Aston Villa á þriðjudag (Upphitun)

Hvað úrslit varðar þá var laugardagurinn slæmur og gærdagurinn ekki mikið betri. Stórsigur City gegn Newcastle þýðir það að jafnvel þó þeir tapi leik, þá er það ekki endilega nóg.

Það verður samt að setja hlutina í samhengi. Fyrir þessa helgi þá hafði Liverpool ekki fengið færri stig en City í deildinni síðan í umferðinni sem fór fram 2 janúar! 13 sigrar og 3 jafntefli í deildinni á árinu 2022 (jafnteflin eru úti gegn City og Chelsea og heima gegn Spurs) er virkilega gott “rönn” sem verður varla betra, sérstaklega ekki ef við höfum í huga að jafnteflin þrjú komu gegn Chelsea (ú), City (ú) og Spurs (h) ásamt því að við vorum án Keita, Mané og Salah lengi vel í janúar og höfum ekki fengið sama Salah til baka og var í liðinu fyrir áramót.

Hvað um það. Þetta er ekki búið og næsta verkefni er alls ekki auðvelt. Gerrard og félagar (sorry, ég bara varð) er verkefni vikunnar í leik sem verður að vinnast ef við ætlum að halda voninni lifandi í smá tíma í viðbót. Leikurinn er á Villa Park n.k. þriðjudag og hefjast leikar kl. 19.

Sagan og formið

Saga þessara liða spannar aftur til 1894 en þessi lið hafa leitt saman hesta sína í deildarleik í 53 skipti, Liverpool hefur unnið 30 þeirra (þar af 14 á útivelli) en Aston Villa 13 (þar af 7 á heimavelli). Síðasti leikur þessara liða  í deildinni á Villa Park er þó leikur sem við viljum gleyma sem fyrst, 7-2 tap í Október 2020 en tölfræðin er þó aðeins betri þegar við horfum á síðustu 5 deildarleiki þessara liða, þar hefur Liverpool vinningin með 4 sigrum gegn þessum eina hjá heimamönnum.

Liverpool er að koma inn í þennan leik á frábæru rönni. Liðið er ennþá taplaust á árinu með 13 sigra í síðustu 16 leikjum en hefur þó ekki náð “nema” 11 stigum af síðustu 15 eftir að hafa tapað stigum gegn City og Spurs. Aston Villa fór í gegnum erfiðan kafla í mars og apríl en eru nú taplausir í síðustu þremur leikjum og eru með 7 stig af síðustu 15 leikjum.

Það er kannski ekki sanngjarnt samanburður, nema þá þegar við berum bækur okkar saman við City, en Liverpool er framar í allri helstri tölfræði áður en það kemur að þessum leik. Liverpool er að skora 2,49 mörk að meðaltali í leik (Aston Villa 1,38) og fá á sig 0,66 mörk (Aston Villa 1,38) í þessum 35 leikjum, en liðið hefur haldið hreinu í 21 skipti (Aston Villa 11) sem verður að teljast helvíti gott.

Aston Villa

Eftir 2-1 tap gegn Wolves og skelfilegt 0-4 tap á heimavelli gegn Spurs náði liðið í stig gegn Leicester áður en Ings og Watkins tryggðu liðinu sigur gegn Norwich (2-0) og Burnley (1-3).

Á blaðamannafundinum fyrir leikinn staðfesti Gerrard að liðið yrði án Jacob Ramsey, Kortney Hause og Leon Bailey. Ekki beint nýjar fréttir og því ekki ólíklegt að Gerrard spili á svipuðu liði og vann um helgina. Helsta spurningin kannski hvort að Coutinho fái tækifæri á ný en líklega ekki, sé hann ekki spila Ings, Watkins og Coutinho í þessum leik. Ég ætla því að skjóta á óbreyt lið frá því á laugardag:

Martinez

Cash – Konsa – Mings – Digne

McGinn – Chambers – Luiz – Buendía

Watkins – Ings

 

Liverpool

Það verður forvitnilegt að sjá uppstillinguna fyrir þennan leik. Allir leikfærir eftir helgina og Firmino farinn að æfa aftur og ætti að vera í hóp eftir að hafa misst af síðustu 6 leikjum. Ég ætla að skjóta á að Klopp geri nokkrar breytingar frá því um helgina:

 • Matip og Tsimikas koma inn í liðið í stað Robertson (sem virkaði þreyttur um helgina og verið að gera sekur um sjaldséð misstök í síðustu tveimur leikjum) og Konate.
 • Fabinho og Thiago hafa spilað mikið upp á síðkastið, ég ætla að skjóta á að þeir fari báðir á bekkinn í þessum leik og Henderson fari í “sexuna” og Keita og Jones/Milner komi inn.
 • Salah var hvíldur gegn Newcastle, ég ætla því að skjóta á að Mané verður hvíldur í þetta skiptið og Jota komi inn. Liðið yrði þá svona:

Allison

TAA – Matip – Virgil – Tsimikas

Milner – Henderson – Keita

Salah – Jota – Diaz

Spá

Þetta verður erfitt. Síðustu tveir deildarleikir okkar á Villa Park hafa verið það, 7-2 niðurlægjandi tap á síðustu leiktíð en 1-2 sætur sigur árið þar á undan (sigurmark frá Mané í uppbótartíma). Ég hallast samt að því að við siglum þessu heim. Ég ætla ekki að ljúga, ég yrði smá stressaður með miðjuna í þessum leik ef spáin mín hér að ofan gengur eftir en Aston Villa hefur verið mikið yo-yo lið á þessari leiktíð, geta verið frábærir einn daginn (sérstaklega sóknarlega) en svo alveg skelfilegir vikuna þar á eftir.

Spái þessu 0-2 þar sem Jota og Diaz skora mörkin, City tapar svo stigum gegn Wolves og við verðum öll komin í West Ham búning næsta sunnudag.

Þar til næst.

 

YNWA

4 Comments

 1. „…höfum ekki fengið sama Salah til baka og var í liðinu fyrir áramót.” Alveg rétt. Og ekki gott.

  1
 2. Sælir félagar

  Það er kominn tími á að hvíla Salah í 60 mínútur. Fá hann svo ferskan ínn síðasta hálftímann og sjá hvort hann dettur ekki í gang þega leikmenn Villa eru farnir að þreytast smá. Diaz, Jota og Elliot frammi. og Gomes í hægri bak. En hvað veit ég sosum?

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 3. Einfalt, þurfum sigur í kvöld og við fáum sigur í kvöld, treysti á að herr Klopp blási okkar ástsæla liði baráttu anda í brjóst og setji eins ferska fætur í framlínuna og kostur er, reikna með erfiðum leik og spái því að framlínan verði vel skipuð með Origi á toppnum sem smellir inn eins og einu marki á 48 mínutu , Bobby kemur inná á 75 mínutu og smellir einum gullskalla í skeytin og siglir heim 3-0 sigri. Vona að Salah fái hvíld í að minnsta kosti 45-50 mínutur, hann hefði gott af því að horfa aðeins á varnarlínuna áður en hann verður settur inná til að átta sig á því hvar er best að ráðast til atlögu þegar hann verður settur inná spái því að hann setji eitt heppnismark á 68 mínutu.
  En megi allar vættir vera með okkur í kvöld svo spennan haldist eitthvað áfram .

  1
 4. Hef því miður ekki trú að við náum hagstæðum úrslitum í kvöld mrnn eru kommnir með hugann á Wembley og verða ekki á fullu í kvöld.

Liverpool 1 – 1 Tottenham

Gullkastið – Úrslitaleikir