Liverpool – Everton 2-0

Það var nágrannaslagur í dag þegar Everton kom í heimsókn. Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Everton var fyrir leikinn í fallsæti á meðan að okkar menn eru að berjast á toppnum þar sem töpuð stig þýða líklega töpuð barátta um titilinn í ár. Man utd voru með útsölu í síðasta leik en það var vitað að Everton ætlaði að loka búðinni og setti vörutalningarskilti fyrir framan markið.

Fyrri hálfleikur
Everton settu sér greinilega það markmið að halda hreinu en þeir stilltu upp í 11 manna varnarpakka frá upphafsflauti. Tæknilega mætti segja að þetta væri 4-5-1 en Richarlison sóknarmaður Everton var meira rétt fyrir framan eigin vítateig en okkar.
Þetta var án efa einn leiðinlegasti hálfleikur Liverpool á tímabilinu. Liðið var 87% með boltan en sköpuðu lítið sem ekki neitt fyrir utan kannski eitt skot frá Jota á 31 mín.
Það helsta sem gerðist var að Everton menn voru að tefja frá fyrstu mín. Pickford gaf sér langan tíma í allt, Richarlison var meira liggjandi en standandi og sauð smá upp úr þegar Liverpool menn neituðu að sparka boltanum út af undir lokhálfleiks þegar Richarlison lá í en eitt skiptið.
Besta færi hálfleiksins var samt líklega frá Everton þegar Doucouré fékk pláss til að keyra í gegn en Matip þrengdi að honum og hann skaut fram hjá markinu á 34.mín.

Sóknarleikur Liverpool var dálítið einhæfur en Thiago átti að búa eitthvað til eða það var reynt að senda á Salah sem átti að taka sinn mann á en það var lítið að frétta hjá okkur og við fundum engan lausnir á þessum varnarmúr.

Þessi orð eru skrifuð í hálfleik og þurfa okkar menn að gera miklu betur í þeim síðari. Gæti þetta verið Origi hetju leikur? því að við fáum fáum fullt af tækifærum um að senda inn í teig eða gæti Diaz komið inn og hrist aðeins upp í þessu en mikil hraði mun líklega ekki nýtast mikið því að það er ekkert pláss til að hlaupa í. 45 mín eftir og verður spennandi að sjá hvort að strákarnir ná að finna lausnir.

Síðari hálfleikur
Okkar menn mættu af krafti í síðari hálfleik. Boltinn gekk miklu hraðar á milli manna og tempóið var aukið.
Everton menn vildu víti á 52 mín þegar Matip og Gordon áttust við inn í teig en Gordon var búinn með alla sína sénsa í dýfingum og fékk ekkert fyrir sinn snúð en þetta var þó vafa atriði í þetta skipti.
Þrátt fyrir miklan sóknarþungi þá vorum við ekki mikið að opna þá en maður sá að við myndum fá færi( annað en í fyrri hálfleik). Klopp ákvað að setja inn á Origi/Diaz fyrir Mane/Keita en Origi er stór og sterkur og skýla boltanum sem átti heldur betur eftir að reynast okkur mikilvægt skömmu síðar.
Á 62 mín átti Salah sendingu á Origi inn í teig sem náði að skýla boltanum og sendi aftur á Salah sem sendi boltann á fjær þar sem Andy Robertson kom og skallaði í markið. Virkilega vel gert og gríðarlega mikilvægt að fá þetta mark snemma í síðari. 1-0
Núna þurftu Everton menn að færa sig aðeins framar á meðan að við gátum leikið okkur að halda bolta og sækja þegar tækifæri gafst. Á 66 mín átti Salah gott færi en skaut yfir markið og skömmu síðar skallaði Origi fram hjá markinu.
Everton menn voru ekki tilbúnir að gefast upp og Gray átti skot rétt fram hjá á 72 mín og Andy þurfti að bjarga á síðustu stundu á 79 mín eftir hættulega fyrirgjöf frá gestunum.
Við vorum samt miklu betri og Thiago átti skot á 79 mín sem Pickford varði vel en á 85 mín kláraðist leikurinn.
Henderson átti sendingu á fjær sem Diaz klippti viðstöðulaust í átt að marki og var það svo engin annar en Origi sem skallaði boltan í markið en þessi spyrna frá Diaz varð það að frábæri sendingu. 2-0
Richarlison var svo stálheppinn að sleppa með gult spjald í restina eftir að hafa sparkað í hné á Henderson.

Síðari hálfleikur var miklu betri og var greinilegt að Klopp lét menn heyra það í hálfleik.

