Villarreal – Seinni hálfleikur (Upphitun)

Villarreal

Þann 6.júlí árið 2002 var skrifaður nýr kafli í sögu Villarreal CF er liðið spilaði sinn fyrsta leik í Evrópukeppni. Andstæðingarnir voru frá Íslandi rétt eins og í fyrsta Evrópuleik Liverpool 38 árum áður nema spánverjarnir mættu Emil Hallfreðs og félögum í FH, þarna var um að ræða Inter-Toto keppnina enda var þetta nokkrum árum áður en FH liðið tók yfir hér á landi. Pepe Reina stóð í marki Villarreal á þessum tíma en félagið hafði verið í neðri deildum Spánar allt til ársins 1998 að þeir komust fyrst upp í La Liga.

Stuðningsmenn Liverpool ættu engu að síður að fara mjög varlega í að vanmeta Gula Kafbátinn fyrir risaslaginn í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Þeir hafa spilað á þessu sviði áður og staðið sig vel og koma inn í Meistaradeildina á þessu tímabili sem ríkjandi Evrópudeildarmeistarar. Þjálfari liðsins er jafnframt með svarta beltið í Evrópuleikjum.

Villarreal borgin er í Valencia héraðinu, 50.000 manna svefnbær við austurströndina en nógu langt inn í landinu til að liggja ekki að sjó. Fyrir utan fótboltaliðið sem hefur verið að ná mögnuðum árangir undanfarin ár en borgin hvað helst þekkt fyrir að vera heimabær Francisco Tárrega, hann er maðurinn sem samdi Gran Vals sem seinna varð betur þekkt sem Nokia hringitónninn. Ekki að það sé við hann blessaðan að sakast hann var búinn að vera dauður í 90 ár þegar Finnarnir fóru að misnota lagið hans í óþolandi hringitón.

Villarreal gegn enskum liðum

Villareal fór í úrslit Inter-Toto 2002 en tapaði fyrir Malaga í úrslitum. Árið eftir fóru þeir aftur alla leið og sigruðu sem gaf þeim þáttökurétt í Evrópudeildinni. Velgengnin hélt áfram og sigruðu spánverjarnir þekktari andstæðinga eins og Galatarsaray, Roma og Celtic áður en Rafa Benitez og félagar í nágrannaliðinu Valencia í undanúrslitum varð of stór biti fyrir þá. Benitez skilaði auðvitað þeim titli í hús hjá Valencia og tók við Liverpool þá um sumarið.

Villarreal fór sömu leið árið eftir, byrjuðu í Inter-Toto keppninni og unnu hana eftir sigur á Atletico Madríd í úrslitum og komust þannig í Evrópudeildina þar sem þeir féllu úr leik í 8-liða úrslitum. Manuel Pellegrini var þarna tekin við liðinu en hann er eini erlendi stjóri Villarreal í sögu félagsins. Hann náði að byggja upp frábært lið sem var ekki aðeins gott í Evrópu heldur enduðu þeir tímabilið 2004/05 sem þriðja besta lið Spánar og komust þannig í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Vondu fréttirnar fyrir spánverjana voru að þeir dróust gegn öðru af tveimur ensku liðanna sem voru í pottinum, góðu fréttirnar fyrir þá voru hinsvegar að það reyndist vera Everton, ekki Liverpool sem var hitt liðið. Everton sem loksins loksins afrekaði að enda fyrir ofan Liverpool í deildinni og hafa af okkur Meistaradeildarsætið náði á endanum aldrei í Meistaradeildina. Sigur Liverpool í Istanbul skyggði örlítið á þetta mikla afrek Everton manna og var í kjölfarið bætt við Meistaradeildina enda ónýtt að hafa ekki ríkjandi meistara með. Þetta var litlu sætara en sjálfur sigurinn í Istanbúl.

