Lokaleikur kvennaliðsins – Lewes heimsóttar

Það er komið að lokaleiknum hjá stelpunum okkar, og vonandi síðasta leik liðsins í næstefstu deild í laaaaaaangan tíma. Andstæðingarnir eru Lewes, og það er leikið á þeirra heimavelli, leikurinn hefst núna kl. 13:00 að íslenskum tíma.

Matt Beard leyfir sér að spila á liði sem er nær því að vera B-lið, jafnvel þó svo það séu nú nokkrar þarna sem voru að byrja mikilvægustu leikina í vetur:

Clarke

Robe – Silcock – Campbell

Parry – Kearns – Holland – Hinds

Humphrey – Hodson – Kiernan

Bekkur: Laws, Wardlaw, Fahey, Matthews, Bailey, Furness, Lawley, Stengel, Daniels

Það er Taylor Hinds sem ber fyrirliðabandið í dag, og ungliðarnir Lucy Parry og Hannah Silcock (eða ættum við að kalla hana Virgil van Silcock?) sem byrja, ásamt því að Charlotte Clarke er í marki. Það hefði verið gaman að sjá ungliðann Evie Smith a.m.k. á bekk, en hún hefur æft með liðinu í allan vetur. Hver veit nema við sjáum hana í haust.

Að litlu er að keppa fyrir bæði lið, Lewes er í 8. sæti með 26 stig og geta ekki náð 7. sæti. Þær munu ekki heldur hrapa niður í 9. sætið nema þær tapi með 6 marka mun og Sunderland vinni sinn leik. Nú og svo eru stelpurnar okkar með toppsætið tryggt, en það vissum við fyrir…

Sem stendur hefur ekki dúkkað upp neitt streymi á leikinn, en við látum vita ef slíkt finnst. Færslan verður svo uppfærð síðar í dag með úrslitum og lokastöðu í deildinni.


Leik lokið með 2-1 sigri Lewes, en okkur er bara alveg sama og Liverpool endar leiktíðina á toppi deildarinnar með 11 stiga forystu á næsta lið. Liðið tapaði því fyrsta og síðasta leik tímabilsins, en var taplaust í 20 leikjum þar á milli, og það gerði gæfumuninn.

Nú er bara að sjá hvaða breytingar verða gerðar á hópnum í sumar, en annars er það bara efsta deild í haust!

Newcastle 0-1 Liverpool

Klopp til 2026