessi 3 atriði: a) 3 stig, b) enginn meiðist, c) höldum hreinu.

Spái 0-2 sigri okkar manna, mörk frá Jones og Minamino sem kemur inn af bekknum til að tryggja stigin 3.

KOMA SVO!!!

11 Comments

 1. Þetta er klárlega leikur til að spila Gomez, Tsimikas, Milner, Origi og Minamino.
  Jú við verðum að vinna þennan leik en ég held að það sé betra að fá inn ferskar lappir.

  2
 2. Klàrlega verða einhverjir hvíldir í byrjun en èg minni à að þeir sem við eigum á bekknum eru engir aukvisar og ég treysti herr Klopp fullkomlega til að finna réttu blönduna eeeen southamton mun ekki gefa okkur neitt og spila fyrir stoltið. Koma svo gerum lokaleikina spennandi með sigri. Origi skorar sigurmarkið, skrifað í skýin

  2
 3. Glæsileg upphitun.

  Ef Chambo spilar ekki þennan leik þá verður hann í einhverju öðru liði næsta tímabil. Klopp reyndar hældi honum í einhverju viðtali, man ég svo vel má vera að hann fái að sprikla. Hefur bara verið svo ferlega óklínískur í þessum leikjum sínum.

  Væri gaman að sjá dúettinn Minamino/Origi aftur! Eðalmörk sem komu frá þeim gegn Norwich var það ekki?

  Hrikalega gaman að þetta skuli enn vera spennandi. Og að ár skuli vera liðið frá ráááándýru marki Alissons!

  7
  • Já ef það þyrfti að fórna einu og maður fengi að velja hvert atriðanna myndi detta út, þá væri það alltaf C. Auðvitað vill maður að Alisson vinni gullhanskana, hann á einn leik inni á Ederson en þeir eru jafnir með 20 í þessum skrifuðu orðum. En Alisson myndi ekki hugsa sig um tvisvar ef það væri hægt að velja t.d. um 0-0 úrslit hjá City í síðasta leik, og 2-1 sigur hjá Liverpool gegn Saints og Wolves, að þá tæki hann því fagnandi. Og við öll.

   2
 4. Sælir félagar

  Ég treysti Klopp til að stilla upp sigurliði í þessum leik. Á það ber að líta að það verður góð hvíld fram að lokaumnferðinni og því má ef til vill spila einhverjum sem þarf hvíld – amk. einhvern part af leiknum. En sem sagt sigur á minn disk. Mín spá 0 – 1

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 5. Ég held að Champo fái að byrja. En ég þori ekki að spá okkar mönnum sigri, það klikkar alltaf, þessvegna hef ég ekki gert tilraun til að spá í tvö ár.

 6. Af Tvitter:

  Been sent a video of the players arriving at Southampton.
  No Salah, Van Dijk, Trent or Mane seen leaving the team bus.

  Vinnum þennan leik sama hvernig við stillum upp.

 7. Klopp ekki sáttur við að þessi leikur sé í dag hefði viljað fá hann á Fimmtudag.

  Liðið okkar er komið á tæpasta var með endurheimtingu eftir 120 mín FA Cup leik og margir menn mjög tæpir. Það er ekkert annað í stöðunni en að taka bara sénsins og hvíla marga lykilmenn í dag.

  Það væri glatað að láta tæpa menn spila og lenda í fullt af meiðslum fyrir úrslitaleikinn í meistaradeild. Ég gæti alveg séð Klopp ákveða fyrir fram að skipta í hálfleik t.d láta Hendo byrja og taka 45 mín og svo Thiago 45 mín og Diaz 45 mín og svo Jota 45 mín.
  Við þurfum að treysta á kappa eins og Gomez, Tismikas, Milner, Jones og Origi í þessum leik.

  Þetta verður líklega jafn og spennandi leikur en ef 3 stig koma í hús og meiðslalistinn lengist ekki þá er ég sáttur.

  1
 8. Sæl og blessuð.

  Tökum bikarliðið á þetta:

  Alisson
  Gomez – Konate – Matip – Tsimikas
  Milner – Jones – Keita
  Minamino – Origi – Diaz

  Erum svo með grjótharðan bekk ef þörf krefur.

 9. Liðið:
  Alisson
  Gomez Matip Konaté Tsimikas
  Elliott Milner Jones
  Minamino Firmino Jota

Gullkastið – BIKARMEISTARAR

Byrjunarliðið gegn Southampton