Frammistaða leikmanna
Lengi vel var ekkert að frétta hjá okkar mönnum. Vörnin hafði lítið að gera á meðan að sóknarleikurinn var hægur og fyrirsjáanlegur. Bestu menn liðsins í dag voru líklega Thiago á miðsvæðinu sem var að stjórna spilinu mjög vel í síðari, Andy sem skoraði mikilvægt mark og varðist vel og væri venjulega valinn maður leiksins en ég ætla að velja Origi mann leiksins því að líklega er þetta síðasta tækifæri til þess. Hann kom sterkur inn átti þátt í fyrsta markinu og skoraði það síðara og það er svo auðveld að elska þennan strák.
Það átti engin slæman leik en maður hefur séð Matip verjast betur maður á mann og Trent var í smá vandræðum með Gordon sem var oft að stinga sér bak við hann en Trent var samt í lykilhlutverki sóknarlega.

Niðurstaðan
Þetta var erfiður leikur gegn Everton liði sem gaf allt í leikinn. Það var samt ekkert stress og við héldum bara áfram þangað til að við skoruðum og þá fannst manni þetta nánast vera komið. Við erum miklu betra lið en Everton og þurfti að beita leiktöfum, 11 manna varnarpakka og fantabrögðum til að halda sér í þessum leik en Fowler sé lof þá gekk það ekki eftir. Það segir mikið um leikinn að Thiago var með 120 sendingar í þessum leik en Everton var með 90.
Það má segja að skiptingar Klopp heppnuðust fullkomlega enda veit Klopp alveg hvað hann er að gera og ef maður spilar við Everton þá setur maður Origi inn á völlinn ef okkur vantar mörk.
Við erum en þá í bullandi toppbaráttu og það er ekkert leiðinlegt að skilja Everton eftir í fallsætinu.

Framundan
Næst er það bara Villarreal á miðvikudaginn áður en við mætum einu heitasta liði deildarinar Newcastle í hádeginu á laugardaginn.

YNWA – Ekki leiðinlegt að sigra Man Utd og Everton í sömu viku.

35 Comments

 1. Origi klárlega maður leiksins og Alisson með tilþrif leiksins þegar hann gerði grín að Pickford fyrir framan fullan Anfield.

  32
  • Ég og konan grenjuðum úr hlátri þegar Alisson gerði þetta. Og svo myndavélaskiptingin yfir á Pickford. Gjörsamlega æðistlegt móment!!

   18
 2. Var ekki alveg viss hvort ég vildi frekar að Everton eða Burnley færi niður. Er 100% viss eftir þennan leik.

  32
 3. Skiptingar hjá Klopp voru frábærar þvílík innkoma með Diaz og Origi !
  Robbo var svo sturlaður í seinni hálfleik algjörlega magnaður.
  Vonandi falla neverton

  16
 4. Besta atriði leiksins (fyrir utan mörkin tvö) var að sjálfsögðu þessi leikþáttur hjá Alisson í lokin.

  8 leikir eftir (kannski 9?), og næstu 6 eru ansi óárennilegir: Villareal, Newcastle, Villareal, Spurs, Villa, Chelsea (úrslit FA). Almennt myndi maður kannski segja að Villa leikurinn sé síst óárennilegur, en með Gerrard við stjórnvölinn þar á bæ þá veit maður ekkert við hverju má búast. Ég held að Gerrard vilji allra síst tapa leik gegn Liverpool eða leggja leikinn þannig upp að sínir menn taki honum létt. Svo eru Newcastle á ansi góðu “rönni” síðan um áramótin, og Spurs eru alltaf erfiðir. Vill til að sá leikur er á Anfield.

  Hvað varðar leikjaprógrammið hjá City, þá vonar maður að Leeds finni almennilega fyrir því hvað þeir eru nálægt botnbaráttunni. Þar fyrir utan eiga þeir leiki gegn Newcastle og West Ham sem gætu báðir orðið þeim erfiðir, veltur aðeins á því í hvernig hugarástandi West Ham verða í tengslum við Evrópudeildina. Mér finnst einhvernveginn ólíklegast að City tapi stigum á móti Villa, jafnvel þó svo að ég veit að Gerrard og Coutinho myndi ekkert leiðast að hirða af þeim stig. En yfirleitt þegar er talað um að eitthvað sé skrifað í skýin þá er það einmitt alls ekki skrifað í skýin, svo ég á ekki von á hjálp frá Villa í toppbaráttunni í þetta skiptið.

  10
  • West Ham að hvíla fyrir Evrópuleikina og ofaná það eru alveg miðvarðalausir, meiðsli og leikbann, þeir eru ekki að fara að taka neitt af City, frekar en önnur lið sem þeir eiga eftir að mæta, því miður.