Villarreal með Riquelme og Forlan fremsta í flokki vann Everton 2-1 í báðum leikjunum og vann svo riðilinn í kjölfarið sem innihélt Manchester United, Lille og Benfica. Þeir voru því þarna búnir að henda bæði Everton og United úr keppni, verst að Benfica sem endaði í öðru sæti dróst gegn Liverpool og vann það einvígi.

Rangers og Inter voru tekin úr keppni á mörkum skoruðum á útivelli og litla Villarreal því komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrstu tilraun. Andstæðingurinn í þriðja skipti enskt lið en mark frá Kolo Toure í fyrri hálfleik fyrri viðureignarinnar dugði á endanum til að fella þetta stórskemmtilega Villarreal lið. Arsenal komst í úrslitaleikinn í París þar sem þeir biðu á endanum lægri hlut.

Tímabilið 2007/2008 endaði Villarreal í öðru sæti sem er besti árangur í félagsins á Spáni og komst því aftur í Meistaradeildina. Aftur lentu þeir með United í riðli og töpuðu hvorugum leiknum. Arsenal í átta liða úrslitum varð á endanum of stór biti.

Pellegrini hætti með liðið þá um vorið eftir fimm bestu ár í sögu Villarreal. Liðið hélt engu að síður áfram að komast í Evrópukeppnirnar og náðu m.a. alla leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar tímabilið 2010/11 og náðu fjórða sæti í deildinni

Meistaradeildin árið eftir gekk ekki jafnvel enda í riðli með Man City, Bayern og Napoli, verra var þó að liðinu gekk ekkert heimafyrir og féll um vorið. Skipt var um stjóra og til að toppa hræðilegt ár lést nýji stjórinn á sínum fyrsta degi í starfi.

Nýr tími – Evrópumeistarar

Eftir eitt tímabil í næst efstu deild kom Villarreal upp með látum og náði 6.sæti tvö tímabil í röð og vann sér enn á ný þáttökurétt í Evrópu. Sevilla undir stjórn Unai Emery vann þá í 16-liða úrslitum árið 2015 og Liverpool vann þá árið eftir í undanúrslitum eftir að hafa tapað fyrri leiknum 1-0 á Spáni. Euroshopper útgáfan af Atletico Madríd var lýsingin sem var notuð um Villarreal liðið á þessum tíma í upphitun okkar hérna á kop.is.

Villareal er núna í vetur að spila sitt fjórtánda tímabil í alvöru Evrópukeppnum (Evrópudeild / Meistaradeild) og hafa sex sinnum náð a.m.k. í undanúrslit sem er gjörsamlega fáránlegur (43%) árangur. Þeir hafa á þessum stutta tíma sínum í Evrópu mætt ensku liðunum reglulega og jafnan gefið þeim alvöru leiki. Þar til á síðasta tímabili hafði þeim engu að síður aldrei tekist að fara alla leið og vinna.

Til að komast yfir þann erfiða hjalla réðu þeir Unai Emery sem stjóra liðsins árið 2020. Hlutabréfin í honum voru aðeins löskuð eftir fimm ár sem stjóri PSG og Arsenal en tók við fínu Villarreal liði sem hafði hafnað í fimmta sætið tímabilið á undan.

Riðlakeppnin var formsatriði gegn þremur liðum frá austur hluta álfunnar áður en RB Salzburg, Dynamo Kyiv og Dinamo Zargreb var rutt úr vegi í úrslitakeppninni. Guli kafbáturinn vann bæði heima og heiman í öllum leikjunum.

Örlögin veittu Unai Emery tækifæri á Arsenal í undanúrslitum, liðið sem taldi sig yfir hann hafið og auðvitað liðið sem hafði áður eyðilagt drauma Villarreal í Evrópu. Þeim var núna rutt úr vegi með 2-1 sigri á Spáni.

Manchester United beið í úrslitum og voru flestir búnir að bóka þar nokkuð þægilegan sigur Solskjaer og félaga. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og því blásið til vítaspyrnukeppni.

Þetta var leikurinn þar sem De Gea varði ekki eina spyrnu og klúðraði vítinu sínu. Villareal vann og kom því í Meistaradeildina á þessu tímabili sem ríkjandi Evrópudeildarmeistarar með Unai Emery sem stjóra.

Manchester United hafði því ekki unnið Villarreal í fimm tilraunum í Evrópu þar til þeir dróust enn á ný með þeim í riðli í Meistaradeildinni á þessi tímabili. Núna tókst rauðu djöflunum að vinna báða leikina en eins misheppnaðir og þeir eru þá eru spánverjarnir samt komnir lengra en þeir í keppninni.

Sigurinn í Evrópudeildinni og leið Villarreal í þennan undanúrslitaleik krefst gríðarlegrar virðingar og fullkomlega ljóst að Liverpool hefður alls ekkert efni á að vanmeta þennan andstæðing.

Juventus var nokkurnvegin komið áfram eftir 1-1 jafntefli á Spáni en var rassskellt á Ítalíu 0-3 þrátt fyrir að staðan hafi enn verið 0-0 á 78.mínútu.

FC Bayern hefur í allan vetur verið talað um sem eina liðið sem getur veitt Liverpool, City og Chelsea alvöru keppni í Meistaradeildinni. Kom heldur betur á daginn að andlátsfregnir spænsku liðanna voru ótímabærar þó fæstir hafi verið að meina Villarreal í þeirri jöfnu. Villarreal vann fyrri leikinn 1-0 og áttu alveg tækifæri til að bæta við í þeim leik þó heilt yfir hafi þjóðverjarnir verið sterkari. Sama var uppi á teningnum í seinni leiknum og jöfnunarmark Chukwueze á 88.mínútu dugði Villarreal.

Það eitt að slá út Bayern krefst þess að Liverpool mæti til leiks með fulla einbeitningu þrátt fyrir álag á öðrum vígsstöðvum. Það að þeir rústuðu Juventus úti sýnir enn frekar hvað býr í þessu liði. Á síðasta tímabili vann ekkert af United, Arsenal eða Chelsea þetta lið í venjulegum leiktíma.

Unai Emery

Við höfum lent í honum áður, bölvuðum. Hann var á sínu síðasta tímabili sem stjóri Sevilla tímabilið 2015/16 þegar þeir unnu lurkum lamið lið Liverpool í úrslitum Evrópudeildarinnar. Það var fyrsta tímabil Jurgen Klopp sem stjóri Liverpool og þó nokkuð breyst hjá báðum síðan þá.

Emery meiddist illa á hné 33 ára gamall, hann var leikmaður Lorca í þriðju deildinni og var í kjölfarið ráðinn stjóri félagsins. Hann byrjaði með látum og fór með liðið upp um deild í fyrsta skipti í sögu félagsins og var rétt búinn að koma þeim upp í La Liga árið eftir.

Hann var í kjölfarið ráðin til Almería sem er öllu stærra félag og kom þeim einnig upp um deild í fyrstu tilraun, þeirra fyrsta heimsókn í La Liga þar sem þeir enduðu í efri helmingi deildarinnar.

Þetta flugstart dugði til að sannfæra Valencia sumarið 2008 þar sem hann tók við af Ronald Koeman. Þar tók hann við stóru félagi í miklum fjárhagsvandræðum en tókst að stýra þeim í 6.sæti og ná þar með Evrópudeildarsæti. David Silva og David Villa voru seldir þá um sumarið en þrátt fyrir það náði Emery að skila Valencia í þriðja sæti þrjú tímabil í röð á Spáni og komast á lokatímabilinu í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa fallið snemma úr leik í Meistaradeildinni.

Næsta verkefni var Spartak Moskva þar sem hann entist í hálft ár, fyrsta þjálfarastarfið sem gekki ekki alveg upp hjá honum. Hann fór því aftur heim til Spánar og nú til Sevilla þar sem hann tók við í janúar 2013. Liðið endaði í 9.sæti í deildinni en komst í Evrópudeildina.