 5. Leiðinlegra lið er ekki til og þessi framherji hjá þeim (brassinn) mikið ofboðslega fer hann í pirrunar á mér. Reyndar er það mitt vandamál ekki hans. Lampard sagði fyrir leik að þeir yrðu að fá stig út úr leiknum og þá vissi ég hvernig þeir ætluðu að leggja leikinn upp, sem varð raunin. Flott 3 stig og ég fór í göngutúr til að ná mér niður. Tæplega 3 ár síðan pípulögnin var löguð í kring um hjartað og skipt um hjartaloku og þessi leikur reyndi virkilega á, en ég hef það bara gott eftir göngutúrinn.

  32
  • Þú ættir að láta lækninn vita að þú hafir álagsprófað viðgerðina með jákvæðri niðurstöðu!

   18
 6. Hefur þú íhugað þér framtíð í framsetningu áhrýnisorða? Þetta alla vega virkaði vel!

  “Þessi orð eru skrifuð í hálfleik og þurfa okkar menn að gera miklu betur í þeim síðari. Gæti þetta verið Origi hetju leikur? því að við fáum fáum fullt af tækifærum um að senda inn í teig eða gæti Diaz komið inn og hrist aðeins upp í þessu en mikil hraði mun líklega ekki nýtast mikið því að það er ekkert pláss til að hlaupa í.”

  8
 7. þetta var eithvað svo Origistmark hjá Origi að það hálfa er nóg, hversu oft hefur strákurinn skorað mörk í þessum dúr? Flottur sigur sem vonandi hjálpar til þess að koma þessu liði niður.

  YNWA

  5
 8. Þetta var æðislegt. Alvöru prófraun sem okkar sveinar stóðust að lokum.

  Burt séð frá því hversu leiðinlegt það var á að horfa, þá var auðvitað eina vitið hjá Everton mönnum að spila leikinn nákvæmlega eins og þeir gerðu. Það hefur sýnt sig að þessi leið gefur mestar líkur á að ná stigum á Anfield, leggja rútunni, drepa niður tempó, vera með almenn leiðindi, tefja… tefja… tefja… svo BAMM! Boltinn inn fyrir háu varnarlínuna og snöggi gaurinn tekur sprett.

  Því miður fyrir okkur þá voru Everton að spila þessa útgáfu af knattspyrnu fullkomlega fyrsta klukkutímann. Okkar menn voru ráðalausir og ýmist pirraðir eða bálreiðir. Þessi taktík hafði ekki bara áhrif á hausinn á okkar leikmönnum, heldur á stuðningsmönnunum líka. Stemningin var engin. Mission accomplished. Þar að auki var snöggi gaurinn þeirra Gordon að gera sig helvíti líklegan. Ef ekki væri fyrir þessa aumkunarverðu dýfu hans inni í teig, þá væri ég að lýsa yfir hrifningu minni á þeim gutta hér og nú.

  EN… Klopp brást hárrétt við. Um leið og Origi stóð upp af varamannabekknum vöknuðu stuðningsmenn og tóku að chanta nafnið hans. Aftur komin trú á verkefnið. Þar að auki var Origi hárrétt útspil taktískt séð því hann bauð upp á nýjan valmöguleika í sóknarleik. Með bakið í markið inni í teig andstæðingana og a.m.k. einn miðvörð límdan við sig, tilbúinn í þríhyrningsspil. Og svo annað crucial atriði. Alveg sama hvað þeir bláklæddu reyna, þeir munu aldrei komast inn í hausinn á Origi. Allir aðrir geta verið brjálaðir, en Origi verður áfram suuultuslakur.

  Var viss um að þetta væri góð hugmynd hjá Klopp, en bjóst ekki við að hún myndi skila árangri svo fljótt. Eftirleikurinn var svo bara formsatriði.

  Virkilega sáttur. Menn leiksins: Klopp fyrir skiptinguna, minn maður Robertson fyrir markið, endalaus fkn hlaup, og að koma í veg fyrir jöfnunarmark, Origi fyrir að vera legend, og Alisson fyrir að troða sokknum ofan í Pickford.

  19
 9. Það sem Diaz gleður augað. Hann gæti átt eftir að verða besti leikmaður í heimi! Svo held ég að sé óráð að selja Origi. Hann er bestur á elleftu stund með stáltaugar!

  6
  • Þetta er víst ekki spurning um að hann verði seldur, heldur er samningurinn hans að renna út. Ekki það að ég myndi gjarnan vilja framlengja við kappann…

   4
   • Hefið gaman af að vita hvað eru margar mínútur milli marka og nánast alltaf í leikjum þegar mest liggur við.