Þar með var Emery kominn á bragðið og fór hann alla leið með Sevilla í þeirri keppni árið eftir og vann eftir vítaspyrnukeppni gegn Benfica. Sevilla vann þessa keppni einnig árið 2005 og 2006 og var því þarna að binda enda á sjö ára bið. Sevilla lék þetta eftir árið eftir og vann núna Úkraínska liðið Dnipro Dnipropetrovsk í úrslitum. Ekkert lið hafði því unnið þessa keppni oftar en Sevilla.

Liverpool var svo fórnarlambið í þriðja úrslitaleik Sevilla á jafn mörgum árum og hlutabréfin í Unai Emery í hæstu hæðum í kjölfarið. Franska liðið Katar FC í París hafði samband og vildi kaupa eitthvað af þessum árangri hans í Evrópu. Það tókst ekki betur en svo að hann féll úr leik í Meistaradeildinni í 16-liða úrslitum bæði árin. Fyrst eftir 4-0 sigur á Barcelona á Parc des Princes þar sem þeim tókst að tapa 6-1 í seinni leiknum. Árið eftir var Real Madríd of stór biti en þeir unnu keppnina að lokum.

Hann hætti því hjá PSG og tók við Arsenal sumarið 2018, fyrsti stjóri félagsins eftir að Arsene Wenger sagði skilið við félagið, good ebening.

Þar fékk hann aftur lið sem var nógu lélegt til að keppa í Evrópudeildinni og fór að sjálfsögðu með þá beinustu leið í úrslit. Forráðamenn UEFA voru mjög blankir í aðdraganda keppninnar og seldu úrslitaleikinn því til Baku í Azerbaijan sem var auðvitað fullkomlega eðlilegur vettvangur tveggja enskra liða frá London. Chelsea var miklu sterkari aðilinn í þeim leik og vann á endanum 4-1.

Emery var svo rekinn frá Arsenal í nóvember 2019 eftir tap í Evrópudeildinni gegn Frankfurt. Hann hefur sýnt það síðan að hann var líklega ekki vandamálið hjá Arsenal en tók hinsvegar við félaginu á kolröngum tíma.

Hann var því búinn að taka sér gott frí áður en hann tók við Villareal sumarið 2020 og fór eins og áður segir beinustu leið með þá í Úrslit Evrópudeildarinnar og vann keppnina í fjórða skipti.

Núna er hann kominn með liðið í undanúrslit Meistaradeildarinnar, loksins kominn á stóra sviðið sem hann hefur lengi sýnt að hann eigi heima á. Ef fráskilin er tími hans hjá PSG er hann búin að sigra 22(!!!) einvígi í Evrópukeppnum í röð. Þetta hefur skilað honum í fimm úrslita einvígi, þar hefur hann unnið fjórum sinnum.

Étienne Capoue: “Unai Emery is a football encyclopedia. It’s a shame that he didn’t succeed in the biggest clubs where he went. If all the players were as invested as him, he would be more recognised. With him, I learned football… at 33 years old!”

Þó okkar menn hafi haft algjöra yfirburði í fyrsta leiknum vitum við betur en flestir stuðningsmenn að sigur í fyrri leik í Evrópu er ekki allt. Liverpool er að fara á heimavöll sem hefur sú sérstöðu að taka bókstaflega hálfa borg sína í sæti, þó hann sé ekki stærri en að taka 25.000 manns í sæti. Við getum alveg gert ráð fyrir að völlurinn verði hoppandi brjálaður og Unai Emery búin að liggja yfir leiknum á Anfield í leit að lausnum við þeim vandamálum sem hrjáðu lið hans þar.

Byrjunarlið og spá

Klopp hvíldi menn hressilega gegn Newcastle, mörgum fantasy spilurum til gremju, og við getum gert ráð fyrir að Salah, Trent, Fabinho, Konate og Thiago komi aftur inn í liðið. Ég sé Klopp ekki hvílda Andy Robertson og Hendo, finnst í raun bara spurninga hvort Jota komi aftur inn í liðið fyrir Diaz. En við vitum að Klopp er íhaldsamur í svona leikjum, heldur sig við það sem hann veit að virkar. Spái liðinu svona:

 

En hvernig fer þetta? Þetta verður alveg ofboðslega erfiður leikur. Spái að Villarreal komist yfir snemma leiks og okkar menn þurfi að standa af sér algjöran storm frá þeim, en að lokum segja gæðin sitt og Salah jafnar, leikar enda 1-1 og við förum aftur til Parísar!

 

7 Comments

 1. Það er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir Villarreal en þeir hafa heldur betur unnið sér hana inn.

  Þeir eru að spila svipan leikstíll og A.Madrid og Everton gerðu gegn okkur en án þess að vera algjörir skíthælar við það. Þeir vita að þeira von er að verjast vel og þurfa að nýta þessi tækifæri sem þeir fá en það er það sem kom þeim í gegnum Juventus og Bayern.

  Þeir geta alveg spilað sóknarknattspyrnu en þeir spila allt öðruvísi í deildinni heima heldur en í meistaradeild(tifo gengið tók það fyrir) og má því líklega reikna með þeim aðeins sókndjarfari í þessum leik(eins og í spænsku deildinni).

  Liverpool þurfa að vera tilbúnir í smá læti í byrjun og vill maður bara sjá fagmannlega framistöðu á morgun. Þar sem liðið heldur bolta vel, sækir á andstæðingin en samt vitandi að við séum 2-0 yfir og þurfum ekki að setja allt kapp á að skora heldur er skynseminn að passa að þeir ná ekki að keyra á okkur ekki svo slæm hugmynd.

  Ég reikna með sama liði og Einar spáði þar sem Hendo byrjar á undan Keita. Ástæðan er auðvita að hann er vinnuhestur sem skilar varnarvinnu 100% og heldur öllum öðrum á tánum á meðan að Keita er betri sóknarlega.

  Ég spái skemmtilegum leik sem við sigrum 1-2 Diaz og Salah með mörkin. Að komast í úrslit meistaradeildar er alls ekki sjálfsagt þótt að við höfum verið duglegir að koma okkur þangað.

  5
  • Er eiginlega ekki sammála þér að fótbolti þeirra hafi verið eithvað leiðinlegur, þvert á móti. Mér fannst þeir heilt yfir bara sanngjarnir í sínum leik, vitandi að þeir eru að mæta besta liði heims á heimavelli. Þessi leikur núna verður öðruvísi, þeir verða að sækja, en vitandi að það er okkar vilji að svo sé. Spái 1-2, alveg sama hver skorar svo lengi sam Salah setji eitt.

   YNWA

 2. Sælir Meistarar

  Hvar er mögulegt að kaupa miða á úrslitaleikinn í París. Langar að taka son minn með mér, á að vera fermingargjöf.

  2
  • Ég held að þú fáir ekki miða á þennan leik nema fyrir fleiri hundruð þúsund því miður.
   Mig minnir að Liverpool fái um 30.000 miða á leikinn þ.e.a.s ef við komumst þangað.

 3. Ætli við verðum ekki að stylla upp okkar sterkasta liði vegna þess að þessi leikur verður að vinnast og Man City er mjög líklega ekki að fara að misstíga sig í deildinni.

  Að öllum líkindum eru einvígin á milli City og Liverpool að komast í sögubækurnar sem eitthvað sérstakt fyrirbæri. .Ég hef aldrei áður séð svona rosalegt tveggja risa baráttu og þá sérstaklega í ár. Þau mætast nánast í einvgi um alla titla. Í deild. í bikar og í meistaradeildinni.b

  1

Gullkastið – Beint frá Spáni

Liðið gegn Villareal