    2
   • Á þessu tímabili er Origi með mark og stoðsendingu á 62 mín fresti (mark á 94 mín fresti)?? Ekki slæmt?? Sl 4 tímabil er gaurinn með mark og stoðsendingu á 102 mín fresti?? Á yfirstandandi tímabili nýtir hann allar þær fáu mínútur sem hann fær afskaplega vel. Verst að hann skuli ekki fá meiri spilatíma.

    2
 10. Sæl og blessuð.

  Greinilega hafa samskiptin verið greið á milli Mourinio og gamla lærisveinsins í aðdraganda leiksins. ,,Svona fórum við að þessu vorið 2014″ hefur sá gamli muldrað og mögulega gleymt því eitt andartak að þarna var enginn óreyndur Rodgers við stjórnvölinn heldur hinn grjótharði Klopp sem hefur heldur betur migið í saltan sjó. Þarna var líka ekkert handapat eða paníkk – bara réttar ákvarðanir, já upp á 10.

  Allt samkvæmt planinu og ég heyrði ekki betur en að kórinn hafi sungið við raust: ,,You’re going down” þeim bláu til fyrirsjáanlegrar skapraunar. Enda voru þeir rangir menn á röngum tíma.

  Trúin og eljan í þessum leik óx af þessari gríðarlegu reynslu sem liðið hefur aflað frá 2015 þegar okkar maður tók við. Hver úrslitaleikurinn á fætur öðrum – aldrei dauð stund. Stórsigrar á stórliðum og svo alls kyns dífur þar á milli. Já, vissulega var smá bið eftir bikurum en spennan var alltaf til staðar og smám saman urðu til þessi ,,Skapgerðarskrímsli” sem pökkuðu Evertonmönnum saman í dag.

  Og það eru þau sem gefa manni von um að City muni núna klikka – það verði stöngin ÚT hjá þeim í einhverjum næstu leikja og við löndum þeim stóra.

  6
 11. Ég ætla allan daginn að trúa að þetta hafi verið planið hjá Diaz. Hjólhestur í grasið og fyrir. Engan veginn misheppnað skot á ferð.

  6
  • Nkl, Klopp var búinn að segja honum að gefa á Origi, hann myndi skora.

   2
 12. Þetta með pigford er svo kómískt. Manni líður eins og liðið okkar se fullorðnis en að þeir bláklæddu hafi verið unglingalið og ómótaðir hvað hegðun og getu varðar.

  6
 13. Það besta við þennan leik var að betri undirbúningur fyrir Villareal leikinn finnst ekki.

  Getum búist við Everton leiðindum x2 í þeim leik og þá er eins gott að menn haldi haus.

  Áfram Liverpool!

  4
 14. Óskaplega finnast mér Richarlison og Everton eiga vel saman. Hann er eins og Pepe eða Diego Costa nema bara að hann er algjörlega laus við öll gæði þannig að það situr ekkert eftir nema skítlegt eðlið.

  4
 15. Sælir félagar

  Ég sá ekki leikinn því miður, sem betur fer 🙂 Ég var með afakútinn minn á Kardimommubænum (þvílíkt snilldarstykki sem það er) en kíkti á hálfleikatölur í leikhléinu. Liv 86% með boltann og staðan 0 – 0. Þá þakkaði ég mínum sæla fyrir að vera í Þjóðleikhúsinu en ekki fyrir framan skjáinn. Það var nefnilega auðvelt að átta sig á hverslags leikur þetta væri og Richarlison með flipann lafandi af eðlislægri fýlu og með takkatæklingar hægri vinstri. Ég þakka fyrir sigurinn og að allir hafi sloppið óskemmdir frá leiknum. Vonandi fer þetta bláklædda skítalið niður og ég mun ekki sakna þeirra þó Klopp geri það.

  Það er nú þannig

  YNWA

  10
  • Klopp saknar þeirra því að þetta eru oftast gefins 6 stig 😉

   7
 16. Richarlison hefur víst tilkynnt að hann vilji fara frá Everton í sumar.

  Ég vona svo innilega að hann endi hjá ManUtd…

  6
  • Já, ég skil hvað þú ert að fara en það eru nú til takmörk fyrir því hversu illt þú þessum manni eiginlega 😉

   4
 17. Er einhver hér sem getur sagt mér hvort og hvar ég get horft á leikinn í Vík í Mýrdal á miðvikudagskvöldið?

 18. Djöfull fíla ég Robertson

  “Jurgen Klopp told Andy Robertson to stop winding Everton players up at half-time”

  5
 19. Rakst á þetta og fannst það svo fyndin og mögnuð staðreynd að ég ákvað að deila því með ykkur.

  “ Everton midfielder Allan completed just two passes against Liverpool during Sunday’s Merseyside derby and they both came from kick-off.”

  3

Liðið gegn Everton

Liverpool gegn Gula Kafbátnum – Upphitun